Æviágrip
Ólafur Haukur Símonarson fæddist 24. ágúst 1947 í Reykjavík. Hann lærði innanhússarkitektúr í Kaupmannahöfn 1965-69 og síðan bókmenntir í Kaupmannahöfn og Strasbourg 1969-72. Hann flutti heim frá Danmörku 1974. Ólafur vann í tvö ár við dagskrárgerð hjá Ríkissjónvarpinu, m.a. við gerð heimildarmynda um íslenskt þjóðlíf. Hann var leikhússtjóri Alþýðuleikhússins 1980-82. Hann hefur fengist við ýmis önnur störf gegnum tíðina, en frá 1976 hefur hann að mestu helgað sig bókmenntaskrifum og þýðingum.
Ólafur Haukur hefur setið í stjórnum og ráðum ýmissa félaga og samtaka. Hann var formaður Leikskáldafélags Íslands frá 1986 - 1999, varaformaður Rithöfundasambands Íslands frá 1994, hefur setið í stjórn STEFs á Íslandi frá 1986, gegnt embætti varaforseta Leikskáldanefndar Alþjóðaleiklistarsambandsins frá 1993 og setið í verkefnavalsnefnd Leiklistarhátíðarinnar í Bonn (Bonner Theater Biennale) árin 1992 og 1994.
Ólafur Haukur hefur samið fjölda leikrita fyrir svið, útvarp og sjónvarp sem notið hafa mikilla vinsælda. Nefna má Blómarósir, Bílaverkstæði Badda, Hafið, Gauragang, Þrek og tár og Kennarar óskast. Kvikmyndin Ryð (1990) var gerð eftir leikritinu Bílaverkstæði Badda og kvikmyndin Hafið (e. Baltasar Kormák), er byggð á samnefndu leikriti Ólafs Hauks.
Fyrir utan ljóð og smásögur hefur Ólafur sent frá sér fjölmargar skáldsögur, svo sem Vatn á myllu kölska, Gauragang og Rigningu með köflum. Árið 1997 fékk sakamálasagan Líkið í rauða bílnum frönsk bókmenntaverðlaun fyrir bestu norrænu glæpasöguna. Ólafur Haukur hefur þýtt fjölda bóka, leikrita og kvikmynda. Hann hefur sent frá sér fræðibækur og skrifað greinar og smásögur í blöð, tímarit og safnrit hérlendis og erlendis. Einnig hefur hann samið og gefið út á hljómplötum fjölda sívinsælla sönglaga og texta.
Ólafur Haukur er kvæntur og þriggja barna faðir. Hann býr í Reykjavík.
Um höfund
Rýnt í rauðar naflarósir samfélagsins: um verk Ólafs Hauks Símonarsonar
Orðið ‘höfundarverk’ á vel við þegar rætt er um ævistarf Ólafs Hauks Símonarsonar til þessa, enda hefur hver skáldsagan, ljóðabókin, þýðingin, kvikmyndin og leikritið rekið annað síðan ljóðabókin Unglingarnir í eldofninum kom út árið 1970. Leikrit eftir Ólaf Hauk hafa notið mikilla vinsælda og verið sviðsett bæði af áhugaleikfélögum sem og í atvinnuleikhúsum, auk þess sem Hafið var kvikmyndað við góðar undirtektir árið 2002. Sjálf las ég Gauragang (1988) til samræmds prófs í íslensku á sínum tíma og hef stundum velt því fyrir mér hvers konar tilfinning það sé fyrir höfund að vita heilu árgangana lesa verk eftir sig, ásamt með Íslendingasögunum. Er slíkt jafnvel ekki enn meiri viðurkenning en bókmenntaverðlaun hverskonar? Lesendahópurinn er í það minnsta tryggður, en hið sama verður ekki sagt um öll verk sem hljóta eftirsótt verðlaun. Textar sem komast á námsskrá hafa hins vegar verið viðurkenndir af stofnunum samfélagsins sem mikilvægur hluta af