Hvern hefði grunað að norrænar glæpasögur lumuðu á svona miklu blóði? Það er ekki nóg með að sakamálasagan lifi góðu lífi í núinu, heldur eiga þær sér bara nokkuð langa sögu og sjálfsagt má að einhverju leyti rekja vinsældir nútímaglæpasagna aftur til áhrifa frá þeim eldri: Maj Sjövahl og Per Wahlöö eru þeir sem helst liggja undir grun. Ljóst er að margir glæpasagnahöfundar hafa gert húsleit hjá þeim félögum og fundið þar ýmis líf-sýni, eða teikn um hvernig skuli fara að með rannsókn málsins.
Þessi aulahúmor á að vera einskonar inngangur að umfjöllun um tvær nýútkomnar sænskar glæpasögur, Villibirtu eftir Lizu Marklund og Á villigötum eftir Henning Mankell og til að gera langa sögu stutta, þá urðu þær ekki valdandi að neinum vonbrigðum hjá glæpasagnaþyrstum gagnrýnanda. Ekki er heldur að sjá að höfundarnir séu sérlega villtir, þeir virðast rata ágætlega um krákustigu sagna sinna, og sýna þar lítil merki villimennsku eða óhemjuskapar. Þvert á móti þá eru þetta agaðar sögur, frekar í þyngra lagi (bæði að vigt og efni), án þess þó að vera lausar við húmor.
Villibirta (Prime Time) er fjórða sakamálasaga Lizu Marklund sem kemur út á íslensku, og að þessu sinni er það ekki forlagið Mál og menning sem stendur að baki útgáfunni heldur gefur þýðandi hana út á eigin vegum, að sögn til að tryggja að þýðingar á verkum henni hvorki hætti né að útgáfu þeirra seinki, en sögurnar taka á ýmsum atburðum samtímans og því mikilvægt að fá þær ferskar í hendur. Ég hlýt því að fagna framtaki þýðandans, Önnu Ragnhildar Ingólfsdóttur, sem ekki aðeins tryggir að ég fái mínar lízur í hendurnar heldur skilar þeim af sér fimlega þýddum.
Sem fyrr er það unga metnaðarfulla blaðakonan Annika Bengtzon sem er aðalsöguhetjan og sem fyrr gengur sagan að hluta til út á að lýsa lífi hennar. Hún á nú tvö börn með Thomasi og þrátt fyrir að þau séu bæði ánægð og stolt yfir úngunum er ljóst að mikið álag er á sambandinu. Þegar Annika er kölluð úr fríi til að sinna umfjöllun um morð á sjónvarpsstjörnu eykst spennan milli þeirra, auk þess sem heilmikil spenna fer af stað í rannsókn málsins. Sviðið er dálítið Agöthu Christie-legt (eins og reyndar er vísað til á einum stað í bókinni), en morðið er framið á einangruðu sveitasetri, en þar er hópur fólks sem stendur að gerð sjónvarpsþátta myrtu stjörnunnar. Í ljós kemur að allir hafa ástæðu til að öfunda hana og jafnvel telja sig eiga harma að hefna...
Fyrir utan að fjalla um einkaheim Anniku og taka þar fyrir málefni eins og stöðu útivinnandi kvenna, frama þeirra og sjálfstæði, móðurhlutverk og föðurhlutverk í nútímasamfélagi og ekki síst, stöðu ungra kvenna í fjölmiðlaheiminum, þá tekur bókin einnig á sjálfum fjölmiðlaheiminum. Þar er meðal annars rætt um eignarhald fjölmiðla, það hvernig sömu eigendur eiga marga fjölmiðla og hvaða áhrif það hefur ekki aðeins á fjölmiðlasamfélagið heldur þjóðfélagið yfirleitt. Að auki er komið inn á siðferði í fjármálaviðskiptum og er því ljóst að Marklund kemur víða við á leiðinni að lausn glæpsins (í raun er um hliðarplott að ræða með öðrum glæp), enda mun hún vera virk í því að fjalla um þjóðfélagsmál í dálkaskrifum sínum fyrir Aftonbladed. Villibirta er því ekki aðeins margslungin og skemmtileg glæpasaga heldur saga sem – að hætti góðra (norrænna) glæpasagna – veltir fyrir sér ýmsum fyrirbærum þjóðfélagsins í leiðinni.
