Æviágrip
Vilborg Davíðsdóttir fæddist 3. september 1965 á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1984 og lagði stund á ensku við Háskóla Íslands veturinn 1985-1986. Hún lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands árið 1991, nam síðan þjóðfræði við sama skóla og lauk meistaraprófi 2011. Vilborg starfaði sem blaðamaður, dagskrárgerðarmaður og fréttakona á hinum ýmsu fjölmiðlum frá árinu 1985 til ársins 2000 en hefur síðan þá helgað sig ritstörfum og þýðingum.
Fyrsta bók hennar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, árið eftir. Þær gerast um aldamótin 900 og segja frá baráttu ambáttarinnar Korku Þórólfsdóttur fyrir betra lífi og fylgja henni eftir úr ánauð á Íslandi til Heiðabæjar í Danmörku og heim aftur um Suðureyjar og Orkneyjar til frelsis og landnáms á Vestfjörðum. Við Urðarbrunn hlaut verðlaun Íslandsdeildar IBBY 1994 og ári síðar fékk framhaldsbókin, Nornadómur, verðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur. Bækurnar voru endurútgefnar árið 2001 í einni bók undir titlinum Korku saga. Þær hafa notið mikilla vinsælda og verið notaðar við kennslu í grunn- og framhaldsskólum um land allt.
Vilborg hefur síðan sent frá sér fjölda verka en hún hefur einkum sérhæft sig í skrifum sögulegra skáldsagna. Má þar nefna þríleik hennar um Auði djúpúðgu en sú fyrsta, Auður, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2009. Áður hafði Vilborg verið tilnefnd til sömu verðlauna fyrir skáldsöguna Hrafninn sem byggir á heimildum um lífshætti inúíta og norrænna manna á Grænlandi um miðja 15. öld.
Af öðrum verkum Vilborgar má nefna bókina Ástin, drekinn og dauðinn (2015) þar sem hún fjallar um dauða og sorg og hefur bókin vakið mikla athygli. Vilborg hefur auk þess þýtt verk á íslensku og skrifað ýmsar greinar í bækur og blöð. Þar má meðal annars telja „Konurnar í Kirkjubæ og veruleiki klausturlífsins„ í bókinni Af klaustrum og kennimönnum í Skaftafellsþingi (1999) og „Elves on the Move: Midwinter Mumming and House-Visiting Traditions in Iceland„ í bókinni Masks and Mumming in the Nordic Area (2007).
Bækur eftir Vilborgu hafa komið út í þýðingum á önnur mál.
Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.
Frá höfundi
Frá Vilborgu Davíðsdóttur
Af hverju skrifa ég? Undarleg spurning það. Af hverju skrifa ekki allir, væri nær að spyrja. Er hægt að hugsa sér ánægjulegra lifibrauð en að segja sögur? Ég elska sögur, hef alla tíð gert. Hvernig er annað hægt? Orð eru spennandi, til alls vís. Hægt að gera svo margt með þeim, snúa því við sem er á hvolfi og gera það skiljanlegt sem áður var óskiljanlegt, átta sig á því sem áður var hulið. Gera veruleika úr hug-myndunum sem svífa um í loftinu, grípa þær til sín og búa til heilan heim, raða upp fólki og etja því saman, setja það í kringumstæður sem eru allt að því vonlausar - skoða hvernig það bregst við, reyna það til fulls. Reyna sjálfan sig. Hvernig myndi ég bregðast við ef . . ? Hvað myndir þú gera ef . . ? Öll þessi ef, sem verða hreyfiafl hugmyndanna og hrinda þeim af stað í óvissuferðalag sem þú ein veist hvernig endar.
Sumar hugmyndir svífa reyndar ekkert um. Þær gera að manni aðsúg eins og kríur um varptíma. Þyrpast að rúmstokknum þegar maður er rétt við það að sofna, heimta að vera til, vera gerðar sýnilegar. ,,Sjáðu mig," hvísla þær frekjulega. ,,Sjáðu hvað ég er góð og sérstök, sjáðu hvað ég er mögnuð! Skrifaðu mig niður strax svo ég sleppi ekki frá þér!"
