Fyrir tuttugu árum las ég bók um tengsl hrollvekju og kómedíu. Höfundurinn, William nokkur Paul, vildi meina að þarna á milli væri öllu styttra en almennt og yfirleitt er talið og benti meðal annars á hvernig viðbrögð við hryllingi væru oft ýktur hlátur, samhliða því að hlátrasköll yfir kómedíu umhverfðust yfir í einskonar öskur. Enda heitir bókin Laughing Screaming – eða hlæjandi öskrandi. Mér varð hugsað til þessara kenninga þegar ég las bók Shirley Jackson, Líf meðal villimanna. Bókin kom upphaflega út árið 1953, og er yfirleitt talin ólík öðrum (og síðari) verkum hennar sem tilheyra frekar hrollvekjunni. Líf meðal villimanna er hinsvegar álitin einskonar gamansaga, fjölskyldukómedía um dæmigert millistéttarlíf í Bandaríkjunum.
Og vissulega er sagan skrifuð í frekar léttum tón og segir frá endalausum skondnum uppákomum sem varða uppeldi þriggja barna. Þrátt fyrir það er ljóst að verkið er ekki minna hrollvekjandi og í gegnum hláturinn er auðvelt að skynja örvæntingarfull öskur konu sem er föst í hlutverki sem hún er ekki endilega viss um að vilja – eða ráða við, ekki síst í ljósi þess að eiginmaðurinn er með öllu gagnslaus, heimilishaldið hvílir alfarið á henni og hennar eigið tilvera er gersamlega ofurseld öllum þeim þúsundum smáverka sem húsmóður er ætlað að sinna. Þetta kemur einna best fram þegar komið er að því að eignast þriðja barnið og gagnsleysi eiginmannsins veldur því að konan er mætt, ein, á spítalann á síðustu stundu:
„Nafn?“ sagði ritarinn kurteislega um leið og hún mundaði blýantinn.
„Nafn?“ sagði ég ráðvillt. Svo rifjaðist það upp og ég sagði henni það.
„Aldur?“ spurði hún. „Kyn? Starf?“
„Rithöfundur,“ sagði ég.
„Húsmóðir,“ sagði hún.
„Rithöfundur,“ sagði ég.
„Ég skrifa bara húsmóðir,“ sagði hún. „Hvaða læknir? Hve mörg börn?“
„Tvö,“ sagði ég. „Fram að þessu.“
[...]
„Nafn eiginmanns?“ sagði hún. „Heimilisfang? Starf?“
„Settu bara húsmóðir,“ sagði ég. „Satt að segja man ég ekki nafnið hans.“
„Skilgetin?“
„Ha?“ sagði ég.
„Er maðurinn þinn faðir barnanna? Áttu eiginmann?“ (69-70)
Á bakvið þetta hákómíska og fáránlega samtal eru annarsvegar væntingar til hinnar upphöfðu ímyndar glaðlyndrar – og ljóshærðrar – húsmóður, hún er íklædd kjól og smekklegri svuntu, sér af léttleika og alúð um heimilið, bakar og snýtir án þess að blettur eða hrukka falli á eitt né neitt; og hinsvegar veruleiki konu sem er rithöfundur, hún hefur gefist upp á kökum og hrærir í staðinn endalausa súkkulaðibúninga og hefur nákvæmlega enga stjórn á grútskítugum krakkahóp – heimilið er meira eða minna í rúst og eiginmaðurinn tapar tekjum í póker. Staða hennar er í raun ómöguleg, hún er ekki til.
Sagan hefst á því að hjónin uppgötva, sér til nokkurra áhyggna, að leigusamningur þeirra fyrir íbúð í borginni er runninn út og eigandinn er búinn að úthluta öðrum íbúðinni. Þau eiga tvö ung börn og því hafði alltaf staðið til að finna betra húsnæði – en aldrei fundist tími, né hafði nokkur drifið í neinu. Það er því ljóst frá upphafi að heimilishald er með fremur óhefðbundnum hætti og hinn borgaralegi bragur fjarri. Þau ákveða að flytja til lítils bæjar og ferðast þangað í leit að hentugu húsi, en fljótlega kemur í ljós að öll slík eru of dýr. Þar til þeim býðst undarlega byggt hús sem virðist hafa verið yfirgefið í hasti:
á hægri hönd var teppi með einskonar rauðkálsmynstri, og stofuorgel, undir dökkum gömlum málverkum sem virtust hallast eilítið fram til þess að fylgjast með okkur í forundran; við fórum inn í eldhús þar sem risavaxin eldavél úr pottjárni stóð hallandi einsog hún ætlaði að velta á okkur, og í eldhúsinu var borð þakið þykku ryklagi og á því var rykfallinn bolli og diskur með tveimur vænum, ævafornum kleinuhringjum á. Við borðið var einn stóll, honum hafði verið ýtt ögn frá því. (17)
Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að greina hér merki hrollvekjunnar og þá sérstaklegra þeirrar tegundar hennar sem hefst með gotnesku skáldsögunni og gengur út á reimleika í gömlum húsum. Eftir að feta þá braut um stund – eigandi hússins eiginlega þvingar hjónin til að leigja og eftir að þau flytja inn komast þau að því að húsið samþykkir ekki hvaða húsgögn sem er – hverfist sagan yfir í alls drauglausa fjölskyldusögu, hryllingurinn sem gefinn var til kynna í upphafi liggur annarsstaðar. Segja má að hér sé kenning sálgreinandans Sigmunds Freuds nýtt til hins ítrasta, þar sem hið heimilislega hverfist stöðugt yfir í undirliggjandi óhugnað, sem birtist í óþoli og innilokunartilfinningu, mitt í því hvað allt er vissulega skemmtilegt og sniðugt. Tökum annað dæmi um hvernig Jackson segir margradda sögu. Hér hefur enn ein vinnukonan horfið á braut – á mótorhjóli. Konan öfundar hana af frelsinu en börnin deila um hver myndi sitja hvar í bíl heimilisins, sem ekki er til:
„Ef við ættum bíl,“ sagði Laurie, með raddblæ sem ég var smám saman farin að átta mig á að allir sjö ára drengir nota við mæður sínar; það er að segja til að útskýra tiltölulega einföld mál fyrir fremur vitgrannri veru sem gat tekið upp á að gerast tilfinningasöm og utangátta ef ekki væri haft ákveðið taumhald á henni. „Ef við ættum bíl, gætum við farið í bíltúra.“
„En enginn hérna er með bílpróf,“ sagði ég.
