Beint í efni

Yfir Ebrofljótið

Yfir Ebrofljótið
Höfundur
Álfrún Gunnlaugsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2001
Flokkur
Skáldsögur

Bókin kom fyrst út 2001 og var síðan gefin út í kilju 2003.

Úr Yfir Ebrofljótið:

 - Ég ætla að synda með hann, sagði ég einarður.
 - Ungi maður. Ég ber kennsl á dauðann, dauðinn fer að honum. Blessaður drengurinn er þegar búinn að þjást nóg. Ég ætla að sitja hjá honum þar til yfir lýkur.
 Hann lét okkur flytja börurnar í skugga trés með slútandi greinum. Það stóð eitt og sér við hvítan veginn, undir því örmjór bekkur. Við krupum hjá Manuel og lögðum lófa á ennið á honum, hvísluðum kveðjuorð, stóðum síðan andartak með krepptan hnefa við gagnauga. Við kvöddum hann með hermannakveðju lýðveldisins.
 Þá var ekki annað eftir en tína af sér flestallar spjarirnar. Við lögðum þær skástu yfir Manuel til að honum yrði síður kalt. Byssur, skotfæri og handsprengjur urðu líka eftir, en í ónothæfu ástandi.
 Gamli maðurinn kvaddi okkur með handabandi.
 - Gangi ykkur vel og gæfan fylgi ykkur, sagði hann og settist á bekkinn við hliðina á börunum. Ef ég væri ekki svona fótfúinn myndi ég fara með ykkur.
 - Þið kunnið að synda? spurði ég félaga mína. Mér hafði ekki hugkvæmst að spyrja fyrr.
 Arne sagðist vera sæmilega syndur, Leif sagði að sér fipaðist stundum en skipti ekki máli úr því sem komið væri. Við yrðum að komast yfir Ebrofljótið hvað sem það kostaði.
 Ég útskýrði fyrir þeim hvað gamli maðurinn hefði sagt um fyrirkomulag sundsins og stakk upp á að Leif synti efst, Arne í miðið og ég neðst, því að ég taldi mig ágætan sundmann sem mundi geta hjálpað hinum bæri eitthvað útaf. Annaðhvort var dómgreindin ekki í lagi eða ég haldinn ofdrambi.
 Við út í óðum allir þrír, en brátt dýpkaði áin og við supum hveljur, tókum fyrstu sundtökin. Þá gerðist nokkuð sem ég hafði hreint ekki átt von á, mér sortnaði fyrir augum og ég gleypti ókjör af vatni, baðaði höndunum út, hóstaði og spýtti og var lengi að koma mér á réttan kjöl.
 Hvernig hefði farið hefði ég verið að synda með Manuel?
 Arne æpti, Arne var að æpa, hann æpti á hjálp. Ég hélt hann væri að drukkna en sá í sömu andrá, að hann reyndi að grípa í Leif, sem barst óðfluga með straumnum í áttina til mín. Ég tók á öllu sem ég átti til að synda í veg fyrir hann, með það fyrir augum að ná taki yfir hálsinn á honum eða undir kjálkana. Þegar það mistókst hrifsaði ég í örvæntingu í handlegg sem braust um og rann úr greip mér. Ljós kollurinn á Leif fór á bólakaf, skaut upp rétt sem snöggvast, var horfinn á ný og ég sá hann ekki aftur.
 - Flýtum okkur! hrópaði ég. Yfir strax!
 Ég óttaðist að straumurinn hrifi mig líka.
 Ég fylgdi ráðum gamla mannsins og tókst um síðir að krafla mig upp á árbakkann hinum megin. Arne kom að landi örlítið neðar. Ég átti vont með að ná andanum og var allur í keng, skalf eins og hrísla. Tennurnar glömruðu upp í mér. Svo rétti ég úr mér eins og ég gat. Við gengum hvor á móti öðrum, Arne og ég, en komumst varla úr sporunum. Ég kallaði til hans.
 - Við verðum ... hlaupa ... með ánni ... verðum ...
 Arne stillti sér upp fyrir framan mig og tók mig næstum í hryggspennu.
 - Harald, taktu sönsum. Taktu sönsum, Harald. Leif er drukknaður. Við getum ekkert gert.
 Ég reif mig úr fanginu á honum.
 - Það er ekki rétt, hann sagðist kunna að synda ... nær landi neðar ... fyrir neðan.
 - Þú og ég getum ekkert fyrir hann gert.
 Ég lyppaðist niður á hnén, kreppti hnefana og bar þá upp að gagnaugunum. Höfuðið á mér var að springa.
 Handan við fljótið sat gamall maður á bekk í skugga trés. Hermaður spænska lýðveldisisns lá á börum við fætur hans.
 Annan hermann, sem var langt að komin, bar fljótið með sér á leið sinni til sjávar.

(s. 187-189)

Fleira eftir sama höfund

Le Passage de l'Èbre

Lesa meira

Sagan og undraborgin

Lesa meira

Das haben Menschen getan

Lesa meira

Hringsól

Lesa meira

Hvatt að rúnum

Lesa meira

Errances

Lesa meira

Irrfärd

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira