Af bókarkápu:
Þorpið mitt liggur í djúpum dal milli hárra fjalla. Sumir segja að það sé á Vestfjörðum, aðrir að það sé á Austfjörðum og enn aðrir fullyrða að það sé á hálendinu; en satt að segja veit fólkið sem býr hérna ekkert um hvar það er ...
Sögumaður er tólf ára gömul stúlka sem ber nafn Nínu Bjarkar Árnadóttur, uppáhaldsskáldkonu móður sinnar, og hún lýsir lífinu í þorpinu sínu sem umlukið myrkum múr hvílir undir þungri glerhvelfingu. Í þessum lokaða heimi fer fram tilraun til að skapa fyrirmyndarsamfélag; þar leikur hver og einn sitt hlutverk undir ógnarstjórn þeirra sem valdið hafa. En Nína litla á sér drauma og vonir, og knúin áfram af ljóðum nöfnu sinnar, einlægri forvitni og fegurðarþrá leitar hún frelsisins sem allir sakna.
Trúir þú á töfra? er saga sem gerist í náinni framtíð og leiðir lesendur inn í völundarhús gerræðis og grimmdar sem enginn skilur – en einnig til þeirrar tæru gleði yfir lífinu sem ilmur fortíðar og angan framtíðar færir. Þetta verk Vigdísar Grímsdóttur er sannkallaður óður til skáldskaparins en afhjúpar jafnframt varnarleysi manneskjunnar í flókinni lífsbaráttu þar sem töfrarnir einir megna að lýsa henni veginn.
Úr bókinni:
Það er ekki ofsögum sagt að sumar nætur breyti lífi manns og framtíðarsýninni líka og að stundum taki draumurinn völdin og verði yfirgengilegri en allt annað; þetta reyndi ég þó bara í bernskunni - en þá líka svo um munaði.
Það er nótt og ég á erfitt með að opna augun.
Það er sterkur ilmur af kanil og kardimommum í loftinu og myrkrið er svartara en svart einsog nafna mín hefði sennilega orðað það þegar næturliljan var í ljóði hennar og ástnóttin full af mildu ljósi.
Mikið sem hún Nína Björk gat annars ort fallega um myrkrið og mikið sem hún hlýtur oft að hafa fundið fyrir hinum kraumandi krafti þess; ekkert getur orðið mér jafnógnandi, margflókið og gjöfult og þetta kolsvarta, niðandi myrkur. Þar breytist líka líf mitt endanlega og þegar það gerist sé ég hvergi til tunglsins á glerhvelfingunni.
Ég depla augunum hvað eftir annað en sé tunglið ekki sog svo átta ég mig á að það er slökkt á öllum ljósastaurunum. Hverjum einum og einasta. Það ríkir kolamyrkur í þorpinu okkar og í fyrsta skipti á ævinni finnst mér einsog augu mín séu ekki bara umlukt myrkri heldur hafi það líka sest að innan í þeim og slegið mig þreifandi blindu. Ég finn fyrir algjöru bjargarleysi og ímynda mér að einhvern veginn svona hljóti fólkinu, sem hverfur sporlaust héðan á nóttunni, að líða rétt áður en það hverfur,
að það sjái ekki handa sinna skil,
að augu þess blindist,
að dauðaóttinn læsi í það klónum
og síðan verði það myrkrinu að bráð.
- Illt er að hverfa í myrkraklærnar, Nína mín, sagði einu sinni gamall maður sem bjó í kórhúsi Hudlu á enginu gula og hafði víst horft á eftir mörgum félaga sínum ofan í grafreitinn þar.
Ég vil ekki hugsa um voðaleg örlög hinna sporlausu núna, þau hljóta að vera voðaleg þótt ég viti ekkert hver þau eru, en ég ákveð þess í stað að hugleiða hvað Nína Björk hefði gert í mínum sporum. Hvort hún hefði ekki bara látið sér fátt um finnast, hlegið, reynt að gleyma sér og farið að sofa, viss um að vakna aftur í ljósinu, viss um að bæði myrkrið og hinn framandi ilmur af kanil og kardimommum yrði henni uppspretta yndislegra ljóða um lífið og dauðann, sorgina og ástina.
En hvernig sem ég reyni duga mér skammt einhverjar ímyndanir um hugsanleg viðhorf nöfnu minnar. Ég get ekki hætt að sjá fyrir mér hvernig hinir sporlausu, sem við tölum aldrei um nem aí hálfum hljóðum einsog flest annað hérna, sogast inn í myrkrið, fá engum vörnum við komið, veita heldur ekki viðnám, gefast upp og verða loks fálmandi og bjargarlausir í einhverjum kytrum sem við hin hérna í þorpinu höfum í raun ekki hugmynd um hvar eru og hvort eru til;
kannski eru heldur engar kytrur,
kannski eru bara grafreitir,
kannski er allt þetta sporlausa fólk í grafreitunum.
(39-41)