Þú sérð reyndar aðeins góðu hliðina á hugmyndinni í fyrstunni. Þá spennandi, þá sem er full af möguleikum og loforðum um að allt geti gerst. Það er ekki fyrr en þú ert langt komin og búin að flétta hana saman við líf þitt sem þú skilur að líkast til var það hún sem valdi þig, og nú er það þitt að ráða fram úr flækjunni. Of seint að snúa við og þú, sem áður varst sem Guð almáttug og allsráðandi, ert bara lítilmótlegt verkfæri í heimi þar sem alls ekki allt getur gerst, heldur aðeins það sem er í samræmi við það sem á undan er gengið. Hlutverk þitt að koma því öllu til skila eins og það var, eða að minnsta kosti eins nálægt því og þú býst við að það hafi allt saman verið. Eins og það hlýtur að hafa verið.
Heimur sögunnar er raunverulegur. Og þá á ég við heim Sögunnar. Saga fólksins sem lifði á undan okkur sem erum hér núna, hún gerðist og er til - á meðan við hugsum um hana og til þeirra sem skópu hana: Til karlanna, kvennanna, gamla fólksins og barnanna. Þau mega ekki gleymast. Því ef svo færi, til hvers var þá allt þeirra strit, þjáning, gleði og sorgir?
Séu augu okkar opin þá getum við séð svipmyndir þeirra hér og þar, séð glitta í þær í efnisheiminum og látið okkur renna í grun allt það sem ekki sést en er þarna samt, sveipað þoku tímans, einhvers staðar í ómælisvídd sögunnar. Séð þeim bregða fyrir í broti úr bláum kaffibolla úr postulíni í bæjarlæk sem varla sést fyrir villtum hvannarskógi á eyðibýli á Hornströndum; í handleggjalausum trébúk af dúkku djúpt ofan í moldinni við Stóru-Borg; í steinskírnarfonti kirkjurústarinnar á Herjólfsnesi á Grænlandi (útdrituðum af fuglum himinsins sem hafa greinilega gert sér gott af krækiberjum); í frásögn Landnámu af konunni sem vildi fremur hengja sig í hofinu en vera gefin gegn vilja sínum; í afriti af fimm hundruð ára gamalli stefnu biskups gegn presti sem rændi konu og ungum syni hennar og lokaði þau inni í kaldri skemmu.
Sögur alls staðar. Í grænum augum elskhugans. Í sorg þeirra sem hafa misst og óttast að þeirra sé sökin. Í samvöxnum þriðju og fjórðu tám á manni sem kannski er þá marbendill eftir allt saman. Í lúnum bangsa, sem hefur verið elskaður svo heitt að hann er eyrnalaus og eineygður. Í máðri grafskrift á signum legsteini kaupmanns og elskaðs eiginmanns með danskt ættarnafn í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu. Í sæsorfnu og máðu glerbroti í fjörunni við Gróttu . . . broti úr stútnum á brúnni meðalaflösku sem einhver bar að vörum sér fyrir langa löngu og vonaðist til að stilla með þessum elexír frá danska kaupmanninum iðraverkinn, sem hafði verið að hrjá hann allt frá því í vor þegar hann smíðaði utan um og bar til grafar á baki sér andvana fæddan frumburð þeirra hjóna. Tár rennur niður veðurbarinn og æðaslitinn vanga hans, fellur niður á flöskuna í hendi hans og af brúnleitu glerinu í útréttan lófa minn. Salt, eins og báran sem bar það um söguhafið til mín - og þín.
