Það er freistandi að velta fyrir sér táknrænum merkingum línsins í bók Kristínar Steinsdóttur, Vonarlandið. Í þessari Reykjavíkursögu er höfuðáherslan á þvottakonurnar sem fóru reglulega langar ferðir í Laugarnar að þvo þvott þeirra sem efni höfðu á að greiða þeim. Í leiðinni skapa þær sér sín eigin örlög – hvítt línið umbreytist þá í óskrifað blað þess frelsis sem þó ríkti í höfuðstaðnum, allavega í samanburði við vistarbönd til sveita. Ennfremur má spinna þráðinn (afsakið orðaleikina, en ég stenst ekki mátið) áfram og tengja vefnaðinn við textasmíð Kristínar, en líkt og í fyrri verkum hennar birtist hér þéttofin smíð sem geymir í sér margar sögur.
Vonarlandið segir aðallega sögu Guðfinnu, ungrar vinnukonu sem eftir að hafa unnið árum saman á fjölda bæja tekur sig upp með nýrri vinkonu, Stefaníu, sem einnig er vinnukona, og fer til Reykjavíkur í von um nýtt líf. Hana dreymir um vist í fínu húsi þar sem hún mun fljótlega hitta vel stæðan ungan mann. Aðallega dreymir hana þó um sjálfstæði, að ráða sér sjálf en vera ekki upp á aðra komin. Stefanía hefur sambönd í bænum og kemur þeim í leigu í þurrabúðinni Litlakoti og með því hefst saga ólíkra kvenna sem þó deila örlögum. Þorfinnur smiður, eigandi Litlakots, er drykkjumaður og kona hans Margrét sér fyrir honum með ýmiskonar dagvinnu. Fyrir utan stúlkurnar tvær býr Jóka vatnsberi líka í húsinu. Þó þvottavinnan verði fljótlega helsta viðværi stúlknanna vinna þær líka við fisk- og kolaburð og þannig er dregin upp mynd af helstu tegundum þess strits sem konum bauðst á þessum tíma – en sagan gerist á áttunda áratug nítjándu aldar og kemur konungsheimsóknin og stjórnarskráin meðal annars stuttlega við sögu.
Eins og fyrr segir er áherslan fyrst og fremst á konurnar og þó ýmsir karlar komi við sögu, þá eru þeir í algeru aukahlutverki, þar er smiðurinn þó fyrirferðarmestur, og kemur ekki af góðu. Það er í raun svolítið skemmtilegt að sjá hvernig Kristín snýr hlutverkum kynjanna innan skáldsagna fimlega við, karlarnir eru aðallega til skrauts, sem elskhugar (erlendir), skrítimenni (vatnsberarnir), yfirvald (og önnur lítilmenni) eða vongóðir ekklar. Það er óhætt að segja að sagan standist kynjaprófið sem kennt er við myndasöguhöfundinn Alison Bechdel, en það gerir þá einföldu kröfu að tvær konur tali saman um eitthvað annað en karlmenn, og helst að nöfn kvennanna komi fram (sjá nánar hér). Segja má að Kristín gangi skrefinu lengra þegar hún gerir einn karlinn mállausan (en algengt er að konur hafi takmarkaða rödd í verkum karla); erlendur elskhugi einnar aðalsöguhetjurnnar talar ekki íslensku og því skilur engin kvennanna hvað hann segir.
Jafnframt er sýnt fram á hversu mjög líf kvennanna er háð körlum. Guðfinna er sterk og vinnur á við hvaða karlmann sem er (og lemur einn hressilega þegar hann veitist að henni), en fær einungis hálf laun. Á sama hátt er Þorfinnur smiður yfirvaldið á sínum bæ, þrátt fyrir að leggja ekkert til (þvert á móti, þá drekkur hann út laun konu sinnar) og svo má áfram telja. Og önnur yfirvöld koma svo við sögu þegar líður á söguna, þegar útsjónarsemi Guðfinnu kemur konunum í koll.
