Myndir eftir Brian Pilkington.
Úr Nornin hlær:
„Munaðarleysingjar
Gunnur og Sara sátu kjökrandi upp við klettana. Þær gáfust upp á að klifra upp bakkann, komu sér aftur fyrir á steinunum og héldust í hendur. Sjórinn skvettist alveg upp undir stígvélin þeirra þegar aldan féll að.
- Kannski fer kletturinn á kaf, sagði Gunnur.
- Og við líka, kjökraði Sara.
- Við verðum að komast aðeins hærra, annars förum við í sjóinn, sagði Gunnur. Þær fikruðu sig upp brattann, toguðu sig upp á grastó sem slútti fram af bjargbrúninni, og reyndu að koma sér fyrir þar í brekkunni. Útlitið var ekki gott. Grasið var sleipt og þær áttu í basli með að halda sér.
Allt í einu greindu þær fótatak á bakkanum ofan við. Þær stirðnuðu upp, hræddar en samt fegnar og áræddu að gjóa augunum upp á brúnina. Í sömu andrá kom heljarmikil skvetta úr fötu.
- Ekki! æpti Sara, en það var of seint.
Gusan sveif í tignarlegum boga yfir þær. Dreggjarnar lentu á ökklum þeirra og kálfum. Þær fundu eitthvað ógeðslegt leka ofan stígvélin.
- Hvað eruð þið að gera þarna? spurði skræk rödd á bakkanum.
- Við erum bara að leika okkur hérna, sko, við erum að fela okkur, stamaði Gunnur.
- Þetta er ekki neinn staður til þess að leika sér, sagði röddin bak við fötuna. Snautið þið burtu!
- Megum við ekki sitja hérna, eða hvað? Sara reyndi að vera kokhraust.
- Nei, þið eigið að vera heima hjá ykkur, ekki hér.
- Við erum bara að horfa á hafið, sagði Gunnur, ósköp sakleysislega.
- Horfa á hafið, seisei. Vita mamma ykkar og pabbi af ykkur hér?
- Við erum munaðarlausar, ansaði Sara.
- Eruð þið hvað?
- Mun-að-ar-laus-ar! tuggði Sara.“
(s. 27-28)