Vilborg Davíðsdóttir, 2002
Um höfund
Um verk Vilborgar Davíðsdóttur
Sögulegur skáldskapur hefur löngum verið vinsæll í íslensku bókmenntalífi. Í skáldskap er mannkynssagan færð í aðgengilegt form, og í stað þurra og einhæfðra upptalninga á staðreyndum og ártölum er búinn til heill heimur, með persónum, samtölum, ástum og örlögum. Sögulegur skáldskapur er af ýmsum toga, en þó má aðallega greina þrjár tilhneygingar. Ein leiðin er sú að skrifa hreinlega nýja sögu, nota söguna sem einskonar stökkpall fyrir eigin sögusköpun. Útkoman er þá einskonar alternatív mannkynssaga, eða hliðarsaga. Þessi tegund sögulegs skáldskapar þykir ekki sérlega fín, og er líklega helst stunduð í afþreyingarbókmenntum og kölluð fantasía. Önnur aðferð er sú að nota söguna sem grind, og fylla uppí hana með heimatilbúinni skáldsögu, og jafnvel hnika til ýmsum sögulegum staðreyndum í þágu skáldsögunnar. Þetta afbrigði er algengasta form sögulegs skáldskapar, og má sjá bæði í fagurbókmenntum og afþreyingarmenningu; reyndar er svonalagað sérlega vinsælt í kvikmyndum um þessar mundir og vekur mismikla gleði. Þriðja tegundin er sú að halda sig sem næst sögulegum heimildum, og láta þær ráða ferðinni. Hættan við slíkan skáldskap er sú að heimildirnar og sagan getur orðið skáldsögunni yfirsterkari, og hún þannig orðið of þunglamaleg.
Sögulegur skáldskapur hefur löngum verið vinsæll í íslensku bókmenntalífi. Í skáldskap er mannkynssagan færð í aðgengilegt form, og í stað þurra og einhæfðra upptalninga á staðreyndum og ártölum er búinn til heill heimur, með persónum, samtölum, ástum og örlögum. Sögulegur skáldskapur er af ýmsum toga, en þó má aðallega greina þrjár tilhneygingar. Ein leiðin er sú að skrifa hreinlega nýja sögu, nota söguna sem einskonar stökkpall fyrir eigin sögusköpun. Útkoman er þá einskonar alternatív mannkynssaga, eða hliðarsaga. Þessi tegund sögulegs skáldskapar þykir ekki sérlega fín, og er líklega helst stunduð í afþreyingarbókmenntum og kölluð fantasía. Önnur aðferð er sú að nota söguna sem grind, og fylla uppí hana með heimatilbúinni skáldsögu, og jafnvel hnika til ýmsum sögulegum staðreyndum í þágu skáldsögunnar. Þetta afbrigði er algengasta form sögulegs skáldskapar, og má sjá bæði í fagurbókmenntum og afþreyingarmenningu; reyndar er svonalagað sérlega vinsælt í kvikmyndum um þessar mundir og vekur mismikla gleði. Þriðja tegundin er sú að halda sig sem næst sögulegum heimildum, og láta þær ráða ferðinni. Hættan við slíkan skáldskap er sú að heimildirnar og sagan getur orðið skáldsögunni yfirsterkari, og hún þannig orðið of þunglamaleg.
Skáldsögur Vilborgar Davíðsdóttur falla í miðflokkinn, hún vísar til sögulegra atburða en skapar í kringum þá sína eigin skáldsögu. Vilborg er sú af íslenskum kvenrithöfundum sem hefur hvað helst haldið uppi merkjum hins sögulega reyfara, og þó hún eigi ekki nema fjórar bækur að baki, hefur henni þegar tekist að marka sér stöðu innan hefðarinnar.
Afþreyingarbókmenntir hafa löngum haft erfiða stöðu innan íslenskrar bókmenntaumræðu. Þrátt fyrir að fjöldi afþreyingarbókmennta af ýmsu tagi sé þýddur á íslensku fær þessi tegund lesefnis litla sem enga umfjöllun, og það þótt þessar bækur seljist í stærðarupplögum. Íslenskir rithöfundar sem skrifa afþreyingarbækur hafa lengi átt erfitt uppdráttar þarsem bókmenntasamfélagið hefur ekki getað tekið verk þeirra alvarlega, því hefur þessi mikilvæga grein bókmenntanna ekki náð þeim þroska hér sem skyldi. Það er til dæmis algengt að líta svo á að reyfarar séu ungingaefni fremur en eitthvað við hæfi fullorðna og kveður svo rammt að þessu að þýddar erlendar bækur ætlaðar fullorðnum hafa verið gefnar hér út sem barna og unglingaefni.
