Æviágrip
Megas (Magnús Þór Jónsson) er fæddur í Reykjavík 7. apríl 1945. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Árið 1971 hélt hann til Oslóar í háskólanám í þjóðháttafræði. Hann var þá þegar farinn að fást við lagasmíðar og textagerð og 1972 kom út fyrsta plata hans. Aðstandendur hennar voru íslenskir stúdentar í Noregi og hét platan eftir skáldinu. Árin 1968 og 1970 komu út tvö hefti með textum, nótum og teikningum eftir Megas. Margt af því efni sem þar birtist átti síðar eftir að rata inn á plötur höfundar. Árið 1973 gaf hann heftin tvö (Megas I og Megas II) út aftur endurskoðuð fyrir ögn stærri lesendahóp og bætti þriðja heftinu við (Megas III). Fimm plötur bættust við á áttunda áratugnum.
Í kjölfar tónleikaplötunnar Drög að sjálfsmorði (1979) tóku við nokkur ár þar sem Megas lét lítið á sér kræla opinberlega. Hann vann verkamannavinnu og var síðan í myndlistarnámi í MHÍ. Árið 1983 kom hann aftur fram í dagsljósið með hljómsveitinni Íkarus auk þess sem hann söng lag inn á plötu með Bubba Morthens. Árið 1986 gaf Megas síðan út sína fyrstu hljómplötu í sjö ár og þar að auki kom út heildarplötusafn hans með nýrri viðbót. Upp frá því hefur hann sent frá sér plötur reglulega og hafa nú breiðskífur hans nálega fyllt annan tuginn. Tónlist Megasar nýtur nú almennt mikillar virðingar. Til marks um það má nefna að níu plötur hans voru á lista yfir hundrað bestu plötur síðustu aldar á Íslandi í bókinni Eru ekki allir í stuði? (2001).
Megas hefur samið töluvert af „prósa“. Framan af birtust sögur eftir hann í ýmsum blöðum og tímaritum en árið 1990 kom út eftir hann og Þórunni Valdimarsdóttur skáldævisagan Sól í Norðurmýri: píslarsaga úr Austurbæ. Fyrsta skáldsaga Megasar, Björn og Sveinn – eða makleg málagjöld, leit svo dagsins ljós 1994. Eftir hann liggja einnig leikverk, smásögur, þýðingar og staðfærslur, upplestrar og fleira. Ljóða- og söngvasafn hans kom út árið 1991.
Megas býr í Reykjavík.
Um höfund
Jón Hallur Stefánsson: Að dikta upp brag í þjóðarhag
Megas er snillingurinn okkar í dægurtónlist. Snilligáfa er sjaldgæfur og í raun óþarfur munaður í þeirri grein, rokkið rúllar sína leið hvað sem líður þessum fáu snillingum sem gjarnan eru einsog stakar eyjar í hafinu, hafa ekki nema takmörkuð áhrif á það umhverfi sem umlykur þá. Svo það er hrein heppni að við skyldum hreppa Magnús Þór Jónsson – Megas – sem segist hafa stigið fyrstu skref sín sem lagasmiður eftir tvöfalda uppljómun, frá Elvis Presley og Halldóri Laxness.
Megas birtist einsog úr lausu lofti í íslenskri dægurtónlist, þótt rætur hans liggi djúpt og víða. En það voru engir fyrirrennarar. Þegar hann fór að setja saman texta sem fylgja til hins ýtrasta hefðbundnum reglum um bragarhætti en rjúfa, sömuleiðis til hins ýtrasta, ramma hins hefðbundna ljóðs í stíl og efni, hafði orðið ákveðinn klofningur milli kynslóða bæði í heimi dægurlaga og ljóðlistar. Í ljóðlistinni voru óbundin ljóð orðin allsráðandi hjá yngri kynslóðum skálda, þeim hatrömmu átökum um formið sem atómskáldin hrundu af stað hafði lyktað þannig að það þótti hallærislegt að ríma – nema þá í dægurlagatextum, sem voru hvort eð er ekki teknir alvarlega sem skáldskapur. Innan dægurlagahefðarinnar var enskan hins vegar farin að ryðja sér til rúms, margar, jafnvel flestar framsæknustu hljómsveitirnar sungu þá (einsog nú) á ensku og því var blygðunarlaust haldið fram (líkt og nú) að íslenskan hæfði ekki þessari tónlist. Í raun var meginreglan sú að við léttari tónlist voru gerðir (léttir) íslenskir textar en flestir þeir sem tóku sig alvarlega voru að byrja að syngja á ensku.
