Beint í efni

Sprengikraftur sköpunargleðinnar

Sprengikraftur sköpunargleðinnar
Höfundur
Hallgrímur Helgason
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Rósa María Hjörvar

Hallgrímur Helgason er í dag einn virtasti höfundur landsins. Í augum almennings er nánast orðið samasem merki á milli hans og íslenskrar bókmenningar. Það er þó langt frá upphafi höfundar sem ýfði upp allt og alla á tíunda áratug síðustu aldar með eldheitum yfirlýsingum og gjörningaæði. Frá árinu 2001 hefur hann með öruggri hendir skilað bókverkum inn í deigluna sem hafa sett ný viðmið í efnistökum og ádeilu. Hann hefur verið óhræddur við að taka fyrir jafnvel stærstu fyrirbæri íslenskrar menningar og sigraði loks hjörtu landsmanna með sögum sínum af sveitavolæði á Segló. Stílinn hefur einnig tekið stakkaskiptum eða öllu heldur hefur fundið sinn farveg, ekki í framúrstefnu heldur í einhverskonar úrvinnslu úr fornum sagnahefðum með einstöku stílsniði Hallgríms í ofanálag. Við það bætist svo stór alþjóðlegur lesendahópur, sem Hallgrímur hefur heillað með lýsingum sínum á landi og þjóð. Hann nýtur, að því sem virðist, mestra vinsælda í Þýskalandi, en hefur líka hlotið viðurkenningar hjá menningarvitum Frakklands.

Hann hefur samt ekki sagt skilið við hlutverk sitt sem samfélagsrýnir og tekur enn virkan þátt í samfélagsumræðunni. Við upphaf tímabilsins lenti hann í stormasömum átökum við hægrimenn vegna ummæla hans um bláu höndina, en þar vísar hann í kenningar manna um ítök ákveðna hægrimann hér á landi. Og í tengslum við nýyfirstaðnar þingkosningar nú í haust lét Hallgrímur orð sín dynja á þeim stjórnmálamönnum sem reyndu að nota andstöðu við útlendinga til þess að auka fylgi sitt. Því má segja að hann sinni enn hlutverki sínu sem gagnrýninn menntamaður af fullum krafti.

Sama má segja um myndlistina, en Hallgrímur er myndlistamaður og hefur sinnt henni jöfnum höndum frá upphafi. Eftir útgáfu verksins Sjóveikur í München (2015) talaði höfundur um að hann hefði fundið nýtt frelsi til listsköpunar, en bókin fjallaði um erfiðan tíma og áföll í lífi skáldsins.[i] Þannig er ljóst að skrif og myndlistasköpun Hallgríms eru samofin, sem er líka auðséð á yfirlist sýningu yfir verk Hallgríms sem haldin var á Kjarvalstöðum í ár, en þar var farið yfir feril listamanns sem nú spannar hátt í 45 ár.

Höfundur Íslands

Í lok árs 2001 kemur út skáldverkið Höfundur Íslands þar sem rithöfundurinn Einar J. Grímsson vaknar í eigin verki. Bókin er eins og rússnesk brúða þar sem hvert verkið er innan í öðru, þannig er hugmyndin byggð á Sjálfstæðu fólki, en einnig ævisögu Halldórs Laxnes og Sjálfstætt fólk var, eins og kunnugt er, á sínum tíma svar við bók Knut Hamsuns Gróður Jarðar (1917). Hér er því um túrbó textavensl að ræða. En á sama tíma er þetta mjög einföld frásögn um mann sem, eftir andlát,  vaknar í eigin verki og lifir aftur á bak í gegnum það þar til sagan hefst að nýju. Þannig er formgerðin í raun mjög hefðbundin þó hún á yfirborðinu virki róttæk.

