Beint í efni

Tryggðarpantur

Tryggðarpantur
Höfundur
Auður Jónsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Í skáldsögunni Tryggðarpanti fæst Auður Jónsdóttir við málefni sem nú um stundir eru ofarlega á baugi í samfélagsumræðu um öll vesturlönd – nefnilega málefni innflytjenda. Viðfangsefni sögunnar snúa að því hvernig á móti innflytjendum er tekið; hvaða möguleika þeir eigi á nýjum heimaslóðum; hversu langt eigi að ganga í að skikka þá til að laga sig að venjum í nýja landinu og ekki síst hvernig íbúar sem fyrir eru koma fram við þá nýju. Þessi skáldsaga kemur eins og eftir pöntun í kjölfarið á furðulegri en jafnframt afhjúpandi umræðu um innflytjendamál sem fram hefur farið hér á landi að undanförnu. Það er í sjálfu sér gleðiefni enda eru fá bókmenntaform, eða listform yfirleitt, betur til þess fallin en skáldsagan að fjalla um og gera tilraunir með samfélagið. Af þeim sökum er vonandi að sem flestir lesi þessa bók því að mörgu leyti er hún spegill á vestrænt samfélag og spegilmyndin sem sagan varpar er satt að segja ekki fögur.

Sagan segir frá Gísellu Dal, hálffertugri konu, sem hefur lifað við efnislegar og fjárhagslegar vellystingar alla sína ævi. Við upphaf sögunnar hefur þessu öryggi verið kippt undan fótum hennar því ríkulegur arfur frá ömmu hennar og alnöfnu er uppurinn. Gísella hefur smátt og smátt kroppað af arfinum án þess að hugsa út í að hann gæti klárast. Að stórum hluta hefur hún byggt sjálfsmynd sína á þeim efnislegu gæðum og öryggi sem arfurinn tryggði henni. Tilvera Gísellu byggir nær algjörlega á því að lifa hinu ljúfa og áhyggjulausa lífi og gera hvaðeina sem hugurinn hefur staðið til, ábyrgðarlaus gagnvart öllu nema eigin vellíðan og einstaka greinum sem hún skrifar í glanstímarit. Annar þráður í sjálfsmynd Gísellu er samband hennar við ömmuna látnu, sem virðist eina manneskjan sem hún hefur bundist raunverulegum tilfinningaböndum og Gísella speglar sig og aðra stöðugt í minningunni um ömmuna. Hún hefur algjörlega slitið sambandi við foreldra sína sem hún telur hafa leikið ömmuna og hana sjálfa grátt. Gísella á einnig tvo góða vini, þau Andra og Lovísu, sem hún hefur hitt á hverjum föstudegi yfir kvöldverði í fjölda ára. Þrátt fyrir að þau hittist reglulega virðist samband þeirra yfirborðskennt og þegjandi samkomulag ríkir um að spilla þessum stundum ekki með tali um áhyggjur og vandamál.

Sögusvið skáldsögunnar er borg sem á sér ekki neina sérstaka fyrirmynd í raunveruleikanum en gæti samt verið hvaða vestræna nútímaborg sem er. Þessi borg er í einhverjum skilningi allar borgir, samnefnari vestrænna stórborga og því nokkurs konar staðleysa eða útópía. Hugtakið útópía nær þó ekki alveg máli því borgin er síður en svo fyrirmyndarborg. Um hana væri nær að nota andhverfuhugtak útópíunnar og kalla hana distópíu. Því innan borgarinnar þrífast tveir heimar, annarsvegar heimur hinna lánsömu og efnamiklu, sem í flestum tilfellum eru komnir af svokölluðum „landnemum“, og hinsvegar heimur hinna fjölmörgu ólánsömu og fátæku sem yfirleitt eru innflytjendur eða afkomendur innflytjenda. Flestir innflytjendur borgarinnar búa við þröngan kost eða eru hreinlega á götunni þrátt fyrir að vera með vinnu, því skelfilegur húsnæðisskortur er í borginni.

Þegar arfur Gísellu klárast er henni stillt upp við vegg og hún neyðist til að finna leiðir til að afla sér tekna sem geta staðið undir kostnaðarsömum lífsstíl hennar. Til að bjarga málunum og komast hjá því að vinna venjulega vinnu (hluti lífsstílsins er einmitt að vinna ekki) ákveður Gísella að notfæra sér húsnæðisvandann. Slá þrjár flugur í einu höggi; þéna pening; gera góðverk og afla efnis í grein um húsnæðisvandann í borginni. En fyrir röð tilviljana hefur vafasamur gamall hippi ráðið hana til að skrifa grein um þetta vandamál í pólitískt neðanjarðarrit. Gísella býður þremur konum að leigja herbergi hjá sér, en einni konunni fylgir barn. Sagan hverfist um samskipti Gísellu við konurnar þrjár og barnið. Barnið reynist síðan lykilpersóna í verkinu og lendir á milli steins og sleggju Gísellu og móður sinnar. Bakgrunnur leigjendanna er gjörólíkur bakgrunni Gísellu, allar þrjár eiga þær það sameiginlegt að hafa annaðhvort alist upp við erfiðar aðstæður eða búið við erfiðar aðstæður á fullorðinsárum. Í upphafi sögunnar setur Gísella strangar reglur sem um margt minna á reglur sem gilda um innflytjendur í ýmsum löndum hins vestræna heims. Reglurnar og tryggðarpanturinn sem konurnar þurfa að greiða í upphafi eru þeir þættir sem helstu átök sögunnar snúast um ásamt barninu.

