Beint í efni

Þegar stjarna hrapar

Þegar stjarna hrapar
Höfundur
Vigdís Grímsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Ungur maður finnst myrtur á hroðalegan hátt í Laugarnesfjörunni í Reykjavík. Rannsókn málsins hefst undir stjórn Kjartans Gunnarssonar rannsóknarlögreglumanns sem áður hefur komið að svipuðum líkfundi í sömu fjöru rúmum áratug fyrr, nema hvað þá var fórnarlambið hundur. Þetta gæti verið byrjun á hefðbundnum krimma, þótt hundur sé óneitanlega óvenjulegt fórnarlamb slíkrar sögu, og lesandinn setur sig í stellingar, fyllist spennu eftir að vita hver ungi maðurinn er, hver framdi glæpinn og af hverju, hvort og hvaða tengsl séu á milli líkfundanna tveggja o.s.frv. Við sjáum líka strax að Kjartan virðist ætla að verða mikilvæg persóna í verkinu og við fáum innsýn í persónulega hagi hans þarna strax í upphafi eins og vera ber í slíkri sögu.

Nema hvað, lesandann grunar væntanlega að hér sé allt annað en hefðbundin glæpasaga á ferðinni því höfundurinn er Vigdís Grímsdóttir og bókin, Þegar stjarna hrapar, er lokaverkið í þríleik sem hófst með skáldsögunni Frá ljósi til ljóss árið 2001 og hélt áfram í Hjarta, tungl og bláir fuglar 2002. Í fyrstu bókinni er saga stúlkunnar Rósu rakin frá barnæsku allt þar til hún leggur af stað frá Íslandi ásamt nýfæddum syni sínum til að leita föður síns í fjallaþorpinu Madrid í Nýju Mexikó. Rósa er móðurlaus frá fæðingu, og má segja föðurlaus einnig því faðir hennar skilur hana eftir 10 ára gamla hjá vinafólki þegar hann leggur upp í ferð til að elta draum sinn í mynd konunnar Rósu Cordovu sem hann hefur einungis séð á einni ljósmynd. Miðbókin segir svo frá lífi Rósu og fjölskyldu hennar í Nýju Mexíkó en þar er sjónarhornið og áherslan hjá Lenna syni hennar sem í lok þeirrar bókar leggur upp í ferð til Íslands að leita síns föður sem hann aldrei kynntist, en móðir hans hefur verið nánast ófær um að sinna honum vegna áfalls sem tengist fæðingu hans. Þannig mynda bækurnar þrjár slóð sem liggur frá Íslandi og síðan heim aftur og má segja að í þeirri þriðju sé hringnum lokað. Það má líta á hana sem uppgjör við hinar tvær og við tragíska sögu fjölskyldunnar, eins konar sögu um hinar sögurnar, en fyrst og fremst um þá glæpi, í víðum skilning þess orðs, sem framdir hafa verið í fjölskyldu Rósu og annarra ástvina hennar. Líkt og í mörgum öðrum verkum Vigdísar eru yfirgefin eða ´týnd´ börn í forgrunni og tengsl foreldra og barna mikilvægur þáttur sögunnar.

Það er ekki nýtt að svokallaðar "fagurbókmenntir" nýti sér tækni glæpasagna eða afreyingarsagna og svo öfugt og Vigdís hefur áður skrifað sögur sem minna um sumt á spennusögur, á skýrastan hátt í Stúlkunni í skóginum. Reyndar minntu viss stef í nýjustu skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, Bettý, mig líka á þá bók og eins á Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón - en það er önnur saga. Þegar stjarna hrapar er ekki glæpasaga í hefðbundnum skilningi, en það er engu að síður rannsóknin á líkfundinum og spennuþráðurinn sem tengist honum sem heldur sögunni saman og myndar ramma hennar. Sagan snýst öllu heldur upp í fjölskyldudrama í víðum skilningi, en er fyrst og fremst saga um blekkingar, þráhyggju af ýmsum toga, ást og drauma sem rætast eða rætast ekki. Eins og áður segir eru þræðir úr fyrri bókunum tveimur teknir upp aftur og raktir áfram, en bækurnar eru þó allar ólíkar í veigamiklum atriðum. Ekki aðeins vegna þess að mismunandi persónur eru í brennidepli hverju sinni, heldur er tóninn og stíllinn ólíkur frá bók til bókar. Í þessu lokaverki er sjónarhornið víkkað út og nýjar persónur kynntar til sögunnar ásamt persónum sem voru í aukahlutverki í hinum tveimur. Nýju ljósi er varpað á tengsl persóna og lesandinn kemst að því að ýmislegt sem hann tók gott og gilt í fyrri bókunum er tóm blekking.

Það er á vissan hátt léttara yfir þessari bók en hinum tveimur, þrátt fyrir allan óhugnaðinn og myrkt söguefnið og hún er jafnvel farsakennd á köflum. Málverk af glæpunum koma mjög við sögu og miklar tilfæringar með þau fram og aftur, afhjúpanir á hugarórum persóna, leyndum fjölskyldutengslum og jafnvel hver er lífs og hver liðinn – en það er ekki alltaf ljóst. Hver er hvurs, hver er fórnarlamb og hver sekur, hver er glæpurinn og hver ber ábyrgð á honum? Það eru allir blekktir á einhvern hátt eða þá að þeir lifa í sjálfsblekkingu. Lesandinn fær ekki einhlít svör við öllum þeim spurningum sem vakna við lesturinn frekar en persónurnar, en sagan fjallar öðrum þræði um blekkingu skáldskaparins og vald höfundar yfir sköpunarverki sínu. Sú umræða fléttast, líkt og í mörgum öðrum verkum Vigdísar, saman við spurningar um ábyrgð einstaklinga á eigin lífi og lífi sinna nánustu. Sagan endar síðan á snöggan og óvæntan hátt með enn einu voðaverki sem ekki er vert að upplýsa nánar um til að skemma ekki fyrir væntanlegum lesendum. Einhver eða einhverjir verða að taka á sig ábyrgð og segja hingað og ekki lengra – nú er komið nóg. Höfundurinn getur sagt skilið við persónur sínar – eða var það kannski öfugt?

Þegar stjarna hrapar er fallega skrifuð saga um fegurð og ljótleika. Hún er skilgetið afkvæmi höfundar síns þegar hún er upp á sitt besta og ber að mínu mati öll hennar bestu höfundareinkenni.

Kristín Viðarsdóttir, nóvember 2003