Verkið tekst á við hugmyndir um höfundarverk og sköpun og lesendur upplifa skáld sem tekur himinn af einum stað til þess að líma hann inn á öðrum stað án þess að taka tillit til þess fólks sem býr undir honum. Hallgrímur var ófeimin við að tilkynna að hér væri verið að fjalla  um Halldór Laxness, enda er það greinilegt á verkinu að það fylgir æviágripum hans. Nóbelskáldið, eins og hann var gjarnan kallaður setti svip sinn á allt bókmenntalíf Íslendinga alla tuttugustu öld, og hafa margir höfundar talað um að reyna að fóta sig í skugga hans. Við aldamótin er líkt og ungur Hallgrímur hafi ákveðið að ryðja þessu ljóni úr vegi, í eitt skipti fyrir öll og einfaldalega ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur. Niðurstaðan er vægðarlaus meðhöndlun á Halldóri, þar sem Sovéttrú hans, kvennamál og allskonar hégómi er dreginn fram, auk þess sem lesendur upplifa skáldið í ýmsum líkalegum athöfnum sem hafa hingað til ekki ratað á blað. Þetta er allsherjar afhelgun á einu helsta átrúnaðargoði íslenskra bókmennta. En um leið upphafning og minnir þannig á þegar ungt dýr í hóp leggur gamla karldýrið að velli, um leið og það sýnir því tilsetta virðingu, vitandi að það eigi líklega sömu örlög í vændum. Karldýr tekur við af karldýri. Hallgrímur talar um mikilvægi þess að sinna arfleifð Halldórs í viðtali við Val Gunnarson sem nefnist „Nobody is afraid of Laxness anymore“[ii] og segir þar Halldór vera besta höfund Íslendinga, og í viðtölum við útgáfu verksins nefnir hann oft aðdáun sína á skáldinu. Verkið vakti miklar tilfinningar, og voru margir afdráttarlaust með eða á móti því í anda kaldastríðsárana. Með því að ráðast að höfuðskáli vinstri manna eignaðist Hallgrímur nýja stuðningsmenn meðal hægrimanna sem stuttu áður höfðu verið æfir við hann vegna handaummæla. Þannig setti verkið allt af stað og þar með fleiri ritdeilur, sem fæstar fjölluðum um bókina en voru hluti af langdregnu uppgjöri eftir kaldastríðsárin.

Það eru í þessi verki tvö einkenni sem eiga eftir að fylgja Hallgrími næstu ár, annarsvegar það skáldaleyfi sem höfundur tekur sér með því að skrifa um alvöru fólk og hins vegar hugmyndir um alvald höfundar. Alvald höfundar er miðlægt í verkinu, bæði í því að Einar J. er höfundur sem hefur skrifað heila þjóð, hann er þjóðskáld, hann er höfundur Íslands, en líka á meta stigi, þar sem höfundurinn Hallgrímur hefur allt í hendi sér og getur raðað saman að vild. Við það bætast svo vangaveltur um þjóðerni og eðli mannsins sem verða fyrirferðarmeiri þegar á líður höfundaverkið.

