Beint í efni

Letrað í vindinn : Þúsund kossar

Letrað í vindinn : Þúsund kossar
Höfundur
Helgi Ingólfsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Skáldsögur

Úr Letrað í vindinn – Þúsund kossar:

 Þau komu síðasta spölinn upp moldargötuna og stefndu í skarðið. Hestarnir frýsuðu, sveittir undan klifjunum, og þrælarnir sem báru burðarstólinn másuðu og dæstu; flestir þeirra höfðu bundið klút um höfuðið til að skýla sér fyrir moldarryki og heitum vorgeislunum. Á báðar hendur gnæfðu stofnar furutrjáa, grenis og linditrjáa. Loks náðu ferðalangarnir í skarðið og þá opnaðist þeim sýn á ægifagurt landslag.
 „Þarna.“ Catúllus benti stoltur úr hnakki sínum á óðalið í fjarska. „Þetta er æskuheimili mitt.“
 Calvus stöðvaði hest sinn við hlið hans og virti bergnuminn fyrir sér náttúrufegurðina. Þrælarnir báðu leyfis um að leggja burðarstólinn niður svo að þeir mættu kasta mæðinni; síðan tylltu þeir sér út um þúfur, börð og rótarhnyðjur. Þegar stóllinn nam við jörð gægðist Quintilía út.
 „Undursamlegt.“ Hún hafði tjöldin dregin fyrir að hluta til að forðast sindrandi sólskinið. „Þessu verður varla lýst með orðum.“
 Þau horfðu yfir laufgræna skóga hlíðanna og niður á tangann sem teygði sig út í kristaltærar grynningar vatnsins. Upp af ströndinni breiddu vínviðarakrarnir úr sér. Seglin á bátum fiskimannanna voru sem gráir dílar úti á glampandi vatninu. Angan af furu og greni fyllti loftið. Í fjarska, við norðurenda vatnsins, uxu dimmgrænir barrskógar upp úr síðustu snjósköflunum í hvilftum fjallanna. Handan þeirra trónaði tignarlegur fjallgarðurinn, sveipaður snæhettum.
 Eftir að hafa notið útsýnisins um stund og hvílt þrælana fikruðu þau sig niður brattan slóðann. Albus, hestur Catúllusar, fnæsti fjörlega, líkt og hann þekkti heimaslóðir sínar. Þrælarnir fetuðu sig gætilega með burðarstólinn.
 Nokkru neðar breikkaði troðningurinn og þá miðaði betur. Nú breyttist landslagið og við tóku sánir akrar og vínviðarbreiður. Kotbýli smábændanna stóðu á stangli í fláanum. Enn var verið að ryðja land til ræktunar; neðst í skógarbeltinu hjuggu nokkrir þrælar tré og axarhöggin bergmáluðu í hlíðunum. Úfinn bóndi og þræll hans með reku í hönd bjástruðu við garðshlið, en litu upp þegar lestin fór framhjá, og bóndinn heilsaði Catúllusi af auðsveipni.

(s. 20-21)

Fleira eftir sama höfund

Greinilega kóngi að kenna

Lesa meira

Villutrúin

Lesa meira

Letrað í vindinn : Samsærið

Lesa meira

Lúin bein

Lesa meira

Blá nótt fram í rauða bítið

Lesa meira

Andsælis á auðnuhjólinu

Lesa meira

Runukrossar

Lesa meira

Guðatal

Lesa meira

Rambað á Reginfjall: fyrstu ævintýri Hlemmanna Bjarts og Þórgnýs

Lesa meira