Tryggðarpantur er hrein og bein táknsaga eða allegoría, þar sem míkrókosmos íbúðar Gísellu Dal stendur fyrir borgina í heild sem aftur stendur fyrir Vesturlönd eða önnur heimssvæði þar sem velmegun ríkir. Í þessari táknsögu smellur allt saman og lesendur geta dundað sér við að bera tiltekin atriði við veruleikann, t.d. reglurnar og tryggðarpantinn sem minnst var á hér að framan. Það er í raun algjör óþarfi að tíunda frekar hvað stendur fyrir hvað, því það fer ekki á milli mála. Margt í fléttu sögunnar er vel gert, andrúmsloftið á heimilinu stigmagnast og smátt og smátt kynnist lesandinn persónunum betur, bæði Gísellu og hinum konunum. Lesendum er reyndar ekki hleypt inn í hugskot neinna persóna nema Gísellu, svo sjónarhornið miðast við hana en sögumaður heldur sig samt í gagnrýnni fjarlægð frá henni. Þrátt fyrir þessa fjarlægð er lesandinn neyddur til að horfast í augu við þá óþægilegu spegilmynd sem birtist í táknsögunni. Sögumaður gerir meira að segja tilraun til að bregða upp spegli fyrir aðalsöguhetjuna sjálfa, en hún er of sjálfhverf og lokuð til að þessi litli spegill virki á hana. Hér er átt við lítið atvik sem á sér stað þegar Gísella fer í sóðalegt fátækrahverfi til að heimsækja blaðaútgefandann sem hún hyggst skrifa um húsnæðisvandann fyrir:

Sérðu hundinn þarna? spurði hann og benti í átt að blokkinni. Ringluð leit Gísella þangað og sá rytjulegan rakka sem nagaði af sér lýsnar upp við vegginn. Áttu við þennan? spurði hún hrelld.

Alveg hundrað prósent! hrópaði hann og unglingsaugun ljómuðu. Þennan andskota. Mig langar að bjóða honum að búa hjá mér gegn því að hann þekkist köttinn og lúsabað.

Passaðu þig! Hann gæti bitið, sagði hún.

Hann bítur frekar ef ég hugsa á þá leið, skríkti karlinn. Hundar skynja tortryggni og hún vekur upp í þeim árásarhneigð. Aftur á móti gerir traustið þá elska og gæfa.

Vantrúuð brosti Gísella. (bls. 200)

Í þessu samtali birtist í raun kjarni sögunnar. Það er smámynd af skilningsleysi Gísellu og sýnir ástæður þess að hún lendir í vandræðum í samskiptum sínum við konurnar. Gísella er með bundið fyrir augun þegar hún lítur í litla spegilinn sem lúsugi hundurinn er.

Gísella Dal er að mörgu leyti vel heppnuð persóna en hún er engu að síður algjör klisja. Hún sver sig í ætt við aðrar lattedrekkandi, glanstímaritaflettandi, lífsstílsþenkjandi konur á svipuðum aldri sem birtast í óteljandi afurðum afþreyingariðnaðarins hvort sem það er í skáldsögum, sjónvarpsþáttum, kvikmyndum eða tímaritum. Í stuttu máli sagt er hún ung, einhleyp, myndarleg, fjárhagslega sjálfstæð, víðförul, dálítið menntuð en þó ekki það mikið að hún missi kúlið. Fyrst og fremst er hún óskaplega smart og myndi sóma sér vel í hvaða Innlit/Útlit þætti sem er. Það er í raun hvorki sanngjarnt né er ástæða til að pirra sig út í þessa persónusköpun þótt hún sé klisja, því persónur á borð við Gísellu eru stór hluti af daglegu lífi fólks á vesturlöndum og því væri beinlínis hjákátlegt að slá hana út af borðinu sem einfalda klisju. Bæði konur og karlar bera kennsl á sjálfa sig, a.m.k í broti af henni. Þessi klisja snertir nefnilega líf flestra meðalmanneskja í vestrænu velmegunarsamfélagi dag hvern. Hvort sem það er í gegnum sjálft lífernið eða hreinlega í gegnum afþreyingarefnið. Við þekkjum Gísellu og við erum Gísella. Í því liggur meginstyrkur þessarar sögu, því það er óþægilegt en örugglega hollt að bera kennsl á sjálfan sig í jafn breyskri persónu og Gísellu.