Almættið og Sauðarkrókur

Í bók sinni Herra  Alheimur (2003) nær Hallgrímur nýjum hæðum. Eftir að hafa tekið fyrir þjóðskáld íslendinga þá skrifar hann hér í orðastað almættisins. Guð sjálfur, leikinn af Marlon Brandó, fylgist með sköpunarverki sínu og úr verður spennusaga í anda Hollywood. Þetta er tilraun Hallgríms til þess að nálgast dægurmenningu með ofsafenginni epík, en sýnir jafnframt að honum er ekkert heilagt. Það er erfitt að greina þennan texta, sem er á vissan hátt birtingarmynd sköpunarflæðis sem verður eftir að íslenskt samfélag opnast gangvart nútímanum. En á Íslandi sátu menn óvenju lengi fastir í viðjum kalda stríðsins og það er ekki fyrr en með fjármagnsbyltingunni eftir aldamót að menningin fer að breytast. Frá því að hafa vera föst í mjög takmarkandi menningarhugmynd eru mönnum nú allri vegir færir og allt má. Það verður ákveðið hamhlaup á þessum árum. Svo strandar það svo í hruninu og þjóðin þarf þá að horfast í augu við sjálfa sig með allt öðrum formerkjum. Bók Hallgríms er eitt dæmi um þessa hamlausu sköpunargleði sem varð þegar allt var hægt. Og frá hæstu hæðum ferðumst við í Roklandi (2005) inn í allra minnsta samhengið, en verkið gerist að mestu á Sauðarkróki. Sem er á sinn hátt andstæða himnaríkis. Hér fylgjumst við með Bödda, sem er snúinn heim eftir dvöl erlendis og finnur sig ekki í íslenskri dægurmenningu. Karakter hans er ekki mikið fyrirferðarminni en almættisins og dómharkan sínu verri. Böddi er of stór fyrir Ísland og of lítill fyrir heiminn og lesendur fylgjast með innri baráttu þessa hálflesna manns í gegnum sætt og súrt á Sauðakróki. Í verkinu birtist aftur þessi sterki höfundavilji sem mótaði fyrir í Höfundi Íslands og Alda Björk Valdimarsdóttir fjallar um í bók sinni Rithöfundur Íslands (2009). Hann birtist helst í því hvernig rödd höfundar smýgur inn í alla þætti verksins og virðir engin hefðbundin mörk – eins og á milli sögupersónu og höfundar. Þetta einkenni Hallgríms verður áberandi þegar á líður og nýtur sín kannski best í Sextíu kílóa þríleiknum, en það má líkja þessu við að sjá bíómynd með athugasemdum leikstjóra. Höfundur er einhvern veginn alltaf til staðar og tilbúinn að skýra málin fyrir lesendum.

Drepfyndni!

10 ráð til þess að hætta að drepa og byrja að vaska upp (2010) fjallar um króatískan leigumorðingja sem þarf að flýja annars velheppnaðan feril í New York og endar fyrir slysni á Íslandi og það í faðmi endurfæddra sjónvarps-kristna. Hann þarf að takast á við fortíðir sínar og finna einhverja framtíð á meðan hann reynir að viðhalda öllum þeim lygum sem hann skýlir sig á bakvið. Hann er siðlaus, karlremba og ansi kaldrifja - sem passar allt við staðalímynd leigumorðingja. Eins og í öðrum verkum Hallgríms á persónan til að renna saman við höfundarrödd og stundum tekst þessum klaufalega karli að lýsa umhverfi sínum af ótrúlegir snilld, kímni og innsæi. Hér er eitt af aðalmerkjum Hallgríms, fyndnin í fyrirrúmi, en hún litar öll verk hans og var í raun vandi þegar hann lagði  stund á listanám í Munchen þar sem hann fékk að vita að hann væri of fyndinn.

Íslendingar hafa ekki alltaf kunnað að meta fyndni, og telst leiðinlegt fólk hér á landi gjarnan gáfaðra en aðrir. Kímni hefur heldur ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá menningarvitum, og gjarnan flokkuð með lægri hvötum mannlífsins. Slík sýn á bókmenntir og listir er auðvita meingölluð – enda er hlátur og húmor drifkraftur í allri sköpun. Húmorinn hjá Hallgrími minnir þannig á andardrátt. Það er eins og hann geti ekki látið vera að grínast, gera orðagrín, draga upp karikatúr, setja sögumann í óþægilegar aðstæður eða henda fram ádeilugríni á samfélag og samferðarmenn. Þessi andi grínsins er þannig yfir og allt umkring og er oftar en ekki ástæðan fyrir því að höfundur stundum grípur fram í fyrir sögumanni. Eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir skrifar í umfjöllum Rokland þá skiptast lesendur í tvo hópa hvað varðar húmor Hallgríms, sumir fá nóg af orðagríni á meðan aðrir fá aldrei nóg af því góða.[iii] 