menningunni og slík viðurkenning verður ennfremur til þess að viðkomandi verk verður hluti af menningararfinum. Og það er viðeigandi að stór hluti þjóðarinnar þekki verk Ólafs Hauks, því verk hans fjalla einmitt að miklu leyti um þjóðina, um íslenskt samfélag og Íslendinga. Umfjöllunin er gjarnan gagnrýnin og beint gegn því sem mætti kalla nútímaþjóðsögur, til að mynda þann útbreidda orðróm að á Íslandi sé engin stéttaskipting, að hér ríki jafnrétti og góðærið sé í algleymingi hjá öllum. Skáldsögurnar Vatn á millu kölska (1978) og Galeiðan (1980) eru gott dæmi um það hvernig Ólafur tekst á við hið félagslega í verkum sínum, og ádeilan í þessum tveim bókum er um margt erkitípísk fyrir verk hans, bæði skáldsögur, leikrit og ljóð. Því ætla ég að hefja umfjöllunina um höfundarverkið á að skoða þau málefni sem rædd eru í þessum tveim sögum, sem og þær fagurfræðilegu aðferðir sem bera umræðuna uppi.
I
Við fyrstu sýn er skiptingin á umfjöllun um verkafólk í Galeiðunni annars vegar og eignastétt í Vatni á millu kölska hinsvegar nánast algjör. Tveir þjóðfélagshópar, tvær bækur, tvær frásagnaraðferðir. Galeiðan samanstendur af þáttum sem segja frá fólki sem á einn eða annan hátt tengist Umbúðasmiðjunni h.f. Konurnar sem vinna á Línunni, færibandinu í Umbúðasmiðjunni, eru þó þungamiðja sögunnar. Jafn ólíkar og þær eru margar eiga þær það sameiginlegt að vera bundnar fastar við árararnar: ómenntaðar eins og Rósa, einstæðar mæður eins og Jónína og Marta, eða með sjúkrasögu sem heftir starfsmöguleikana eins og Brynja. Titill bókarinnar segir í raun allt sem segja þarf um stöðu þeirra. Slög stimpilklukkunnar hafa komið í stað trumbusláttar þrælapískarans og þegar þær eru búnar að stimpla sig inn „er ætlast til þess að þið séuð byrjaðar að vinna“, eins og Lárus verkstjóri ítrekar stífur (31). Leyfi þær sér að hverfa frá vélunum, „þó ekki sé nema í fimm mínútur til að rétta úr bakinu, er Lárus óðara kominn á stúfana“ (40). Allskonar hyldýpi og skiptingar einkenna ennfremur vinnustaðinn og samfélagið sem lýst er í Galeiðunni. Verkstjórinn situr í lokuðu glerbúri hvaðan hann getur fylgst með konunum á Línunni á meðan þær mega ekki hætta á að líta upp til hans af ótta við að hlífalausar vélarnar klippi af þeim fingurna. Í matsalnum „situr skrifstofuliðið við ákveðið borð“ og „karlmannamegin setjast konurnar ekki“, auk þess sem forstjórinn er álíka sjaldséður á vinnustaðnum og frídagarnir (58, 59).
Tilvera verkakvennanna í Galeiðunni hverfist um vinnustaðinn og frásagnaraðferðin er hugvitssamlega sniðin að efninu. Engin kvennanna er aðalpersóna og engin segir frá í fyrstu persónu. Þessi frásagnarstíll undirstrikar að þær eru hópur sem gjarnan er litið á sem ‘lýð’ frekar en einstaklinga. Deyfðin sem einkennir þættina úr lífum þeirra flestra bendir til þess að álagið hafa valdið því að sumar eru jafnvel sjálfar farnar að skilgreina sig fyrst og fremst sem ópersónulegt vinnuafl.
