Kafli í spennusögu eftir ýmsa höfunda.
Yfirlýsing í byrjun bókar:
Hið íslenska glæpafélag var stofnað til þess að stuðla að viðgangi glæpasagna á Íslandi. Þegar félagið fékk tilboð í byrjun janúar árið 2000 um að höfundar félagsins skrifuðu saman glæpasögu var ekki hægt að hafna því. Við köllum það raðsögu, einn höfundur hefur söguna með því að skrifa sinn hluta og síðan tekur sá næsti við uns lausn er fundin. Allt samráð var bannað svo höfundarnir höfðu ekki annað veganesti en það sem þeir gátu lesið úr fyrri bókarköflum. Ekki fékkst mikill tími til verksins, því skyldi lokið á einum og hálfum mánuði. Hér kemur afraksturinn.
Úr hluta Viktors Arnars Ingólfssonar:
Lifandi hafði Rósi lækur ekki verið nein bæjarprýði og dauður var hann það ekki heldur. Sérstaklega þar sem hann var í mörgum pörtum og ýmislegt af honum vantaði. Það var búið að raða honum saman á vinnuborðinu á rannsóknarstofunni, svona ens og mögulegt var, en vinstra lærið og hægri fótur um ökkla hafði enn ekki fundist. Og svo auðvitað hausinn. Ég þekkti hann samt strax. Tattóið á vinstri handlegg: ,,I heit polís. Hann gerði þetta sjálfur þegar hann var unglingur, með bleki og saumnál, en var ekki sérstaklega góður í enskri stafsetningu, né í íslenskri ef út í það er farið. Svona skreytingar voru í tísku í genginu og reglan var sú að strákarnir fengust við þetta sjálfir. Húðin var stungin til blóðs með nálinni og bleki hellt í sárið og þannig haldið áfram þar til myndin var fullgerð eða textinn ef um það var að ræða. Flestir létu nægja hauskúpu eða hakakross en fyrir rósa dugði ekkert minna en heil setning á útlensku. Ég sjálfur skreytti mig með mynd sem átti að vera hjarta og hnífur í gegnum það. Nokkrum árum síðar lét ég tattómeistara í kaupmannahöfn gera snyrtilegt tákn yfir það, jin og jang, jafnvægi hugans.
(5)