Um bókina
Í Sálumessu kristallast saga þjóðarinnar frá upphafi byggðar til okkar daga. Þær fimm tengdu frásagnir sem hér birtast eiga það sameiginlegt að greina frá merkum tímamótum í sögu okkar.
Hér segir meðal annars af hnignum goðaveldisins á 12. öld og endalokum Þingeyrarklausturs með siðaskiptum. Við kynnumst hugdirfsku og fórnum íslenskrar alþýðu við upphaf tæknialdar og dregin er upp mynd af þeim veruleika sem blasri við Íslendingum samtímans. Af samhenginu má ef til vill ráða hvers er að vænta af framtíðinni.
Úr Sálumessu
Á Þingeyrum þurfti níu burðarklára til að lesta allar bækurnar, handritin og skjölin, vel um búin, til fararinnar austur um héruð. Teitur ungi stýrði mönnum sínum af röggsemi og tók við fyrirmælum Helga ábóta með því að endurtaka hvert orð hans. Bræðurnir aðstoðuðu og fylgdust náið með hvernig bögglum var komið fyrir á klifberunum.
Lárentíus og Teitur höfðu hist á laun kvöldið áður en bókalestin lagði af stað. Lárentíus leyndi ekki ánægju sinni en Teitur var stilltari. Sagðist hafa áhyggjur af því að brátt fréttist milli kirkna og klaustra að ekki hefðu allir hestburðirnir komist til skila á Hólum. Lárentíus reyndi að róa Teit. hann hafði merkt fáeina böggla sem áttu að verða eftir á Flugumýri, hjá Brjáni Björnssyni, sem hafði verið einna hangengnastur gamla sið og Jóni biskupi. Í þeim voru mestu dýrgripirnir. Annað flyttist til Hóla og því yrði að treysta að ekki væri skoðað í alla bögglana en þeim komið í geymslu þar til klaustrið bæði um þá. Hlutverk Teits væri að reyna að láta svo fara. Engum á Hólum mætti heldur trúa fyrir sannleikanum. Á Flugumýri skyldu útbúnir bögglar með skinnpjötlum og trjábútum í stað þeirra sem geyma átti og nota sömu umbúðir utan um þá og bækurnar. Teitur yrði að víxla bögglum þegar menn sæju ekki til. Hvað gera ætti við ritin að lengri tíma liðnum, mátti ræða seinna.
Saman skráðu þeir bækurnar sem skilja átti eftir á Flugumýri. Lárentíus geymdi örkina.
- Vonandi vita orð þín á gott, júngmann Teitur. Við bræðurnir og almættið eigum þig einan að með þetta. Ég myndi treysta þér fyrir lífi mínu hvar og hvenær sem væri.
Þeir sátu á bekk við hesthúsið. Lárentíus sneri sér að Teiti. Teitur leit undan eftir drjúga stund og tautaði: - Segjum það.
- Hefurðu stundum hugsað til útlanda, íhugað að sigla og ferðast um lönd? Alla leið til rómar, Aþenu eða Miklagarðs til að sjá undur heimsins, spurði Lárentíus allt í einu.
- Vissulega, en engar áætlanir gert, hér hef ég haft nóg að gera og skoða. En þú?
- Aldrei í neinni alvöru, enda ekki á mínu færi. Læt hugann reika þegar ég má vera að og hef lesið margt. Ég hef heitið guði ævarandi þjónustu í klaustri og þar með bundist þessu landi með óljósa framtíð og í uppnámi. Hér verður gröf mín einhvern daginn tekin.
- Ólíkt höfumst við að, bróðir Lárentíus.
- Ætli guð geri upp á milli okkar þegar þar að kemur, júngmann Teitur?
- Við erum altént vinir, svaraði hann.
- In aeternum et semper. Lárentíus kinkaði kolli og signdi sig.
- Það styttist líklega í enn eina heimsóknina hingað. Teitur lyfti brúnum.
- Vonandi menn sem fara með friði, sagði Lárentíus.
- Sjáum til. Sorgin hefur sest að í stað reiði. Á Hólum er rætt um að fara suður og fá lík þeirra Jóns biskups, Björns og Ara flutt norður.
- Skiljanlega, og eflaust eru menn í þeirri ferð velkomnir á Þingeyrum, svaraði Lárentíus, en farðu varlega og komdu heill ef þú ríður með þeim.
- Það skulum við vona. Vale.
(118-20)