Í sögunni Svart og hvítt hitta lesendur aftur hina 16 ára Önnu frá Vík í Mýrdal, sem sagt er frá í bók Jónínu Kossar og ólífur sem út kom 2007. Fyrri bókin gerist sumarið eftir tíunda bekk, Anna fer að vinna á hóteli hjá frænku sinni í Brighton og kynnist þar nýju fólki, meðal annars hinni lesbísku Moiru, hún kyssir stelpu og það verður til þess að hún fer að velta fyrir sér sinni eigin kynhneigð.
Nú er Anna flutt til ömmu sinnar í Reykjavík og byrjuð í menntaskóla og það er einnig Kata vinkona hennar sem kemur við sögu í fyrri bókinni. Kata hafði heimsótt Önnu til Brighton og eignast þar indverskan kærasta, Deepak, sem hún heldur sambandi við eftir heimkomuna. Í jólafríinu kemur Linda, vinkonan sem Anna kyssti um sumarið, í heimsókn til Íslands og þegar vorar halda vinkonurnar Anna og Kata saman til Brighton, Anna fer aftur að vinna hjá frænku sinni en Kata fær vinnu á hóteli í nágrenninu. Sagan fjallar á nærfæran hátt um ástir unglinga. Kata elskar Deepak en foreldrar hans mega ekkert af henni vita, þau vilja að hann trúlofist indverskri stúlku sem þau hafa valið handa honum. Anna hins vegar er hætt með kærastanum sem hún átti á Íslandi og kossinn frá því sumarið áður hefur vakið með henni áður óþekktar tilfinningar. Hún er óörugg og veit ekki alveg hvað hún vill en í sumarlok tekur hún sjálfa sig í sátt og ákveður að fylgja tilfinningum sínum.
Anna er miðdepill sögunnar og lesendur sjá aðrar persónur og umhverfið með hennar augum. Tilfinningar hennar og togstreita er það sem ber bókina uppi og gerir hana frábrugðna mörgum ástarsögum sem skrifaðar eru fyrir unglinga. Anna spyr sig spurninga eins og þeirra af hverju koss hennar og Lindu hefur svo mikil áhrif á hana. Þýðir það að hún sé samkynhneigð og ef svo er af hverju hefur hún þá verið skotin í strákum. Er hún kannski tvíkynhneigð og hvað þýðir það? Hún getur ekki flokkað fólk og tilfinningar í svart eða hvítt, það er heilt litróf þar á milli. Höfundi tekst að koma tilfinningum Önnu vel til skila og lesendur finna til samkenndar með henni. Kata er hins vegar yfirborðskenndari persóna, hún er flautaþyrill, sem á sér ótal hliðstæður í bestu vinkonum aðalsöguhetjunnar, - svona týpískur besti vinur aðal. Það er mikill fengur að þessum bókum Jónínu, bókum sem fjalla um unglinga sem þurfa að takast á við alvöru tilfinningar og sigrast á eigin fordómum.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2008