Undir Yggdrasil er tíunda bók Vilborgar Davíðsdóttur og er söguleg skáldsaga eins og flestar bækur hennar. Sagan rekur ferðir Þorgerðar Þorsteinsdóttur sonardóttur Auðar djúpúðgu, en frá Auði segir í fyrri bókum Vilborgar, Auður (2009), Vígroði (2012) og Blóðug jörð (2017). Það er alls ekki nauðsynlegt að hafa lesið þær bækur til þess að skilja hvað gengur á í Undir Yggdrasil, þó eflaust dýpki það skilning lesandans á sumum hlutum sögunnar. Auk þess gerist bókin á sama tíma og bækur Vilborgar um ambáttina Korku — um aldamótin 900 — og því eru enn 100 ár í að Ísland verði að kristnu landi. Þorgerður deilir heldur ekki heittrú Auðar ömmu sinnar á Hvítakrist heldur tilbiður æsi og skapanornirnar. Það er uppspretta átakanna í upphafi bókarinnar, þar sem kristni og ásatrú takast á.
Bókin byggir á sagnfræðilegum heimildum, sem þó eru svo gisnar að höfundur kemst upp með að skálda næstum alla ævi Þorgerðar og samtímafólks hennar. Sagan er skrifuð á máli sem vísar í stíl íslendingasagna án þess þó að vera óaðgengilegt eða illskiljanlegt. Lesendur sem njóta þess að lesa slíkar bókmenntir en vildu óska þess að þær fjölluðu meira um reynsluheim kvenna munu að vanda finna eitthvað við sitt hæfi í texta Vilborgar.
Myndmálið í Undir Yggdrasil er afskaplega sterkt og samheldið. Mjög snemma í sögunni dreymir Þorgerði fyrir hörmungunum sem eiga sér stað síðar í bókinni — ófædd dóttir hennar fléttar sér blómakórónu á bökkum stöðuvatns en nykur lokkar stúlkuna á bak og hverfur með hana ofan í vatnið — og ráðning draumsins er mikið lykilatriði í framvindu sögunnar. Draumnum er lýst í miklum smáatriðum og minnir mjög á þá drauma sem birtast í Íslendingasögum.
Hestshnegg rífur þögnina og stúlkan lítur snöggt upp svo að kórónan rennur til og hún rétt nær að grípa hana áður en hún fellur í vatnið, rís varlega á fætur með aðra hönd á gerseminni. Hesturinn er apalgrár, sítt taglið aðeins litlu dekkri en skrokkurinn. (12)
Hverju andartaki er svo gætilega lýst að lesandinn sér sögusviðið fullkomlega fyrir sér en samt er frásögnin gædd einhverri fullkominni draumkennd — eins og hún sé máluð í vatnslitum. Þemu sem fram koma í draumnum koma aftur upp hér og þar í sögunni og lesandi gæti staðið sig að því að fletta aftur upp á þessum blaðsíðum til að rifja drauminn upp.
Þó Þorgerður sé skýr aðalsögupersóna bókarinnar skiptir sögumaður oft um sjónarhorn, svo lesandinn fær innsýn inn í huga ólíkra persóna sem á vegi hennar verða. Það veldur því að engin sögupersóna virðist flöt, heldur lifna þær allar við þegar við fáum að sjá sögusviðið frá þeirra sjónarhorni í stutta stund. Þannig verður auðveldara fyrir nútímalesanda að skilja samtíma Þorgerðar og hvað hann á líkt eða ólíkt með sínum eigin samtíma. Auðvitað forðast Vilborg nútímaorðaforða en tekst þó að koma á framfæri hugmyndum sem lesandi árið 2020 skilur betur en Þorgerður sjálf. Þessi aðferð Vilborgar hjálpar til við að gera sögusviðið raunverulegt og áþreifanlegt fyrir lesandanum en hún flækir líka tilfinningalíf lesandans, sem stendur sig allt í einu að því að hafa samúð með persónum sem hafa gert ófyrirgefanlega hluti. Hér er ekkert svart og hvítt, allt gráleitt og á reiki eins og nykurinn í draumi Þorgerðar.
