Stefán Máni hefur sýnt og sannað að þrátt fyrir að hann sé tiltölulega nýinnvígður í heim bókmenntanna þá hefur hann náð tökum á þeirri hlið hans sem snýr að markaðsmennsku og kynningu. Þegar hann vann að skáldsögu sinni frá síðasta ári, Svartur á leik, birtust reglulega viðtöl við hann þarsem hann lýsti kynnum sínum af undirheimum Reykjavíkurborgar (svo rammt kvað að að margir héldu því staðfastlega fram að bókin héti ‘Undirheimar Reykjavíkurborgar’) og í ár lék hann sama leikinn aftur með því að boða komu þessarar nýju bókar, Túristi, með mis-dularfullum vísunum til þess að bókin fjalli um heim og helstu persónur íslenskra bókmennta. Í kjölfarið birtist svo grein um andlát skáldsögunnar og henni fylgdi pistill um að útgefandinn væri í fýlu... Það var því nokkuð ljóst, fyrir allnokkru, að hér væri á ferðinni bók sem er gagnrýnanda nokkuð erfið í skauti, þó ekki væri nema vegna hégómleika: er ég eða er ég ekki, persóna í bók eftir Stefán Mána?
Og bókin stendur undir þeim væntingum, hún er sannarlega ekki auðveld viðfangs, eða réttara sagt, ekki auðvelt viðfangsefni hefðbundinnar gagnrýni. Lesendur verða því að fyrirgefa mér að það sem hér fer á eftir minnir kannski meira á umfjöllun eða jafnvel bókmenntagrein, og minna á þá handhægu úttekt sem felst í góðri gagnrýni.
Kápan stöðvar mig strax í sporunum og gerði það að verkum að mér fannst enn erfiðara en annars að nálgast lesturinn. Annað markaðstrikk Stefáns Mána er að fá þekkta listamenn til að hanna útlit og bókakápur, í fyrra var það Jón Sæmundur “Dead” og í ár er það Quarasi-meðlimurinn og myndasöguhöfundurinn Ómar Örn Hauksson. Kápumyndin sýnir djöful sem ber hatt sem minnir nokkuð á þann sem höfundur bókarinnar gengur iðulega með, en demóni þessum er lýst í skáldsögunni: “risavaxin vera sem er að hálfu maður og hálfu dýr: MANNDÝRIÐ [...] Bringan er þakin fiðri, en undir beinaberu rifjahylkinu er enginn magi og engin hryggsúla, aðeins gapandi tóm sem snýst eins og hringiða” (67). Reyndar hefur listamaðurinn tekið sér smá-skáldaleyfi á lýsinguna við gerð myndarinnar, en það kemur ekki að sök, manndýrið er auðþekkjanlegt þarsem það trónir á stalli sínum, vængjað og skælbrosandi. Hlekkjaðar við stallinn eru tvær naktar konur. Myndin er í auðþekkjanlegum stíl fantasíumynda og myndasagna, með tilheyrandi phallískum táknum (stærðarinnar logandi kerti ber við klof djöfsa) og ýktum þrýstnum kvenlíkömum. Hvaða ályktun á lesandi að draga af þessari mynd? Við fyrstu sín virkar hún sem ofboðslega þreytt klisja og hún hreinlega dró úr áhuga mínum, sem annars var þónokkur, á bókinni. Við aðra og þriðju sýn virkaði hún reyndar enn sem ferlega þreytt klisja - en kannski á þetta að vera paródía? Skoðum bókina, mögulega er lykilinn að myndgátunni að finna þar. Í stuttu máli, lesandi góður, svo ég þreyti þig ekki á bókmenntalegum leikjum, þá fann ég ekki lykilinn þar, því bókin vakti einmitt sömu spurningar hjá mér: er þetta paródía? Og ef svo er, þá á hvað nákvæmlega?
Og út á þetta gengur heila málið, því sagan fikrar sig eftir mjórri línu einhversstaðar úti á ystu nöf paródíunnar. Auðvitað er þetta alltsaman paródía, jújú, vissulega, en þó er sú afgreiðsla einhvernveginn of auðveld.