Auk þess er sagan sérlega vel uppbyggð og aukapersónurnar þjóna allar ákveðnum tilgangi í byggingu frásagnarinnar. Konurnar þrjár eru ólíkar og með mismunandi bakgrunn og draga því fram margbreytilega þætti í persónu Gísellu. Barnið á heimilinu er svo lykilpersóna eins og fyrr segir og er það afl sem drífur frásögnina áfram og skapar einnig mikla spennu. Vinir Gísellu, þau Andrés og Lovísa framkalla einnig ákveðna þætti í fari hennar, einkum ákveðinn einstæðingsskap og grunnhyggni. Skáldsagan er sem sagt í stuttu málið sagt afar vel heppnuð hvað form og uppbyggingu varðar. Og þegar sú er raunin verða hnökrar í textanum sjálfum þeim mun meira hrópandi. Maður gerir kannski ríkari kröfur, hvað stíl og tungumál varðar, til verks sem er jafn vel uppbyggt og Tryggðarpantur.

Það er einkum tvennt sem stingur í augun og þannig vill til að bæði þessi atriði birtast í einni efnisgrein sem ég tek hér sem dæmi. Í fyrsta lagi rekst maður á málsgreinar sem eru hráar, óslípaðar og höktandi:

Eðlilega hafði henni yfirsést margt sem þurfti að semja um í sambýli áður – og því var nauðsynlegt að setja fleiri reglur til að koma í veg fyrir að öngþveiti skapaðist í kringum uppþvottahanska, ákvað hún áður en svefninn gleypti hugsanirnar.

Hitt atriðið varðar myndmál og notkun á því. Næstu tvær málsgreinar efnisgreinarinnar fylgja hér á eftir. Önnur er nokkuð löng og lýsir draumförum Gísellu eftir að svefninn „gleypti hugsanirnar“ en hin er í styttri og lýsir því hvernig henni líður þegar hún vaknar:

Áður en ísbjörn kjamsaði á streitunni í líki svarblárrar kráku og leifði engu nema olíu sem draup úr skeggi hans og bræddi snjóinn en þerraði síðan blóðvotan kjaftinn í skinnbuxum flækingskonu sem stakk krákufjöðrum í hárstrýið um leið og hún hvíslaði ómþýtt að síðustu dagar hefðu verið þrungnir glaðningum því góður selskapur fæddi af sér lirfur sem öðluðust silkivængi og flögruðu úr púpunum inn í magann og síðan alla leið upp í heilann þar sem fiðrildin límdust við sykurhúðuð minningarleiftur, sköpuðu úr þeim púpur og hvíldu í þeim meðan þau væntu vonarsólar nýrrar veraldar. Og það mundi Gísella þegar hún vaknaði fimmta morguninn, vonglöð eins og boltatippari á bjórkrá. (bls. 93-94)

Myndmálið í löngu málsgreininni er skiljanlegt í upphafi; streitan er í líki krákunnar og því hlýtur svefninn að vera ísbjörninn sem kjamsar á streitunni. En svo fer málið að flækjast, og verða ómarkvissara og hættir í raun að þjóna nokkrum tilgangi. Dýramyndmál er líka notað óþarflega mikið í sögunni, oftast til að leggja áherslu á hluti sem óþarfi er að undirstrika frekar, þ.á m. tilfinningar eða persónuleika. Þetta er reyndar lýsing á draumi og því má ekki taka þessu sem lýsingu á öðru en einmitt því, órökrétt framvindan er því e.t.v. skiljanleg en þessi ljóðrænu tilþrif eru í ósamræmi við meginhluta textans. Þessari löngu og flóknu málsgrein með dýramyndmálinu er svo fylgt eftir með stuttri málsgrein með frumlegri en frekar klúðurslegri myndhverfingu af boltatippara á bjórkrá. Hún kemur eins og skrattinn úr sauðaleggnum enda gjörólík dýramyndhverfingunni. Mismunurinn leggur vissulega áherslu á muninn á milli draums og vöku, en þarna er bara eitthvað sem virkar ekki.

Það er kannski ekki sanngjarnt að draga fram eina efnisgrein úr skáldsögunni taka hana úr samhengi og gagnrýna á þennan hátt. En það hefði líka verið hægt að tína út stök dæmi á víð og dreif, bæði hvað varðar myndmál og hnökra í skrifunum sjálfum, tungumáli og setningaskipan. Oft og tíðum er textinn hreinlega brokkgengur og höktandi og málsgreinar óþjálar og myndmálið stundum full endurtekningasamt eða hreinlega misheppnað. Þetta getur auðvitað verið háð smekk en óhætt er að fullyrða að sögunni hefði ekki veitt af að vera slípuð betur til. En burt séð frá þessu tuði, sem eftir allt saman er kannski bara smekksatriði, er rétt að halda því til haga að bókin tekur á mikilvægu málefni á látlausan en áhrifaríkan hátt og það er þakkavert og meira en segja má um margar aðrar skáldsögur. Hún er auk þess laglega smíðuð og uppbyggð – en kannski er það einmitt málið; hún er meira eins og haganlegur smíðisgripur en listaverk.

Ingi Björn Guðnason, janúar 2007