Staða kvenna hefur verið Kristínu hugleikin í fyrri bókum hennar fyrir fullorðna, Á eigin vegum (2006) fjallar einmitt um fátæka konu sem tekst að gera mikið úr lífi sínu – sú bók fjallar einmitt einnig um það að láta drauma sína rætast. Í Ljósu (2010) er fjallað um sálsjúka konu og aðstæður hennar og í Bjarna-Dísu (2012) birtist snörp ádeila á birtingarmynd konu í þekktri þjóðsögu, þar sem gerð er tilraun til að varpa nýju ljósi á líf hennar. Nú veit ég ekki hvort Guðfinna á sér þekkta fyrirmynd en þessar bækur eiga það sameiginlegt að í þeim býr þung undiralda þess að segja Söguna útfrá öðru sjónarhorni, meðal annars með því að gefa þvottakonunum nöfn og lýsa daglegu streði þeirra. Annað þekkt dæmi úr bókmenntasögunni er ljóð Margrétar Jónsdóttur, „Þórunn gamla“.
Líkt og í Bjarna-Dísu verður hin sögulega ádeila á stundum of fyrirferðarmikil og jafnvægið í verkinu viðkvæmt. Sömuleiðis er sögufléttan ekki sérlega burðug, þrátt fyrir ýmsa dramatíska atburði. Þó verður þetta aldrei til verulegs skaða, ekki síst fyrir það að Kristín kann svo vel þá tækni að segja mikið í stuttu máli. Þannig er komið inn á ansi margt, allt frá dönskuskotnu ‚fínu‘ máli – sem kemur fína fólkinu illa í koll – til stöðu útlendinga í bænum, nokkuð sem er um margt afar viðeigandi fyrir umræðuna í dag. Þessar sögulegu tilvísanir eru ævinlega settar í samhengi við líf kvennanna og á sama hátt er bæjarbragnum lýst á sannferðugan hátt útfrá sjónarhorni stúlkna sem eru að koma til Reykjavíkur í fyrsta sinn og kynna sér bæinn.
Og það er einmitt þessi hversdagur tímabilsins sem Kristínu tekst að fanga svo vel, það er auðvelt að skynja kuldann og þreytuna, bólgnar hendurnar og bardagann við hvíta línið, en jafnframt gleðina í hinu smáa og kómíska. Guðfinna er þungamiðja verksins, praktísk og alvörugefin, metnaðarfull og útsjónarsöm, en vinkonur hennar Stefanía og Sína eru uppspretta lífsgleði og drauma. Húsfreyjan Margrét er kona á barmi taugaáfalls vegna þeirra áfalla sem lífið hefur úthlutað henni, en öðlast nýtt líf í félagi við yngri konurnar og Jóka vatnsberi er sömuleiðis útslitin og drykkfelld, en fær nýja von. Það er Guðfinna sem rekst á yfirgefið bólusóttarhús og ræður að hirða þaðan lín, koppa og sængur til að sauma upp og selja. Þetta bætir líf kvennanna – og kætir þær, því aðförunum við söluna er líst af miklum húmor, eins og reyndar öðru sem viðkemur koppum og úrgangi – en hefur á endanum afdrifaríkar afleiðingar.
Konurnar skrifa sér því ný örlög í línið og hafna þeim fyrirsjáanlegu hlutverkum sem þeim bjóðast: Guðfinna afþakkar bónorð sem mun vissulega styrkja stéttastöðu hennar, en jafnframt binda hana við hefðbundin húsfreyjustörf, Sína gefst upp á greddu fógetans og fordildinni í ráðskonu hans og flýr vist fína fólksins, nokkuð sem hafði verið helsta takmark Guðfinnu og Stefaníu. Þannig er bent á að draumarnir standa ekki alltaf undir vonum, en í staðinn má sníða og sauma nýja, konurnar hafa þræðina í höndum sér og þeirra er að rekja möguleikana sem í þeim búa.
úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2014