Beint í efni

Meistaraverkið og fleiri sögur

Meistaraverkið og fleiri sögur
Höfundur
Ólafur Gunnarsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Það er ýmislegt á seyði í smásögum Ólafs Gunnarssonar. Stundum leynist þar óhugnaður sem er ýmist sagður berum orðum eða gefinn í skyn. Menn taka afdrifaríkar ákvarðanir og, að því er virðist, illa ígrundaðar. Það er þá oft eitthvert tilfinningalegt uppgjör sem rekur þá til verka, jafnvel illra verka. Í tveimur sögum grípa menn til þess ráðs að kveikja í. Karlar eru í aðalhlutverkum en konur gjarnan áhrifavaldar eins og gengur og gerist. Sögurnar eru yfirleitt njörvaðar í veruleika hversdagsins en taka tíðum óvænta stefnu. Lesandinn býr sig undir ákveðinn söguþráð, ákveðið plott, því að það er svo sem ýmislegt plottað í sögunum, en er svo allt í einu lentur á allt öðrum stað en hann hefði getað ímyndað sér í upphafi. Maður hugsar: hva…, endar þetta bara svona? Hvað varð um persónurnar? En á því fæst kannski engin skýring; það er plottað og atburðarás fjörug en samt ekki alltaf söguplott í venjulegum skilningi.

Við fáum innsýn í líf venjulegra Íslendinga sem eru að bardúsa við eitt og annað. Við erum stödd í Reykjavík og nágrenni. Sögurnar gerast helst um og eftir miðja síðustu öld, um það bil frá stríðsárunum til 1970. Sálnagleypir gerist þó talsvert fyrr eða í upphafi aldar. Það er ævintýri um kaupmann, leikkonu og töfraspegil og stingur aðeins í stúf við hinar sögurnar. Ein sagan gerist svo töluvert síðar eða á níunda áratugnum. Rod Stewart kemur fram á fegurðarsamkeppni Íslands og íslenskur uppgjafasöngvari syngur þar með honum. Hann er þó uppdiktuð persóna, hann Sigvaldi, sem fer þar í fötin hans Björgvins Halldórssonar en ferill Sigvalda hefur einkennst af glötuðum tækifærum, öfugt við Bjögga. Rokkari sem er löngu þagnaður. Svipað má segja um fleiri persónur í þessum sögum. Þær hafa ekki alveg “meikað” það, ef svo má komast að orði. En stundum er er eins og ýmislegt breytist til hins betra, um stund í það minnsta. Í sögunni af fegurðarsamkeppninni er hreinlega breytt um aðalpersónu undir lok sögunnar. Sigvalda gefið langt nef en í staðinn fylgst með einum þátttakanda í keppninni. Þarna býst lesandinn við fremur kaldhæðinni frásögn um eitt en allt annað á sér stað.

Sumar eru sögurnar fremur óþægilegar, svo sem Nasistinn. Hvað gerðist eiginlega í þeirri frásögn? Maður fær martröð, telur sig hafa vaknað en heldur áfram að dreyma. Eða hvað? Gimmie Shelter fjallar um miðaldra bifvélavirkja, kött, aldraðan nágranna og súludansmær. Lesandinn verður sjálfur að prjóna þar við endinn og svo er um fleiri sögur. Vélar, bifreiðar og verklag ýmiss konar, m.a. við túnþökuskurð og húsflutninga, gerir sögurnar dálítið karllægar. Það held ég að sé nú í lagi. Það er nóg af kvennabókmenntum. Þessi breyttu sjónarhorn í sumum sagnanna og óljósar endastöðvar geta pirrað mann svolítið. Þessi lesandi hérna minnist þess að hafa orðið ósáttur við lok Tröllakirkju á sínum tíma en með þeirri ágætu bók sló Ólafur í gegn. Vetrarferðin og Blóðakur sem á eftir komu voru báðar ásættanlegri í heild sinni. Meistaraverkið kallast að mörgu leyti á við önnur verk Ólafs, fyrrnefndar skáldsögur og einnig Dimmar rósir og jafnvel eldri bækur á borð við Ljóstoll og Milljón prósent menn.

Svona er sagnaheimur Ólafs Gunnarssonar, alltaf læsilegur og áhugaverður, ekki allra kannski, en maður sekkur sér í hann og sekkur stundum til botns. Meistari að verki.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2011