Með fyrstu plötu sinni, Megas (1972), og þremur textaheftum sem hann gaf út um svipað leyti, kemur Megas fram með andsvar sem er algjörlega á skjön við þessa þróun. Raunar var til á þeim tíma vísnatónlist undir áhrifum frá bandarískum hljómsveitum – Savannatríóið og Ríó tríóið voru þekktustu flytjendurnir – þetta var raddaður gamanvísnasöngur, góðlátlegur og meinlaus, sem sótti í þjóðlagahefð, íslenska og erlenda, og textarnir féllu vel að heimsmynd hagyrðinga, sem segir sitt. Megas átti ekkert sameiginlegt með Ríó tríóinu. Flest hans helstu stíleinkenni koma fram strax í þessu fyrsta lagasafni: samsláttur hins háa og hins lága með íronískri notkun á upphöfnum ljóðstíl og orðfæri hefðarinnar blöndnu klúrara máli og slettum, til að tjá og túlka samtímann og söguna frá sjónarhorni sem staðsett er úti á jaðrinum; yfirburðatök á tungumálinu samfara algjöru virðingarleysi fyrir hinum helgu véum íslenskunnar („Maður verður að brjóta egg til að búa til ommelettu ,“ sagði hann í útvarpsviðtali við undirritaðan, nýbúinn að hljóta verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, eggin voru tungumálið, eggjakakan textarnir); fimlegir orðaleikir og útúrsnúningar, oft til að splundra klisjum eða lýsa upp staðlað orðalag með því að hnika því til: „svo steig hann upp á bakið á köflóttum hesti“; stílbragði útúrsnúningsins er líka hægt að beita á heil lög, þannig fær gamli slagarinn „Komdu og skoðaðu í kistuna mína” kaldhæðnislega en glaðbeitta bölsýnisútfærslu í samnefndu lagi Megasar þar sem kistillinn úr dægurlaginu gamla er, að sjálfsögðu, orðinn að líkkistu.
Guð býr í garðslöngunni, amma
Frá upphafi gengur skáldleg sýn Megasar út á að afhjúpa andhverfuna með því að skæla eða afskræma viðteknar myndir af veruleikanum, snúa öllu á hvolf, ögra viðteknum gildum og upphefja hið útskúfaða, kippa hetjunum niður á jörðina. Enda byrjar hann hér ferilinn með því að afhelga á einu bretti margar helstu hetjur íslenskrar menningar: á fyrri hlið vínilplötunnar eru þeir teknir fyrir einn af öðrum Ingólfur Arnarson, Egill Skalla-Grímsson, Snorri Sturluson, Jón Arason, Jónas Hallgrímsson og Jón Sigurðsson. Skáldið fer um postulínsbúð heldrimannadeildarinnar einsog skemmdarfús unglingur með klaufhamar hins íroníska útúrsnúnings að vopni. Ein lína nægir til að steypa goðunum af stalli, ekki alltaf þeim til svívirðingar, einsog margir hafa eflaust slegið föstu, heldur líka til að leyfa þeim að koma niður til okkar: Jón Sigurðsson var sveitungi óþekktrar konu ... Sauðdrukkinn úti í hrauni lá Hallgrímsson Jónas ...
Textar þessarar fyrstu plötu eru flestir tærir og auðvelt að halda þræði í þeim en þó bregður fyrir dæmum um það barrokkska myndflæði og -hlæði sem átti eftir að blómstra og breiða úr sér í textum hans. Þannig leysist textinn um Eyjólf bónda upp í ofskynjunarkenndar flæðimyndir, sem ná reyndar hámarki í öðrum hluta lagsins, sem kom ekki út á plötu fyrr en síðar.
Rétt eftir að fyrsta flóðbylgjan af efni verður til hjá lagahöfundinum unga – í textaheftunum þremur eru ein sjötíu lög – semur hann í einum rykk melódíur við alla Passíusálmana. Af vinnunni með texta Hallgríms Péturssonar kann Megas að hafa lært eða fengið staðfestingu á hve þenslumörk rokktexta eru langt utar hefðbundnu sniði dægurlagahefðarinnar. Önnur nærtæk fyrirmynd hans hvað þetta varðar var hinn bandaríski Bob Dylan, áhrif hans á rokktextagerð almennt eru reyndar svo víðtæk að það væri erfitt að negla þau niður hjá Megasi nema af því að hann stráir örlátlega tilvísunum í Dylan í texta sína á þessu tímabili.
Millilending (1975) var fyrsta rafmagnaða skífa Megasar, sem hélt þó áfram að troða upp einn með kassagítar næstu árin og hefur reyndar gert í og með fram á þennan dag. Á Millilendingu hélt hann áfram að endurskoða Íslandssöguna í lögum einsog „Ragnheiði biskupsdóttur,“ þar sem hann hneykslaði margan með ósvífinni tilgátu í barnfaðernismálinu sögufræga, („það var helvítið hann Brynjólfur sem sæddi hana“) og „Jónas Ólafur Jóhannesson frá Hriflu“ þar sem tveimur forkólfum Framsóknarflokksins er slengt saman í eina gróteska útlagafígúru: „Jónas frá Hriflu var hollvinur snauðra, hann hyglaði soltnum og barg þeim frá deyð“. Lag og texti er kankvís útúrsnúningur á lagi Bob Dylans um útlagann John Wesley Hardin(g). Annar útúrsnúningur er „Ég á mig sjálf,“ þar sem dægurlagið ástsæla sem Þuríður Sigurðardóttir söng og fjallaði, skulum við segja, um sjálfstæði kvenna í ástamálum á nýjum tímum, er endurskrifað sem söngur um lauslæti og vændi: „Ég á mig sjálf, en Mamma Bobba starfrækir mig.“
En Millilending er ekki bara rökrétt framhald heldur einnig viðbót og útvíkkun á heimi og stíl Megasar. Orð- og myndgnóttarstíllinn kemur skýrar fram í lögum einsog „Fjögurmilljóndollaraogníutíuogníusenta mannúðarmálfræði“ þar sem ofhlæðið verður hluti af hinni íronísku framsetningu. Og í lögum einsog „Silfurskotturnar hafa sungið fyrir mig“ kemur inn í myndina feigðarstefið sem hefur verið samslungið mörgu sem Megas hefur gert gegnum tíðina, undirliggjandi eða uppi á yfirborðinu.
