Beint í efni

Stóri skjálfti

Stóri skjálfti
Höfundur
Auður Jónsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Þú, segir röddin. Þú heitir eitthvað. Manstu hver þú ert?
Ég?
(Stóri skjálfti, bls. 5)

Sjöunda skáldsaga Auðar Jónsdóttur, Stóri skjálfti, sem tilnefnd hefur verið til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, hefst á gífurlegri óvissu þar sem aðalpersóna sögunnar er jafn týnd og lesandinn. Fljótlega kemur í ljós að aðalpersónan, sem heitir því vel til fundna nafni Saga, hefur fengið alvarlegt flogakast á gangi með rúmlega þriggja ára syni sínum við Klambratún. Saga er flogaveik en hefur ekki fengið flog í mörg ár. Flogið reynist hafa miklar afleiðingar þar sem Saga missir minnið að hluta til og er ekki treystandi til að vera ein. Þetta ástand er grundvöllurinn að söguþræði bókarinnar sem gengur að miklu leyti út á hvernig Saga tekst á við minnisleysið og breyttar aðstæður í lífi sínu.

Í verkinu fær lesandinn að sjá hvernig flogið, eða „stóri skjálftinn“, stokkar upp í lífi Sögu og neyðir hana til að endurmeta eða enduruppgötva hlutverkin sem hún gegnir í lífinu; sem móðir, eiginkona, dóttir og systir. Að því leytinu til er Stóri skjálfti nánast ráðgátusaga. Í gegnum lestur bókarinnar er maður ávallt spenntur fyrir því að skilja betur hvernig líf Sögu var fyrir flogið og hvað olli þeim breytingum sem virðast hafa átt sér stað. Því er örlítið flókið að fara nánar í söguþráð bókarinnar þar sem maður vill ekki svipta væntanlega lesendur ánægjunni að láta koma sér á óvart og púsla saman fortíð Sögu. Það sem aðgreinir Stóra skjálfta hins vegar frá hefðbundnari ráðgátusögum er að maður er í raun aldrei viss um hvaða spurningu er leitast við að svara.

Eftir því sem líður á bókina víkkar svið óvissunnar, sífellt fleiri spurningar vakna og mun meira liggur undir heldur en virtist í upphafi. Þannig minnir Saga á einkaspæjara á köflum, að púsla saman lífi „fórnarlambsins“ og fletta ofan af gömlum leyndarmálum. En í tilfelli Sögu er fórnalambið spæjarinn sjálfur sem rannsakar ekki ráðgátuna skipulagt, heldur fer þess í stað fálmandi í gegnum vef minninga – og getur í þokkabót ekki treyst eigin dómgreind og hættan á öðrum „stórum skjálfta“ er ávallt yfirvofandi. Blandan milli fagurbókmennta og fléttubyggðra bókmenntagreina er skemmtileg aflestrar og ætti að geta höfðað til mismunandi hópa lesenda.

Eins og kom fram hérna að ofan er verkið margslungið og söguþráður verksins kvíslast stöðugt eftir því sem minningunum fjölgar. Sá þráður sem helst þó óslitinn í gegnum bókina er samband Sögu og fyrrverandi eiginmanns hennar, Bergs. Það fer ekki á milli mála að samband þeirra er einn helsti burðarstólpi Stóra skjálfta. Auði tekst gífurlega vel að lýsa flóknum tilfinningum sem liggja að baki löngu ástarsambandi. Það er mjög áhrifaríkt að láta Sögu nálgast þessar gamalgrónu tilfinningar eins og þær séu nýjar. Minnisleysið minnkar fjarlægðina milli lesanda og söguhetjunnar með því að búa til farveg fyrir sameiginlega uppgötvun. Saga er nánast eins og autt blað í upphafi sögunnar vegna minnisleysisins. Lesandinn verður síðan vitni að því hvernig Saga púslar saman minningum sínum og fyllir hægt og rólega inn á blaðið. Stóra spurningin er hver lokaútkoman verður.

Hvað þessa nálægð varðar verð ég hins vegar að viðurkenna að í gegnum stóra hluta verksins átti ég í vandræðum með að tengjast Sögu. Mér fannst stefnuleysi hennar þreytandi og ég átti erfitt með að sætta mig við hvað hún var hjálparvana og ósjálfbjarga. Saga leynir því líka fyrir sínum nánustu hversu alvarlegt minnisleysið er og hversu mikil áhrif flogið hafði í raun og veru á hana. Þetta veldur núningi í samskiptum hennar við vini og fjölskyldu og skapar vandamál sem virðist, frá sjónarhorni lesandans, vera svo grátlega auðvelt að koma í veg fyrir.

Þessi gremja þarf hins vegar ekki að bera vitni um galla bókarinnar heldur miklu frekar gæði skrifanna: Eitt af umfjöllunarefnum Stóra skjálfta er hvað við erum hrædd við að hafa ekki fullkomna stjórn á lífi okkar. Við óttumst fátt frekar en að geta ekki treyst eigin hugsunum og líkama. Þetta sjáum við ljóslifandi í lýsingum Sögu en viðbrögð hennar nánustu minna líka á gremju mína í garð Sögu. Eldri systir Sögu, Jóhanna, reiðist Sögu auðveldlega og verður pirruð ef hún virðist ekki vera í fullkomnu ásigkomulagi – þegar hún á erfitt með að muna eftir ákveðnum atvikum eða með að skilja þáverandi aðstæður. Við grípum oft til reiði og gremju þegar við erum óttaslegin. Við reiðumst okkar nánustu fyrir að bregðast okkur með því að verða veik. Saga stóð mér það nærri að hún gat vakið upp slíkar tilfinningar hjá mér.

Stóri skjálfti er því eins konar afkvæmi fagurbókmennta og ráðgátusagna sem getur reynst ,óþolandi‘ gott. Uppgötvunin sem felst í því þegar Saga púslar saman lífi sínu – ásamt sannfærandi lýsingum á veikindum og þeim tilfinningum sem þeim fylgja – gera lestur bókarinnar að spennandi og átakanlegu ferli. Vitneskja lesandans og Sögu er í fyrstu afar takmörkuð, teppt af minnisleysi Sögu. Smám saman losnar um minningastífluna og minningar kvíslast fram og sagan teygir anga sína sífellt lengra inn í líf annarra. Stóri skjálfti er margþætt fjölskylduharmsaga, í bland við ráðgátusögu og djúpa úrvinnslu þess hvernig það er að geta ekki treyst eigin huga og líkama.

Már Másson Maack, desember 2015