Fyrstu tvær bækur Vilborgar Davíðsdóttur, Við Urðarbrunn (1993) og Nornadómur (1994) virðast hafa verið gefnar út sem unglingabækur og hafa verið vinsælt lesefni í skólum. Þó er erfitt að sjá muninn á þessum skáldsögum og sögum ýmissa þeirra höfunda sem skrifað hafa í stíl sögulegra reyfara. Árið 2001 voru skáldsögurnar tvær gefnar út í einni bók sem Korku saga, enda segja þær frá ævi og örlögum sömu stúlkunnar, Korku, sem er dóttir írskrar ambáttar og íslensks landnema. Korka er ambátt á heimili föður síns og sýnir strax að hún er óvenjuleg stúlka. Amma hennar tekur hana að sér og kennir henni á norræna trú og galdra. Eftir að Korka drepur mann sem nauðgar henni verður hún að flýja til Danmerkur þar sem hún verður örlagavaldur í valdabaráttu um konungsríkið og kynnist manni sem hún fellir hug til. Í síðari bókinni er lýst brösóttum samskiptum hennar við unga manninn sem enda með því að sættir takast – eftir að Korka hefur enn á ný sannað sína sérstöku hæfileika þegar kemur að örlagaríkum sögulegum atburðum – og ungu hjónin flytja til Íslands, en þar bíða enn dramatískari atburðir tengdir íslenskri fjölskyldu Korku.
Eins og ljóst má vera hafa þessar sögur allt sem þarf til að gera góðan reyfara, dulrænt yfirbragð galdra og rúna, heitar ástir og ástríður, ofbeldi, kynlíf og valdabaráttu. Þar fyrir utan eru sögurnar fimlega sagðar og ríkar af upplýsingum um sögu og daglegt líf. Vilborg dregur upp skýra mynd af víkingatímanum, trúarbrögðum og hefðum, og heldur vel utanum jafnvægið milli spennandi sögu og fróðlegra upplýsinga um sögu og tíma.
Þessar sögur koma fram á tíma mikilla vinsælda slíkra sagna erlendis, en segja má að á tíunda áratugnum hafi víkingurinn orðið nokkuð fyrirferðamikill í menningarlandslaginu og mætti eiginlega segja að hann hafi komist í tísku. Skyndilega eru víkingar allsstaðar og birtast nú með mun hetjulegra yfirbragði en oft áður. Á Írlandi var til dæmis skyndilega byrjað að halda upp á víkingaarfinn um miðjan tíunda áratuginn, en eins og elstu menn muna fólst hann aðallega í því að víkingar fóru ránshendi um land og þjóð og gerðu sitt besta til að brenna það sem þeir gátu ekki selt, t.d. handrit og bækur. En nú er hin barbaríska ímynd víkingsins fyrirferðarlítil og í staðinn hefur komið mynd sem minnir mjög á rómantísku sýnina á víkinginn; hávaxinn og ljós yfirlitum, með dálítið villt sítt hár og karlmannlegt skegg, þá siglir þessi víkingur óhræddur um heimsins höf og breyðir út menningu jafnframt því að bera hana með sér á ferðum sínum. Svona ekki ólíkt þessu með býflugurnar og blómin.