Bókin um leigumorðingjann seinheppna er líka dæmi um þau miklu hvörf sem orðið hafa í íslenskri menningu þegar hér er komið við sögu. Fyrir aldamót gerðist það varla að maður væri drepin í íslenskri skáldsögu, en nú í nýja tímanum hleypa höfundar útlenskum morðingjum til landsins. Sem kannski á sinn hátt er birtingamynd skuggahliðar fjármangsbyltingarinnar. Þegar landið opnast móti heimi opnast það fyrir allskonar fólki, og sjálf uppgötum við að þjóðin er allskonar og ekki lengur sveipuð sakleysi og einfaldleika. Og þó að grínið sé mikið, þá renna hægt og rólega tvær grímur á lesenda. Galsafullt ofbeldi og glens á rætur sínar að rekja til áfallasögu á Balkan og þeirri ólýsanlegu grimmd sem þar ríkti. Þannig verður þessi æðisgengni farsi að verki fullu af áleitnum spurningum, spurningum um húmor og afbeldi, hverju við hlæjum að og hvað liggur á bakvið. En í nútímamenningu er fagurfræði ofbeldis og háðs oft þéttofin í árennslulausum menningarafurðum, sem sjaldan staldra við og kanna sársaukan bak við ofsann.

Skáldað líf 

Ofbeldið er líka allsráðandi í Konan við 1000 gráður (2011) en þar kynnumst við Herborgu Maríu sem liggur í kör í bílskúr í Reykjavík. Hún slær hinsvegar ekki slöku við, er tröll á netinu og lætur gamminn geysa um liðna tíð. Hún hefur upplifað allt, ávallt verið í grennd við mannkynssöguna allt frá því að hún sem barn var skilin eftir ein á brautarpalli í miðri heimstyrjöld. Í gegnum lýsingar hennar upplifum við því sögu Evrópu á tuttugustu öld. Herborg er annarsvegar hluti af yfirstétt téðar álfu, sem barnabarn íslenska forsetans, og hinsvegar eitt af fórnarlömbum hennar. Hún er jaðarsett kona sem verður fyrir barðinu á stríðum, karlmönnum og sjálfri sér. Líkami hennar, sem nú bíður þess að kveðja er markaður áföllum. En húmorinn er þrátt fyrir alla erfiðleika, yfir og allt umkring, að hætti Hallgríms. Hér er heldur engin skortur á orðaleikjum orðagríni og leikandi myndmáli. Eins og Ingvi Þór Kormáksson bendir á í umfjöllun sinni:

Orðgnóttin er gífurleg og reynt á þanþol málsins. Tungumálið í stöðugri endurnýjun eins og Hallgríms er vandi. Það eru stuðlar, höfuðstafir, innrím og útrím og ótæpilegur fjöldi nýyrða.[iv]

Bókin fékk mjög blandaða móttökur. Sumir fögnuðu þessari hamslausu lýsingu á tilfinningalífi eldri konu, en þær eru sjaldan miðja bókmennta. En aðrir fundu sig knúna til að taka til varnar fyrirmyndinni. Verkið er á sinn hátt skáldævisaga Brynhildar Björnsson og hefur Hallgrímur sumt alveg óbreytt á meðan hann tekur sér veglegt skáldaleyfi með annað. Bókin vakti þannig umræðu um hvað skáld geta leyft sér að gera með ævisögur annara. Á vissan hátt er það sama umræða og skapaðist í kringum Höfund Íslands, nema hvað hér þótti enn lengra seilst inn í prívat lífið þar sem Brynhildur var ekki opinber persóna á sama hátt og Laxness. Aftur olli skáldverk Hallgríms ritdeilum sem ekki snérust beinlíns um verkið heldur um mörk skáldskapar og raunveruleika. Það virðist nauðsynlegt fyrir Hallgrím að fikra sig meðfram landmærum raunveruleikans í verkum sínum og öðru hverju draga hann inn í þau. Þetta sést líka í nýjustu verkum hans eins og farið verður yfir hér að neðan.

