Um bókina
Adam er rétt mættur í vinnuna á sálfræðistofunni Sáló þegar barni er rænt úr afgreiðslunni. Síðar sama morgun vélar fyrrverandi eiginkona hans, rannsóknarlögreglukonan Soffía, hann til að taka að sér mál sem Adam er viss um að stangast alvarlega á við siðareglur stéttarinnar. Til að flækja lífið enn frekar haga aldraðir foreldrar hans í Englandi sér stórundarlega og leyndarmálið um Jennýju, hliðarsjálfið sem lakkar á sér neglurnar þegar enginn sér til, er sífellt á barmi þess að komast upp.
Jónína Leósdóttir hefur getið sér gott orð fyrir bækur sínar, meðal annars glæpasögurnar um eftirlaunakonuna Eddu á Birkimelnum. Varnarlaus er tuttugasta bók hennar og önnur sagan um Adam og Soffíu, en sú fyrsta, Launsátur, kom út í fyrra.
Úr bókinni
"Hvað með Lilju?" spurði hann.
"Æ, já." Soffía andvarpaði. "Hún bað mig að gera sér greiða."
"Og?"
"Þú verður að hjálpa mér."
Eitt það versta sem Soffía lenti í var að þurfa að viðurkenna vanmátt af einhverju tagi og biðja um aðstoð. Adam sá greinileg merki um innri baráttu í augnaráði hennar en gerði ekkert til að auðvelda henni bónina, heldur beið þegjandi eftir útskýringu sem kom loks með harmkvælum í stuttum gusum.
"Sko ... Lilja er með MBA-gráðu og ... ja, hún fékk nýlega fína stöðu ... sem forstjóri ... ja, eða framkvæmdastjóri ... skiptir ekki máli. Á elli... nei, hjúkrunarheimili, sem sagt. En ... sko, henni finnst eitthvað gruggugt við tölurnar ... eitthvað aftur í tímann ... einhver ár, eiginlega. En bara á einni deildinni."
Það var ólíkt Soffíu að tafsa svona og Adam beið lítt áhugasamur eftir að hún kæmi sér að efninu.
"Á þessari einu deild, sem sagt ... ja, þar finnst henni ... ja, þar hafa verið ... óeðlilega mörg ... hérna ... dauðsföll."
Athygli Adams vaknaði loks við þessa síðustu sundurslitnu setningu og hann rétti úr sér á skrifborðsstólnum.
"Dauðsföll?" Bergmálaði hann. "Óeðlilega mörg? Hvernig þá?"
"Láttu ekki svona, maður. Þú skilur íslensku." Soffía var aftur orðin sjálfri sér lík.
"Fleiri dauðsföll en eðlilegt getur talist, þrátt fyrir að þetta sé allt háaldrað og veikt fólk?" Hugsaði hann upphátt.
"Já."
"Þá er skiljanlegt að hún hafi snúið sér til þín. Það er að segja, lögreglunnar."
Soffía ók sér á sófanum.
"Hún gerði það ekki beint. Hún leitaði til mín, frænsku sinnar."
"Og þú hefur að sjálfsögðu sagt henni að þegar svona alvarlegur grunur kemur upp verði málið að fara í formlegt ferli í kerfinu?" Adam lagði áherslu á hvert orð. Hann vissi mætavel að Soffía sæti ekki fyrir framan hann núna ef rétt og lögboðin leið hefði verið farin.
"Hún var valin úr hundrað umsækjendum."
"Hvað kemur það málinu við? Manneskjan er nýkomin til starfa og rekst á eithvað sérkennilegt sem gerðist áður en hún tók við. Af hverju ætti hún að hylma yfir því?"
"Hún er ekkert að hylma yfir neinu. Þetta eru bara tölur. Bara grunur. Hún hefur engar sannanir."
"Getur hún ekki útbúið lista yfir dauðsföllin, ásamt tímasetningum og tékkað á hvaða starfsfólk var á vakt, og rætt málið við það?" Adam fannst ólíkt Soffíu að sogast inn í svona móðursýki.
"Það finnast engar vaktatöflur aftur í tímann. Að minnsta kosti ekki sem stólandi er á. Og Lilja er nýbúin að reka bókhaldarann fyrir óreglu. Drykkju, sem sagt. En það var líka bullandi óregla á bókhaldinu sem þarf að rannsaka."
Adam hallaði sér aftur í skrifborðsstólnum.
"Og þar kemur rannsóknarlögreglan sterk inn, ekki satt? Því þetta er einmitt hennar hlutverk, að rannsaka."
Hann heyrði sjálfur hvað hann hljómaði yfirlætislega. Það var ekki fallegt af honum að njóta þessa samtals en hann gerði það nú samt. Hann hafði ekki oft yfirhöndina í samskiptum þeirra Soffíu. Enn var honum þó fyrirmunað að skilja hvers vegna hún hafði viljað ræða þetta við hann í hvínandi hvelli. Var það vegna þess að hann kannaðist við Lilju eða vegna menntunar hans og reynslu sem sálfræðingur? Kannski var stelpan í áfalli út af þessari uppgötvun sinni og þurfti samtalsmeðferð. En þá hefði Soffía einfaldlega getað hringt og beðið Adam um að gefa Lilju tíma.
"Auðvitað gætum við tekið þetta í rannsókn. En hvað heldurðu að stjórn heimilisins myndi segja?" Augu Soffíu skutu neistum. "Lilja yrði rekin. Ekki strax en fljótlega. Og fengi aldrei aftur toppdjobb."
"Bölvað rugl og vitleysa, vertu ekki svona dramatí..." maldaði hann í móinn en Soffía var komin á skrið og greip fram í fyrir honum.
"Þú skilur þetta ekki. Það er ekkert elsku mamma í bissniss, Adam. Ekki einu sinni ummönunarbransanum. Þetta er virt stofnun með gott orðspor." Hún dæsti við tilhugsunina. "Ímyndaðu þér fjölmiðlafárið. Það yrði allt vitlaust. Allir sem eiga ættingja þarna yrðu brjálaðir. Og allir sem hafa misst ættingja þarna. Sérstaklega þeir. Og Lilju yrði fórnað."
Adam fannst þetta fullkomlega fjarstæðukennt. Þótt hann þekkti orðatiltækið um að boðberar slæmra tíðinda fengju iðulega á baukinn taldi hann mun líklegra að Lilja fengi klapp á bakið fyrir að vera glögg og óhrædd við að tækla viðkvæm málefni. En oft var auðveldara að samsinna Soffíu en andmæla.
(s. 29-31)