Beint í efni

Ósjálfrátt

Ósjálfrátt
Höfundur
Auður Jónsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Auður Jónsdóttir hefur getið sér gott orð í íslenskum bókmenntaheimi fyrir skáldsögur sínar sem hafa skýran raunsæislegan undirtón, eru skrifaðar af kaldhæðni og húmor og veita fyrir vikið sannfærandi og næmt sjónarhorn á mannlegt líf. Sögur Auðar hafa verið vinsælar meðal lesenda og hafa þrisvar sinnum verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árið 2004 hlaut hún svo verðlaunin fyrir Fólkið í kjallaranum. Leikgerð sögunnar sló einnig í gegn á fjölum Borgarleikhússins nokkrum árum síðar og undirrituð man eftir einstaklega eftirminnilegri og vel leikinni sýningu. Ósjálfrátt, sem hér um ræðir, er sjötta skáldsaga Auðar. Á heimasíðu skáldkonunnar segir að lesendur hafi beðið bókarinnar enda nokkuð liðið frá því að síðasta skáldsaga hennar, Vetrarsól, kom út eða árið 2008.

Aðalþræðir Ósjálfrátt eru nokkrir. Hún er fjölskyldusaga sem segir sögu kvenleggsins í fjölskyldu aðalpersónunnar Eyju, og svipar reyndar til höfundarins sjálfs sem er ef til vill kölluð Auja af sínum nánustu. Það má því gera sér í hugarlund að sagan endurspegli bakgrunn og persónulega sögu höfundar.  Alkahólismi er mikilvægt viðfangsefni í sögunni en tvær persónur úr innsta hring aðalpersónunnar eiga við drykkjuvandamál að stríða. Þá mætti einnig lýsa Ósjálfrátt sem samfélagslegri og raunsærri tímabilssögu þar sem fram koma áhrifamiklir atburðir í íslensku samfélagi; annars vegar snjóflóðin á Vestfjörðum hina snjóþungu vetur 1995 og síðar kreppuástand í þjóðfélaginu haustið 2008. Í báðum tilfellum er varpað ljósi á raunverulega og sögulegu atburði út frá mikrókosmos einstaklingsins, Eyju sjálfrar, og höfundur tekur að sér að setja þessa atburði í skáldskaparlegt samhengi. En umfram allt er Ósjálfrátt þroskasaga rithöfundar og lýsir á áhrifamikinn hátt hvernig Eyja, sem í upphafi sögunnar er eilítið afvegaleidd og týnd unglingsstúlka, verður að rithöfundi, konu og móður. 

Sagan hefst á því að móður og móðurömmu Eyju liggur lífið á að koma stúlkunni úr landi, frá litlu plássi á Vestfjörðum og eiginmanninum sem hún giftist í hálfgerðu stundarbrjálæði, fyllibyttu sem er tuttugu árum eldri en hún. Þær vilja senda hana til Svíþjóðar, hvar Eyja á að vinna í sumarbúðum sem afar hress og orkumikil frænka ætlar að koma á fót fyrir íslensk börn, en fyrst og fremst á hún að skrifa og klára sína fyrstu skáldsögu. Sagan flakkar svo í tíma og rúmi og sögutímarnir eru í raun margir. Við fáum glefsur úr æsku Eyju sem leggur grunninn að paradísarmissinum síðar meir, þegar alkahólismi móður hennar ágerist og skilnaður foreldra hennar splundrar heimilinu. Þá er einnig farið aftar í tímann og athyglinni beint að móðurömmu Eyju um það leyti er hún giftist manninum sínum, rithöfundinum og síðar nóbelsverðlaunahafanum, og þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn og upplifði það sem Eyja kemst að síðar að hafi verið fæðingarþunglyndi. Sagan ferðast líka enn aftar í tímann og segir sögu langömmu Eyju, en einnig fáum við veður af Eyju sjálfri löngu seinna, þegar hún hefur kynnst „framtíðareiginmanninum“, skrifað nokkrar skáldsögur og upplifir bæði utanaðkomandi kreppu, sem tengist fjárhagslegu hruni íslensks þjóðfélags, og hálfgerðri innri kreppu í formi ritstíflu: Hvað á hún að skrifa næst? Jú, söguna af því hvernig hún varð rithöfundur og hvernig skáldskapurinn bjargaði beinlínis lífi hennar. Sú saga er einmitt sú sem við lesendur höfum í höndunum og þessi pistill fjallar um.