Í Vatn á millu kölska er frásagnartækninni beitt á svipaðan hátt til að undirstrika umfjöllunarefnið, en nú er vitunarmiðja verksins einstaklingur. Gunnar Hansson, dagskrárgerðarmaður hjá Sjónvarpsstöðinni, hefur ætíð fengið allt veraldlegt upp í hendurnar, enda af gömlum og góðum forstjóraættum. Gunnar er ófrávíkjanlega aðalpersóna, þungamiðja textans og í forgrunni í sögunni af sjálfum sér, öfugt við flöktandi sjónarhorn Galeiðunnar. Þó má Gunnar Hansson þakka stöðu sína fjölskylduböndum og flokknum frekar en hæfileikum, og það veit hann mæta vel sjálfur. Persóna Gunnars er gegnsýrð af sterkri fyrirlitningu – sjálfsfyrirlitningu, fyrirlitningu á sinni þjóðfélagsstétt og stöðu, hræðslu við ákvarðanatöku en jafn sterkri hræðslu við stefnuna sem líf hans hefur tekið fyrir tilstilli ákvarðanna annarra, sér í lagi föður hans. Gunnar hefur alltaf gert það sem samfélagið og fjölskyldan ætlaðist til af honum. Hann gekk menntaveginn og valdi hagsýna námsbraut, frekar en listgreinarnar sem hann hefði sjálfur kosið, giftist þegar kærastan varð óvart ólétt og eftir útskrift tók hann þeirri vinnu sem faðirinn fann handa honum.
Þó er Gunnar ekki alveg áhugalaus um dagskrárgerðina og með aðstoð hinnar ungu og róttæku Kristínar, leggur hann fram tillögu að þætti um kjör iðnverkafólksins í landinu. Slíkt á ekki upp á pallborðið hjá deildarstjóranum sem hefur, ásamt stjórn Sjónvarpsstöðvarinnar, almennt meiri áhuga á að sýna landið eins og þeim finnst að það ætti að vera en eins og það er. Heimarnir sem lýst er og sögurnar sem sagðar eru í Vatni á millu kölska og Galeiðunni snertast aðeins einu sinni, en það gerist þegar Kristín hefst þrátt fyrir allt handa við að rannsaka stöðu iðnverkakvenna. Hún tekur viðtal við Jónínu, láglaunamanneskju og einstæða móður, starfskraft á Línunni í Umbúðasmiðjunni. Viðtalið, sem Gunnar Hansson hlustar seinna á upptöku af, undirstrikar fjarlægðina milli þeirra ólíku þjóðfélagshópa sem Gunnar og Jónína standa fyrir. Jónína er mögulegt viðfangsefni, hráefni sem Gunnar gæti kannski búið til söluvarning úr, líkt og vinna Jónínu er seld öðrum til gróða. Nema hvað, eins og Gunnar veit og deildarstjóri Sjónvarpsstöðvarinnar ítrekar, það mun enginn vilja borga fyrir að hlusta á gráleita söguna af tilveru Jónínu og þar af leiðandi er sú saga einskis virði. Mismunandi frásagnaraðferðir og efnistök bókanna tveggja þjóna þeim tilgangi að benda á hversu breitt bilið sem aðskilur eignastéttir og verkafólk, karla og konur er, líka á Íslandi. En er niðurstaða höfundar þá sú að bilið sé óbrúanlegt? Er jafnrétti óraunsæ hugsjón? Lifa einstaklingar í algjörri einangrun hver frá öðrum, ekkert annað en ómanneskjulegir vinnuþrælar?