Deilurnar um sætaskipan halda ótrauðar áfram, sonurinn er frammí, dæturnar afturí og pabbinn stendur á aurbrettinu. Móðirin spyr, eðlilega: „Hvað ætti ég þá að gera? [...] „Keyra?“ og stuttu síðar, þegar sætaskipan systkynanna hefur breyst (pabbinn er enn á aurbrettinu) spyr hún aftur, „En hver mundi aka?“
„Heyrðu mig nú,“ sagði Laurie við mig, með vott af lítilsvirðingu í röddinni, „kanntu ekki að keyra bíl?“
„Nei, það kann ég ekki.“
„Kann pabbi það?“
„Nei.“
„Kann hvorugt ykkar að keyra?“
„Já.“
Laurie lagði frá sér pensilinn og horfði á mig drykklanga stund. „Hvað kanntu þá eiginlega?“ spurði hann.
„Ja,“ sagði ég, „ég kann að búa til súkkulaðibúðing, og ég kann að þvo upp, og ég...“
„Allir kunna það,“ sagði Laurie. „Það sem ég meina er, kanntu ekki að keyra bíl?“ (100-101)
Í þessu bráðskemmtilega samtali afhjúpast margt. Það er ljóst að þrátt fyrir að vinna móðurinnar sé ekki mikils metin þá er hún sú sem heldur utanum heimilið – pabbinn er alltaf á aurbrettinu. Staða hennar gagnvart börnunum er sömuleiðis ekki ósvipuð vinnukonunnar, þau skipa fyrir og hennar er að hlýða. Þar sjáum við einnig að agi er lítill og uppeldið í frjálslegra kantinum, sem hefur verið róttækt á þeim tíma en varð viðtekið nokkrum árum síðar með blómabyltingunni. Samt er hún stoðin og styttan og allt hverfist um hana, enda endar þetta með því að hún tekur bílpróf með tilheyrandi kómískum uppákomum, en írónía textans beinist ekki síst að móðurinn sjálfri og fælni hennar frá að takast á við hinar ýmsu uppákomur hversdagsleikans. Öfugt við vinnukonuna upplifir hún lítið frelsi í kringum bílprófið, það bindur hana enn frekar við það hlutverk sitt að vera sú sem gerir allt. Það er líklega engin tilviljun að frægasta saga Jackson, „The Lottery“ (1948) (þýdd á íslensku sem „Happdrættið“ árið 1957 og „Hlutaveitan“ árið 1999) endar eins og hún gerir.
Allt skipast þetta upp í afar áhrifaríka sögu. Textinn, sem á yfirborðinu virkar einfaldur og léttur, er svo margbrotinn að lestrarreynslan verður eins og hringekja þar sem lesandi getur aldrei alveg verið viss hvar hann er staddur, á lambi eða úlfi. Þýðing Gyrðis Elíassonar á þessu öllu saman er með ágætum.
Jackson er frægust fyrir skáldsögu sína The Haunting of Hill House (1959), ekki aðeins fyrir kvikmynd sem byggð var á henni, heldur einnig fyrir það að þar skrifar hún einskonar erkisögu draugahússins, sem hefur síðan innblásið fjöldan allan af draugahússögum, frægust þeirra er The Shining (1977) eftir Stephen King. The Haunting of Hill House (og myndin The Haunting frá árinu 1963) er meðal annar fræg fyrir það að það er aldrei með fullu ljóst hvort um draugagang í húsinu er að ræða. Sagan segir frá konu sem hefur verið bundin heimilinu alla tíð, þó ekki yfir börnum og eiginmanni heldur veikri móður. Þegar móðirin deyr kaupir hún bíl og telur sig hafa höndlað frelsið og tekur þátt í tilraun, sem gengur út á dvöl í húsi sem hefur á sér orð fyrir reimleika. Hin magnaða margræðni hins kyrrláta texta þessa verks á greinilega rætur sínar að rekja til fjölskyldusögunnar kostulegu.
úlfhildur dagsdóttir, október 2015