Beint í efni

Vélarbilun í næturgalanum

Vélarbilun í næturgalanum
Höfundur
Ólafur Haukur Símonarson
Útgefandi
SÚR
Staður
Reykjavík
Ár
0
Flokkur
Smásögur

Úr Vélarbilun í næturgalanum:

En hvernig fjallar maður um bók af þessu tagi?
Því fer fjarri að dugi nú að japla á gömlu tuggunni: bókin sé stíluð af íþrótt, málið á henni fjarska kjarnmikið, búníngurinn hæfi efninu, bókin eigi erindi við alla hugsandi menn. Og hve sjaldgjæft: bók sem er bæði spennandi og full með mannviti.
 Allt missir þetta marks. Þau eru ótilhlýðileg öll þessi venjulegu glamuryrði sem hann hefur rutt á pappírinn í mörg ár, oftast gjörsamlega af ástæðulausu, bara ef rak á fjörur eitthvað sem talist gat skammlaust. Þau væru móðgun við verkið og höfundinn, hugsar hann, en þau væru líka móðgun við minn eigin hjartslátt.
 Er nokkur vinnandi vegur að gagnrýna þessa bók? Varla. Hitt kæmi til mála að lýsa viðbrögðum sínum sem lesana; en þá á hann á hættu að hann verði að athlægi hjá fólki út í bæ. Sjáið, gamall sporgöngumaður þeirra Pounds og Eliots og Lewis fallinn í gryfju tilfinníngseminnar!
 Hann hvílir hálfvegis mókandi í lesstólnum og ljósið flæðir yfir mjúkfeitt andlitið, rauðslikjað skegg, lítinn framstæðan munn, miklar brúskaðar augnabrúnir, hár sem var mikið og rautt en er nú lýjulegt og upplitað.
 Þá er einsog detti af honum mókið. Alltíeinu er hann glaðvakandi. Og hann rís á fætur, kveikir vinnuljósið á skrifborðinu og sest við ritvélina.

 HVER ER GÓLEM?

 Sögnin a Gólem er af því tagi sagna sem samnefndar hafa verið reikisagnir; það er á annan bóginn skáldskapur sem fellur einhversstaðar að sögulegum veruleika, hreinsast og öðlast almennt gildi í goðsöguformi; en á hinn bóginn sögulegar staðreyndir sem rata inní ríki skáldskaparins, skýrast þar eftir lögmálum skáldlistarinnar og verða sammannlegar að merkíngu.
 Sögnin sem hér um ræðir virðist einkum hafa átt sér ból um Austur- og Mið-Evrópu, hjá gyðíngum, og hefur að líkindum dreifst með þeim um víða veröld.
 Uppspretta sagnarinnar kann að vera lýsíng hinnar helgu bókar Talmud á sköpun mannsins: „Hina fyrstu stund var duftinu safnað saman; hina aðra stund var sköpulag hans ákveðið; hina þriðju stund varð hann að formlausu hnoða; hina fjórðu stund.. (hér vantar í handritið)...; hina sjöttu stund öðlaðist hann sálu: hina sjöundu stund reis hann á fætur og stóð teinréttur“.
 Kjarninn í Gólemsögninni virðist vera svipaður. Það er rabbíinn sem er lífgjafinn. Hann dansar umhverfis hið lífvana hnoða æpandi heilög slagorð og hvíslandi nafn guðs þess sem hann ætlar að muni veita hinu dauða efni líf.

(s. 45-47)

Fleira eftir sama höfund

Hundheppinn

Lesa meira

Grettir

Lesa meira

Græna landið

Lesa meira

Veröld Busters

Lesa meira

Fólkið í blokkinni

Lesa meira

Má ég eiga við þig orð : ljóð handa fólki sem aldrei les ljóð

Lesa meira

Gauragangur

Lesa meira