Beint í efni

Allt með kossi vekur

Allt með kossi vekur
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Af bókakápu:

Þegar Davíð fær send eftirlátin gögn Láka, sambýlismanns Elísabetar móður hans, vaknar hjá honum óslökkvandi löngun til þess að komast til botns í því sem gerðist haustið 2003. Hver var þáttur móður hans í örlögum vina hennar, Indi og Jóns? Hafði Elísabet eyðileggjandi áhrif á alla í kringum sig? Kallaði Kötlugosið fram illskuna í fólki? Bjó hinn eini sanni koss yfir óskilgreindum ógnarkrafti? Leit Davíðs að sannleikanum verður að ferðalagi inn í innstu sálarmyrkur og knýr hann að lokum til að takast á við erfiðar spurningar um tilvist sína.

Úr Allt með kossi vekur:

Nei, ég er bara að segja að myndir voru ein af fyrstu aðferðum manna til að tjá sig, sagði Láki og krækti sér í aðra bringu af fatinu. Myndmálið er innbyggt í okkur. Ritmál er ekkert annað en þróað myndmál sem hefur orðið óhlutbundnara með tímanum, bætti hann við og hrúgaði kartöflum á diskinn sinn. Þau höfðu lokið við súpuna og voru langt komin með fasanabringurnar.

Eru myndasögur þá merkilegri fyrir vikið? spurði Jón. Er það ekki svolítið eins og að segja að vændi sé gott og blessað vegna þess að það er elsta atvinnugreinin? Eigum við þá ekki að ganga enn lengra og segja að öll atvinnustarfssemi sé ekki annað en þróað vændi og ritmál sé ekki annað úrkynjaðar myndir?

Neinei, sagði Láki. Fyrir alla muni. Og þó? Ástæðan fyrir því að ég kýs að segja sögur með myndum er sú að ég trúi því að þannig komist ég nær því að höndla einhvern ósýnilegan mannlegan kjarna. Raunar er ég alltaf að höndla með hið ósýnilega. Þar verður galdurinn til. Í ginnungagapinu á milli ramma. Í togstreitunni milli myndar og texta. Í því sem ég gef til kynna eða ætlast til að lesandinn gefi sér ...

Indi sat svo teinrétt við borðið að Elísabetu varð hugsað til gamals vinar úti í New York; samkynhneigðs ballettdansara sem sagði að til að venja sig á fagra líkamsstöðu ætti maður að koma sér upp risastórum ímynduðum englavængjum.

Þegar ég les sögurnar þínar finnst mér eins og ég sé að rifja upp eitthvað löngu gleymt eða endurlifa æsku sem ég átti aldrei. Í stórborg í öðru landi eða öðrum heimi, sagði Indi.

Elísabetu var hlýtt til hennar fyrir að reyna ekki að upphefja sig með vitsmunalegu tali. Ólíkt flestum sem Elísabet þekkti, að henni sjálfri meðtaldri, hafði Indi engan áhuga á því að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Hún talaði oftast beint út frá tilfinningunni. Allt sem hún sagði var eins og lækur eða fuglasöngur og Elísabet varð, að eigin sögn, frá sér numin af löngun til að gera líf hennar bærilegra. Nei, meira en bærilegt. Indi átti ekkert minna skilið en að fæðast inn í stórfengleikann. Og Jón með henni, þótt Láki og Elísabet væru sammála um að hann væri ekki beint viðkunnanlegur.

(bls. 114-115)

Fleira eftir sama höfund

Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss

Lesa meira

Ljúlí ljúlí

Lesa meira

Essay on Happiness (brot)

Lesa meira

Skaparinn

Lesa meira

Pendant qu’il te regarde tu es la Vierge Marie

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Il circo dell arte e del dolore

Lesa meira

The Creator

Lesa meira