Undir Yggdrasil reiðir sig mikið á norræna goðafræði, og fornnorræna heimsmyndin um ask Yggdrasils er mikilvægt tákn eins og gefur að skilja. Án þess að greina frá endalokum sögunnar má skjóta því inn að askurinn leikur þar aðalhlutverk. Mikilvægasta táknið í sögunni er þó ef til vill vatnið, sem umlykur Ísland eins og það leggur sig. Vatn er margslungið, getur tekið líf á augabragði, en skipsferðir eru óumflýjanlegur hluti raunveruleika níundu og tíundu aldar á Íslandi. Ferð Þorgerðar yfir hafið til Noregs í seinni hluta bókarinnar er auk þess algjört lykilatriði í geðhreinsun hennar, uppgjöri á tilfinningum sem brjótast um í henni eftir atburði fyrr í bókinni. Þessa geðhreinsun sækir Þorgerður meðal annars í gegnum fjölkynngi.
Þorgerður hefur alla ævi leitast við að læra hjá völvum — göldróttum konum. Það er einmitt völva sem kemur upp á milli Þorgerðar og Auðar ömmu hennar, sem aðhyllist kristna trú. Þorgerður leitar aðstoðar völvunnar Gullbrár við að geta Þorkötlu dóttur sína, og leitar líka til hennar frekar en Auðar til að sitja yfir sér þegar kemur að því að fæða stúlkuna. Þær langmæðgur munnhöggvast svo yfir því hvort skíra eigi barnið eða gefa hana ásunum:
Bretinn sem hafði verið þeim samferða hingað frá Suðurlandi hafði skírt tvíburana, ausið yfir þá vatni úr Urriðaánni í Hvammi og ákallað þríeina guðinn Vestmannanna. Þorgerði hafði staðið á sama þá, úrvinda eftir erfiði fæðingarinnar og lét ömmu ráða því sem hún vildi. En nú gegnir öðru máli. Hún er ekki lengur unglingsstúlka sem hægt er að ráðskast með. (38)
Eldri börn Þorgerðar og manns hennar Dala-Kolls eru bæði skírð í nafni Hvítakrists, og eru auk þess bæði mun líkari föður sínum en móður í útliti. Þorgerður tengist þeim ekki miklum tilfinningaböndum og ef til vill óttast hún að ef nýfædd dóttirin sé skírð nái þær heldur ekki saman, þrátt fyrir allan þann seið sem hún þurfti að magna til þess að búa stúlkuna til.
Þó völvur séu víða í Undir Yggdrasil fyrirfinnast líka seiðkarlar í heimi bókarinnar. Meðal annarra andstæðupara sem takast á í bókinni eru heimur kvenna og heimur karla, og átök þessara tveggja heima má finna hvarvetna í sögunni – meira að segja þegar kemur að göldrum. Völvur og seiðkarlar bókarinnar iðka ekki fjölkynngi sína á sama hátt. Seiðkarlar eru líklegri til að athafna sig innandyra í hofum og blóthúsum meðan völvurnar í sögunni stunda seið utandyra meðal steina og trjáa. En það er einmitt í gegnum galdrana sem skýr mörk andstæðra afla eins og kynjanna fara að verða óskýr. Maður sem iðkar seið getur meira að segja orðið argur af:
Manneskja sem gelur seið og hyggst öðlast vitneskju um forlögin þarf að klæðast bæði karlmannsbrók og fleginni kvenskyrtu, bera skart beggja kynja og hafa feld yfir höfði sér eða grímu af dýri [...] Seiðberandi er bæði kona og karl í senn, maður og dýr. (182)
Svona skýrir Herjólfur Eyvindsson Þorgerði frá hvernig mörk kynjatvíhyggjunnar verði að hylja móðu til þess að takast megi á við áskoranir annarra heima. Þessa lýsingu þarf Þorgerður líka að leika eftir þegar hún leitast við að ferðast til Heljar og fá skýringu framliðinna á nýliðnum atburðum. Í geðhreinsun sinni bæði í Miðgarði og í handanheimum lærir Þorgerður að svo rætist sá draumur sem hann er ráðinn.
Sagan af Þorgerði Þorsteinsdóttur er krassandi og spennandi, textinn aðgengilegur nútímalesanda þrátt fyrir forneskjulegt málfar. Þó er hún á köflum afar átakanleg, einmitt vegna þess að Vilborgu tekst svo vel til að vekja samkennd lesanda með sögupersónum sínum. Við lestur bókarinnar vaknaði hjá mér væntumþykja í garð formæðra og forfeðra sem byggðu hér land á öldum áður, og auk þess áhugi á að rifja upp aðrar bækur eftir Vilborgu.
Védís Huldudóttir, nóvember 2020