Ég hóf þessa umfjöllun um Galeiðuna og Vatn á millu kölska með orðunum ‘við fyrstu sýn’, og án þess að mér finnist myndin sem dregin er upp af stéttaskiptingunni á Íslandi yfirborðskennd – þvert á móti – þá held ég samt að meira leynist undir yfirborði frásagnarinnar. Eins ólík og tilvera Gunnars Hanssonar, forstjórasonar og dagskrárgerðarmanns, og Jónínu Ingimarsdóttur, einstæðrar móður og iðnverkakonu, virðist vera, glíma þau bæði við sama vandamál: frelsi. Eða skort á því. Galeiðan og Vatn á millu kölska lýsa ólíku fólki í ólíkum stöðum sem eiga eitt sameiginlegt: þau tilheyra sama samfélaginu. Aðstæður þeirra eru að miklu leyti mótaðar af samfélaginu og samfélagið bindur þau, hvort sem þau eru hátt sett eða lágt í goggunarröðinni. Matthías Viðar Sæmundsson skrifaði árið 1977 lokaritgerð um Dæmalaus ævintýri eftir Ólaf Hauk Símonarson þar sem hann hélt því fram að meginþema smásagnasafnsins væri klofningurinn sem einkennir nútímamanninn, skipting hversdagslífsins og sálarinnar í tilfinningalíf annars vegar og rökhugsun hins vegar. Tilgangur sagnanna er samkvæmt Matthíasi að deila á borgaraleg viðhorf, en sérstaklega viðskiptavæðingu menningarinnar og tilfinningalífsins undir kapítalisma, ásamt með upphafningu rökvísi á kostnað sálarinnar. Firringin sem rökvæðing hversdagslífsins og úthýsing listarinnar skapar er af samfélagslegum toga en myndar þá undirrót ófrelsis sem einkennir tilveru bæði Gunnars Hanssonar og Jónínu. Sköpunargáfa beggja og frumleg hugsun hefur verið bæld, skipað í annað sæti gagnvart kröfum samfélagsins um að framleiða gróða. Færibandavinnan njörvar Jónínu „niður á eitthvert undarlegt stig vélrænnar eftirtektar“ (41) á meðan Gunnar má aðeins framleiða ógagnrýnið sjónvarpsefni sem styður hugmyndafræði yfirmanna landsins skilyrðislaust. Bæði Jónína og Gunnar hafa verið vélvædd, gerð að galeiðuþrælum gróðahyggjunnar sem ekki á skipsrúm fyrir tilfinningar og hugsjónir.
II
Annar ritgerðarhöfundur, Björg Kofoed-Hansen, sem skrifaði um skáldsöguna Vík milli vina (1983) árið 1986, tekur að miklu leyti undir með Matthíasi og bætir við að tilgangur Víkur milli vina sé að vekja athygli á því sem höfundur telur aðalvandamál nútímans: hugsjónaleysi og hugsunarleysi. Hugsanahátturinn, sinnuleysið og tilfinningadeyfðin sem myndast vegna hirðuleysis samfélagsins um tilfinningalífið og listina í daglegu lífi veldur því að einstaklingarnir hætta að taka ábyrgð á gerðum sínum og annarra. Firring ábyrgðar er ekki bara möguleg heldur eðlileg þegar viðkomandi finnst „miklu frekar eins og hver einasta ákvörðun taki mig en ég ekki hana“ eins og Einar segir í Þreki og tárum (66). Einar er ekki einn um þessa skoðun. „Kannski, hugsar Gunnar Hansson, tekur maður aldrei ákvörðun. Ákvörðunin tekur þig“ (Vatn á millu kölska, 39), og sögumaðurinn í ljóðsögunni Almanak jóðvinafélagsins (1981) uppástendur að „maður kemst ekki beinlínis að niðurstöðu … það er fremur einsog niðurstaðan komist að þér“ (12). Þegar persónur sætta sig við að láta ákvarðanir taka sig frekar en að komast að sjálfstæðri og einstaklingsbundinni niðurstöðu hefur listin borið ósigur fyrir hinni félagslegu vélvæðingu einstaklingsins.
