Ofgnótt hefur verið helsta einkenni á skáldskap Stefáns Mána - allavega frá og með Hótel Kalifornía; ofgnótt í tungumáli sem birtist í ofurnákvæmum drekkhlöðnum lýsingum á umhverfi, atburðum og aðbúnaði og er einhvernveginn alltaf heillandi, þrátt fyrir að lesönd sé á stundum byrjuð að bölva þessum eilífa orðavaðli og jafnvel fletta síðum til að telja hvað sé mikið eftir. Meira að segja í Túrista, síðustu skáldsögu Stefáns Mána og eina verki hans sem ekki gekk fyllilega upp, var ofgnóttin það sem gladdi mest og dreif lesturinn áfram, eins þversagnakennt og það hljómar. Og enn á ný býður höfundur uppá gnægtir, skáldsagan Skipið býr yfir öllum bestu höfundareinkennum Stefáns Mána, og öllum verstu líka, nema að þessu sinni hefur honum tekist að snúa vörn í sókn, málalengingarnar og löngu löngu lýsingarnar verða aldrei um of, eiginlega þvert á móti, svo að ég fann mig næstum í því að endurskoða viðhorf mitt til styttinga í fyrri bókunum - var það ekki bara eitthvað sem mér fannst eftirá? Leiddist mér raunverulega nokkurntíma yfir Svartur á leik, til dæmis? Er eitthvað að því að bækur - allavega sumar bækur - séu rosalega langar?
Skipið skríður frá landi, drekkhlaðið vandræðum (en með tóma lest. Það er á leiðinni til Súrínam til að ná í súrál og þannig séð mætti alveg (með tilliti til ‘umræðunnar’) sjá söguna sem táknsögu um íslenskan áliðnað, að skipið sé táknmynd eyjunnar Íslands sem gerir útá álið með skelfilegum afleiðingum). Hér er engu til sparað. Fragtskipið Per se “var smíðað í Kína fyrir tíu árum, er í eigu fjárfestingafyrirtækis í Malasíu, skráð í Monróvíu og hefur verið á leigu hjá íslenska flutningafyrirtækinu Pólarskipum síðustu fimm árin” (19), að auki hvílir á því bölvun, eins og þessi upptalning sé ekki nóg, það hét upphaflega Noon “en undir því nafni varð skipið alræmt eftir lögreglurannsóknir vegna tveggja morða og þriggja sjálfsvíga sem voru framin á því á rúmlega tveggja ára tímabili” (136). Og þetta er bara skipið sjálft. Áhöfnin er engu minna skrautleg, en naumur meirihluti hennar (fimm af níu) skipuleggur uppreisn á hafi úti, því það á að segja þeim upp. Einn uppreisnarmannanna, Sæli háseti, er stórskuldugur eftir tap í spilavíti og ásóttur af handrukkara sem nefnir sig Kölska. Kölski er nafn sem Jón Karl Esrason, sjómannssonur og glæpon, hefur tekið sér, en hann endar líka um borð, eftir nokkuð óvænta árás annarra glæpamanna og hrapallegan flótta. Að auki er stýrimaðurinn, Jónas, nýbúinn að drepa eiginkonu sína, en hann er annars frelsaður, öfugt við kyndarann sem dýrkar satan, eða bara kölska, og hefur lesið yfir sig af verkum H.P. Lovecraft. Yfirstýrimaðurinn, Jón Sigurðsson, er fasisti, yfirvélstjórinn, Jóhann ‘risi’ Pétursson, er kommi og kokkurinn Ási virðist vera hommi. Sá eini sem er nokkuð laus við öfgar er skipstjórinn, Guðmundur Berndsen, en þó er hjónaband hans slæmt. Já svona er ástandið þegar lagt er úr höfn og þá barasta byrjar það að versna. Í ljós kemur að Jón Karl er ekki Kalli mágur Jónasar eins og menn héldu, heldur glæpon og þá fer titringur um mannskapinn, uppreisnin er kæfð í fæðingu og skipið er sambandslaust því Jónas sker á allt fjarskiptasamband til að koma í veg fyrir að hvarf konu hans fréttist. Og svo er að sjálfsögðu stöðugt óveður, svo ekki sé talað um...