Þetta er vissulega ímynd sem íslendingar hafa reynt að halda í allan tímann, en nú ber svo við að hún hefur smitast yfir á aðrar þjóðir, íra eins og áður sagði, og svo auðvitað bandaríkjamenn. Það væri hægt að velta sér endalaust upp úr vangaveltum um hvaðan þessi hreyfing kemur og hvernig hún er samansett, en það er ekki ætlunin að rekja slíkar tilgátur hér. Þó er ekki úr vegi að minnast á áhrif íslenskrar erfðagreiningar, eða réttara sagt þeirrar hugmyndafræði sem býr að baki rannsókna á erfðamengi Íslendinga, sem á að vera hreint og ómengað af ytri áhrifum, og þarmeð í raun ennþá stútfullt af víkinglegum genum. Önnur ástæða gæti verið skeggtíska sú sem heltók vestrænan karlpening fyrir nokkrum árum, en þar mátti sjá nokkuð örvæntingarfulla tilraun til að staðfesta karlmennsku á tímum þegar hefðbundin kynhlutverk virtust í upplausn.
En það er ekki einungis í hasarmyndum sem víkingatískan grasserar, heldur einnig í bókmenntum. Og í bókmenntunum má greina ákveðna áherslu á konur á víkingatímum. Umræðan um Vínlandsferðir víkinga hefur verið mjög áberandi undanfarið, með tilheyrandi vafasamri áherslu á landafundi hvíta mannsins. Þetta hefur gert að verkum að Vínlandssögurnar, Grænlendingasaga og Eiríks saga rauða, hafa verið mjög vinsælar, og hefur athyglin mjög beinst að Guðríði Þorbjarnardóttur, sem víðförlustu konu þessa tíma. Hér var sett upp leiksýning um ferðir Guðríðar, og Jónas Kristjánsson sendi frá sér skáldsöguna Veröld víð árið 1998, sem færði báðar vínlandssögurnar í skáldsagnaform, með Guðríði sem aðalpersónu. Í þeirri skáldsögu virtist áherslan vera femínísk, að því leyti sem hún leiðrétti hlut kvenna í íslendingasögunum, en aðrar slíkar kvennasögur eru einmitt Korkusögur Vilborgar Davíðsdóttur. Af erlendum sögum ná nefna Grænlendinga Jane Smiley, frá 1988, sem kom út á íslensku 1991, og Eiriksdottur Joan Clark, frá 1994. Meðan Grænlendingarnir lýsa hnignun hvítra landnema á Grænlandi löngu eftir vínlandsferðir, segir Eiriksdottir, eins og nafnið gefur til kynna, frá Freydísi Eiríksdóttur, sem er eitt af fjölmörgum skössum Íslendingasagnanna.
Allar eru þessar skáldsögur einskonar aðlaganir eða jafnvel þýðingar á íslendingasögunum, þarsem verið er að þýða þessar sögur eða aðlaga þær yfir á nútímaskáldsagnaform. Slíkar aðlaganir eru jafnan bundnar ákveðnu stigveldi, þarsem frummyndin er ávalt álitin æðri eftirmyndinni, og eftirmyndin er dæmd eftir því hversu trú hún er fyrirmyndinni. En í tilfelli þessara skáldsagna er slíkur trúverðugleiki ekki endilega mælikvarðinn, því eins og áður sagði er þarna verið á meðvitðan hátt að leiðrétta ákveðið ójafnvægi kynjanna, með því að leggja áherslu á konur. Þannig er verið að endurskoða og endurskapa söguna að einhverju leyti.
Þessi endurskoðun tekur svo á sig mismunandi form. Það er til dæmis eftirtekarvert að sjá hvernig Jónas og Clark nálgast þessar tvær konur. Skáldsaga Jónasar er dæmi um algerlega hefðbundna nálgun, þarsem ’frumtextinn’ er tekinn mjög hátíðlega: t.d. viðheldur hann algerlega þeim ímyndum sem birtast af Guðríði og Freydísi, þarsem sú fyrri er ljós og falleg og góð, meðan sú seinni er illskeytt rauðhært skass. Það er hinsvegar þessi neikvæða ímynd sem Joan Clark tekst á við í skáldsögu sinni Eiriksdottir, en sagan er byggð upp eins og einskonar ævisaga Freydísar, með Vínlandsförina afdrifaríku sem þungamiðju.