Rokkvæðing Megasar fór vel af stað. Hljómsveitin Júdas sá um undirleikinn og stóð sig með eindæmum miðað við að hafa alls ekki haldið sig á þeim kántrírokkslóðum sem hér eru þræddar. Útsetningarnar eru pottþéttar og skreyttar með frumlegum aukahljóðfærum: víbrafóni, trompettum, og þverflautum.
Kaldhæðnislegri og svartari blær er yfir næstu plötu, Fram og aftur blindgötuna (1976), sem er safn af ógæfusöngvum um lúsera á jaðri samfélagsins sem Megas lýsir af andrómantísku miskunnarleysi. Útúrsnúningar eru í lágmarki miðað við fyrstu plöturnar en þó fá þeir Jóhannes skírari og Jesús Kristur létta salíbunu í goðsagnamulningsvél Megasar og birtast okkur í laginu „Skírnin“ sem slagorðagarpar sem eru í þann veginn að beina uppreisnargleði sinni í farveg dópneyslu og lútuleiks í innheimum. Jaðarlúðarnir eiga sér engrar uppreisnar von í lögum einsog „Í speglasalinn“, „Ekki sýnd en aðeins gefin veiðin“ og „Gamla gasstöðin við Hlemm“ – svo nefndir séu nokkrir slagarar úr lagasafninu – en í lokalaginu „En (að minnsta kosti)“ er dregin upp hálfsúrrealísk mynd af yfirstéttarveislu, einsog til að minna á að skáldið staðsetur sjálft sig sömuleiðis kyrfilega á jaðrinum. Tónlistin er stefnufast kántrírokk, flutt af fagmennsku og einstrengingshætti, hvergi losað um fjötra bítsins fyrr en einmitt í lokalaginu, sem verður viss léttir.
Fjölbreytni í útsetningum, lagasmíð og textagerð einkennir hins vegar næsta lagasafn Megasar, meistaraverkið Á bleikum náttkjólum frá árinu 1977, sem hann vann með Spilverki þjóðanna og hljómborðsleikaranum Karli Sighvatssyni. Hér birtist útúrsnúningurinn sem endurvinnsla á bókmenntum, einsog er undirstrikað með endurútgáfunni frá árinu 2002 þar sem aukalögin eru flest við texta annarra skálda. Inngangslagið, „Heilnæm eftirdæmi,“ er uppfærð útgáfa Megasar á vísu úr þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar, sönglínan „Gulir eru straumar þínir, hland mitt í skálinni,“ reynist vera útúrsnúningur á ljóðlínu Hannesar Péturssonar, „Bláir eru dalir þínir, byggð mín í norðrinu“; og texti hans af fyrstu plötunni um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna er hér endurunninn með „hundingsspott“ útúrsnúningsins að leiðarljósi í laginu „Jón Sívertsen og sjálfstæðisbarningur ísfirskra“. Og þannig má áfram telja bókmenntaminnin.
Það svífur glettnislegur skelmisblær yfir þessari plötu, flutningurinn og útsetningarnar frábærar, kaldhæðnin góðlátleg, bölsýni og feigðarkennd að mestu fjarri, jaðarlífið fær meira að segja svolítið rómantíska meðhöndlun í „Útumholtoghólablús“ og hér er að finna fyrsta ástarlag Megasar á plötu og eitt af hans fallegustu: „Orfeus og Evridís“ – sem reyndar fjallar líka um framgang tímans og dauðann.
Ekkert er útilokað allt getur mögulega skeð
Sú skáldlega sýn sem kemur fyrst fram með textaheftunum þremur upp úr 1970 nær fullri blómgun með tvöföldu plötunni Drög að sjálfsmorði (1979), sem var tekin upp á tónleikum í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Áður hafði Megas tekið bráðskemmtilegt hliðarspor með barnaplötunni Nú er ég klæddur og kominn á ról (1978), þar sem hann syngur nær eingöngu þekkt íslensk barnalög, spyrt saman í þematískar syrpur og útsett órafmagnað með strengjahljóðfæri í aðalhlutverki. En í Drögunum eru allir þræðir höfundarverksins teknir saman á nokkuð meðvitaðan hátt sem hápunktur, listræn yfirlýsing. Þessi sjálfsmeðvitaða staða er styrkur lagasafnsins en líka veikleiki: lögin styðja að vísu hvert annað en við það þrengist merkingarheimurinn, sem reyndar er allur hinn klástrófóbískasti fyrir. Fleira dregur plötuna niður: tónsmíðarnir geta virkað svolítið tilbreytingasnauðar, kannski vegna fullstífra og þyngslalegra en umfram allt einsleitra útsetninga (sem Megas er sjálfur skrifaður fyrir) og svo er rödd söngvarans þunn og slitin, stundum blæbrigðalítið krunk. En skáldið leggur allt undir, það er ljóst, og platan stendur vissulega fyrir sínu.