Sömu sögu er að segja af bók Henning Mankells, Á villigötum, en hún mun vera fimmta bók hans sem birtist á íslensku. Bækur Mankells eru öllu þunglamalegri en Marklunds (og jafnvel enn lengri), og kemur það ekki síst til af því að þar er á ferðinni allólíkar aðalhetjur, nú hittum við fyrir þunglamalegan, en þó klókan, miðaldra fráskilinn lögreglumann – kunnuglega persónu mjög og ósköp þægilega í umgengni. Það hefur lést aðeins á honum brúnin á undanförnum árum, og lesandinn gleðst yfir því að þunglyndi karlsins virðist á undanhaldi. Hér er hann að kljást við það sem virðast í fyrstu vera tvö óskyld mál (en vanan lesanda grunar að séu tengd), en bókin hefst á því að ung stúlka brennir sig lifandi fyrir framan augun á Kurt Wallander. Daginn eftir finnst illa farið lík fyrrum dómsmálaráðherra (hættulegt hlutverk það) og fljótlega er annar maður myrtur, líki hans hefur verið misþyrmt á svipaðan hátt og ljóst er að um raðmorðingja er að ræða. Að vanda felur rannsóknin í sér nokkuð flakk um nærliggjandi héruð og borgir, en Wallander er staðsettur í litlum bæ á Skáni, Ystad.
Samhliða því að við fylgjumst með rannsókn Wallanders og fregnum af hans einka- og fjölskyldumálum, fáum við að líta inn í huga morðingjans og reyna að átta okkur á því hvað það er sem knýr hann áfram.
Það sem er eftirtektarvert við bók Mannkells er að gagnstætt venju eru það ekki ungar og fagrar stúlkur sem eru myrtar á öfuguggalegan hátt, heldur virðulegir vel stæðir karlmenn, vel settir í samfélaginu. Þetta er áhugaverð nýbreytni frá bandarískum fjöldamorðingasögum og sýnir vel hvað Svíarnir eru duglegir að fara sínar eigin leiðir. Ekki svo að skilja að konur blandist ekki í málið, svo og öfuguggaháttur, en slíku er haldið til hlés og kemst aldrei nálægt því að verða það sem engelskir kalla 'exploitative', og hefur ekki fundist þýðing á, en vísar til misnotkunar eða ofnotkunar á æsilegum atriðum.
Þýðandi er sem fyrr Vigfús Geirdal, og skilar sínu með prýði, það er skemmtilegt hvað báðir þýðendur ná að halda skandinavískum andblæ í málfari og tungutaki, svo lesandi á auðvelt með að fara í huganum yfir til Svíþjóðar og setja sig inní sænskt samfélag.
Ég verð að viðurkenna að ég er fíkin í þessa norrænu krimma og bíð spennt eftir hverri þýðingu. Villibirtu las ég meira að segja tvisvar (eins og reyndar fleiri bækur Marklund), fyrst á dönsku og svo í íslenskri þýðingu Önnu, og langaði strax til að rifja upp fleiri Mannkela að lestri Villigatna loknum. Því miður er ég ekki eins dugleg og gestir Borgarbókasafnsins að lesa þetta á frummálinu (þó ég leggist í það við og við), en þar er ljóst að þessi tegund skáldskapar nýtur mikilla vinsælda, og líður varla sá dagur að ég sé ekki spurð hvort þessi norræni sakamálasagnahöfundurinn hafi ekki sent frá sér fleiri bækur og hvort ekki sé tími til kominn að panta þær inn? Það er því óhætt (já alveg óhætt) að segja að vinsældir þessa efnis séu tryggðar og við verðum bara að treysta því að framhald verði á útgáfunni.
Úlfhildur Dagsdóttir, mars 2004