Í bókinni At og aðrar sögur eru 16 draugasögur fyrir börn, valdar úr ríflega hundrað sögum sem bárust í smásagnakeppni sem efnt var til í tilefni barnabókahátíðarinnar Draugur úti í mýri. Hátíðin var haldin hér í febrúar síðastliðnum. Eins og nafn hennar gefur til kynna var þemað í ár draugasögur. Sögurnar eru eftir 14 höfunda, en þær Arndís Þórarinsdóttir og Kristín Steinsdóttir eiga tvær sögur hvor. Verðlaunasagan, At, er eftir Guðmund Brynjólfsson en þekktari höfundar, þær Kristín Helga Gunnarsdóttir og Iðunn Steinsdóttir hlutu önnur og þriðju verðlaun.
Sögurnar í bókinni eru jafn ólíkar og höfundar þeirra. Eins og draugasagna er von og vísa fjallar flestar þeirra um týndar sálir sem ekki finna frið. Sumum þessara sálna er hægt að hjálpa, t.d. gömlu konunum sem ganga aftur í sögum Önnu Kristínar Kristjánsdóttur og Kristínar Arngrímsdóttur og bláu og gulu draugunum í sögunni Gulur, rauður, blár eftir Kristínu Steinsdóttur. Aðrar koma til að veita hjálp eða hughreysta, eins og drengurinn í verðlaunasögu Guðmundar Brynjólfssonar, stúlkan í sögu Kristínar Steinsdóttur, Bruni, og Gamli Fretur í sögu Hjörvars Pálssonar. Og svo eru þeir sem ekki hafa neitt gott í hyggju og má þar nefna draugana í sögum Brynhildar Þórarinsdóttur og Stefáns Mána.
Ég held það megi fullyrða að langflestir krakkar hafi á einhverjum tíma gaman af að lesa draugasögur – ef þau á annað borð hafa gaman af að lesa. Fyrir þau er fengur að þessari bók, hvort sem þau kunna að meta draugahroll eða draugagrín.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2008