Og um hvað eru þá þessi lög? Jú, með hæfilegri einföldun má segja að þau fjalli flestöll um einangraða einstaklinga í fjandsamlegum heimi skrifræðis og formsatriða, smákónga og valdníðslu; gegn þessu hefur Megas engin raunhæf ráð, viðbrögðin í textunum eru hrein uppgjöf („því er augljóst rangt að reyna/þó með réttu sé að vera að meina/eitthvað með naglbít og töng“); björgunarhringur kaldhæðninnar („Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig.“); eða flótti inn á við, gjarnan í ofskynjunarheim fíkniefnaneyslu („annarlegar orðnar nætur/eru hafa ummyndast við nýskipan allra skilvita“). Öll rök virðast hníga að því ímyndaða sjálfsmorði sem vísað er til með heiti plötunnar – „aðeins velgjan ein mig tengir nú og heim þinn“ segir í röklegum lokapunkti bálksins og einu flottasta laginu, „Frægum sigri“ en þá tekur skáldið sig til og snýr afhroði í sigur með orðaleik og útúrsnúningi: „víst er ég krosshanginn í dag mér glymja klukkur dóms-/ og kirkjumálaráðherra er digur/ en ég mun aldrei aldrei gefast upp nei nei/ því um tíma og eilífð fæ ég frægan sigur“. Klukkur dómsins eru sviknar um fórnarlamb sitt með útúrsnúningi eða orðaleik og skáldið svissar yfir í hlálega ógrundvallaða sigurgleði gagnvart ofurafli neikvæðra afla.
Þessir fyrstu stóru rokktónleikar Megasar urðu líka þeir síðustu um langa hríð, hann sneri við blaðinu, breytti um lífsstíl, hætti að drekka og dópa, lagði tónlistina á hilluna og fór að vinna við uppskipun en hóf síðar myndlistarnám.
Hann fór rólega af stað aftur, fyrst í samfloti við aðdáendur sína, bræðurna Bubba og Tolla; með Bubba söng hann „Fatlafól“, furðulegt lag sem náði ótrúlegum vinsældum; með Tolla söng hann nokkur lög inn á plötur ásamt hljómsveitinni Íkarus. Þá hafði pönkaldan riðið yfir Reykjavík og Íkarus var einmitt skipuð valinkunnum hljóðfæraleikurum úr þeirri deild. Textar Megasar á þessu bili hafa ekki tekið skýra stefnu, sumir virðast torræðar afbakanir á eldri skáldskap en einnig má benda á eina (að því er ég best veit) tillegg Megasar til pólitískrar textagerðar, braginn „Svo má böl bæta“ og „Krókódílamanninn“ þar sem Megas fordæmir ógnvalda næturlífsins.
Að staldra við eftir sjálfum sér
Það liðu sjö ár fram að næstu Megasarplötu, sem kom út árið 1986 og hlaut nafnið Í góðri trú. Þar hefur kristallast ný fagurfræði í nýjum söngvum. Nú yrkir hann alfarið um mannleg samskipti, ástin er fyrirferðarmesta þemað, og í stað kaldhæðninnar er einlægnin hin nýja leiðarstjarna, ekki síst í nokkrum lögum þar sem iðkuð er gagnrýnin sjálfskoðun. Sjálf röddin er endurnýjuð, mýkri og hlaðin tilfinningasemi og greddu. Flest þessara laga voru frumflutt í sjónvarpsþáttum við undirleik Sykurmolanna en á plötunni sjálfri er horfið frá þeim hráa og pönkaða tóni sem þar sveif yfir vötnunum (og heyra má í aukalögum á endurútgáfu plötunnar frá 2002) en kýlt á fágaðri popphljóm sem fer þessu efni ekki illa – þótt sannarlega væri eftirsjá af hráum krafi Molanna.
Handbragðið leynir sér ekki þrátt fyrir ný stef, að baki þessum lögum liggur öll textasaga Megasar og stílbrögð hans eru enn til staðar, þótt í hófsamari myndum sé, útúrsnúningaaðferðin birtist hér sem kankvísar ívitnanir í íslenska ástarlagahefð („dansaðu nú soldið jenka, fríða, fríða“), dimman er þarna líka, bara bjartari („gerður þér bara grein fyrir einu/ ég græt – ég líka – heilan helling“), ögrunin við smekk og viðmið góðborgaranna er alls ekki jafn stríð en birtist þó sem íronískur blær og ertni sem litar sérstaklega ástartextana: „þú veist að ég er í þeirri pælingu/ að þrá þig jafn á nóttu sem degi/ veist að ég má ekki við þeirri spælingu/ að viljir þú mig eigi“. Viðhorfið gagnvart tungumálinu er í grunninn það sama, þótt tærleikinn sé miklu meira í fyrirrúmi. „Droppaðu nojunni vinan/ og vertu soldið meira pós/ þú hlýtur að fatta hvað ég meina/ þó ég mæli undir rós,“ syngur skáldið í laginu „Undir rós“ en er þó með eiginlega allt uppi á borðinu að þessu sinni.
