Æviágrip
Sigurður Pálsson fæddist 30. júlí 1948 á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu. Hann lauk landsprófi frá Hagaskóla 1963 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967. Hann lagði stund á frönskunám í Toulouse og París 1967-68 og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne, fyrst á árunum 1968-73, og hlaut D.U.E.L.-gráðu og fyrri hluta maîtrise-gráðu í leikhúsfræðum. Hann sneri svo aftur til náms við sömu stofnun á árunum 1978-82 og lauk Maîtrise-gráðu og D.E.A. (fyrri hluti doktorsgráðu). Á sama tíma stundaði hann nám í kvikmyndaleikstjórn við Conservatoire Libre du Cinéma Français sem hann lauk með lokaprófi.
Sigurður fékkst við ýmis störf í gegnum tíðina. Hann kenndi við Leiklistarskóla Íslands í þrjú ár frá stofnun hans 1975-1978. Hann starfaði einnig sem fréttaritari, leiðsögumaður, háskólakennari og vann við sjónvarp og kvikmyndir. Seinni hluta ævinnar fékkst hann einkum við ritstörf og þýðingar. Hann var forseti Alliance Française á árunum 1976-78 og formaður Rithöfundasambands Íslands 1984-88.
Sigurður var einn af Listaskáldunum vondu 1976. Fjölmargar ljóðabækur hafa birst á prenti eftir Sigurð, sú fyrsta kom út 1975 undir heitinu Ljóð vega salt. Ljóðabókin Ljóð námu völd var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993, Sigurður hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Minnisbók árið 2007 og hafði þá áður verið tilnefndur fyrir ljóðabækurnar Ljóðlínuskip (1995) og Ljóðtímaleit (2001). Minnisbók var fyrsta endurminningabók Sigurðar en í kjölfarið fylgdu Bernskubók (2011) og Táningabók (2014). Hann ritaði þrjár skáldsögur, Parísarhjól (1998), Bláa þríhyrninginn (2000) og Næturstað (2002). Hann fékkst einnig við leikritasmíð, og samdi sjónvarps- og útvarpshandrit og óperutexta. Ljóðabækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg erlend tungumál, m.a. búlgörsku og kínversku. Árið 1994 kom út tvítyngd útgáfa ljóða hans hjá Editions de la Différence í París í þýðingu Régis Boyer, deildarforseta Skandínavísku deildar Sorbonne-háskóla. Árið 2014 birtist stórt úrval ljóða Sigurðar í enskri þýðingu undir titlinum Inside Voices, Outside Light.
Sigurður var valinn borgarlistamaður Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1987-1990, var veittur riddarakross Orðu lista og bókmennta (Chevalier de l'Ordre des Arts et des Lettres) af menningarmálaráðherra Frakklands árið 1990, og Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi Frönsku heiðursorðunnar (Chevalier l'Ordre National du Mérite) árið 2008.
Sigurður lést þann 19. september árið 2017.
Forlag: JPV útgáfa.
Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.
Frá höfundi
Hugleiðingar um ritstörf
Ég ætla hér að reyna að átta mig á nokkrum atriðum varðandi, ritstörf, reyna að bera fram nokkrar spurningar um eiginleika þessarar starfsgreinar almennt og ennfremur hvernig þessir hlutir snúa við mér.
Að undanskildu handverki og ýmis konar erfiðisvinnu eru flestöll störf meira og minna lestur og skrift á einn eða annan hátt og eru þannig í víðtækasta skilningi ritstörf. Með tölvunotkun hefur þetta orðið ennþá almennara. Núna erum við allan daginn að lesa og skrifa, lesa á skjánum, skrifa á lyklaborðið, við erum móttakendur og sendendur skilaboða og notum til þess óendanlega fjölbreytilegt kerfi tungumálsins, svokallaðan texta; að skrifa er að móta, byggja upp, raða saman texta, að lesa er að lesa merkingu út úr þessum texta.
Texti er á latínu textus, sama orðið og vefnaður og fer einkar vel á því; texti er einmitt vefnaður, merkingarvefur, lausofinn, þéttofinn, einfaldur eða flókinn. Það er heldur engin tilviljun að margt sem viðkemur rituðu máli tjáum við með tilvísun í orðaforða spuna og vefnaðar svo sem söguþráður, flétta o.s.frv. Og þegar lýsa á nýrri tjáskiptatækni liggur beinast við að taka mið að texta og tæknifyrirbærið kallað veraldarvefur, internet.
Netið, bréfsíminn (faxið) og sms-ið leiða til þess að ritmál hefur fengið endurnýjað vægi miðað við talmál, nú skrifumst við á, eigum samskipti með rituðum texta við aðra vefara veraldarinnar og tölum ekki bara í símann.
Málvísindalega eru talmál og ritmál, þessi tvö helstu málkerfi tungunnar undraólík. En þau hafa stöðugt áhrif hvort á annað, talmálið ögrar til dæmis oftlega ritmálinu á skapandi hátt. Veraldarvefurinn nýji er kannski enn einn snertiflötur talmáls og ritmáls sem á eftir að hafa áhrif á hið síðarnefnda.
En það stendur ekki til að gera hér grein fyrir öllu textaflóði veraldarinnar heldur velta fyrir sér nokkrum atriðum varðandi bókmenntatexta og sköpun hans og reyna fremur að halda mig við skáldskapartexta bókmenntanna og láta fræðitexta og almenna texta eiga sig í bili. Sú hefð hefur myndast að greina bókmenntatexta gróflega í þessi tvö svæði, skáldskap annars vegar, það sem á ensku er kallað fiction og hins vegar almennan texta, þar sem enskumælandi eru svo sniðugir að kalla einfaldlega non-fiction.
En því fer fjarri að skáldskapartextar séu allir af sama meiði. Ljóð, prósaskáldskapur, leikrit eru stærstu flokkarnir; ég fer ekki út í nánari skilgreiningar, undirdeildir og landamæradeildir, til dæmis prósaljóð o.s.frv.
Innstilling, vinnubrögð, aðferð sama rithöfundar er ekki endilega sú sama eftir því hvort hann er að skrifa ljóð, prósa eða leikrit, hvað þá ef saman eru bornir tveir ólíkir höfundar.
Það er miklu auðveldara að finna þau atriði sem eru sérstök, einstaklingsbundin í smíðum skáldverka heldur en það sem er algilt. Flest af því sem einkennir ritun skáldskapartexta heyrir fremur til því einstaka en hinu almenna.