Kannski ég láti þetta nægja. Ég hef einstaka sinnum leyft mér að nöldra ofurlítið yfir skorti á plotti í íslenskum skáldskap en hér eru gnægtir af plotti, líkt og öllu öðru. Persónusköpunin er, til dæmis, auðug og lífleg. Þeir Sæli og Jón Karl minntu í fyrstu óþarflega mikið á Stefán Kormák og Brúnó í Svartur á leik, en verða fljótlega að nýjum persónum í nýrri sögu. Sérstaklega var skemmtilegt að fylgjast með því hvernig karakter Jóns Karls er spilaður, en þar nýtir höfundur sér greinilega reynslu úr fyrri sögu og leikur sér svo að því að föndra persónuna áfram í nýjum kringumstæðum. Stíllinn er sömuleiðis alltaf að styrkjast, hér er mikið af endurteknum stefjum, líkt og einkenndu Túrista og höfðu einnig sést í fyrri sögum. Sama senan er skoðuð útfrá ólíkum sjónarhornum með tilheyrandi breytingum, og sömu lýsingarnar endurtaka sig í mismundandi samhengi. Þannig er búinn til taktur, sem slær í takt við siglingu skipsins og ölduna sem brýtur á því, en sá taktur er reglulega sleginn í gegnum alla söguna, stundum með aukastefjum. Myndmálið er að sjálfsögðu ofhlaðið og einföldustu lýsingar eru notaðar til að gefa tóninn, eins og í upphafi bókarinnar þegar húsi Jóns Karls er lýst: “Við innkeyrsluna að húsinu standa steinljónin eilífan vörð og láréttir gluggarnir loga eins og augu í skepnu sem hvorki er gömul né ný, raunveruleg né ímynduð” (15). Hér má greina bragð af kölska sjálfum og þeim margvíslegu myndbirtingum hans sem ganga í gegnum alla söguna. Allt, persónur, stíll, myndmál, vinnur þetta saman og skapar magnað andrúmsloft sem auðvelt er að sogast inní, ég varð sjóveik og barðist við vinda og rigningu (bókstaflega reyndar, því í eina skiptið sem ég gat slitið mig frá lestrinum til að skjótast út fyrir hússins dyr lenti ég í roki og sudda) og upplifði sterkt þá sérstöku tilfinningu sem höfundur skapar af lífinu um borð.
Í lok bókarinnar nefnir Stefán Máni þrjá höfunda, Sartre, fyrrnefndan Lovecraft og Morrison (ekki myndasöguhöfundinn Grant (sem þó má greina þarna inná milli línanna), heldur söngvarann Jim), en áhrif þeirra eru öll greinileg í verkinu. Að auki er gaman að skoða ummerki fjórða höfundarins, Edgar Allan Poe, á skipinu, en dramatísk sigling þess og atburðarásin um borð minnti mig stöðugt á ókláraða skáldsögu Poe, Ævintýri Arthurs Gordons Pym, sem kom út árið 2003 í frábærri þýðingu Atla Magnússonar. Fyrir utan dramatíska atburðarás eiga þessar sögur það sameiginlegt að um borð er einstaklingur sem ekki á að vera þar og svo enda þær á sama stað. Poe er reyndar laumufarþegi í þakkarrunu Stefáns Mána, því hann var mikill áhrifavaldur á H.P. Lovecraft. Best er að ítreka strax að engin þessara áhrifa eru til vansa né hafa þau nokkuð með ritstuld eða eftirhermu, með eða án gæsalappa, að gera, heldur vinna einmitt skemmtilega með verkinu. Hér bætist Stefán Máni því í fríðan flokk rithöfunda sem spinna önnur verk inní sín eigin, og skapa með því nýjan vefnað texta, vefnað sem (svo ég gerist nú svo ósvífin að lýsa bókmenntafræðilegu hugtaki) hefur áhrif á áhrifavaldana, ekki síður en hið nýja verk.
Að lokum langar mig að nefna kápuna sem er sérlega skemmtileg og bætir enn við textavefnaðinn, en þar birtist mynd af skipi sem er í sama dúr og fjölmargar birtingarmyndir draugaskipa í gegnum kvikmyndasöguna, með eldingum og allt. Letrið er sömuleiðis smart og allt bætir þetta við og eykur á annars afar ánægjulega lestrarupplifun.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2006