Beint í efni

Tímasetningar

Tímasetningar
Höfundur
Margrét Lóa Jónsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Undanfarið hef ég mikið velt fyrir mér spurningunni um samfélagslegt hlutverk bókmennta. Þetta kemur til af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna umræðunnar um glæpasögur og samtímasögur og svo var ég einnig að lesa grein eftir prófessorinn og rithöfundinn Álfrúnu Gunnlaugsdóttur þarsem hún ræðir þessa spurningu. Í grein sinni „Að blekkja og blekkja ekki“ (Skírnir 1994) hafnar Álfrún því að bókmenntum beri einhver skylda til þess að þjóna samtímanum eða samfélaginu á einhvern hátt annan en lútir að hinni listrænu heild verksins. Hún leggur áherslu á að skáldskapur sé ávallt fyrst og fremst skáldskapur og bendir á að höfundar óttist oft að beinar samfélagslegar vísanir valdi því að verkið festist um of í sínum tíma og nái ekki að lifa umfram hann. Jafnframt kemur það skýrt fram í greininni að skáldverk geta haft og hafa haft samfélagslegt og pólitískt hlutverk. Krafan verður samt alltaf að liggja fyrst og fremst á verkinu sjálfu: gengur það upp sem listræn heild? er bókin trú sjálfri sér sem skáldverki? Þetta eru áhugaverðar og mikilvægar pælingar og ég er sammála Álfrúnu um að fráleitt sé að tala um að rithöfundar hafi einhverjum samfélagslegum skyldum að gegna, umfram að skapa listaverk sem auðga samfélagið á einhvern hátt. Hinsvegar er ljóst að skyldan við listina kemur ekki í veg fyrir að verkið geti vísað út fyrir sig og haft félagslegt og pólitískt hlutverk. Jafnvægið verður þó ávallt að vera í lagi, boðskapur má aldrei yfirgnæfa rödd verksins, jafnvel þó sú rödd sé að grunninum til pólitísk!

Þegar fjallað er um pólitík og samfélagsádeilu er yfirleitt gert ráð fyrir að slíkt sé að finna í skáldsögum, og það þótt ljóðið hafi um aldabil verið pólitískt tæki. Í ljóðabókinni Tímasetningar notar Margrét Lóa ljóðið til að fjalla um samtíma sinn, stríð, líkamann, kvenímyndir, ást og fjölmiðla, og svo auðvitað ljóðið sjálf, en sú umræða stendur skáldkonunni alltaf nærri. Þó er ekki svo að ljóðin séu frásöguleg, frekar eru þau einskonar flæði hugsana og mynda, svona ekki ólíkt því frétta- og upplýsingaflæði og hugrenningatengsla sem fer um huga hvers einstaklings í fjölmiðlasamfélaginu á hverjum degi. Þetta rennsli minnti mig reyndar skemmtilega á romsur Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, sem ætlaðar eru börnum, stemningin er svolítið sú sama að því leytinu að það er einsog formið taki yfir og hreinlega hrífi ljóðmælanda, viðfangsefni hans og síðan auðvitað lesandann, af stað í einhverja ferð - en ferðin er einmitt eitt þema bókarinnar:

Lífið er safn ferða
Tígrisdýr læðist í grasi, barn lærir að ganga,
hryðjuverkamaður ferðast með neðanjarðarlest

Friðarljós fljóta á Reykjavíkurtjörn
menn minnast fórnarlamba í Hiroshima og Nagasaki

Elskendur rölta eftir strandlengju

... hlátur og bros, brúðkaupsferð,
gönguferð, skógarferð, uppáferð,
ökuferð eða flugferð

Lífið er safn ferða
Tára, brosa og árása,
ástaratlota og innrása

Í þessu ljóði birtist stíll margra ljóðanna, en þar er flakkað ört á milli sviða, frá tígrisdýri til barnsins og hryðjuverkamannsins og eftir stutta viðkomu í pólitík og ást kemur upptalning í romsustíl og endar svo á annarri sem rímar. Slíkt skemmtilega tilfallandi rím einkennir textann og eykur á flæðið og rennslið, skapar bæði hraða, takt og kraft. Hluti af þessu rennsli er ferðalag ljóðmælanda um persónur, en hún bregður sér í ýmis gervi, býr meðal annars um stund í ljóðabálki... Og Tímasetningar er einmitt ljóðabálkur, því þó ljóðin geti velflest staðið ein og sjálf er það heildarmyndin sem skiptir hér máli. Í einu ljóðinu staldrar ljóðmælandi við og veltir fyrir sér, að því er virðist, stefnunni sem ljóð bókarinnar hafa tekið: „Ég, sem hrífst af eyðibýlum og heiðum, / rósum og mosabreiðum“, hvað þykist slík manneskja vita um pólitík og stríð? Hvað hefur ljóðið uppá að bjóða á tímum pyntinga og hryðjuverka? Vissulega er auðvelt að gera eins og ljóðmælandi í öðru ljóði, en þar brýtur hún saman óþægilegar minningar og kemur fyrir á afviknum stað í huganum - en samt brjótast þær fram í þessum ljóðafossi.

En hvað um þær spurningar sem raktar eru að framan: hvað með listræna heild verksins og hvað með sjálfa tímasetninguna: lifir bókin umfram sína tímasetningu? Ég myndi svara fyrri spurningunni jákvætt, Margrét Lóa varast vel að undirskipa ljóðið pólitíkinni og sem ljóðabók gengur Tímasetningar fullkomlega upp - allt frá kápunni með áhrifamikilli og ögrandi mynd myndlistamannsins og myndasöguhöfundarins Jóhanns Torfasonar sem sýnir dúkkusett, hryðjuverkapabba og hryðjuverkamömmu með streng af fjórum börnum á milli sín; á hvíta barnagallana er teiknað skot-sigti. Og hvað varðar tímasetninguna, langlífi verksins - ja, um það er auðvitað ekki hægt að segja, en mætti ekki hugsa sér að í dag, á tímum fjölmiðla- og upplýsingaofhlæðis, þá megi skáldverk alveg vera verk augnabliksins? Ekki svo að skilja að ég geri ráð fyrir að ljóð Margrétar Lóu úreldist, til þess er þessi samsetta myndbrotaromsa hennar úr hversdegi vesturlandabúans of viðvarandi, hún kemur okkur við og hún mun halda áfram að endurspegla upplifun okkar á heiminum, samfélaginu og sjálfum okkur enn um hríð.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2005