Þó má nefna atriði sem eru öllum sameiginleg eins og þá staðreynd að með því að skrifa á einhverju ákveðnu tungumáli er skrifarinn orðinn þátttakandi í allri textaframleiðslu þess tungumáls, hann er orðinn hluti af heild, hlekkur í keðju, liður í hefð, hvort sem hann veit af því eða ekki, alveg burtséð frá því hvort honum líkar það betur eða verr, óháð því hvort hann er með eða móti hefðinni o.s.frv.
Verk hans byggir á notkun málkerfis sem tilheyrir hinu almenna, samfélaginu, einhverju ssem er í eðli sínu stærra en einstaklingurinn, á vissan hátt yfir hann hafið og hann, einstaklingurinn, rithöfundurinn er samt að túlka tilfinningu einstaklingsins í þessu málkerfi sem er bæði hans eigið og jafnframt eign annarra. Í rauninni er stíll t.d. ekki annað en persónuleg notkun einstaklings á hinu almenna málkerfi; eins og einhver sagði: „sér-viska“ hans, tilraun hans til þess að skapa ekki bara texta með málkerfinu heldur setja sköpunarmark sitt á kerfið sjálft.
Og þar eð þetta á við um ritun á öllum tungumálum má víkka út fullyrðinguna um þessa eðliseiginleika ritunar og segja sem svo að rithöfundur, á hvaða tungu sem hann skrifar, er þar með orðinn virkur þátttakandi í allri textaframleiðslu heimsins alveg frá upphafi. Og sú saga er löng og koma þar ekki einungis menn við sögu því guð almáttugur hefur í mörgum trúarbrögðum kosið að birta sig og vilja sinn í rituðu máli, birtast í texta, koma fram sem rithöfundur.
Það sem gerir skáldskaparritun nokkuð sérstæða, a.m.k. miðað við annars konar listframleiðslu er sú staðreynd að málkerfið sem skáldið vinnur með, er alls ekki notað eingöngu til skáldskapartjáningar, mjög langt frá því meira að segja. Skáldið vinnur með þetta almenna tjáskiptatæki andstætt til dæmis listmálaranum eða tónskáldinu sem styðjast við hreint afmarkað táknkerfi sem ekki er notað til þess annars.
Að öðru jöfnu má einnig fullyrða að skáldskapartextar beiti í ríkari mæli en annað ritað mál og talmál polysemískum eða fjölmerkingareiginleikum tungumálsins, þ.e.a.s. tvíræðni, margræðni þess. Ef við hugsum okkur línu og á öðrum endanum setjum við þá texta sem mest byggja á fjölmerkingu og hinum megin þá texta sem reyna að miðla einni og aðeins einni merkingu, þá getum við tekið sem dæmi einfalda setningu eins og: 112 er almennt neyðarnúmer. Þetta er setning sem miðlar einni merkingu og það er ekki ætlast til að við lesum einhverja aðra merkingu út úr henni, það getur meira að segja verið hættulegt að gerast skáldleg í lestri og sjá eitthvað annað út úr þessu en stendur þarna samkvæmt orðanna hljóðan.
Texti sem er á hinum enda línunnar, texti sem byggir á því eðli tungumálsin að geta miðlað samofinni hugsun ólíkra merkinga, myndað hugrenningatengsl, vísað í fleira en eitt skynsvið á sama tíma, notfært sér merkingarblæbrigði, minnt á fleiri en eitt raunveruleikasvið í einu; dæmigerðastur þess háttar texta er það sem við köllum ljóð.
En það er fleira sem þeir sem skrifa skáldverk eiga sameiginlegt. Þeir vinna einir. Þetta er einsemdarstarf, það er eðli þess. Þeir sem ekki þola einveru ættu að finna sér annan vettvang enda gera þeir það. Þetta er einyrkjastarf.
Við fæðumst ein, deyjum ein og skynjum veröldina ein; veröldin er þrátt fyrir allt persónuleg upplifun einstaklingsvitundar. En sem betur fer getum við reynt að miðla henni. Við byggjum brýr skilnings og misskilnings til annarra með tungumálinu meðal annars.
En það má ekki gleyma því að skáldskaparritun er þrátt fyrir allt sköpunarstarf, þar sem einstaklingur miðlar tilfinningu, mótar persónulega veraldarskynjun í hráefni sem er allra eign, tungumálið. Í skáldskap er stefnt saman í brennipunkt hinu almenna og hinu einstaka, samfélagi og einstaklingi. Ég held að allar mikilvægar bókmenntir séu einmitt kraftmikil átök þessara tveggja póla. Þetta er sköpun, skapandi sýn einstaklings, sköpunarstarf. Sköpunarstarf, af hverju er það mikilvægt?
Vegna þess að sköpunarstarf ber mennskunni vitni og þeim eiginleikum mannsins að skapa sér örlög, skapa heiminn. Að skapa skáldverk er eins og að nema land, setja nýjum heimi lög og reglur, skáldskapurinn er landnám.
Og það er mikilvægt að þessi sköpun fari fram á tungumálinu, með einstaklingstjáningunni víkkar í raun út hið sameiginlega skynsvið. Í ritun skáldverka fer fram tilraunastarf með möguleika tungumálsins.
Ljóðlistin til dæmis er ein alls herjar tilraunastofa, labóratoríum tungumálsins sem gerir málkerfið hæfara tæki fyrir alla, hæfara til miðlunar tjáningar og greinargerðar, hugsunar og áforma. Áforma sem eru fyrsta stig athafna, gleymum því ekki.
Ritstörf, þetta er einyrkjastarf sagði ég áðan og þess utan er fjárhagsgrundvöllur ótryggur. Það liggur beint við að spyrja, hvernig lenda menn í þessu?
Almennt svar, svar sem lýtur að hinu almenna: menn lenda ekki í þessu, þetta er val eins og annað í lífinu, hvort valið er meðvitað eða ómeðvitað. Það þýðir ekki að kenna neinum öðrum um að hafa lent í þessari hremmingu, þetta er val, það biður þig enginn að sinna þessu.
Svar sem lýtur að hinu einstaka, einstaklingnum: ástæðurnar fyrir þessu vali eru algjörlega bundnar hverjum og einum.
Þá liggur beinast við að spyrja þann sem hér talar. Ég get ekki svarað því á ótvíræðan hátt. Ég held ég hafi verið fimm ára þegar ég svaraði spurningunni sígildu, hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðinn stór þannig: ég ætla að verða gullsmiður, listmálari og rithöfundur. Ég botna ekkert í þessu með gullsmíðina, ég þekkti engan gullsmið og vissi ekkert um gullsmíði. Listmálara heyrði ég hins vegar mikið talað um, afabróðir minn í móðurætt Þórarinn B. Þorláksson og föðurbróðir minn Jón Þorleifsson. Þarna er ég reyndar hálfpartinn farinn að gera ráð fyrir því að börn leiti einhverra fyrirmynda ssem þarf auðvitað alls ekki að vera rétt.