Þetta ástand er eitt aðal umfjöllunarefni Víkur milli vina. Þar segir frá hópi einstaklinga sem stunduðu nám saman í Kaupmannahöfn í kringum 1968. Samanburður við hinn mikla tilfinninga- og hugsjónahita sem einkenndi það tímabil, sérstaklega í lífi stúdenta, undirstrikar heiftarlega hversu lítið þessir sömu einstaklingar trúa á tíu til fimmtán árum seinna þegar samfélagið hefur úthlutað þeim föstu plássi í galeiðunni. Ein aðalpersónan úr vinahópnum í Vík milli vina, Ingunn, lýsir áhrifunum svo:
Við trúðum því að bráðum kæmi allt hið mikla stritandi mannkyn að njóta skemmtunar með okkur. Þegar það gekk ekki eftir, lokuðum við dyrunum og reyndum að gleyma því hvað var fyrir utan … Það er mögulega hægt að gleyma því sem er fyrir utan, en aðeins með því að deyfa skilningarvitin.
(187)
Á meðan Ingunn áttar sig á því að hún ber að hluta til ábyrgð á eigin aðstæðum er Pétur sögumaður reiður út í allt og alla vegna þess að hann er reiður út í sjálfan sig, en það getur hann alls ekki viðurkennt. Hann hefur ekki gert neitt það sem hann vildi ungur og hatar Kára félaga sinn fyrir að spyrja „hvað er þitt yndi? Hverjar eru þínar hugsjónir? Hverju ert þú búinn að koma í verk?“ (17). Svarið er ekkert, engar og engu – Pétur hefur líkt og aðrir hliðrað hugsjónum til til að mæta kröfum samfélagsins. Hann er farinn að róa galeiðunni sem einn af þrælunum í þá átt sem honum er sagt að stefna frekar en að reyna að berjast á móti straumnum.
Frásagnartæknin sem beitt er í Vík milli vina gerir talsvert meiri kröfur til lesanda en Galeiðan og Vatn á millu kölska, og minnir jafnframt á að Ólafur Haukur skrifar leikrit og skáldsögur jöfnum höndum. Löng, gagnvirk samtöl breytast einatt í einræður um málefni sem höfundi eru hugleikin og virðast persónur þá gjarnan beina máli sínu til lesanda frekar en viðmælanda. Þankastrik eru notuð á undan beinni ræðu, og þar sem bókin er byggð á samtölum, verða þau oft það áberandi að textinn minnir á handrit að leikriti frekar en skáldsögu. Sagan samanstendur af stuttum þáttum líkt og Galeiðan og sjónarhornið flöktir á milli margra persóna, en inn á milli koma fyrstu persónu frásagnir Péturs. Hann virðist vera sögumaður, skrásetjari hugsana vina sinna. Hins vegar er Pétur alls ekki hlutlaus í sögu sem einkennist af ástarþríhyrningum, ósætti og ofbeldi sem Pétur oftar en ekki veldur sjálfur. Vísbendingar um óáreiðanleika Péturs sem sögumanns birtast hér og þar sem innskot í frásögnina. Best er að hafa varann á þegar Pétur segir sjálfur „(ég hef áreiðanlega ekki haldið alla þessa ræðu, en ég vildi hafa haldið hana)“ og „(kannski sagði hún þetta aldrei; kannski sofnaði ég, og dreymdi)“ (113, 123). En í raun finnst mér ekki mikilvægt að ekki sé hægt að treysta á hlutleysi skrásetjara né hæfileika hans til að segja rétt frá atburðum í lífi persónanna, þar með talið sínu eigin.