Sjóveiki og uppköst

En einmitt þegar gagnrýnendur Hallgríms telja hann hafa gengið allt of nærri öðrum snýr hann pennanum að sjálfu sér og afhjúpar erfiða tíma í eigin lífi í skáldævisögunni Sjóveikur í München (2015). Bókin fjallar um vetur í lífi unga Hallgríms þegar hann lagði stund á listnám í Þýskalandi. Verkið er skáldsaga, en lýsir einnig upplifunum hans, þar á meðal kynferðislegu ofbeldi sem hann varð fyrir þennan vetur. Við fylgjumst með Hallgrími sem þjáist af óstjórnlegri sjóveiki í München og kastar upp í tíma og ótíma, einhverskonar svartri steypu sem vekur bæði óhug og viðbjóð og minnir okkur á úrkastið sem er hvorki dautt né lifandi en ávallt nátengt sköpun. Eins og slefið á kókflöskunni er listin, þegar hún er best, hluti af okkur sem við skiljum eftir í heiminum. Og það er líka heila málið, Hallgrímur þarf að horfast í augu við sjálfan sig sem listamann, takmarkanir sínar og hæfileika. Bókin er einstaklega vel skrifuð og stíll Hallgríms nýtur sín í þessari hægu straumþungu frásögn um þroskasögu listamanns.

Tilhneiging höfundar til þess að blandast rödd sögumanns, og litar flest verk hans, nýtur sín vel hér. Sögumaður og Höfundur eru á vissan hátt sami maður, þó auðvita sé eitthvað fært í stílinn og því kannski eðlilegra að hann tali með einstökum stíl Hallgríms en þegar t.d. Einar J. Grímsson í Höfundi Íslands eða Böddi í Röklandi gera slíkt hið sama.

Þýðingar og leikverk

En Hallgrímur er ekki við eina fjölina felldur í listinni frekar en áður og verk hans rata líka á svið. Konan við 1000 gráður naut gífurlegra vinsælda á sviði Þjóðleikhússins og brátt verður frumsýnd leikgerð af fyrstu bókinni í Sextíu kílóa þríleiknum. Auk þess hefur Hallgrímur unnið við þýðingar á meðal annars Mouliér og Shakespeare. Hann hefur unnið náið með leikhópnum Vesturport og verk hans sett á svið erlendis.

Það er ástæða til þess að staldra við þá höfunda sem Hallgrímur hefur tekið að sér að þýða fyrir leikhús, aftur ræðst hann ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og er það til marks um stöðuga barráttu hans gegn meðalmennsku. En það er líka vert að athuga hversu heillaður höfundur er af þessum meisturum hins klassíska forms. Strangar formkröfur hjá Molière og Shakespeare eru líkt og fígúratívt málverk eitthvað sem Hallgrímur virðist tengja betur við en framúrstefnu og abstrakt verk. Eins og Alda Björk Valdimarsdóttir hefur bent á þá er Hallgrímur frá upphafi mjög gagnrýninn á alla framúrstefnu, þó hann laðist að fagurfræði og sprengikrafti póstmódernisma. Þessi klassísku form, gamanleikir, harmleikir og epík, virðast höfða mun betur til Hallgríms en frásagnarform samtímans.