En rithöfundur? Valið byggir ugglaust á mörgum samtvinnuðum þáttum og flestum ómeðvituðum.
Vitanlega er hefð fyrir því í þeirri menningarheild sem íslenskt samfélag er að líta á ritstörf sem mikilvæg; við erum einhver textabundnasta þjóð í veröldinni, texti fornritanna er grundvöllur og innsti kjarni tilvistar okkar og sjálfsmyndar. Engir kastalar, næstum engin ytri teikn til vitnis um að við höfum yfirleitt verið hér lengur en eina öld, ekkert nema textar um texta frá textum til texta. Íslenskt landslag: nokkurn veginn samfelldur texti, frásagnir, ljóð, tilsvör, örnefni.
Allt hefur þetta áhrif. Fyrirmyndir: faðir minn vitanlega skrifandi og lesandi alla tíð og á sunnudögum fer hann í undarleg föt með kraga og réttir stundum út hendurnar og sönglar og svo er sungið og hann talar og allir hlusta mjög vandlega og ég má ekki tala né hlaupa um. Og þessi maður er pabbi minn en núna er hann breyttur, þegar hann fer í þessi undarlegu föt breytist hann og það má ekki tala við hann og ekki fara til hans. Þetta gerist allt í kirkjunni og stundum eru allir mjög glaðir og þá eys hann vatni á smábörn sem eru minni en ég og stundum hins vegar eru allir gráti nær og ég veit ekkert af hverja og endar með því að gljáandi kassi með blómum er borinn út og settur niður í mjög djúpa holu í kirkjugarðinum. Þetta eru undarlegar minningar aftan úr frumbernsku. Ég hef stundum hugsað um það hvort þetta sjónarspil sem prestbörn verða vitni að frá fæðingu hafi eitthvað með það að gera af hverju svo mörg þeirra skrifa síðar fyrir leikhús eða tengjast leikhúsi: Jökull Jakobsson, Oddur Björnsson, Svava Jakobsdóttir, Ingmar Bergmann o.s.frv.
Nú svo vildi það svo til að ég lærði snemma að lesa og skrifa og byrjaði fljótt að skrifa mikið, af hverju veit ég ekki. Þetta var bæði fiction og non-fiction; sögur annars vegar, aldrei ljóð og hins vegar ótrúlega nákvæmar skrásetningar og greinargerðir: dagbók, veðrabók (nokkuð ítarlegar lýsingar á veðri á hverjum degi), heyskaparannáll, fjárbók o.s.frv. Ég mátti stundum ekki vera að því að lifa lífinu því ég var að skrásetja framvindu þess.
Þá mætti spyrja: eldist þetta ekki af fólki?
Sem betur fer flestu fólki myndi ég segja. Ég hafði orðið afhuga gullsmíðanámi um tólf ára aldur, eftir stóð listmálun og ritstörf. Ég lét reyna á hið fyrrnefnda um fjórtán ára aldur. Var nýbúinn að lesa Lífsþorsta, bókina um ævi Van Gogh, fór niðrí Málara og keypti liti og trönur og málaði stanslaust í þrjár vikur, nokkurn veginn án þess að sofa. Að þeim tíma liðnum varð mér svo átakanlega ljóst hvað niðurstaðan á myndfletinum var óralangt frá hugarmyndinni sem ég sá fyrir mér að ég lokaði litakassanum og gaf listmálaranum frí. Listmálarinn í mér hefur ekki enn komið úr því fríi. Vitanlega var aðferðin kolröng; ég ætlaði að ná eldinum með áhlaupi. Gaf sjálfum mér ekki möguleika til þess að læra tæknina skref fyrir skref.
En þetta var þónokkuð áfall og á tímabili vissi ég ekki neitt lengur. Hafði ekkert skrifað síðan ég var þrettán ára og tengdi mig ekki við neitt eins og algengt er um unglinga. Á tímabili í menntaskólanum ætlaði ég að læra sálfræði en það mun vera algengt með fólk sem á í sálarangist. Við erum að leita að spegli oftar en við vitum.
Svo bara gerðist það. Byrjar með fikti eins og menn læra að reykja; ég byrjaði að þreifa mig áfram með ljóðagerð, las allt sem hönd á festi og fyrr en varði fannst mér ég ná fram einhverju sem bar sjálfum mér vitni á þann hátt sem ég vildi. Svo vindur þetta upp á sig og maður situr fastur í vefnum.
En skrifa ekki allir unglingar ljóð og svo ná þeir sér? Eldist þetta ekki af mönnum á farsælan hátt?
Jú, það getur vel verið en hlutirnir þróast nú oft án þess að við getum skýrt þá nákvæmlega.
Ég minntist á það áðan að rithöfundur verður hluti af heild textasamfélags síns tungumáls. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á að fyrir hvern einstakan íslenskan rithöfund hlýtur það að vera ævintýri að taka þátt í því kraftaverki sem íslensk bókmenning er.
Framhaldið tengist því sem segja má um fjárhagslegar forsendur skáldskaparstarfa.
Ég hef alltaf unnið við ýmsa hluti með ritstörfum og byrjaði á því eftir stúdentspróf að fara í nokkuð tímafrekt nám. Valdi leikhúsfræði og síðar nám í kvikmyndum. Mér fannst þessi vettvangur mátulega ólíkur og samt hæfilega skyldur ritstörfum. Kaus að taka próf þó svo það kostaði orku og tíma. Tók magisterspróf og síðar fyrri hluta doktorsgráðu í leikhúsfræðum og lokapróf í kvikmyndaleikstjórn. Frakkland varð fyrir valinu þó svo ég kynni auðvitað næstum ekkert í frönsku við stúdentspróf en eftir á að hyggja held ég að ég hafi verið að svipast um eftir stað sem væri hæfilega ólíkur Íslandi en væri samt á okkar menningarsvæði.
Þetta hefur opnað mér möguleika á vinnu t.d. við sjónvarp, kvikmyndir, kennslu jafnframt ritstörfum. Kosturinn við störf í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum er að þau eru að einu leyti gjörólík ritstörfum. Skriftir stundar maður aleinn, þar verður ekkert gert af viti nema af einum, þú verður að vera einn en í leikhúsi og kvikmyndum geturðu ekkert gert einn, þú verður að vinna með öðrum. Þannig getur annað starfið veitt langþráða hvíld frá hinu.