Persónurnar í Vík milli vina eru að ég tel alls ekki aðalatriði bókarinnar heldur miklu frekar verkfæri til að koma hugsjónum og samfélagslegri ádeilu höfundar á framfæri. Flestar persónurnar eru típur, samsettar úr sérkennum og dæmigerðum einkennum, eða standa jafnvel alveg fyrir eitt vandamál, eitt hlutverk. Líkt og Pétur er Halldór bitri og misskildi listamaðurinn, Kári fulltrúi andlausu borgarastéttarinnar, Aðalbjörg skilyrðislaust fyrirgefandi konan, Guðrún píslarvottur hinnar fullkomnu en vanmetnu húsmóður, Guðni táknar siðspillta gróðahyggjuna, Marteinn hlédrægu landsbyggða ‘fríkina’, Hjördís kúguðu konuna, Guðmundur stendur fyrir spillingu og Hafliði er autt blað sem kröfur þjóðfélagsins ritast á. Þessi tækni er í góðu samræmi við það sem bent var á í Galeiðunni og Vatni á millu kölska – að hið félagslega er ráðandi áhrifavaldur í lífi einstaklingsins. Helstu vandamálum þjóðfélagsins eins og þau koma höfundi fyrir sjónir er stillt upp og þau persónugerð til að hægt sé að takast á við þau á áþreifanlegri hátt. Þesskonar persónusköpun minnir á svokölluð ‘hugmynda-’ eða ‘vandamálaleikrit’ þar sem mannleg samskipti eru fyrst og fremst notuð til að fjalla um félagsleg vandamál.
III
Skilgreiningin á vandamálaleikriti finnst mér einmitt lýsa mörgum leikritum Ólafs Hauks vel: persónusköpunin þjónar ádeilunni. Matthías Viðar segir í áðurnefndri umfjöllun sinni um Dæmalaus ævintýri að persónur bókarinnar séu „einhliða. Höfundur beinir augunum fyrst og fremst að hinu félagslega í mannlegri tilveru“ (62). Mér finnst þessi athugasemd útskýra hvers vegna persónur virðast ganga aftur í leikritum Ólafs. Einvaldur heimilisins Sigurður í Milli skinns og hörunds (1984) gengur aftur sem Þórður í Hafinu (1992), hinn reiði og tilfinningalega bældi Einar í Þreki og tárum (1995) gæti hafa endurholdgast sem Alli í Kjöti (1990) og ákvarðanahræðsla Hadda í Milli skinns og hörunds minnir óneitanlega á svipað vandamál Ágústs í Hafinu. Konurnar skipast flestar í þrjá hefðbundna hópa: mæður, eiginkonur eða hórur. Um leikritin má hafa þau orð sem Atli Rafn Kristinsson notar til að lýsa persónugalleríi Vatns á millu kölska – „‘góðu’ persónurnar eru til muna færri en þær ‘vondu’ ef svo má segja, kannski ætti hér fremur að tala um jákvæðar og neikvæðar persónur“ (361).
Ég tek líka undir með Atla þegar hann segir að „ef til vill hættir Ólafi Hauki eilítið til að draga upp einhæfar myndir af sumum þessara persóna“ (360), en hins vegar held ég eins og Matthías að það sé með ráðum gert. Með persónum eins og Ormi Óðinssyni í Gauragangi hefur Ólafur svo sannarlega sýnt fram á að hann er vel fær um að skapa margræðar persónur sem bregðast við aðstæðum á einstaklingsbundinn hátt, þroskast og þróast. Persónurnar í ofangreindum leikritum eru hins vegar flestar típur sem standa fyrir ákveðin samfélagsleg viðhorf frekar en skoðanir margræðra einstaklinga. Þetta mætti telja galla á verkum Ólafs, nema vegna þess að ég held að megin tilgangur höfundar sé alls ekki að skapa raunsæislega persónur, heldur miklu frekar að nota manngerðir sem málpípur til að setja fram dæmi um, og ádeilu á, ákveðnar félagslegar aðstæður.
