Beint í efni

Blár þríhyrningur

Blár þríhyrningur
Höfundur
Sigurður Pálsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2000
Flokkur
Skáldsögur
Úr Bláum þríhyrningi:

Þegar Benjamín kom inn í barstofuna aftur með umboðin sem tekist hafði að berja í gegn hjá fundarstjóra stóð Stella enn við barborðið en nú var hún komin í þunnan kjól í ljósum kirsuberjalit. Hafði greinilega farið upp og skipt í snatri. Þetta var kjóll sem hentaði betur sumri á suðlægari breiddargráðu. Hún rétti Benjamín kampavínsglas brosandi og hann fann ekki flöt á neinni geðvonsku og handsamaði glasið.
- Skál fyrir birtunni! sagði hún.
- Skál.
Hann lagði varirnar að yfirborði vínsins og rétt bragðaði á því. Lagði glasið frá sér og lét gott heita, ætlaði að vera ökufær. Hugsaði með hryllingi til þess að lenda í sporum Simma, missa skírteinið...
Stella var glaðleg og talsvert hátt uppi og Benjamín var órólegur, hálfpirraður, en það er erfitt að ávíta manneskju fyrir að vera í góðu skapi. Hér áður fyrr fannst honum hún aldrei fallegri en þegar hún var svona bullandi hress, núna fór þessi gáll í taugarnar á honum. Ábyrgðarlaus sérgæska.
Hann var að svipast um eftir Júlíu þegar þessi litli hópur í barstofunni fór allt í einu að syngja og það var ekki venjulegur fjöldasöngur heldur var sungið mjög temprað og afar fallega raddað. Greinilega vant söngfólk og þau sungu Sestu hérna hjá mér, ástin mín mærðarlaust með heiðríkum krafti. Þegar söngnum lauk fóru menn að tygja sig og Stella sagði Benjamín að hana langaði með þeim, þau væru að fara á einhvern nýjan fiskistað við höfnina. Hann var svo feginn að vera laus við að sitja áfram í heiftarspennunni í salnum að hann spurði einskis, snaraðist inn og lét Simma hafa umboðin.
Stella hafði boðið einhverju fólki af barnum far með þeim og Benjamín lét það ekki fara í taugarnar á sér. Hann ók hægt niður Laugaveginn með tveimur ef ekki þremur of marga í bílnum og þessi þéttsetna þvaga söng varlega í skjannabjartri kvöldbirtunni einhvers konar miðaldatónlist. Þau sátu þrjú frammí, einhver kona hafði troðið sér við hlið Stellu sem sat þögul og horfði brosandi fram fyrir sig og fór allt í einu að tala þegar hlé varð á tónlistinni. Talaði rólega, að því er virtist upphátt við sjálfa sig meðan þau mjökuðust niður götuna.
- Kannski eru framhliðar húsanna úr þerripappír og þau drekka í sig sólarljósið og litast svona, kannski eru húsin á hreyfingu eins og járnbrautarlest á teinum og við sitjum kyrr. Þannig sé ég svo greinilega aðra hluti í staðinn fyrir þá sem eru fyrir framan mig, hefur verið svona alveg síðan ég var fjórtán ára. Ég vandist þessu þá; sá greinilega kirkju þar sem gamli Útvegsbankinn var og það voru alltaf bátar á leiðinni eftir Lækjargötunni...
Hún þagnaði eitt augnablik og það var eins og enginn hefði tekið eftir því sem hún sagði eða gerði að minnsta kosti ekkert veður út af því og nú héldu þau áfram að syngja umlsöng sem gerði hugarsýnir Stellu allt að því raunverulegar. Það var eins og húsaraðirnar væru á teinum og færðust hægt eins og róleg leiktjöld beggja vegna götunnar og þau sætu kyrr í troðfullum benz með lágsól í augum.

(s. 64-5)

Fleira eftir sama höfund

Vientos y nubes

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Utan gátta

Lesa meira

Ljóðorkuþörf

Lesa meira

Ars Poetica Europea: Ljóðasafn Sigurðar á búlgörsku

Lesa meira

Ljóðnámusafn

Lesa meira

Ljóðorkulind

Lesa meira

Soir de printemps à Reykjavík

Lesa meira

Ljóð í Programme des Boréales de Normandie, 2ème Festival d'art et de littérature nordiques

Lesa meira