Hingað til hef ég einkum lagt stund á ljóðagerð, leikritun og þýðingar þó svo ég sé reyndar með prósaverk í undirbúningi og hafi lengi skrifað meira af slíku en fram hefur komið. Fjárhagslega er enginn grundvöllur fyrir ljóðagerð, leikritun og þýðingar eru strax skárri. Hver og einn finnur þær lausnir sem hann getur. Ég hef aldrei verið fastráðinn starfsmaður nema hjá sjálfum mér, í þessu eins manns einkafyrirtæki en hef unnið á þeim sviðum sem ég minntist á áðan auk ýmis konar verkefna þeim tengdum, kennslu og svo framvegis.
Stuðningur opinberra aðila hefur einnig verið mikilvægur og raunar forsenda sæmilega skipulagðra vinnubragða og veitir lágmarksöryggi vissan tíma. Það á við um ritstörf eins og listræn störf yfirleitt hér á landi; grundvöllur atvinnumennsku verður ekki tryggður nema með stuðningi opinberra aðila og einkaaðila. Öðrum kosti næst enginn árangur, öðru vísi verða heldur engar eðlilegar kröfur gerðar. Réttlæting opinbers stuðnings er í raun einföld: það er verið að fjárfesta í sköpun, í verkum sem þjóðin öll eignast og verða hlutur af menningarlegri sameign.
Í raun eru spurningarnar einfaldar sem spyrja þarf umsækjanda. Þær eru tvær. Í fyrsta lagi: hvert er áformið, hvaða verk er viðkomandi með á prjónunum og í öðru lagi, hvað hefur hann gert hingað til, sem gerir það líklegt eða ólíklegt að hann nái árangri.
Einkaaðilar hafa verið hikandi í stuðningi sínum miðað við það sem gengur og gerist erlendis en tilfinning mín er sú að þetta viðhorf sé að breytast til batnaðar. Nóg um það að sinni.
Snúum okkur aftur að sköpunarstarfinu. Hvernig vinnur rithöfundur? Hvernig koma hugmyndir?
Svörin við fyrri spurningunni hljóta að vera einstaklingsbundin. Ég hef komið mér niður á sveigjanleika sem grundvallaratriði. Einhvers konar sambland reglubundinnar vinnu og áhlaupa, staðfestu og ofsa, hægfara hreyfinga fótgönguliðs og skæruliðaárása.
En hvað með hugmyndirnar? Hvaðan koma þær?
Ég verð að segja hreinskilningslega, ég hef ekki hugmynd um það. Það er nú svo með sköpun yfirleitt að það er í henni falinn leyndardómur sem engum vísindamanni hefur tekist að skýra út. Ekki fremur en lífeðlisfræðingar og aðrir vísindamenn hafi getað skýrt út lífið. Það er leyndardómur. Það er sömuleiðis afar erfitt að gera grein fyrir muninum á hæfileikum og snilligáfu. Margir hafa talent, hæfileika og svo eru sumir eins og Mozart; augljósir snillingar. Hvað í ósköpunum er þetta og í hverju er svo munurinn fólginn? Mysterium.
Ég hef oft lesið og heyrt menn tala óvirðulega um innblásturinn, heyrt setningar eins og: þetta er bara vinna, þetta er 95% vinna og 5% hæfileikar og svo framvegis. Ég held samt að menn megi ekki gleyma innblæstrinum og mættu fara rólegar í að hæðast að honum. Innblæstri eða hvað menn kjósa að kalla það, mér er sama um það. Ég er ekki með því að tala illa um vinnuna, án hennar gerist auðvitað ekki neitt; innblástur, hugmyndir koma einmitt með vinnunni, l’appétit vient en mangeant, matarlystin kemur með því að borða segir franskt máltæki.
Ég hef mikið hugsað um sköpunarstarfið, hvað gerist. Ég finn fyrir þessu, sé þetta fyrir mér sem samspil eða átök tvenns konar orkufyrirbæra. Annars vegar skipulagsorku og hins vegar flæðiorku, annars vegar farvegur, hins vegar flæði. Án annars er hitt til einskis.
Þú skipuleggur farveg, grefur hann en það er til einskis án uppsprettunnar, ef ekkert er flæðið, ef ekkert fljót rennur um farveginn. Á sama hátt flæðir áin til einskis og rennur út í sandinn ef ekki er traustur farvegur.
Konsept að verki, grunnhugsunin, byggingin, allt er þetta farvegsmótun. En ekkert gerist nema flæðið fari af stað. Engin virkjun. Ekkert rafmagn. Ég held að sé hægt að læra farvegsgerð listaverka, verklega þætti svo sem byggingareiginleika og svo framvegis. Þetta hafa menn verið að reyna að setja í form, allt frá Aristotelesi til Snorra Sturlusonar eða creative-writing-kennara sem einkum starfa í bandarískum háskólum. Poeion þýðir reyndar á grísku að búa til og flokkast undir verkmenntun. Poesía er dregið af því orði. Skáldskaparfræði má sem sé læra, byggingarfræði, burðarþolsfræði, farvegsgerð. Hitt er því miður ekki hægt að læra, hvernig á að fá innblástur, hvernig á að koma uppsprettunni af stað.
Ég minntist á það hér áður að með því að skrifa verður rithöfundurinn þátttakandi í textasamfélagi síns eigin málsvæðis og par extension í textasamfélagi veraldarinnar. Texti er sérstakt fyrirbæri að því leyti að hann er aðgengilegur í óbreyttu formi til eilífðar og hefur möguleika til eilífs lífs vegna þess að hann lifnar við í hvert skipti sem einstakur lesandi les hann. Þessir eiginleikar texta skapa oft sérkennilegar örlagasögur. Ég var um daginn af ákveðnu tilefni að rifja upp kynnin af hinu frábæra skáldverki Francis Scott Fitzgerald, The Great Gatsby, einni af fimmtíu súlum sem halda uppi horfinu sem ber yfirskriftina Skáldsögur 20. aldar. Í nýlegri grein um Scott í frönsku tímariti kom fram að skömmu fyrir andlátið árið 1940 fékk hann uppgjör frá útgefanda sínum fyrir árið 1939. Af The Great Gatsby seldust á árinu 7 eintök. Af skáldsögunni Tender is the Night 9 eintök. Scott Fitzgerald var þegar hér var komið sögu andlega og líkamlega aðframkominn þó ekki væri hann nema 44 ára að aldri. Tæplega hefur uppgjörið frá útgefandanum verið mikil upplyfting. Fram kemur einnig í greininni að á hverju ári seljast að minnsta kosti 300 þúsund eintök af Gatsby. Vissulega er hún víða á námsskrá í háskólum og sömuleiðis uppgötva nýjar kynslóðir hana. Texti hefur alltaf möguleika til eilífs lífs.