Megas var kominn á fleygiferð aftur og vatt sér næst í Reykjavíkurplötuna Loftmynd (1987), eina af hans ástsælustu og aðgengilegustu. Sjálfum sér líkur stimplar skáldið höfuðborgina inn með hyllingarsöng um eitt af hennar alræmdustu olnbogabörnum, utangarðshöfundinn Jóhannes Birkiland, og bætir um betur með því að setja hann hann niður sér við hlið: „Við bísuðum margt saman Birkiland og ég“. Eitt af því sem gerir plötuna svo skemmtilega er hvað Megas vinnur frjálslega með þemað, blandar saman textum um sagnfræðilegar persónur og goðsagnir („Birkiland“, „Skúli fógeti“) uppdiktuðum Reykjavíkurpersónum ( Björt ljós, borgarljós“) og persónulegum minningum („Reykjavíkurnætur“). Viss tegund af óhugnaði stimplar sig inn í textaheim Megasar með morðballöðunni „Ástarsögu“ og óvæntur endir á Reykjavíkurplötunni er svo ástarlagið ógleymanlega, „Fílahirðirinn frá Súrín“ þar sem sögusviðið er óvænt flutt til Asíu. Með því lagi hefur skáldið fundið sér frjóa egg að brýna eða einstigi að feta og forboðnar ástir verða áberandi stef í næstu verkum.
Megas fylgdi Loftmynd eftir með Höfuðlausnum (1988), ólíku lagasafni í hljómi og andblæ, þótt það samanstandi að hluta af Reykjavíkurlögum sem komust ekki fyrir á Loftmynd. Þarna hófst samstarfið við Hilmar Örn Hilmarsson sem átti eftir að lita plötur Megasar næstu árin (annar lykilmaður, Guðlaugur Óttarsson var þegar kominn um borð, ásamt Björk Guðmundsdóttur sem söng inn á þrjár plötur með Megasi eftir forvitnilegt samvinnuverkefni Megasar og Kukls á tónleikum). Taktur Höfuðlausna er vélrænn og hljóðheimurinn undir áhrifum frá vélvirkjum Bretlands, þar sem Hilmar Örn hafði dvalið.
Lífsorkan og ögrunarkrafturinn leiftra skært í kjarna lagasafnsins og lengsta bálkinum, „Drengirnir í Bangkok“ – skáldið virðist endurfæðast í hinu framandlega, í menningarlegu tilliti og kynferðislegu – en þó eru Höfuðlausnir einsog skuggahliðin á Loftmynd, dimmari blæbrigði tilfinningarófsins eru ríkjandi og húmorinn svartari. Eitt af eftirminnilegari lögunum er til að mynda ástarsöngurinn „Aðeins eina nótt“ sem endar á morði.
Næsta skref Megasar var svo samvinnuverkefni við Bubba Morthens, djass- og blúsplatan Bláir draumar (1988) – en Megas hefur síðan gefið sinn hluta af þessum lögum út á geisladisknum Englaryk í tímaglasi (2002). Lögin eru kröftug og upplitsdjörf í frábærum útsetningum, þau einkennast af gagnrýninni sjálfskoðun frá nýjum sjónarhóli og angurværu endurliti til nýliðinna ásta, þar sem kyn hins elskaða viðfangs er látið vera á reiki. Skýrt dæmi um þetta er ástarsöngurinn alþekkti, „Tvær stjörnur“ þar sem kyngreinandi orð eru sniðgengin þangað til skáldið snýr á væntingar hlustandans með óvæntu kvenkyni: „Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær/ stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær.“ Fornafnaflakk verður reyndar eitt af stíleinkennum Megasar á næstu plötum: hann, ég og þú og hún – mörkin þar á milli verða óskýr og kvik.
Hitt alþekkta lagið á plötunni er skopsöngurinn „Litlir sætir strákar“ sem átti eftir að koma Megasi í koll. Textinn er vissulega ögrandi eða stríðnislegur en umfram allt reyndist tímasetningin óheppileg: þetta var í upphafi vitundarvakningar um barnagirnd og lagið hefur sennilega vakið athygli fólks sem kunni engin skil á skáldskap Megasar og þekkti kannski lítið til íroníu í bókmenntum almennt. Þegar Megas, í félagi við Bubba nokkrum árum fyrr, ráðlagði þjökuðum konum að „droppa við hjá dópmangaranum og kýla á netta nös“ datt engum í hug að taka það alvarlega, frekar en aðrar heilræðavísur skáldsins gegnum tíðina (1), en nú var Megas heldur betur tekinn á orðinu og þessar kímilegu vísur um ófarir í kvennamálum lagðar út á versta veg. Afleiðingarnar voru þær að „það var lokað á hann öllum mögulegum dyrum sem fyrirfundust í þjóðfélaginu,“ svo vitnað sé í Bubba Morthens í viðtali löngu síðar.
