Faðir minn þreytist seint á því að minna mig á að Snorra-Edda er ekkert annað en samantekt og endursögn (kristins) grúskara sem hafði þörf fyrir að fella óreiðukenndar sagnir af goðum og heimssköpuninni í einhverskonar reglulegt form. Sjálfsagt hefði kalli fallist hendur frammi fyrir þeim fjölmörgu myndbirtingum goðsagnanna sem síðan hafa bæst við í myndlist, myndskreytingum og myndlýsingum, að ekki sé talað um myndasögur og teiknimyndir. Allar þessar útgáfur bera vitni sjálfstæðum túlkunum, þær eru tilbrigði við goðsögurnar, nýr búningur sem mótar söguna uppá nýtt. Hefðbundnari útgáfan af þessum tilbrigðum eru endursagnir sem þá eru iðulega ætlaðar nýjum kynslóðum, væntanlega á þeim forsendum að tungumál úreldist en ekki sagan sjálf. Ekki ætla ég mér út í fræðilega og flókna umræðu um þörfina fyrir því að færa þjóðsögur, ævintýri, skáldskap eða goðsagnir í nýjan tungumálsbúning (mér finnst það almennt óþarft, en ég get líka skilið rökin með slíku), en hinsvegar fagna ég hverri nýrri myndrænni útgáfu, því í myndunum býr máttur sem alltof oft er vanmetinn.
Fyrir þremur árum sendi Kristín Ragna Gunnarsdóttir frá sér Völuspá, endursagða af Þórarni Eldjárn. Bókin er feikifalleg og myndmál Kristínar Rögnu hreint og beint frábært og fangaði tilfinningu fyrir hinu forna og nýja í myndum sem endursköpuðu menningararfinn á tilþrifamikinn hátt. Og nú er komið einskonar framhald af þessari bók Kristínar Rögnu, að þessu sinni í félagi við Ingunni Ásdísardóttur sem endursegir sögur úr Snorra-Eddu, allt frá sköpun heimsins til Ragnaraka, en bókin heitir Örlög guðanna (Mál og menning, 2008). Kristín Ragna byggir á því myndmáli sem hún beitti svo fimlega í Völuspá og bætir enn við í bók sem er einfaldlega unun að handleika. Sem fyrr er aðaláherslan á einskonar klippimynda og skuggamynda stíl, sem sækir á stundum til forma og mynda, rúna og rísta víkinganna, í bland við nútímalegri tilvísanir. Texti er nú nýttur í ríkara mæli en áður og iðulega felldur inn í myndmálið á hugvitssamlegan hátt, það er að segja, notaður sem myndmál og kallast á við rúnamynstrin sem víða birtast. Og nú hefur bæst við nýr þáttur í myndmálið, gamaldags prentmyndir eins og bendandi hönd (sem minnir á teiknimyndainnskot Terry Gillian í Monty Python myndunum), hirtir, jurtir og augu, auk nútíma veðurtákna og stimplaðra frímerkja. Allt skapar þetta tilfinningu fyrir mörgum lögum af tíma sem fangar fullkomlega yfirfærslu sagnanna inn í nútímann, auk þess að gefa innsýn í það ferðalag sem þær eiga að baki.
Endursagnir Ingunnar eru sömuleiðis vel unnar, val sagnanna ekki endilega alltaf fyrirsjáanlegt og þær túlkanir sem hún læðir inn koma vel út. Hlutur kvenna er undirstrikaður nokkuð og svo fær Loki mikið pláss.
Loki er líka samur við sig í skrásetningu Friðriks Erlingssonar á sögunni Þór í heljargreipum (Veröld, 2008), en sú bók er grunnurinn að handriti fyrir teiknimynd um Þór sem er í smíðum. Hér er farið öllu frjálslegar með söguefnið en Þór, sonur Óðins, er í upphafi bókarinnar venjulegur (reyndar óvenjulega flínkur og sterkur) járnsmiður sem óvænt breytist í ofurhetju þegar hamarinn Mjölnir (svo) bókstaflega fellur í fang hans, eftir valdatogstreitu í Ásgarði. Loki er auðvitað að bralla eitthvað, og þetta eitthvað líkist Ragnarökum ekki lítið - sá eini sem getur bjargað málunum er Þór. Að auki þarf hann að bjarga vinkonu sinni Eddu úr tröllahöndum.
Frásögnin ber þess greinileg merki að vera ætluð í teiknimynd, hasarinn er mikill og stíllinn svolítið reikandi, stundum virkar þetta eins og ævintýri, stundum eins og unglingabók og stundum eins og barnabók með hallærislegum orðaleikjum sem ábyggilega eiga eftir að gera sig betur í líflegu myndmáli. Teikningar Gunnars Karlssonar eru almennt skemmtilegar og lofa góðu þó á stundum hefði að ósekju mátt koma með meiri karakter inn í myndmálið - og leyfa því að njóta sín betur. Hel er einna best útfærð, og svo hamarinn sjálfur sem hér fær sjálfstæðan persónuleika, hendur og andlit og er skemmtilega óþolandi. Þannig gefur þetta alltsaman góðar vonir fyrir teiknimyndina, en virkar kannski tæplega sem sjálfstætt verk.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008