Beint í efni

Minnisvarði um ferð

Minnisvarði um ferð
Höfundur
Ásdís Óladóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Guðrún Steinþórsdóttir

Nýjasta ljóðabók Ásdísar Óladóttur nefnist Rifsberjadalurinn. Titillinn er ekki einvörðungu heillandi staðarheiti heldur vísar hann á snjallan hátt til lyfsins risperdal sem hefur sefandi áhrif á flest einkenni geðklofa, sjúkdóminn sem skáldið hefur persónulega reynslu af eins og komið hefur fram í viðtölum við hana. Segja má að í bókinni séu tvær ljóðabækur í einni því hún skiptist í tvo afar ólíka hluta. Fyrri hlutinn er ljóðabálkur þar sem Ásdís yrkir á einlægan og áhrifaríkan hátt um veikindi sín en í þeim seinni er samansafn ljóða þar sem ljóðmælandi greinir meðal annars frá umhverfi sínu, ferðalögum, tilveru og líðan.

Ljóðabálkurinn sem helgaður er veikindum höfundar nefnist „Allt nema ég“ og telur 24 erindi. Fyrsta erindið setur tóninn fyrir efnistök þess sem koma skal því þar er strax gerð grein fyrir áhrifum þess að þjást af geðklofa:

Hálf pilla varð að einni
og síðan tveimur.
Öllu öðru fargað.
Lífæð mín 30 mg.
Hver hreyfing, hvert skref.
Að tala við þig
án þess að ímynda mér
að þú sért óvinur minn
hefur sitt vægi:
30 mg.

Erindið og næstu tvö sem á eftir fylgja orka eins og inngangur að sjúkrasögu ljóðmælanda því í þeim undirstrikar hún mikilvægi geðlyfsins til að geta tekist á við daglegt líf án ranghugmynda og ekki síður án þess að „raddir, / ókunnar raddir, / heill kór af röddum / syngi ekki í höfðinu / alla daga“. Í kjölfarið tekur við mögnuð lýsing á sjúkdómsferlinu; jafnt á áhrifum sjúkdómsins áður en ljóðmælandi er komin með greiningu og byrjuð að taka lyf til að sefa einkennin sem og á breytingunum sem verða á tilveru hennar eftir að lyfin eru komin til sögunnar. Ljóðabálkur Ásdísar er meitlaður, en með markvissum endurtekningum og fáum og vel völdum orðum tekst henni mætavel að draga upp skýrar myndir af vanlíðan sinni og bata. Innsýnin sem hún gefur í veikindi sín er dýrmæt enda getur hún reynst lesendum afar upplýsandi.

Það er algengt að heyrnarofskynjanir fylgi geðklofa sem hefur þau áhrif að fólk heyrir raddir sem aðrir heyra ekki í. Raddirnar lýsa gjarnan tilveru hins veika, skipa honum fyrir eða vara hann við hinu og þessu. Ásdís lýsir líðan af þessu tagi býsna vel en endurtekið víkur hún að röddunum í höfðinu sem láta hana ekki í friði. Eftirfarandi erindi er gott dæmi um það:

Raddirnar voru minn heimur,
lokaður í höfðinu.
Talaði við þær eins og ég væri stödd
í samkvæmi með ókunnu fólki.
Reykti og talaði við raddirnar.

Með því að benda sérstaklega á að raddirnar séu heimur ljóðmælandans fá lesendur góða vísbendingu um einangrunina sem hún má þola vegna sjúkdómsins. Fyrir tilvist raddanna lifir hún enda svo að segja í öðrum heimi, þar sem önnur lögmál gilda en í þeim heimi sem við köllum raunverulegan. Vægi raddanna – og um leið hin hryllilegu óþægindi sem þeim fylgja – verða veigameiri eftir því sem líður á ljóðabálkinn en þá spjallar ljóðmælandi ekki lengur við þær, eins og ókunnuga í veislu, heldur rökræðir og rífst við þær í hljóði á sama tíma og hún talar lítið sem ekkert við annað fólk.

Í heimi sjúkdómsins lifa ranghugmyndirnar einnig góðu lífi. Birtingarmyndir þeirra eru margs konar; til dæmis telur ljóðmælandi að allar hörmungar heimsins séu henni að kenna, hún sé prinsessa með vængi og að henni sé stöðugt veitt eftirför eins og þessar ljóðlínur eru til vitnis um: „Hún var að elta mig. / Þessi var að elta mig. / Það var verið að elta mig.“ Ranghugmyndirnar draga ljóðmælanda niður og ýfa upp sjálfsásakanir hennar og óréttmæta gagnrýni í eigin garð.