Einsog Megas bendir sjálfur á í bæklingi Englaryks í tímaglasi ríma lögin á Bláum draumum vel við næstu tvær plötur á undan, þau eru hluti af sömu andlegu uppsveiflunni með angurværu endurliti, skáldið skoðar í eigin rann og lítur fram á veginn.
Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella, kom svo árið 1990. Þar hefur dimmt nokkuð yfir í skáldskap Megasar, hinni innri uppbyggingu er lokið en þegar skáldið lítur upp úr gaupnum sér er heimurinn ekki svo vænlegur staður eftir allt saman. Höfuðborgin fær væna gusu í laginu „Ungfrú Reykjavík“ – „Einhverjir segja að hún sé illskan holdi klædd/ ég ætla ekki að fullyrða hvort hún er slíkum kostum gædd / en hitt er víst að leiðindi heimska og lygi / þau lýsa af henni er nokkur furða þó mann klígi?“ og í laginu „Hríðin“ er sungið um hina „alíslensku hríð sem er ævinlega í fangið“. Í þessum lögum og fleiri er dregin upp greinandi mynd af veruleikanum frá víðu og fordæmandi sjónarhorni, annars staðar er persónulegi vinkillinn áfram notaður en með neikvæðari formerkjum, sums staðar er kominn svolítið kvartsár tónn í skáldið, einangrun angrar og einmanaleikinn herjar á. Í lokalaginu, „Söngur um ekkert“ birtist hin neikvæða lífsýn síðan sem herská tómhyggja. En um leið er á plötunni spunninn áfram lífsnautnaþráðurinn, einsog í laginu „Dansleikur“ sem lýsir hommaballi með holdlegri velþóknun en vissri lífsþreytu líka, sem víðar sér stað.
Sömu þætti í öðrum hlutföllum er að finna í næstu plötu Megasar sem hlaut nafnið Þrír blóðdropar (1992). Hylling holdlegra samskipta er hrygglengjan í söngvasafninu með sérstaka áherslu á ungmeyjar, nývaknaða kynvitund og fyrstu skrefin á vegum nautnarinnar. Efnið er ögrandi og Megas fer með það af eðlislægri ósvífni, kortleggur forboðnar slóðir með hálfkveðnum vísum, sjónarhornið stundum háskalegt einsog í laginu „Kvöld í Atlavík,“ þar sem skáldið gekk fram af mörgum með því að lýsa nauðgun á þrettán ára stúlku af lítilli nærfærni, þótt slagkraftur textans sé reyndar einmitt fólginn í hryssingslegum stílnum. Í mansöngvum Megasar birtast ungar töfrandi dísir, dísin er birtingarmynd opinnar nálgunar, forvitni og ævintýragirni hins unga lífs; hin beiska andhverfakemur hér lítið við sögu en lætur þó á sér kræla í laginu „Ég get líka“.
Tónlistarlega er Þrír blóðdropar frábær og hljómurinn í góðu jafnvægi – meðan sköpunargleðin á Stellu átti það til að fara yfir strikið og framkalla kraðak. Grunnhljóðfæraleikararnir eru þeir sömu og á Stellu, en við bætist Jón Ólafsson á hljómborð; þetta var líka hljómleikasveit Megasar, kannski sú besta, einsog heyra má á hljómleikaplötunni Greinilegur púls (2006) með upptöku frá árinu 1991.
Fæstir djúpið meika að kanna
Á yngri árum lagði Megas stund á smásagnagerð og árið 1990 vann hann í samvinnu við Þórunni Valdimarsdóttur stórvel heppnaða æskuminningabók, Sól í Norðurmýri. Nú tók hann aftur upp þennan þráð og skrifaði skáldsöguna Björn og Sveinn, sem kom út árið 1994 og var tekið af nokkru tómlæti. Og vissulega er þetta erfið bók aflestrar. Hún segir, með aðferð satírunnar, sögu ólánsfeðganna Axlarbjarnar og Sveins skotta, þeim er kippt úr sagnræðilegu samhengi sínu og slengt niður í siðlausa Reykjavík nútímans, sem lýst er í sláandi öfgum með yfirgengilegri amfetamínneyslu, pedófílíu og spillingu. Hvergi í textum sínum gengur Megas jafn hressilega á skjön við smekk og lífsgildi góðborgaranna. Skáldsagan á sér sína eindregnu aðdáendur og nýtur sín kannski best í smærri skömmtum, hér er allt í yfirmagni, þar á meðal ofgnótt af orðsnilld, einsog vænta mátti þegar Megas á í hlut.