Mæðgnasambandið er þungamiðja þroskasögunnar og sögunnar um það hvernig Eyja varð rithöfundur. Móðir Eyju var sjálf frómur pistlahöfundur en hættir að skrifa og byrjar að drekka. Eyja lýsir því hvernig eins hefði getað farið fyrir henni ef amma hennar og mamma hefðu ekki brugðist við og sent hana úr landi. Eyja dáist að rithæfileikum móður sinnar og langar að verða eins góður penni og hún. Hún lýsir því í textanum hvernig margar af sögunum sem hún skrifar séu upprunalega komnar frá móður hennar (en í viðtölum hefur Auður sagt það sama fyrir sitt leyti). Eins og öllum börnum þykir Eyju ákaflega vænt um móður sína og sú væntumþykja skilar sér bersýnilega í textanum þegar Eyja lýsir góðum hliðum móður sinnar af hlýju og næmni. En hún dregur heldur ekkert undan þegar hún skrifar um drykkjusýki hennar og hvernig hún umturnast í erfiða og hreint út sagt ógeðfellda persónu þegar hún drekkur.

Sú lýsing er í ætt við aðrar hispurslausar lýsingar á því fólki sem stendur Eyju næst en ætla má að skáldskaparleg fjarlægðin og samhengið færi henni ákveðna leið til að takast á við þessa erfiðleika. Kannski ekki til að gera þá upp, heldur frekar til að sýna fram á hvernig þeir eru hluti af lífinu og henni sjálfri – þeirri sem hún er í dag. En þó að lýsingarnar geti orðið ljótar eru þær aldrei niðrandi og þó að karakterarnir séu erfiðir verða þeir aldrei að öllu leyti óviðkunnanlegir; þeir eru einfaldlega mannlegar og breyskar persónur sem hafa sína kosti og galla. Þessi meðferð raunverulegra persóna í skáldskapartexta er örugglega vandmeðfarin en Auði tekst það afar vel, enda ein af ástæðunum að hún gerðist rithöfundur; til að reyna að skilja sína nánustu, umhverfi sitt og kannski um leið sjálfa sig?

Ósjálfrátt er einnig stútfull af stórskemmtilegum lýsingum og bráðfyndnum senum. Til að mynda þeim sem tengjast hinni bráðhressu Rúnu skíðakonu, sem er frænkan sem Eyja fer með til Svíþjóðar og þarf að gjöra svo vel að gegna, og af nóbelafanum sem óttaðist ekkert frekar en að vera skilinn eftir með ungabarni sem gert hafði í buxurnar. Þá hefur sagan einnig að geyma ógleymanlegar og einstaklega fallegar og hlýjar senur. Til dæmis þegar Eyja lýsir fæðingarþunglyndinu sem hrjáði ömmu hennar, móður og loks hana sjálfa. Í kaflanum „Óminnið“ eru dregin upp tengsl á milli mæðgnana og segir: „Stundum hvarflar að Eyju að fjölskyldusaga hennar hefði orðið allt önnur ef krossaprófin í mæðraeftirlitinu hefðu komið fyrr til sögunnar.“ (348)   

Eins og Auður sagði í viðtali í Kiljunni er titill sögunnar Ósjálfrátt komin frá móður hennar, eins og svo margt annað á rithöfundarferli Auðar. Titillinn dregur fram mikilvægi og áhrif kvennanna í ætt Eyju en í bókinni er því lýst hvernig langamma hennar og systur stunduðu ósjálfráða skrift á árum áður. Ósjálfráð skrift þótti „nýmóðins“ á þeim tíma og tengist ekki aðeins skáldskap heldur spíritisma sem var nýaldarspeki þess tíma. Eyja lýsir því hvernig hún skrifar í gegnum langömmusysturnar, sækir efni til þeirra í sögu sína og hvernig skrif ganga í kvenlegg í hennar fjölskyldu, sem er athyglisvert í ljósi þess að Eyja á þennan mikla bókmenntaafa. Stíl sögunnar mætti einnig á vissan hátt lýsa sem ósjálfráðum, hann flæðir áfram og dregur ekkert undan. Þá má segja að margt í ævi Eyju gerist ósjálfrátt.

Áður en ég lýk þessum pistli má ég til með að nefna snjóflóðin fyrir vestan sem verða viðfangsefni Auðar í þessari bók og afar mikilvægur þáttur í lífi Eyju. Þrátt fyrir að ég hafi aðeins verið barn þegar flóðin féllu er minningin um þau ljóslifandi og sárt að rifja upp. Sárt en samt sem áður nauðsynlegt til að minnast þeirra sem létust og einnig allra þeirra sem búið hafa í þessu landi og lifað slíkar hörmungar. Í ljósi þess er einkennilegt að ekki sé oftar minnst á þau, að rithöfundar, listamenn og aðrir velti þeim ekki oftar fyrir sér. Hér er ég ekki að hvetja til þess að fólk í skapandi störfum velti sér upp úr harmrænni reynslu annarra. Aftur á móti held ég að skráning slíkra atburða í listrænu samhengi sporni hugsanlega gegn því að þeir, og það „tráma“ sem þeim fylgdi, falli í gleymsku.

Vera Knútsdóttir, janúar 2013