Þrátt fyrir að úlfar hafi aldrei fundist á Íslandi má finna ýmis ummerki þeirra í sögum og kvæðum frá miðöldum. Berserkir hafa löngum tengst hamförum, meðal annars varúlfum og í Egils sögu er mikið um úlfslegar lýsingar, allt frá afa Kveld-Úlfi til augnabrúna Egils sjálfs. Norræn goðafræði er auðug af úlfum og er Fenrisúlfur líklega þeirra þekktastur. Óðinn sjálfur er nátengdur úlfum og hefur tvo til fylgdar, úlfar gleypa sól og mána þegar Ragnarökin bresta á (nú í apríllok) og ekki má gleyma Garmi, hvers gól er upphafið að endalokunum.
Úlfurinn er því bara nokkuð heimilislegur hér á landi enda vitna fjölmörg úlfa-nöfn um það hversu nærtækur hann er. Hann hefur ekki gert sig sérlega breiðan í nútímabókmenntum en þó má ekki gleyma varúlfinum sem birtist í skáldsögu Sjóns, Með titrandi tár (2001), en þar hefur embættismaður ríkisins uppi heilmiklar kenningar um tengsl varúlfa við Íslendinga, eða kannski frekar tengsl Íslendinga við varúlfa. Þau eru meðal annars rakin til (orða) Drakúla greifa úr skáldsögu Bram Stokers, Drakúla (1897), en tilvitnun í þá sögu er einmitt undanfari skáldsögu Stefáns Mána, Úlfshjarta.
Og það eru þessi tengsl, Íslendinga og varúlfa, sem Úlfshjarta fjallar um. Réttara sagt, sagan fjallar um varúlfa á Íslandi. Þeir eiga sér samtök nafnlausra varúlfa með augljósri tilvísun í samtök þeirra sem eiga við áfengisvandamál að stríða. Því varúlfagenið gefur nýja og spennandi krafta: „Hann er ekki bara varúlfur – hann er ofurhetja!“ (159) hugsar aðalpersóna sögunnar, Alexander, eftir að hafa uppgötvað sitt innra eðli. En þessum nýju hæfileikum fylgir mikil áhætta, ekki aðeins er varúlfurinn stjórnlaus og hættulegur öðrum, heldur er hann líka hættulegur sjálfum sér: „Umbreytingunni fylgir gríðarlegt líkamlegt álag. Sambærilegt við hjartaáfall“ (154).
Þetta hljómar allt afskaplega praktískt og blátt áfram og það skemmtilega við sögu Stefáns Mána er að honum tekst alveg að selja þessa hugmynd, að til sé úlfagen, sem gerir það að verkum að örsmá prósenta mannkyns getur haft hamskipti. Þessu til stuðnings eru dregnar fram allskonar sögulegar og bókmenntalegar tilvísanir. En þess útskýring er einnig dregin í efa; einn varúlfanna hafnar kenningunni alfarið og segir að hamfarirnar séu til komnar vegna þess að þetta sé skemmt fólk, nánar tiltekið fólk sem hefur verið nauðgað og aldrei getað tekist á við það.
Sagan er í stuttu máli sú að ungur maður, Alexander, er skotinn í stelpu, Védísi. Vandinn er sá að hún er litla systir besta vinar hans. En það er fleira sem herjar á Alexander, hann er ekki í góðum tengslum við fjölskyldu sína, flosnar upp úr námi og er almennt stefnulaus og frekar þunglyndur. Og uppstökkur. Á fylliríi missir hann stjórn á sér og gengur í skrokk á besta vini sínum og er í kjölfarið tekinn undir verndarvæng samtaka nafnlausra varúlfa sem reyna að skýra út fyrir honum hvers eðlis hann er. Alexander á erfitt með að sætta sig við þetta, enda einfaldar þetta ekki málið gagnvart stúlkunni og enn flækjast málin þegar hann fær það verkefni að vingast við glæpamann, varúlf, sem er nýkominn úr fangelsi. Sá hafnar öllum tilraunum til að hemja úlfinn og dregur Alexander hálfnauðugan inn í undirheima glæpanna – undirheima sem eru lesendum Stefáns Mána vel kunnugir af fyrri verkum hans, þá sérstaklega Svartur á leik (2004).
Hluti sögunnar er svo út frá sjónarhorni Védísar, sem einmitt er skotin í Alexander. Hún er, líkt og hann, uppstökkur einfari og á erfitt með að tengjast umhverfi sínu.
Einkenni sagna Stefáns Mána er hráslagalegt kraftmikið raunsæi sem er stöðugt skotið undirtónum dulúðar. Þannig virðast verkin vera einfaldur harðkjarna töffaraskapur, eins og birtist til dæmis í kvikmyndinni Svartur á leik (2012). En það eru alltaf einhver draugalýsulog sem trufla og gefa skáldsögunum fjölkunnug blæbrigði sem gera þau áhugaverð, skapa þeim víðara svið og auka á kraftinn. Þetta er allt til staðar í Úlfshjarta, og þrátt fyrir að bókin sé ætluð yngri lesendum, ‚for-unglingum‘, unglingum og ‚ungum fullorðnum‘, slær Stefán Máni ekki af kröfunum. Vissulega er sagan um margt hnitmiðaðri og straumlínulagaðri en fyrri skáldsögur hans (sem iðulega eru all mikilúðlegar), en það þýðir ekki að leitað sé ódýrra lausna. Verkið er einfaldlega vel heppnað og varúlfarnir afar velkomnir.
Að lokum langar mig að nefna kápuhönnun Eyþórs Páls Eyþórssonar sem er sömuleiðis afar vel heppnuð og hæfir verkinu fullkomlega.
úlfhildur dagsdóttir, apríl 2013