Fjögur ár liðu frá Þremur blóðdropum að næsta lagasafni, sem markar enn nýtt upphaf og/eða endurhvarf til fyrri fagurfræði: Til hamingju með fallið. Lagasafnið er raunar blanda af nýrri og eldri lögum, sem flækir heildarmyndina, en þó má vel sjá hvert stefnir. Útúrsnúningurinn er að leggja undir sig myndmálið á kostnað tærleikans, líkingar eru margar langsóttar og snjallar að hætti barrokkskálda, og í stað þess að ein saga eða sitúasjón sé lögð til grundvallar hrannast hálfkveðnar vísur upp í spunaflæði sem minnir sterklega á fyrri tíð í textum Megasar og rímar enda prýðilega við lokalagið, „Dag hjólbarðasalans“, sem birtist á prenti árið 1978 (í tímaritinu Svart á hvítu). Hinar nýju eða endurvöktu forsendur framkallast eftirminnilega í „Heimilisfang óþekkt“, langri og skerandi sjálfslýsingu með gnægð af flottum línum. „Allt er einsog fyrr jafn heillum horfið“ segir í öðrum texta og lýsir vel breyttum andblæ. Sums staðar er það ósagða svo stór hluti af jöfnunni að hlustandinn er lokaður úti úr húsi textans, hann getur dáðst að smíðinni en finnur hvergi dyr.
Tónlistin er órafmögnuð og frumlega skreytt með óvæntum hljóðfærum en útsetningarnar verða stundum dálítið einkennilegar fyrir vikið. Þetta er svolítið ójöfn plata og skrýtin að mörgu leyti en fellur afdráttarlaust réttu megin við strikið.
Fláa veröld (1997) er svo rafmagnað framhald Fallsins og sísta plata Megasar. Áberandi í textunum er andhverfa dísarinnar í verkum Megasar: naðran, hið kvenlega viðfang sem fyrirlitleg líkamning mannlegra lasta – eitt lagið heitir einmitt „Naðran með zippóinn.“ Textarnir margorðir en svo merkingarfælnir að það er erfitt að tengja sig við þá, enda lífsafstaðan svo fráhrindandi að löngunin er ekki fyrir hendi. Laglínurnar virka margar hverjar furðu flatar enda útsetningar og hljóðfæraleikur ómarkviss – nema í þessum fjóru eða fimm góðu lögum sem skaga upp úr glundroðanum einsog „Tíu fötin keisarans“, sem er útúrsnúningur Megasar á sinni eigin „Ungfrú Reykjavík“ og „Ungfrú Plís“ sem ætti í raun betur heima á Fallinu.
Píanólagasafnið Svanasöngur á leiði frá árinu 2000 einkennist að miklu leyti af sömu dimmu en er bara svo miklu betur heppnað verk og í betri fókus: stórgóð lög við frábæra texta sem tapa aldrei (eða sjaldan) tengslum við áheyrandann – kannski er það húmorinn sem skiptir sköpum; söngurinn er skýr og tjáningarríkur, píanóleikur Jóns Ólafssonar reyndar groddalegur en helvíti músíkalskur.
Og Megas er á góðu róli, árið eftir (2001) sendir hann frá sér diskinn Far ... þinn veg sem lokar þríleik sem hófst með Fallinu og hélt áfram í Fláu veröld. Hér skiptir miklu máli hvað útsetningar eru pottþéttar og hljómurinn flottur. Megas kippir með fjórum lögum úr textaheftunum frá því í upphafi ferilsins, einsog til að hnykkja á innra samhengi í verkum sínum; það er fengur að þeim og ekki fer illa um þau. Nýrri textarnir einkennast af þéttleika/ofhlæði í máli og myndmáli og kolsvartri greiningu á samtímanum; nöðrukynið fær á baukinn, skýrast og endanlegast í næstsíðasta lagi disksins, „Fæ mér aðra“ sem er stuðandi af því hve afstaðan virðist einlæg og hreinlega nálægt kvenhatri.
Langt samstarf Megasar og dúettsins Súkkats – undir hljómsveitarnafninu Megasukk – bar hljóðritaðan ávöxt á diskinum Hús datt frá árinu 2005, en á honum er að finna blöndu af gömlum slögurum og lögum Megasar. Þetta er stuðplata full af vafasömum kveðskap, þar á meðal er glaðhlakkalegur útúrsnúningur á „Fatlafóli“ sem nú snýst um hræðilegt mál ættað úr raunveruleika fréttanna. Þar og víðar keyrir Megas groddalegt karlaklámið yfir strikið svo það verður óþægilegt, ekki síst af því að maður er ekki viss um hvort það sé ætlunin. Þegar við bætist að hljómurinn er of kraðakskenndur og einradda tvísöngur Megasar og Hafþórs dálítið þreytandi í svona miklu magni er heildarútkoman því miður ekki nógu ánægjuleg. Þessi efnisskrá virkaði hins vegar mun betur á tónleikum og inn á milli eru eftirminnileg lög einsog „Ljóðað á lausráðna“ þar sem fagnaðarerindi kynlífsins er boðað á megasarlegum nótum: „þér sem hafið hýst minn eina/ hollvin sárum þorsta fjarri/ megi drottinn drátt senn reyna/ – djöfli þægt þótt rúmið marri“.
Árið 2007 kom svo tvenna frá Megasi við undirleik Senuþjófanna: diskarnir Frágangur og Hold er mold. Undirleikurinn er frábær, lagasafnið allt hið besta, mjög fjölbreytt reyndar og gott jafnvægi milli snjallra popptexta og torráðnari skilaboða. Stemningin hér minnir mest á píanóplötuna, skáldið yrkir kolsvart meinfyndna texta um sjálfsvíg og dauða, geðveiki, lyfjaneyslu og skipbrot tilfinningalífsins. Nokkuð mörg lög líta út fyrir að vera af ætt tækifæriskvæða: brúðkaupslag og (væntanlega) afmælisdiktur; á Hold er mold er einn fjörgamall söngur, eitt tökulag, annað er útúrsnúningur á „Fever“ Elvisar og svo eru fjórar melódíur við veraldlega texta Hallgríms Péturssonar. Þetta eru því í og með nokkurs konar samtíningsdiskar, einsog nafnið Frágangur virðist líka gefa til kynna.