Í þessu sambandi langar mig að lokum að segja ykkur sögu af útgefanda.
Maður er nefndur Jérôme Lindon. Hann er einn virtasti útgefandi Frakklands; hann hefur stýrt Miðnæturforlaginu (Editions du Minuit) frá því hann stofnsetti það í lok síðari heimsstyrjaldar. Þetta er útgefandi með útgáfu vandaðra bókmennta að hugsjón. Hann hefur alveg frá upphafi einfaldlega gefið út það sem honum finnst út gefandi. Hann gaf t.d. Samuel Beckett út frá upphafi, ennfremur flestalla höfunda „frönsku nýskáldsögunnar“ svonefndu og marga fleiri. Hann var fyrsti útgefandi flestra þessara höfunda, hann uppgötvaði þá, studdi þá og tapaði á þeim.
Lengi vel tapaði hann ekki á sumum titlum, hann tapaði á hverjum einasta titli sem hann gaf út. Dæmi: Skáldsaga Becketts Malone deyr kom út árið 1952 og seldust 56 eintök það árið. En hvernig hafði hann efni á þessu? Þannig var að í stríðslok, í upphafi ferils síns fékk hann föðurarf þónokkuð mikinn og lagði hann einfaldlega í fyrirtæki sitt. Og þegar mjög var gengið á arfinn, fór hins vegar að seytla inn fyrir bækurnar og sá straumur hefur verið að aukast æ síðan. Föðurarfinn ávaxtaði hann margfalt.
Tveir af höfundum Jérôme Lindon hafa fengið Nóbelsverðlaun, Claude Simon og Samuel Beckett. Margir hafa ítrekað verið orðaðir við þau, svo sem Alain Robbe-Grillet, Marguerite Duras og Nathalie Sarraute. Lindon lýsti því einhverju sinni að hraðsölubækur væru svo sem ágætar, metsölubækur ekki síðri en þær bækur sem hann hefði alla tíð haft að leiðarljósi væru langsölubækur, long-seller sagði hann, þó franskur sé. Lindon varð að ósk sinni, margar bækur hans eru það.
Bækur Becketts einar seljast í tugum og hundruðum þúsunda á hverju ári enda kenndar um allan heim í skólum þó ekki væri annað. Lindon hefur ekki fallið í þá freistni að þenja út forlag sitt. Enn mun vera svipaður starfsmannafjöldi og í upphafi. Hann bætir ekki við nema tveimur-þremur nýjum höfundum á ári, höfundum sem hann vonar að verði langsöluhöfundar í fyllingu tímans.
Jérôme Lindon er eini útgefandi sem hefur staðið á verðlaunapalli og tekið við Nóbelsverðlaunum. Samuel Beckett, sá ljósfælni maður, bað hann að taka frá sér þann kaleik. Og það fór vel á því að þessi bókmenntahöfðingi fengi að taka í höndina á Svíakonungi.
Sigurður Pálsson, 2002
Um höfund
Ljóðferðalag
Í ljóði sem nefnist „Næturljóð“ er farið með lesandann í heilmikið ferðalag um nóttina, en þar ríkir ringulreið og ljósin taka á sig annarlegar myndir, einsog þegar ljós götuljósanna breytist í þeyttan rjóma sem „flæðir inn í kjamsandi myrkrið.“ Ekkert er á okkar mælivarða „enda varla nokkuð í veröldinni/á mælikvarða mannsins“ og allt er dýrðlega framandi:
Og eftir hverja slíka nótt
Allir vegir horfnir
Nýtt vegakerfi
Kortin gilda ekki lengurJá ég er að reyna
að segja ykkur þetta
Snemma í ljóðinu er komið við hjá ljóðlistinni, þegar „oddur sjálfblekungs“ snertir „svart yfirborð bleksins“ og speglar svartan lit næturinnar, og tengir okkur við lokalínurnar, þarsem skáldið er að reyna að segja okkur þetta! Það er þessi blanda hins háfleyga og hversdagslega sem Sigurður Pálsson gerir svo einstaklega vel, eftir að hafa hrifið lesandann í dramatíska ferð án enda, dálítið upphafna og vissulega ruglandi, þá stígur ljóðmælandi fram og áréttar mál sitt og minnir á að hann er að reyna að segja okkur frá. Lesandanum er þannig kippt niður á jörðina og getur litið yfir farinn veg ljóðsins og glaðst. Því þetta er ljóð sem er ekki hægt annað en lesa aftur og jafnvel enn aftur.
Ljóðið er að finna í nýjustu ljóðabók Sigurðar, Ljóðtímavagn (2003) en sú bók er að sögn lokapunkturinn á 12 bóka ferðalagi um ljóðið. Ljóðtímavagn er sömuleiðis lokabókin í þríleiknum um ljóðtímann eða ljóðið og tímann.
Fyrsta bókin í þeim hópi hét Ljóðtímaskyn, sú næsta Ljóðtímaleit, en þær komu út árin 1999 og 2001. Slíkar þrennur hafa einkennt ljóðaútgáfu Sigurðar frá upphafi, en fyrsta bókin, Ljóð vega salt frá 1975, var fyrsta bókin í þríleik og eru þeir nú orðnir alls fjórir, og bækurnar 12 eins og áður sagði. Fyrir utan ljóð er Sigurður þekktur sem leikritaskáld og hefur sent frá sér þrjár skáldsögur. Að auki er Sigurður afkastamikill þýðandi og hefur kynnt marga áhugaverða höfunda fyrir íslenskum lesendum í gegnum þýðingar sínar. Má þar nefna Paul Éluard, Jacques Prévert, Albert Camus og Yann Queffélec. Leikrit Sigurðar eru ólík að gerð og umfangi, en mörg þeirra eru í stíl absúrdleikhússins, með fantasísku yfirbragði. Önnur eru þó raunsærri og það sama má segja um skáldsögur Sigurðar, þær eru fremur raunsæislegar, jafnframt því að vera, eins og leikritin, mjög táknsæar. Í fyrsta skáldsagu Sigurðar, Parísarhjól (1998), er leiðarminnið eitt frægasta ljóð Íslendingasagnanna, „Sonartorrek“ Egils Skallagrímssonar. Sögumaðurinn er myndlistamaður sem fer til Parísar til að jafna sig eftir sviplegan dauða tvíburasystur sinnar og tekur að sér að myndskreyta þetta fræga ljóð og snýst sagan svo um ákveðið uppgjör þessa manns við sinn missi. Önnur skáldsagan, Blár þríhyrningur (2000), fjallar um hinn klassíska ástarþríhyrning og sú þriðja, Næturstaður (2002), um heimkomu manns sem hefur dvalið lengi erlendis, en snýr til heimaþorpsins til að vera við jarðarför.
