Beint í efni

Stolnar stundir

Stolnar stundir
Höfundur
Ágúst Borgþór Sverrisson
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Nóvella.

Um bókina:

Þórir á sér saklaust leyndarmál. Hann fæst við skriftir í leynilegum frístundum. En þegar kona ein hringir í skakkt númer og eiginkona Þóris verður fyrir svörum fer af stað sérkennileg atburðarás og friðsælu fjölskyldulífinu er skyndilega ógnað af þeim eyðileggingarmætti sem mannlegar ástríður búa yfir.

Úr bókinni:

Um leið og Þórir gekk inn um dyrnar greip hann sú tilfinning að ekki væri allt með felldu. Hann hafði oft fengið þetta hugboð áður, en hingað til hafði það alltaf reynst rangt. Vanalega byrjaði heimkomubeygurinn að krauma í honum á heimleiðinni, magnaðist eftir því sem nær dró og náði hámarki í útidyrunum; en þegar inn kom gagntók léttirinn hann: ekkert hafði breyst, þetta var bara ímyndun. Krakkarnir héngu kannski of mikið í tölvunum eða hún minnti hann á foreldrafundinn annað kvöld, eða rennslið úr eldhúsvaskinum var of hægt og hann varð að gera eitthvað í því. Eða það þurfti að kaupa nýja skó á strákinn því hann var að vaxa upp úr öllu og það var orðrómur um að vinkona stelpunnar væri byrjuð að fikta við að reykja. Áttu þau að tala við foreldrana? Áttu þau að banna stelpunni að vera með henni? Ætlaði hann að ræða við hana um reykingar?
   En að þessu sinni sótti beygurinn ekki að honum fyrr en í anddyrinu, skyndilega og óvænt, núna var eins og spennan ætti sér ekki upptök í honum sjálfum eins og vanalega heldur lægi í loftinu, þykk og næstum áþreifanleg; hún smaug inn í hann.
   Ása sat inni í stofu og veifaði gemsanum hans. Hann hafði gleymt honum heima í morgun. Kannski viljandi í og með; hann vildi síður láta ná í sig.
   „Hæ, elskan.“ Hún brosti til hans taugaóstyrk en það skein ásökun úr augunum. Alltaf þegar hún var í uppnámi, sem var nokkuð oft á seinni tíð, dökknuðu augun í henni, þessi skærgrænu og fallegu augu urðu næstum því svört. Brosið sem átti að breiða yfir uppnámið núna var aumkunarvert, það leyndi engan veginn því hvernig henni var innanbrjósts og átti kannski ekki að gera það.
   Ása mundaði símann aftur, nú með dýpri sveiflu.
   „Það var hringt í þig?“
   „Hringdi Kristján?“ Hann var að fara að hitta Kristján og Inga, fyrrverandi vinnufélaga sína, og horfa með þeim á knattspyrnuleik í sjónvarpinu. Hann vissi að þetta var ekki Kristján, var bara að reyna að hljóma grunlaus.
   „Nei.“
   „Hver hringdi?“
   „Ég veit það ekki.“
   „Nú? Svaraðirðu ekki? Athugaðirðu númerið?“
   „Jú, ég svaraði. Þetta var einhver kona.“

(11-12)
 

Fleira eftir sama höfund

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Afleiðingar

Lesa meira

Tvisvar á ævinni

Lesa meira

Sumarið 1970

Lesa meira

Hringstiginn - og sjö sögum betur

Lesa meira

Síðasti bíllinn

Lesa meira

Eftirlýst augnablik

Lesa meira

Í síðasta sinn

Lesa meira

Hliðarspor

Lesa meira