Það er eftirtektarvert að þessar sögur taka allar á sig form afþreyingarskáldskapar, meðvitað eða ómeðvitað. Að einhverju leyti er þetta bundið stigveldisformúlu frummyndar og eftirmyndar, og liggur þannig í vinnsluferlinu, því í þessum þýðingum og aðlögunum er vissulega verið að poppa þetta hámenningarlega efni upp. Og til að koma sögu og Íslendingasögu í aðgengilegt form er gripið til afþreyingarformúla.
Í þessum skáldskap birtist því áhugavekjandi dæmi um hvernig hámenning verður að lágmenningu, kannski sérstaklega að því leyti að það er næstum eins og afþreyingarformúlan taki yfir og móti sögurnar. Í þeim tilfellum þegar höfundar reyna að halda sig sem næst sögulegum heimildum verður togstreitan einna mest og skáldsögurnar hafa ríka tilhneygingu til að verða ójafnar og tilgerðarlegar. Hinsvegar virðist hjónaband heimilda og skáldskapar mun affararsælla þegar sagan er tekin hæfilega hátíðlega, sérstaklega þegar hún er mönnuð nýju fólki, eins og í skáldsögum Vilborgar, en þeirra styrkur felst helst í sannfærandi og tilgerðarlausri úrvinnslu á sögulegu efni.
Skáldsagan Eldfórnin (1997) byggir í ríkari mæli á heimildum en Korkusögurnar og gerist á fjórtándu öld. Vilborg velur sér efni úr annálum og þjóðsögum, og segir hér sögu nunnu á Kirkjubæjarklaustri sem samkvæmt annálum var brennd á báli árið 1343. Ung stúlka er tekin í fóstur af nunnunum en fljótlega kemur í ljós að hún fer sínar eigin leiðir. Eins og áður dregur Vilborg upp sannfærandi og lifandi mynd af fólki og staðarháttum og kryddar svo með sterku drama og nokkrum óhugnaði. Stíllinn er mjög í ætt við stíl þjóðsagna án þess þó að vera markaður þreytandi einkennum stælingar. Líkt og í fyrri bókunum eru konurnar hér sterkar og sjálfstæðar og hika ekki við að gagnrýna og brjótast út úr þeim þrönga ramma sem þeim er settur, Vilborg er greinilega gagnrýnin á hina kristnu hugmyndafræði þessa tíma, og snýr við viðteknum hugmyndum um syndir og kynhlutverk. Skáldkonan vinnur vel úr því efni sem hún hefur og færir sér í nyt kunnug minni úr þjóðsögum og goðsögum, svo sem hugmyndina um fylgjuna og sögur af útburðum, sem flestir virðast feðraðir af prestum. Annað áhugavert þema er spurningin um hið sagða og ósagða, en líkt og í fyrri bókunum er mikið gert úr muninum á því að vita hlutinn og að segja hann upphátt. Spenna sem þessi er vel þekkt stílbragð í dramatískum skáldsögum af þessu tagi, en í því þjóðfélagi sem þarna er lýst fær kunnuglegt minni aukið vægi, því þar er trúin á orðsins megin ríkur þáttur í daglegu lífi.
Í skáldsögunni Galdri hefur Vilborg enn fært sig fram um öld en Galdur er söguleg rómansa eða reyfari sem gerist á 15. öld og segir frá ungri konu, Ragnfríði, sem verður ’óvart’ ólétt 15 ára og því er trúlofun hennar við ungan og efnilegan mann, Þorkel, rift. Þau hittast svo aftur rúmum áratug síðar, en þá er Þorkell orðinn kaþólskur prestur og má því ekki vera með konum. Hér er komin uppskrift af hefðbundnu ástardrama; elskendur sem er skapað að skilja og hittast svo aftur 11 árum síðar eða svo. Í sögunni er lögð áhersla á erfiðar aðstæður Ragnfríðar, en hún er að sjálfsögðu fallin kona, sem vegna fjölskyldutengsla fær að vera bústýra hjá biskupi, en hann er enskur. Sögulegur bakgrunnur þessa ástardrama eru trúarbragðaátök á Íslandi þarsem tókust á erlendir biskupar og innlendir prestar og sagan er öðrum þræði dramatísk frásögn af átökum um auðævi, lönd, biskupsembættið og svo náttúrulega Ragnfríði sjálfa. Eins og áður er sagan skemmtilega skrifuð, heimildavinnan er vel unnin og yfirþyrma heimildir aldrei sjálfa skáldsöguna.