Í ljóðabálkinum kemur skýrt fram að greiningin á sjúkdómnum tekur sinn tíma eða eins og segir í einu ljóðanna: „Það var skellt í mig róandi / og svefntöflum. / Hafði ekki sofið heilan svefn í marga mánuði. / „Kvíði að angra þig“ var mér sagt. / Ég lá í lyfjamóki, / í nokkra mánuði.“ Þá fær ljóðmælandi endurtekið sprautu í rassinn án þess að vita hvað sé að henni. Röngu greiningarnar draga fram hversu flókið það getur reynst að fá rétta greiningu og um leið hversu erfitt það reynist hinum þjáða. Þá hjálpar það ekki til að geðsjúkdómar sjást ekki utan á fólki líkt og ljóðmælandi bendir á: „Heilbrigð á að líta / með allar mínar / ótömdu raddir / emjandi í höfðinu.“ Veikindin hafa þau áhrif að vinum fækkar, ljóðmælandi missir vinnuna og situr að lokum heima hjá foreldrum sínum í margar vikur og gerir ekkert „[f]öst í eigin heimi.“ Einangrunin nær þannig hámarki.

Þegar ljóðmælandi fær loksins lyf sem virkar hefst uppbyggingin. Hún fer í skóla og „[l]ærði að smíða, / hanna nytjahluti / og húsgögn“, útskrifast „og varð minna / og minna veik.“ En þótt lífið sé komið á réttan kjöl er rútínan nauðsynleg eins og kemur glögglega fram í næstsíðasta erindinu:

Þarf að passa lyfið,
passa svefninn,
að borða, passa
að hreyfa mig,
að passa álagið,
annars

fara …

Lokaorðin, „annars fara“ og þrípunkturinn í kjölfarið undirstrika á áhrifaríkan hátt hvað er í húfi fyrir ljóðmælanda ef henni bregður út af regluseminni. Ljóðabálkurinn endar á jákvæðan og fallegan hátt; ljóðmælandi er komin á nýtt lyf sem hún kallar „apríl sól“ „og enginn eltir [hana] / nema skugginn“. Þannig draga lokalínurnar skýrt fram að tími ranghugmynda sé liðinn. Það er því ekki annað hægt en að gleðjast yfir sólinni í lífi ljóðmælanda.

Seinni hluti bókarinnar ber hið frumlega heiti „Á nefi mínu hvílir regnhlíf“ og telur sextán ljóð. Ljóðmælandi kemur víða við, yrkir til dæmis nokkur ljóð um veru sína í New York og dregur upp forvitnilegar myndir af umhverfinu þar. Ástin, eða kannski öllu heldur fjarvera hennar, er einnig umfjöllunarefni eins og kemur til að mynda fram í ljóðunum „Því miður“ og „Vanrækt“. Í hinu fyrrnefnda yrkir ljóðmælandi um ást sem einu sinni var og undirstrikar skilnað elskendanna á nístandi hátt í lokaljóðlínunum: „Mitt er mitt. / Þitt er þitt.“ Enn naprari verða áhrif sundrungar tveggja einstaklinga í síðarnefnda ljóðinu, „Vanrækt“, þar sem gróðurmyndmáli er beitt á nýstárlegan hátt og með glæsibrag:

Á fyrsta
sumardegi
gærdagsins
birtist þú
og ég reyni
að rífa upp
girta þögnina,
kalin blómin
í garðinum.
Þú sveiflar
garðslöngunni
í allar áttir,
vökvar tómarúmið
sem vex
á milli okkar.

Sárir undirtónar, eins og skína af ljóðinu, koma víða fram í ljóðabókinni og minna á erfiðleika tilverunnar. Þeir kristallast þó líklega einna best í ljóðinu „Ævi“:

Maðkur,
sandmaðkur
skilur eftir sig
á leirunni
flókna
slóð,

minnisvarða
um ferð.

Það fellur að.

Ljóðið er góður vitnisburður um hversu flókið og erfitt lífið getur reynst fólki og kallast því sumpart á við lýsingarnar á veikindunum í fyrri hlutanum. Ljóðið er eitt af áhrifamestu ljóðum bókarinnar og því ekki að undra að það prýði bókarkápuna.

Rifsberjadalurinn er virkilega sterk, áhugaverð og fáguð ljóðabók. Ljóðabálkurinn, í fyrri hlutanum, er til þess fallinn að afhjúpa sársauka og vanlíðan, takast á við sjúkdómsreynslu og deila henni með öðrum í sömu mund og hann gagnast einkar vel til að efla skilning lesenda á því hvernig er að hafa geðklofa. Að sama skapi lýsa ljóðin í seinni hlutanum ýmsum hliðum mannlegrar tilveru feiknar vel, raunar svo vandlega að þau halda áfram að malla innra með lesanda löngu eftir að lestri er lokið.


Guðrún Steinþórsdóttir, desember 2024