Sögusvið leikrita og skáldsagna Ólafs einskorðast ekki við Reykjavík, þó flest verk hans teljist til Reykjavíkursagna. Rigning með köflum (1996) segir frá upplifunum Breiðhyltingsins Jakobs af ‘fangelsisvistinni’ úti í sveit, Meiri gauragangur (1991) gerist í Danmörku og Hafið „gerist á okkar tíma í sjávarplássi“ (Hafið, 1992: 8), þó margir tengi það sennilega við Neskaupstað þar sem leikritið var kvikmyndað. Það er auðvelt fyrir flesta lesendur að meðtaka félagslegar aðstæður persónu sem „gengur upp Freyjugötu og þaðan niðrá Lokastíg“ (Vík milli vina, 1983: 104). Umhverfið er því alltaf nálægt í verkum Ólafs og óaðskiljanlegur hluti af því sem skapar aðstæður persónanna, hvort sem um er að ræða sveitabæ, lítið sjávarþorp, eða stærra sjávarþorp eins og Reykjavík. Umhverfi og maður renna jafnvel saman í meðförum sögumannsins Ólafs Hauks Símonarsonar í Almanaki jóðvinafélagsins:
Ég dái ekki bara útsýnið frá þér heldur líka innsýnina í þig. Ég veit að þú ert dálítið ruddaleg á köflum og hefur lítt þroskaðan smekk, en ég virði dugnað þinn og vilja til að læra. Ég horfi í gegnum fíngur á minnimáttarkennd þína gagnvart aðvífandi öfgum. Og þegar þú iðar í skinninu, andar, stynur og öskrar, þá ertu vissulega hluti af mér. Malbikið, steinsteypan, glerið, trén, grjótið, brunahanarnir, fólkið og litlu fiskarnir sem busla í hlýjum innhöfunum – þetta eigum við allt sameiginlega. – Sæl Reykjavík, segi ég, þú kæmist örugglega til þroska ef þú fengir tíma. Við kæmumst kannski til þroska saman.
(40)
Lífrænt samband manns og umhverfis styður samfélagsádeiluna og gerir hana á tíðum beittari, til að mynda þegar rætt er um sölu kvóta eða auðlinda á borð við hreint loft. Sömuleiðis eru kunnuglegar persónur til þess fallnar að gera umræðuna nákomnari lesanda. Fjölskylduboð sögupersónanna eru oft ekki ólík raunverulegum fermingarboðum, þar sem menn og konur hittast sem eru á öndverðum meiði um margt en skyldleikinn skuldbindur þau til að sýna kurteisi og brosa blíðlega hvert við öðru. En þó að vandamálin, óréttlætið og grámi hversdagsleikans séu yfirleitt í forgrunni er gamansemin aldrei langt undan. Þótt ádeilan sé alltaf beitt skapar hnyttni tilsvaranna sem Ólafur leggur jafnvel neikvæðum persónum í munn gott mótvægi og gerir þannig ofbeldið og stöðuga ádeiluna bærilega.
IV
Án þess að vilja smætta mismunandi umfjöllunarefni svo margra ólíkra verka sem höfundarverk Ólafs Hauks samanstendur af finnst mér einn þráður, eitt hugðarefni skáldsins, koma fram aftur og aftur: mikilvægi listarinnar í samfélaginu og fyrir einstaklinginn. Listin heldur ekki bara lífi í hugsjónum og fegurð heldur skilur á milli manns og vélar. Ólafur dregur aftur og aftur upp mynd af afleiðingum þess að
sífellt verður það algengara að listin
sé stutt en lífið lángt.
(Má ég eiga við þig orð, 1973:73)
Ljóðið „París ‘68“, sem slær jafnframt botninn í þessa umfjöllun, gefur til kynna að vitundarvakning um mikilvægi hugsjóna og listar sé einn aðal tilgangur skáldsins frá upphafi ferilsins til líðandi stundar. „París ’68“ birtist í ljóðabókum sem komu út með 30 ára millibili, 1973 og 2003, og vísar endurbirting ljóðsins til þess að hafi vitundarvakningar verið þörf þá, sé hennar ennþá þörf í dag.
Í morgun þegar ég vaknaði
sá ég að rauð rós hafði vaxið
út úr nafla þínum
og brosti við mér
eins og barn.Ég skundaði út í eldhús
að sækja vatn.Þegar ég snéri aftur var hún horfin
og þú sagðist aldrei hafa séð
neitt blómstur.