Í íslenskri bókmenntaumræðu hefur áhuginn á sögulegum skáldsögum verið nokkuð gagnrýndur á þeim forsendum að sögulegur skáldskapur bjóði upp á flótta undan samtímanum á vit fjarlægrar fortíðar. En sögulegur skáldskapur á oft erindi til nútímans að því leyti sem þar býðst tækifæri til að kommentera á nútímann útfrá sögunni, að auki hlýtur lesandi alltaf að skoða og spegla þessa sögu útfrá eigin samtíma. Þessi speglun í tíma gengur sérlega vel upp hjá kvenhöfundum eins og Vilborgu, fyrst og fremst vegna þess að hún velur að skrifa um konur í karlaheimi og velta fyrir sér stöðu kvenna, sem óneitanlega kallar á vangaveltur um stöðu kvenna í dag. Með því að gefa sér ákveðið frjálsræði í nálgun sinni á söguna skapar Vilborg skáldsögum sínum ákveðið nútímalegt yfirbragð, án þess að sagan verði þvinguð eða ójöfn. Skáldsögur Vilborgar eru langt frá því að vera einhverjar sögulegar stælingar, þær eru umfram allt skemmtilegir og spennandi reyfarar.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002
Greinar
Almenn umfjöllun
„Til atlögu við óttann“ (viðtal)
Kirkjuritið, 81. árg., 1. tbl. 2015, s. 28-29
Um einstök verk
Auður
Heimir Pálsson: „Auður“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 2. tbl. bls. 121-4.
Eldfórnin
Elísabet Þorgeirsdóttir: „Nunna brennd á báli“
Vera, 16. árg., 6. tbl. 1997, s. 35.
Ragna Garðarsdóttir: „Hvað verður um mig?“
Tímarit Máls og menningar , 59. árg., 3. tbl. 1998, s. 149 – 152.
Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir: „Eldfórnin eftir Vilborgu Davíðsdóttur : bókarfregn“
Merki krossins, 1998, 1. tbl., s. 38-40
Hrafninn
Sigrún Davíðsdóttir: „Sagnaandi og panelilmur“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 3. tbl. 2006, s. 127-129
Úlfhildur Dagsdóttir: „Krummi krunkar úti“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Nornadómur
Silja Aðalsteinsdóttir: „Korku saga Þórólfsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 3. tbl. 1995, s. 123 – 127.
Við urðarbrunn
Silja Aðalsteinsdóttir: „Korku saga Þórólfsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 3. tbl. 1995, s. 123 – 127.
Vígroði
Kolfinna Jónatansdóttir: „Vald og valdaleysi“ (ritdómur)
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 59.
Verðlaun
1994 - Viðurkenning Íslandsdeildar IBBY: Við urðarbrunn
1995 - Barnabókaverðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur: Nornadómur
Tilnefningar
2021 - Fjöruverðlaunin: Undir Yggdrasil
2005 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Hrafninn
Land næturinnar
Lesa meiraEftir harmleik heima á Íslandi heldur Þorgerður til Noregs þar sem örlögin leiða hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs Eyvindarsonar frá Jamtalandi. Saman halda þau í kaupferð til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði. Í landi næturinnar bíða þeirra launráð og lífsháski. Á augabragði er Þorgerður orðin ein meðal óvina og kemst að því að stundum kostar það meira hugrekki að lifa en deyja.Undir Yggdrasil
Lesa meiraÁstin, drekinn og dauðinn
Lesa meiraOn the Cold Coasts
Lesa meiraVígroði
Lesa meiraDie Winterfrau
Lesa meiraAuður
Lesa meiraAuður
Lesa meiraHrafninn
Lesa meira