Beint í efni

Sogið

Sogið
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Yrsa Sigurðardóttir hlaut íslensku glæpasagnaverðlaunin fyrir bók sína DNA sem kom út á síðasta ári og segir þar meðal annars frá seinheppna lögreglumanninum Huldari og sálfræðingnum Freyju. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Yrsa hvílir sig á lögfræðingnum Þóru og kynnir nýja rannsóknaraðila til sögunnar, en hingað til hefur það lið ekki öðlast framhaldslíf. En nú bregður svo við að Huldar og Freyja eru mætt til leiks á ný í Soginu.

Sogið er að mörgu leyti áþekk DNA og lýsir röð afar óhugnanlegra morða. Huldar hefur verið settur af sem yfirmaður eftir örlagaríka atburði undir lok síðasta máls, og Freyja þarf sömuleiðis að þola stöðulækkun. Huldar er feginn en Freyja fúl – og sérstaklega fúl út í Huldar, en samband þeirra hófst ekki beint gæfulega í DNA. Niðurlækkun Huldars felst meðal annars í því að honum eru fengin verkefni sem þykja léttvæg, eins og að kanna undarlegt bréf sem kom upp úr tímahylki, skrifað af skólakrakka tíu árum fyrr. Bréfið leiðir hann til ungs manns sem reynist sonur barnaníðings, sem er nýkominn úr fangelsi. Fjölskyldan er öll skemmd og bæld og sonurinn Þröstur er goth-ari, gataður, reiður og svartklæddur. Og hann neitar með öllu að útskýra bréfið. Huldar fær Freyju til að koma með sér og tala við piltinn og systur hans, en reynsla hennar af starfinu í Barnahúsi gerir hana sérlega færa um það. Þegar hún fer að grennslast fyrir um soninn og mál sem tengjast honum og föðurnum er fátt um svör og gögn virðast horfin.

Á sama tíma finnast tveir afhoggnir handleggir af óþekktum manni í garði saksóknara á eftirlaunum. Stuttu síðar er saksóknarinn drepinn á hroðalegan hátt. Huldar er einn þeirra sem finnur handleggina og þrátt fyrir að vera í ónáð þvælist hann inn í rannsóknina og tekst að gera sig gildandi þar. Málin eru afar dularfull og tengslin milli mannanna óskiljanleg, þó ljóst sé að þau séu til staðar.

Inn í söguna blandast svo ung fráskilin kona og börn hennar tvö, en eiginmaðurinn fyrrverandi er háttsettur, hrokafullur saksóknari sem fær óhugnanleg skilaboð í upphafi sögunnar, án þess þó að gera neitt með þau.

Það er því ljóst að þarna eru miklar hindranir í vegi og eins og algengt er í glæpasögum eru allir aðilar sparir á upplýsingar sem síðan leiðir til frekari hörmunga. Það verður að segja eins og er að á stundum er tregða fólks til upplýsingagjafar í sakamálasögum nokkuð óskiljanleg, en hér á hún sér góðar og gildar skýringar; Yrsa fellur ekki í þá gildru að láta skortinn á upplýsingaleysinu stafa af almennri þrjósku og hugsunarleysi, heldur eru ástæðurnar hluti af lausn málsins.

Í það heila fannst mér Sogið betra verk en DNA. Sem fyrr er stíll Yrsu nokkuð stríður, en það er betra jafnvægi í sögunni og húmorinn hæfilega galsalegur, án þess að verða gáleysislegur. Lausnin hefði mátt vera aðeins betur undirbyggð, en er þó ekki óvænt uppákoma. Yrsa hefur alltaf hallast að hryllingi og óhugnaði í glæpasögum sínum, stundum með yfirnáttúrulegum undirtónum og stundum ekki. Hér er farin svipuð leið og í Þóru-bókunum, sett er upp andstæða milli hins borgaralega hversdagslífs og hins illa sem tilheyrir því ekki – eins og kemur berlega fram í lýsingum á húsakosti barnaníðingsins og útliti sonarins sem er greinilega afleiðing þess sem hann hefur mátt þola. Þessir tveir heimar skarast lítið, meira að segja glæpaheimurinn almennt er ekki svo slæmur eins og sést best á bróður Freyju sem situr í fangelsi fyrir ítrekaðan þjófnað en virðist ekki hafa áhyggjur af því, heldur stundar öflugt ástalíf í krafti Tinder.

Þó þessi andstæða geti virkað nokkuð einfeldningsleg, þá er henni jafnframt hafnað þegar líður á verkið og brestirnir í hinu borgaralega kerfi koma í ljós. Sú afhjúpun er óvægin og þrátt fyrir að Huldar taki lífinu frekar létt og haldi áfram að eltast við Freyju er ljóst að glæpirnir sem liggja verkinu til grundvallar eru ekki léttvægir.

Svona sem eftirskrift þá er áhugavert og umhugsunarvert að fá fréttir af samskiptavanda innan lögreglunnar á sama tíma og ég les tvær glæpasögur, Dimmu og Sogið, sem leggja nokkra áherslu á að lýsa samfélagi lögreglumanna sem stórlega gölluðu, ekki síst hvað varðar samskipti, virðingu og stöðu kvenna.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2015