Beint í efni

Návígi á hvalaslóð

Návígi á hvalaslóð
Höfundur
Elías Snæland Jónsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1998
Flokkur
Barnabækur

Úr Návígi á hvalaslóð:

 Hann opnaði bréfið í snarheitum.
 Það var frá Helenu. Hún hafði verið að vinna við tölvuna heima hjá sér þegar bréf Inga barst henni, sendi strax svar til baka og bað hann að hafa samband á spjallrás Netsins.
 Hann leit á úrið. Klukkan var rúmlega níu að morgni.
 Þótt Hermes færi oft á milli tímasvæða á siglingu sinni um Atlantshafið voru klukkurnar um borð undantekningarlaust stilltar á heimstímann GMT. Það var því alltaf sami tími um borð í skipinu og í bænum Greenwich rétt utan við London á Englandi, þar sem lengdarbaugurinn núll liggur í gegnum sögufrægt hús. Og á Íslandi sem fylgdi meðaltímanum í Greenwich jafnt sumar sem vetur.
 Hann var fljótur að reikna út að heima hjá Helenu vestur í Kanada væri klukkan rúmlega eitt að nóttu til.
 Ég hélt þú værir sofandi, skrifaði hann á ensku um leið og þau komust í samband. Þess vegna sendi ég þér bara póst.
 Það er laugardagur á morgun. Frídagur! Ertu búinn að gleyma því?
 Já, reyndar. Hérna úti á miðju Atlantshafinu eru allir vikudagarnir eins.
 Allir jafn skemmtilegir? Ha?
 Auðvitað!
 Hvernig væri þá að brosa?
 :-)
 Ingi fór ósjálfrátt að hlæja með sjálfum sér um leið og hann sendi henni þetta alþjóðlega brosmerki Netsins. Ef því var snúið um níutíu gráður átti það að sýna einfalda teikningu af brosandi andliti.
 Hún svaraði í sömu mynt:
 :-)!
 Hann geispaði og lygndi svo aftur augunum.
 Þótt hann væri oftast sáttur við lífið um borð í Hermesi fann hann meira til þess upp á síðkastið að hafa engan félagsskap jafnaldra sinna nema á sumrin.
 Síðustu árin hafði hann ekki gengið í venjulegan grunnskóla. Pabbi og mamma héldu honum að náminu um borð í Hermesi. Svo var hann vikulega í tölvusambandi við kennara í Eyjum sem hafði tekið að sér að setja honum fyrir og leggja mat á úrlausnir verkefnanna.
 Um hásumarið hafði Ingi hins vegar alltaf fast land undir fótum vikum og jafnvel mánuðum saman. Þótt pabbi og mamma væru að vísu mikinn hluta sumarsins við rannsóknir á hafinu umhverfis Ísland var hann yfirleitt í landi hjá afa og ömmu.
 Ingi hrökk upp úr þessum hugrenningum sínum þegar tölvan fór að pípa á ný. Hann hafði dottað í rúminu. Þreytan og svefnleysi næturinnar voru loksins farin að segja til sín fyrir alvöru.  Ég er alveg að sofna, skrifaði hann. Góða nótt! 
 Svefnpurka! svaraði Helena. En bætti svo brosmerkinu aftan við til að sýna að hún væri að gera að gamni sínu.

(s. 17-18)

Fleira eftir sama höfund

The Republic of Iceland : 50th Anniversary

Lesa meira

Fjörbrot fuglanna : Leikrit í tuttugu atriðum

Lesa meira

Draumar undir gaddavír

Lesa meira

Töfradalurinn

Lesa meira

Haltu mér fast!

Lesa meira

Lýðveldið Ísland 50 ára

Lesa meira

Brak og brestir

Lesa meira

Átök milli stríða

Lesa meira