Í pistli sínum um eigin skrif, „Frá höfundi“, sem finna má hér á vefnum, fjallar Sigurður skemmtilega um nauðsyn þess að flakka milli forma, sem hann líkir við einskonar hvíld, en jafnframt endurnýjun. Alltaf snýr skáldið sér þó aftur að ljóðinu.
II
Lokaljóð Ljóðtímavagns heitir „Þrisvar fjórir“ og fjallar, eins og mörg önnur ljóð þríleiksins, um tímann, mánuðina tólf sem líkt er við postula.
Fjórar höfuðáttir
Þríeingin ljóðtímans...
Mánuðir dagar sekúndur
koma kjagandi eftir veginum
með fangið fullt af gjöfumAugu sem hlýða kalli
ljóðtímansLæra að gefa og þiggja
undir fjögur augu
Það þarf ekki mikið hugarflug til að sjá að hér er skáldið að vísa í sínar fjórar þrennur og líta yfir farinn veg. Ljóðið er gjöf sem lesandinn verður að læra að gefa og þiggja, eða er það kannski skáldið sjálft sem þarf að læra þessa lexíu? Ef svo er hefur Sigurður lært hana vel.
Þrátt fyrir að ljóðabækurnar innan hverrar þrennu séu vissulega tengdar og njóti sín best saman, þá má líka vel lesa þær hverja í sínu lagi og þær eru um margt ólíkar, um það bera þessar þrjár nýjustu vitni. Ákveðin temu þræða sig milli bókanna, vangaveltur um tímann eru áberandi í þeim öllum, spegillinn birtist aftur og aftur í ýmsum myndum og svo eru þarna hugleiðingar um ljóðið sjálft og skrif almennt. Dæmi um slíkar hugleiðingar er ljóðið „Ljóðlistin“, í Ljóðtímaskyn, en þar er því lýst hvernig ljóðið er viðkvæmt eins og örninn, alltaf í útrýmingarhættu, en „samt liggja þarna/blóðugar fjaðrir/út um allt.“ Samkvæmt þessu ljóði Sigurðar Pálssonar er ljóðið enn vígalegur vettvangur átaka.
Sterkasti hluti bókarinnar er að mínu mati „Svart-hvítt,“ þarsem skáldið dregur upp magnaðar myndir af landslagi sem hverfist hægt yfir í tíma eftir því sem líður á kaflann. Þráðinn má reyndar rekja til síðasta ljóðs „Söngtíma“ kaflans sem fjallar um gulan eyðimerkursand og söng um sokkið skip eyðimerkurinnar, en sá guli sandur kallast á við svartan sand hins svarta lands í ljóðinu „Hið svarta land,“ og það speglar einnig tímann í formi sandkorna í ljóðinu „Sandkorn“ sem er lokaljóð svart-hvíta hlutans.
Það má rekja þessa tímaþræði framar í bókinni og fjalla um kaflann „Burt“ þarsem allt er á ferð og flugi, eins og í ljóðinu „Burt“, þarsem allt er óhagganlegt, en samt ólgandi af bældri hreyfingu, því „allt langar burt“. Þessi hæga ósýnilega hreyfing hlutanna, „alls,“ finnur sér síðan samstæðu í jökum sem mjakast og stundum sem lifna og opnast, og ekki síst í hinni ímynduðu neðanjarðalest Íslands, sem stoppar við Perluna. Í því ljóði, og reyndar ljóðunum „Óráð“ og „Tvíeðla“ djarfar fyrir ákveðnum súrrealisma eða absúrdisma, og fannst mér það ákaflega gaman. Ljóðmælandi tekur neðanjarðarlestina við Perluna, en hún mjakast ekki áfram heldur er hraðinn svo mikill að lestin stöðvar hvergi svo ljóðmælandi situr uppi með fínlegan eldri mann í rykfrakka sem flytur langa greinargerð um muninn á þessari lest og lestinni til Selfoss en í henni eru hátimbraðir gamaldags klefar. Þannig er ekki aðeins sköpuð ímynduð lest í Reykjavík, heldur er henni líka gefin saga, því hún á sér fortíð í hinum hátrimbruðu gamaldags klefum.
Ljóðið „Teinar“ endar svo á ákaflega ljóðrænni mynd ferðar ljóðmælanda í lestinni innan úr málmkenndri nótt, „alla leið inn í teinalausan morgun.“ sem gefur til kynna að ferðalagið sé á allan hátt óljóst og leiðin óglögg.
Þessi teinalausa ferð ber mig svo yfir heilan kafla, aftur að ljóðinu „Hið svarta land“ sem einnig lýsir veglausum ferðum, en nú utan borgar. Ljóðmælandi er á ferð um hið svarta land þegar hann uppgötvar að þar eru engir vegir lengur, hvorki slóðar né kindagötur og honum bregður við þá tilhugsun að þurfa að vera áfram í hinu svarta landi. En þá byrja dúnmjúkar snjóflygsur að falla og „brátt voru allir vegir færir.“ Ljóðið mætti hugsa sér sem vegvísi um þessa ljóðabók, en hún er full af svörtum bókstöfum líkt og svörtum sandkornum, og hvít snjódrífa síðnanna gera alla vegi um bókina færa.
Þessi fyrsta bók í lokatrílógíu Sigurðar ber þess merki að skáldið heldur áfram að þróa sinn ljóðstíl og er óhræddur við að legga út á nýjar brautir, þó þær séu bæði teinalausar og almennt óljósar í hvítu ljóðalandslaginu. Og á leiðinni týnir hann kannski upp nokkrar blóðugar fjaðrir og notar þær sem vegvísa – enda veitir ekki af því næst stefnir skáldið í leit að tíma ljóðsins.
III
Í Ljóðtímaleit er lagt upp með þremur kraftmiklum ljóðum sem nefnast „Ljóðtímaleit I – III“. Í fyrsta ljóðinu er morgunstundinni lýst, en þá er tíminn nýfæddur og allt ólært en ekkert ómögulegt, morgunstundin er „Opin síða/Líkami sem skynjar/Ljóðtími“. Þarna er strax komið inn á ljóðið sjálft og skáldskapinn, sem er eins og áður sagði eitt af leiðarstefum þrennunar. Í næsta ljóði líður ljóðtíminn ekki, heldur starfar óumbeðinn, hann „Byggir hús/sem er undarlega samsett/innangengt milli herbergja/sem ekkert sameinar/annað en ljóðtíminn“ kannski ekki ólíkt og bygging ljóðabókar Sigurðar, eða ætti ég að segja ljóðabóka? því þar er einmitt innangengt á milli herbergja í undarlega samsettu húsi. Þriðja ljóðið lýsir því svo hvernig ljóðið kemur alltaf aftur, þrátt fyrir „marmaraþögn“ og gleymskuna sem flytur „stöðugt burt/húsgögn minninganna“. Enn of aftur birtist eldforn síung nýjung; „Logandi skrift/á opna síðu//Að nýju hafin ný leit/að ljómandi augnablikum“. Enn erum við í húsi ljóðsins, nú útbúnu húsgögnum minninga og enn erum við minnt á að ljóðið á sér sinn tíma og sá tími er óumflýanlegur.