Seinustu árin hefur komið út ótrúlega mikið efni eftir Megas, auk þeirra diska sem hér hafa verið nefndir hafa komið endurútgáfur á öllum plötum hans fram að tónleikaplötunni Drög að upprisu, frá 1994, margar með ríkulegu aukaefni; úrvali laga hans frá 2002 fylgdi líka diskur með óútgefnum eða fágætum lögum; Drjúgur hluti Passíusálmalaganna komu loks í hljómleikaútgáfu á frábærum og tvöföldum diski fyrir páskana 2006, og í endurútgáfuhrinunni það ár var frumútgefinn tvöfaldi tónleikadiskurinn Greinilegur púls, sem áður var minnst á. Loks má nefna sýningu í Nýlistasafninu helgaða Megasi ásamt bók í tengslum við hana, og svo hafa lög hans verið flutt af öðrum flytjendum á afmælistónleikum í tilefni af sextugsafmæli hans og á geisladiskum.
Já, loksins virðist ríkja nokkur sátt um þetta óskammfeilna olnbogabarn íslenskrar menningar, snillinginn okkar í dægurtónlistinni. Hann er orðinn sextugur og það er enn jafn spennandi að vita hvað hann gerir næst.
© Jón Hallur Stefánsson, 2007
Neðanmálsgreinar
1. Sérkennileg undantekning er að ljóðlínan „Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig” hefur villst inn í mengi raunverulegra heilræða og birst bæði á barmmerki frá Tryggingastofnun og – fyrir gráglettni örlaganna – á Cheeriospökkum. Hlýtur ekki skrattinn að hlæja?
2. Í bókinni Megas , 2001. Kistan.is, nýlistasafnið, Mál og menning. Án blaðsíðutals
Greinar
Almenn umfjöllun
„Ég er rétt að byrja!“
Þjóðlíf 1986, 2. árg., 3. tbl. s. 18-24
Gestur Grímsson: „Hundingsspott“
Svart á hvítu 1978, 2. árg., 3. tbl. s. 41-49
Guðmundur Sæmundsson: „Megas Hallgrímsson“
Tímarit Máls og menningar 2007, 68. árg., 4. tbl. s. 36-45
Guðrún Eva Mínervudóttir: „Síst þeim lífið leiðist sem lýist þar til út af deyr : viðtal við Megas“
Stína 2008, 3. árg., 1. tbl. s. 18-24
Hrafnkell Lárusson: „Saga eins og við viljum : af „snatasagnfræðilegum“ aðferðum og niðurstöðum“
Sagnir 2001, 22. árg., s. 10-12
Markelova, Olga Alexandersdóttir: „Megas – gamall og nýr“
Tímarit Máls og menningar 2005, 66. árg., 4. tbl. s. 70-81
Skafti Þ. Halldórsson: „Kjaftshögg á hversdagsleikann“
Svart á hvítu 1978, 2. árg., 1. tbl. s. 14-17
Stefán Snævarr: „Pósturinn Megas: Megas og póstmódernisminn“
Tímarit Máls og menningar, 76. árg., 4. tbl. 2015, s. 108-124
Steinþór Steingrímsson: „Þar sem eimpípan hvín : andstæður og afhelgun í kvæðaheimi Megasar“
Mímir 2005, 44. árg., s. 14-32
Þorvaldur Þorsteinsson: „... en í því að þiggja Eirabs gjöf var engin dýrinu þægð“
Skíma 2001, 24. árg., 2. tbl. s. 41-42
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: „Sortnar sentrúm : um Reykjavíkurkveðskap Megasar“
Tímarit Máls og menningar 2005, 66. árg., 4. tbl. s. 60-69
Um einstök verk
Björn og Sveinn eða makleg málagjöld
Geir Svansson: „Ótímabærar bókmenntir : um Megas, ,,avant-garde“ og (ó)módernisma“
Ritið 2006, 6. árg., 1. tbl. s. 177-201
Sól í Norðurmýri
Halldóra Kristín Thoroddsen: „Rætt við Megas og Þórunni Valdimarsdóttur“
Bjartur og frú Emilía 1991, 4. árg., 3. tbl. s. 6-14
Verðlaun
2000 – Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu.
Auk þess hefur Megas fengið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir tónlist sína.
Megas – textar 1966-2011
Lesa meiraDagur kvennanna. Ástarsaga
Lesa meiraFrágangur
Lesa meiraHold er mold
Lesa meiraHús datt
Lesa meiraSennilega og svo frv.
Lesa meiraEnglaryk í tímaglasi
Lesa meiraHaugbrot: glefsur úr neó-reykvískum raunveruleika
Lesa meiraFar ... þinn veg
Lesa meira