Útvarpsleikrit. Flutt í Útvarpsleikhúsinu 2001.
_______________________________________
Úr Snóker:
FRISSI:
Siddi. Veistu, það er nákvæmlega þetta sem ég meina. (Undirbýr stuð). þú lætur alla spila með þig.
SIDDI:
Nú?
FRISSI:
(Hættir við). Ég var að ljúga þessu.
SIDDI:
No-hoj!
FRISSI:
Djísus kræst, Siddi. Eins og einhver geti bara pikkað upp dömu með því að morsa til hennar yfir höfnina Meina, þú ert ekki hægt, maður! Einhver er að taka í kellinguna þína. Og hvað gerir þú? Ekki neitt! Notar ekki einu sinni sénsinn til að halda framhjá henni. In keis. Svo þú sért örugglega kvitt. Meina, hvað mundirðu gera ef þetta væri satt? Hvað mundirðu gera ef hún væri með einhverjum? Ha? Mundirðu gera eitthvað? Ha? Djísus! (Tekur stuðið. Laust). Hvað ef hún væri að gera það með mér? (Kúlan dettur í gat. Hann fagnar lágt). Jess!
SIDDI:
Með þér?
FRISSI: Aha …
SIDDI:
Er hún að því?
FRISSI:
Nei! Ég meina: NEI! En ég meina, hvað ef? Ha? Hvað ef? þú veist. Hvað ef það væri nú tilfellið? (Tekur stuð. Kúlan strýkst við aðrar kúlur, fer svo af batta á bak við hinar kúlurnar). Hana! þar tókst mér að setja snóker á þig. Þú átt leik.