Þessi ljóð kallast svo skemmtilega á við „Ljóðlistina“ í Ljóðtímavagni, en þar lýsir ljóðmælandi snjókornum sem hreyfast í fjúki og uppheitum strókum. Hreyfingin er sterkari en ljóðmælandi og hún lætur hann „skrifa allt mögulegt“ og tekur af honum völdin: „Núna til dæmis lætur hún mig skrifa://Það jarðbundnasta af öllum skáldskap er líklega ljóðlistin.“ Hreyfingin í ljóðinu er frábær, og við ferðumst með snjókornunum um göturnar, inn í huga ljóðmælanda og komumst svo að þessari niðurstöðu – sem stangast á skemmtilegan hátt við margt af því sem ég skynja í ljóðum Sigurðar, en er jafnframt ákaflega góð lýsing á ljóðum hans.
Sigurður hefur frá upphafi skrifað mikið af prósaljóðum og einskonar ljóðleikritum, eða örstyttum eins og hann kallar það. Þessir prósar eru mjög skemmtilegir og er greinilegt að skáldið nýtir sér ólíka möguleika þessara ljóðforma til hins ýtrasta. Dæmi um það er kaflinn „Ljósmyndir“ í Ljóðtímavagn, en þar er fjallað um ljósmyndir, og tíma að sjálfsögðu. Í ljóðinu „Ljósmyndir“ því lýst hvaða áhrif ljósmynd hefur á skóg og hljóðfæraleikara, og „úr því talið berst að skógrækt“ heitir næsta ljóð „Skógrækt“ og lýsir því yfir að yfirvegun og upptendrun þurfi að fara saman, og að það kenni skógræktin. Báðar þessar pælingar eru dæmi um þann hugleiðingastíl sem einkennir ljóð Sigurðar, en í ljóðum hans skiptast iðulega á heimspekilegar hugleiðingar og jarðbundin dæmi og Sigurður stefnir þessu saman af fimi, og húmor. Þessi jarðtenging kemur til dæmis fram í ljóðinu „Hótelsalur“ (ég er enn í ljósmyndahlutanum), en þar situr ljóðmælandi á hóteli sem hann harðneitar að nefna því hann óttast að þá hverfi það eins og aðrir staðir sem nefndir hafa verið í ljóðum, og nú situr hann í hótelsalnum „til alls vís.“ Hér birtist okkur ákaflega kómísk sýn sem er samt margslungin: vangaveltur um stöðu ljóðsins gagnvart veruleikanum, spegla undarlega þrjósku, sem er næstum ógnandi.
Skáldið hefur áður verið statt á hóteli, en það er „Hótel vonarinnar“ í Ljóð vega gerð. Það hótel virðist ekki statt í sömu hættu, og um ganga þess gengur skrautlegur hópur fólks, meðal annars Grímur Thomsen. Þó er ljóðmælandi eitthvað uggandi í erindi VI, en þar þyrpist ljósfælna deildin að, og undarlegir atburðir fara að gerast: „hvergi óhultur/fyrir sjálfum mér h/f“ og hafið sem hnípir umlandi út við sjóndeildarhring hefur nú skyndilega gengið á land, með öllum sínum fiskum og sjóskrýmslum, sjódauðum og hinum myrtu: „ekki senda þetta á land/á mína hugarströnd/ég er bara maður/eitt eintak maður/stöðvaðu strolluna!“ Sem betur fer morgnar: „Morgunninn töltir/á lágfrýsandi fákum ljóssins/um rústir næturinnar//Aftur skal horft í augu spegils/Aftur skal horfst í augu“. Líkt og í „Næturljóði“ er lesandinn tekinn hér í magnað ferðalag um nóttina, sem er að hluta til myndhverfð í hafinu en í næsta erindi er talað um „mynni næturfljótsins“. En hér er óttinn meiri, myrkfælnin allsráðandi. Ljóðið er að finna í lokabókinni í fyrstu þrennu Sigurðar, og þar ferðast ljóðið um innlenda og erlenda vegi. Fyrsta bókin heitir Ljóð vega salt (1975), sú næsta Ljóð vega menn (1980) og sú þriðja eins og áður sagði, Ljóð vega gerð (1982). Allar bækurnar bera þess merki að vera skrifaðar af manni sem dvelur eða hefur dvalið langdvöldum erlendis, því þar vegur ljóðið salt milli heima og heiman, sem er aðallega Frakkland, París, nánar tiltekið nokkrar götur og hótel. Þannig er óhætt að segja að það sé nokkuð mikill borgarbragur yfir öllum bókunum, við erum ýmist stödd í Reyjavíkurborg, „ó mig minnti að þessi borg væri brosandi kona/sem austanvindurinn svæfi hjá/niður eftir laugaveginum og austurstrætinu/og lognaðist útaf á hallærisplaninu framan við moggann“, eða París í götu meistara alberts, „ljósmyndastofa hér í bakhúsinu/blasir við hér úr bakgluggunum/þeir taka tíðskuðfatamyndir/ótt og títt/dömurnar skipta um föt og máta önnur/vaðandi naktar um litina/eins og marglita vínberjahrúgu/myndavélar blikka af aðdáun/líma allan pilsaþytinn/opinmynntar á hringlaga innyflin“, og ljóðmælandi skiptir ört um ham, hann er nemandi, lesandi, neytandi og kaupandi, og nú er „útsýnið úr bakglugganum“ óðum að breyta honum í gluggagæi. Bæði ljóðin eru úr Ljóð vega salt. Og á stundum renna borgirnar saman, eins og í kaflanum um „Þá gömlu frá Hofi“ í Ljóð vega menn, en þar hoppa börnin í parís á gangstéttinni á franskri götu, „En á Tómasarhaganum/hoppa börnin/börnin hoppa/já já hoppa í parís/á gangstéttinni/á Tómasarhaganum/og kalla efsta reitinn haus//Já já þau hoppa blessuð börnin/í haus/í himinhvolfinu/og eru samt alltaf í parís“. Hér kemur líka fram eitt aðaleinkennið á ljóðstíl Sigurðar, en það er endurtekningin, sem hann nýtir sér til að skapa hrynjandi og takt.