Skáldsagan Túristi fjallar eins og áður er sagt um íslenskan bókmenntaheim. Ekki þó beint, heldur óbeint, nöfnum (allavega flestum nöfnum) persóna er breytt til að vernda hinn seka (þ.e. höfundinn) og íslenskur bókmenntaheimur kemur hvergi fyrir í kaflaheiti. Fyrst og fremst fjallar Túristi um bókmenntir og höfunda, það að skrifa og það að gefa út bækur, og svo auðvitað spurningar um hver er höfundur að hverju og hvað er hann yfirhöfuð að gera hér? Bókin hefst á annari bók, skáldsögunni Fuglinn Fönix, sem reyndar er aðeins til í hálfbrunnu handriti í kjölfar eldsvoða á hóteli sem er aðalvettvangur skáldsögunnar Túristi. Höfundur bókarinnar er Eyvindur Erlendsson, ungur höfundur sem vakti (takmarkaða) athygli með sinni fyrstu útgefnu skáldsögu sem er illa dulbúin saga um hann sjálfan og samband hans við sambýliskonu sína. Og skyndilega er lesandinn staddur í þeirri sögu og það er einmitt þar sem við hittum manndýrið fyrir, í fyrsta sinn. Aftur hverfum við á vit Eyvindar Eiríkssonar og hittum félaga hans úr rithöfundastéttinni, hinn verðlaunaða og velþekkta Kristinn Kristóferson og hinn unga Albert Arnarson, en hann er nýbúinn að skrifa ástarsögu um konu sem heitir Ásta og æskuást hennar sem hún hittir á ný á nýársballi, en sú saga er einnig byggð á atvikum úr ævi Eyvindar... Já og svo náttúrlega rennur þetta saman og sundur, bækur skrif og höfundar, undir lokin blandast meira að segja vinur minn Drakúla í málið (mikið varð ég glöð að hitta hann þarna), enda demónskir undirtónar víða á reiki um bókverkið. Núnú, í stuttu máli er þetta allt afarskemmtilegt verð ég að segja, margt í þessari skáldskapar/höfundar-fléttu er sérlega vel og fimlega gert enda flínkur höfundur á ferðinni. Stíllinn er nokkuð ólíkur fyrri bókum Stefáns, hann er öllu flúraðri en áður, ‘bókmenntalegri,’ ef segja má, og alveg í takt við viðfangsefnið. Eins og vanalega er óþarflega langt í sumum lýsingum og senum, en það er orðið svo kunnuglegt syndróm höfundar að ég er næstum því hætt að taka eftir því. Myndi líklega sakna langlokanna ef þær hyrfu. Eða ekki. En helsta vandamálið er samt endirinn, ólíkt því sem tíðkast hefur í fyrri verkum þá finnst mér Stefán ekki ná að landa þessu prójekti nægilega vel - allt stefndi í rétta átt um stund, en svo bara... ég vil ekki gefa endinn upp og get því ekki rakið hér vangaveltur mínar um hvað hann átti að fyrirstilla, en ef tilfinning mín er rétt, þá virkar hugmyndin bara ekki nógu vel! En, sumsé, það kemur ekki í veg fyrir að á leiðinni er margt skemmtilegt og sniðugt að gerast.
Læt ég nú lokið þessari hlið skáldverksins og tek til við hinn íslenska heim bókmenntanna. Og þar flækist málið. Lesendur sem hafa einhverja nasasjón af íslenskum bókmenntum og fjölmiðlum ættu fljótlega að geta borið kennsl á ýmsar persónur sögunnar, en Stefán Máni fer mikinn í því að teikna upp höfunda og bækur og bregður á ýmiskonar leik með persónur og skáldskap starfsbræðra sinna (og reyndar eigin persónu og eigin skáldskap einnig). Bræðra segi ég og meina karlkynið bókstaflega, því hér eru engar konur (ekki einu sinni hlekkjaðar). Ásta er eina kvenpersónan sem kemst nærri, en hún er fyrst og fremst táknmynd ástarinnar, eða kannski frekar hinnar mögulegu en þó frekar kaldhæðnu ástarsögu sem er eitt af skáldverkunum sem fer á flakk í textanum. Og svo eru þær konur Eyvindar, sambýliskonan og sambýliskonan í skáldsögu hans, auk tveggja stúlkna sem persóna hans í skáldsögunni slær sér upp með. Eða var það Eyvindur sjálfur? Skáldkonur eða kvenkyns rithöfundar eru hvergi nærri í þessari úttekt á íslenskum bókmenntaheimi en tilvist þeirra er viðurkennd og afgreidd á einum stað í sögunni í senu þarsem þeir skáldbræður þrír sitja á einum af sínum reglulegu spjallfundum sem ganga meðal annars útá “að strengja ósýnileg vébönd eða reisa táknrænan virkisvegg um sjálfa sig með því að hleypa sjálflýsandi eiturtungum á skeið og taka léttan hring eða tvo á blóðugum ritvelli móðurmálsins, þar sem ófáir kollegar fá misbragðvont grín á baukinn og eru hraktir út í ystu myrkur baktalsheima” (116). Baktalsheimar kvenrithöfunda henta þó ekki stórkonum því þær eru allar afgreiddar sem tussurnar: “(konurnar sem skrifa bækur sem aðrar konur fá í jólagjöf en enginn les)” (116-117). Miðað við þá kvenímynd sem dregin er upp í lífi og skáldskap Eyvindar mætti ætla að hér væri á ferðinni ansi skæð kvenfyrirlitning.
En bíðum við. Eins og margoft og sjálfsagt of oft hefur komið fram fjallar Túristi öðrum þræði um heim íslenskra bókmennta. Og hann er fremur svona karlmiðjaður, eins og ljóst má vera þegar skoðað er kynjahlutfall í bókaútgáfu ársins. Sem annað dæmi um þetta má taka bókmenntaumræðu sem fór fram á síðum Lesbókar Morgunblaðsins nú í haust en þar skeiðuðu nokkrir ungir (þ.e. á mínum aldri) bókmenntamenn fram á ritvöllinn og fóru mikinn í skrifum sínum um íslenskar bókmenntir, fagurfræði og þýðingar, meðal annars. Og ef marka má þau skrif eru konur ekki til í bókmenntum, því í þessari umræðu tók engin kona þátt, og engin kona var nefnd í greinunum (sem fjölluðu meðal annars um skort á þýðingum á heimsbókmenntum, þó aðallega rómönskum, þó aðallega einum spænskum karlkyns höfundi sem ég man ekki hvað heitir). Þannig mætti hugsa sér að kvenleysi Túrista sé eðlilegt viðbragð við og endurspeglun á íslensku bókmenntalandslagi og -umræðu.
Og hvar stendur paródían í öllu þessu? Því er ég enn að velta fyrir mér...
En nú er mál að linni, ég er búin að skrifa svo langt mál að ég slæ átöldum langlokum höfundar fyllilega við og allir kannski löngu búnir að gefast upp á lestrinum.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005