Beint í efni

Listamannalaun

Listamannalaun
Höfundur
Ólafur Gunnarsson
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Minningabækur / Þættir

Um Listamannalaun

Ólafur Gunnarsson rithöfundur var góðvinur listamannanna Alfreðs Flóka, Dags Sigurðarsonar og Steinars Sigurjónssonar, umdeildra snillinga sem ólu aldur sinn á jaðri samfélagsins.

Hann fer hér í sannkallaðan gúmsílúmstúr – eins og Flóki hefði sagt – um Reykjavík og Kaupmannahöfn áttunda og níunda áratugarins og lýsir af næmum skilningi, hreinskilni og óborganlegum húmor kynnum sínum af þeim og fjölmörgum öðrum ógleymanlegum persónum af því sögusviði: menningarpáfum, sveitamönnum, heimsfrægum rithöfundum, húsgagnasölum, barþjónum, mögulegum KGB-mönnum, ástkonum, skáldum og listamönnum.

Úr Listamannalaunum

Dagur var með sífelldan slátt en honum hætti til að rata með aurana í Ríkið eða á kaffihús frekar en heim til Möggu og barnanna. Ég var í úttekt í Lúllabúð og sá við honum en vopnin snerust í höndum mínum. Ákaflega erfitt var að neita Degi um peninga þegar hann var blankur og ég veit til þess að þegar hann hitti Jóhann Pál forleggjara á götu og Jóhann vanhagaði um lausafé þá stundina þá lét hann stórfé í umslag og ók að næturþeli heim til Dags og laumaði umslaginu inn um bréfalúguna.

Næst þegar Dagur bað um peninga fyrir mat handa konu og börnum og bætti við að hann gæti ekki farið heim allslaus því hann væru sjálfur svo soltinn að hann fyndi "gallið spýtast", þá sagði ég: - Heyrðu, komdu bara með mér í Lúllabúð og við skulum taka þar út mat og svo skutla ég þér heim með þetta. Það varð úr. Við roguðumst með stóran plastpoka á milli okkar, fullan af matvöru, og Dagur sagði: - Þetta er eins og eitthvað út úr leikriti eftir Erling e. Halldórsson. 

Þegar ég leysti þessar úttektir í Lúllabúð úr læðingi þá var í eitt skipti fyrir öll úti um vináttu mína og Möggu. Dagur hætti að nenna að mæta í Lúllabúð og þar réði stolt ferðinni, Lúlli, kaupmaðurinn sjálfur, hafði gefið honum illt auga og hreytt út úr sér skömmum eitt sinn þegar við Dagur vorum í kaupstaðarferð þótt ég ætti bágt með að skilja hvað Lúlla varðaði um það í hvaða mögum mínar úttektir lentu. Nú hringdi Deddý-boy bara í mig með tossalista og spurði hvort ég gæti verið svo vænn að skutla kassa heim á Miklubraut 34. - Ég fer að borga þér þetta, elskan mín, því ég er að fara að setja upp sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins og tarot-spilin segja að það verði sölusýning, og svo á að fara burt af þessu landi og koma aldrei aftur.

Sýningin var að ríða yfir. Dagur var með alls konar tiktúrur hvað varðaði vinnustofu sína og þeir sem voru skammt á veg komnir í listum eins og ég fengu ekki að stíga þar inn fæti.

Sagt var að hann hefði kveikt þar bál um nótt inn á miðju gólfi og dansaði í kring á meðan bjarmaði á glugga.

Ég kom í heimsókn.

- Pabbi er á "vinnukofunni", sagði barnið Spakur sem opnaði fyrir mér.

Dagur kom af loftinu glaseygur af gleði. Hann var ekki samræðuhæfur vegna hamingju en bauð mér samt að koma upp stigann og sagði hvað eftir annað: "Hún er komin! Hún er komin!! Hún er komin, elskan mín." Hann opnaði dyrnar og sýndi mér stórt málverk af alsberri, ljóshærðri kellingu sem var að klofa yfir fjallgarð og Dagur studdi lófa á brjóstið á mér á meðan svo ég gengi ekki yfir þröskuldinn og inn í helgidóminn.

(s. 69-70)

 

Fleira eftir sama höfund

The Beautiful Flying Whale and the Tale of the Little Galaxy

Lesa meira

Hrognkelsin: Cyclopteri Lumpi

Lesa meira

Trolls´s Cathedral

Lesa meira

Vetrarferðin

Lesa meira

Dimmar rósir

Lesa meira

Kirvis Ir Zeme

Lesa meira

The Lumpfish

Lesa meira

Rasvakalat

Lesa meira

A ´59 Caddy Christmas in 1958

Lesa meira