Sextíu kíló af lifandi höfundi

Eitt af einkennum þessara klassísku forma er sterk og stöðug höfundarödd, það er einhver að segja sögu og það má treysta viðkomandi. Hugmyndin um höfundinn sem stöðuga miðju hefur átt undir högg að sækja frá millistríðsárum tuttugustu aldar. Eftir miðbik aldarinnar lýsti Roland Barthes því yfir að höfundurinn sé dauður, en það má segja að hann sé upprisinn hér í þriggja binda epík Hallgríms um sólskin á Seglufirði og í Dakóta (eða því sem næst).  Bækurnar Sextíu kíló af sólskini (2018), Sextíu kíló af kjaftshöggum (2021) og Sextíu kíló af sunnudögum (2024) mynda epískan þríleik Hallgríms um lífið á hinum ímyndaða Segulfirði. Prósi Hallgríms hér er þéttofinn öllum þeim þráðum sem einkenna stíla hans. Þannig er hér höfundur sem kynnir lesanda fyrir aðstæðum – verklagi og húsakosti, höfundur sem lætur gamminn geysa með gróteskum líkamleika, höfundur sveitarómantíkur, róttæka ádeiluskáldið sem dregur kjör alþýðumanna fram í dagsljósið og óþekka skáldið sem á það til að draga sprelllifandi fólk inn í frásögn sína. Höfundur ávarpar lesanda strax í upphafi verks og beinir augum hans að aðstæðumun á milli okkar og sögupersóna. Hann leikur sér að formum og rétt í upphafi gæti lesandi haldið að hér væri á ferðinni súrrealískt verk. En í stað þess tekur við frekar súr realismi : Lýsingar á sveitum landsins og aðstæðum fólks sem eingöngu fæst kyngt með góðum skammti af fyndni. Við kynnumst ógrynni af persónum en meginfrásögnin fylgir Gesti Eilífssyni og föðurímyndum hans. Hann fer alla leið til Ameríku og hittir þar fyrir Vestur-Íslendinga en ávallt er miðja verksins í kringum síldina á Segló. Þríleikurinn er líka glæpasaga, sem fjallar um gróf kvennamorð sem enginn rannsakar, það er kraftmikið stílbragð og óhugnanlegt hvernig þessi morð rata aldrei almennilega inn í miðju verkana – stílbragð sem speglar þá tíma sem verkið lýsir.

Eins og fyrr segir hafa þessi verk aukið veg og virðingu skáldsins hjá þjóð sinni, enda fjalla þau öðrum þræði um þessa sjálfhverfu örþjóð. Höfundur veltir í sífellu vöngum yfir því hvað einkennir þessa þjóð og hvað valdi. Alveg eins og Gestur leitar föður síns, leitar höfundur að eðli Íslendinga jafnt í moldarkofum sem í timburhöllum og hugmyndir um skáldaeðli Íslendingsins eru aldrei langt undan.

Hallgrímur Helgason er orðinn roskinn höfundur. Hann er ekki lengur riddari öldurhúsanna eða fulltrúi Reykvísku krakkana í bókmenntunum. Sköpunargleðin, fjölhæfnin og þörfin til þess að ögra eru hins vegar á sínum stað og því má segja að Hallgrímur sé enn í dag að þenja mörk tungumálsins og bókmenningarinnar. Hann hefur lagt hefðina að velli, skapað sinn eigin stíl og nú eignast stað í hjörtum landsmanna með stórbrotinni sveitaepík. Höfundarverk hans ramma inn umbrotatíma í íslensku þjóðfélagi. Frá óbilandi trú á eigin getu og útrás, í gegnum hrunið, yfir í efa og togstreitu. Samt er staðfestan rétt undir yfirborðinu, fæturnir kirfilega staðsettir í aldagmalli sagnahefð og vélin knúin áfram af galsa og sköpunargleði.
 

Rósa María Hjörvar, desember 2024

 

[i] „Það mátti ekki sjást mistök eða glufa sem myndi afhjúpa eitthvað“, viðtal á RÚV, Júlía Margrét Einarsdóttir, 27,oktober 2024

[ii] „Nobody is afraid of Laxness anymore“ viðtal við Val Gunnarson í The Grapewine, 16. Apríl 2019

[iii] Gunnþórunn Guðmundsdóttir, Rokland, umfjöllun á bókmenntavef, desember 2005

[iv] Ingvi Þór Kormáksson, Konan við 1000 gráður, umfjöllun á bókmenntavef, nóvember 2011