(Má ég eiga við þig orð, 1973: 56 og Æskuljóð hvíta mannsins, 2003: 2)
© Agnes Vogler, 2006
Tilvitnanir
Atli Rafn Kristinsson. „Ungur maður á túr“. Tímarit Máls og menningar, 40. árg., 3. h. 1979, s. 357-361.
Björg Kofoed-Hansen. 1986. Vík milli vina eftir Ólaf Hauk Símonarson. Lokaritgerð við HÍ.
Matthías Viðar Sæmundsson. 1977. Dæmalaus ævintýri eftir Ólaf Hauk Símonarson. Lokaritgerð við HÍ.
Greinar
Um einstök verk
Almanak Jóðvinafélagsins
Silja Aðalsteinsdóttir: „Ég held að bráðum hefjist lífið“
Tímarit Máls og menningar, 43. árg., 1. h. 1982, s. 113-116
Gaggalagú
Guðlaug Richter: „Bómullarbarn fer í sveit“ (leikdómur)
Börn og menning, 18. árg., 1. tbl. 2003, s. 20-21
Galeiðan
Inge Knutson: „Ólafur Haukur Símonarson. Galeiðan“
Gardar, årsbok 12, 1981, s. 88
Hattur og Fattur og Sigga sjoppuræningi
Bjarni Guðmarsson: „Enn komnir á kreik“ (leikdómur)
Börn og menning, 19. árg., 1. tbl. 2004, s. 32
Meiri gauragangur
Jón Viðar Jónsson: „... og leiklist í Reykjavík“
Frjáls verslun, 59. árg., 2. tbl. 1998, s. 76-79
Milli skinns og hörunds
Sonja B. Jónsdóttir: „Ekkert lengur á sínum stað“
Vera, 3. árg., 3. tbl. 1984, s. 42
Vatn á myllu kölska
Atli Rafn Kristinsson: „Ungur maður á túr“
Tímarit Máls og menningar, 40. árg., 3. h. 1979, s. 357-361
Vík milli vina
Fríða Á. Sigurðardóttir: „Hugleiðingar um stöðnun“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 2. h. 1984, s. 214-222
Það vantar spýtur
Gunnar Lárus Hjálmarsson: „Ein róleg og ein hress“ (tónlistargagnrýni)
Börn og menning, 22. árg., 1. tbl. 2007, s. 32
Æskuljóð hvíta mannsins
Geirlaugur Magnússon: „Afturhvarf og endurkoma“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 3. tbl. 2004, s. 119-122
Verðlaun
1997 – Les Boréales de Normandie verðlaunin: Líkið í rauða bílnum (sem besta norræna glæpasagan í Frakklandi)
1993 – Menningarverðlaun DV fyrir leiklist: Hafið
1993 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1990 – Kvikmyndahátíðin í Rouen í Frakklandi: Ryð (áhorfendaverðlaun)
1983 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Veröld Busters eftir Bjarne Reuter (fyrir þýðingu)
Tilnefningar
1994 – Norrænu leikskáldaverðlaunin: Hafið
1989 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Vatn á myllu kölska
Leikrit Ólafs Hauks Símonarsonar
Lesa meiraÖll helstu leikrit Ólafs Hauks birtast hér í einni bók, samtals 18 verk frá löngum ferli hans.Dýragarðurinn: Fólkið í blokkinni
Lesa meiraAukaverkanir
Lesa meiraUgla & Fóa og maðurinn sem fór í hundana
Lesa meiraSkýjaglópur skrifar bréf
Lesa meiraEin báran stök
Lesa meiraFuglalíf á Framnesvegi
Lesa meiraFluga á vegg
Lesa meiraVaktmester Robbi
Lesa meira
Fuglastríðið í Lumbruskógi
Lesa meira