IV
Ljóðið sjálft er alltaf nálægt, í Ljóð vega salt ferðast það um Sprengisand: „á sprengisandi ljóðsins hleð ég vörður“ og í Ljóð vega menn fer það hringveginn. Kaflinn eða bálkurinn „Á hringvegi ljóðsins“ er hreint frábær og að mínu mati eitt það besta sem Sigurður hefur gert. Hann kallast skemmtilega á við „Ljóðtímaleit“ og er fullur af krafti og hraða. (Enda mæli ég með að hann sé lesinn allur í einu yfir, hratt, til að fá tilfinningu fyrir ferðinni, svo er hægt að fara hægar í næstu umferð.) Skáldið ákallar lesanda: „Skrepptu með mér í ferð út á hringveg ljóðsins“ og gefur fögur fyrirheit um ferðina: „Ég skal fara um þig orðum“. Ferðin er farin til að flýja höfuðborgina, síbyljuna og neysluna, heimsmartöðina, en hún sækir að í draumum. Þannig er ljóðið einnig ákall til náttúrunnar og ljóðmælandi hrópar: „Niður með samlíkinguna/Lifi myndbreytingin og brauðið/Myndlíkingin myndhvarfið“ og hann skilur nú fyrst hvað rímleysið er líkt náttúrunni. Á sama hátt veltir ljóðmælandi fyrir sér krákustígum ljóðsins í „Ljóðvegagerð“ sem er upphafskafli samnefndrar bókar: „Vertu ekki að leita/ljóðveganna á kortinu/Þeir eru ekki kortlagðir/en samt eru þeir og verða.“
Ljóðin í þessari fyrstu syrpu eru almennt fremur orðmörg og orðfærið kynngimagnað, til dæmis minnti „Á hringvegi ljóðsins“ mig heilmikið á ferðalag ljóðmælanda með Zombí í Zombíljóðum Sigfúsar Bjartmarz, en þessir bálkar eiga gagnrýni á neysluhyggju samtímans sameiginlega. Þannig má hugsa sér að þetta hafi verið hressandi lesning í kjölfar einfaldra mynda atómljóðanna, þó vissulega nýti Sigurður sér táknsæi þess skáldskapar. En táknheimur Sigurðar er oft á tíðum nær absúrdinu, og hann er bæði hraður – á stöðugri órólegri ferð – og frásögulegur, öfugt við þær kyrru ljóðmyndir sem mér hefur alltaf fundist einkenna atómljóðin. Sigurður Pálsson var eitt af ‘listaskáldunum vondu’ sem stóðu fyrir mikilli ljóðavakningu á áttunda áratugnum og voru fyrirrennarar ljóðbylgjunnar sem fylgdi í kjölfar pönksins á fyrstu árum þess níunda. Þeir sem hafa heyrt Sigurð lesa ljóð sín og draga fram þau fjölmörgu blæbrigði sem þau geyma, húmor, kraft, gagnrýni og fegurð, skilur vel að áhorfendur í Háskólabíó árið 1976 hafi fyllst áhuga á ljóðinu á ný.
Tungumálið er orðið einfaldara í næstu þrennu, sem hefst með bókinni Ljóð námu land (1985). Í grein sinni, „Mörg andlit akasíutrésins: Um ljóðalist Sigurðar Pálssonar“, sem birtist í Skírni, haustið 1996, tengir Eiríkur Guðmundsson þessa breytingun á tungumáli ákveðinni þróun sem verður í gegnum bækurnar: „einfaldast væri að tala um þroska í þessu samhengi og benda á nokkur galsakennd ljóð fyrstu bókarinnar og fágaðari ljóð í lokahluta þeirrar nýjustu [Ljóðlínuskip 1995] því til stuðnings“ (478). Og Eiríkur bætir því við að hugmyndafræði ljóðanna eflist eftir því sem líður á ferilinn. Þessi hugmyndafræði er margháttuð að mati Eiríks, en hún tengist kannski fyrst og fremst þörf ljóðanna til að láta lesandann upplifa tilveruna á nýjan hátt, „að nema völd í hugum lesenda og grípa inn í eða hafa áhrif á tilveru þeirra“ (489). Þetta er einmitt tilfinning sem ég upplifi sterkt í ljóðum Sigurðar og birtist til dæmis í því hvernig hann hleður upp myndum, svo það skapast einskonar ofgnótt og skynjunin þenst út. Dæmi um slíkt er „Það fjögur“ í Ljóð vega menn, sem hefst á orðunum „Það rifnar ekki nei það gliðnar/Það gliðnar og losnar í sundur“, þvert ofan í „Útblásið traustið/á óbreytileikann!“. „Það er saumspretta“ og svo er það „lykkjufall/á löturhægri/óstöðvandi ferð“. En það er ekki ástæða til að óttast, því „það rifnar ekki“, gliðnar bara „og losnar í sundur/það losar um undur/og furðuný andsvör/á breyttum andlitum“. Enn erum við hrifin í ferð með ljóðinu sem er sannanlega ekki óbreytilegt heldur stöðugt að breytast, og í þessum breytingum losar það um undur og býr til alveg ný svör fyrir breytt andlit lesandans.
Og þessi skynjun sem Eiríkur vill einnig kenna við hugljómanir heldur áfram að setja mark sitt á ljóð Sigurðar, eins og sjá má í „Næturljóði“ sem vitnað var til í upphafi þessarar greinar. Sjálfur dregur Eiríkur svo þessa skynjun og hugljómun skemmtilega fram í erindi sínu sem hann flutti í útgáfuteiti af tilefni útkomu tólftu bókarinnar.
V
Eins og Eiríkur bendir á er auðvelt að sjá ákveðna hrynjandi í byggingu bóka Sigurðar, en líkt og í fyrstu þrennunni hefjast bækurnar í þeirri næstu á ljóðabálkum sem lýsa því hvernig ljóðið bókstaflega nemur hér land og eru því einskonar landnámsljóð. Í fyrri bálknum er landsýninni lýst: „Ný fjöll og nýjir staðir/Óskrifaðar arkir“, en í upphafshlutanum í Ljóð námu menn (1988) er sagt frá höfundum íslendingasagnanna. Í þriðju bókinni, Ljóð námu völd (1990) er ljóðnámið sett í pólitískt samhengi en þar segir í ljóðinu „Ljóð námu völd“ að veikasta röddin sé sterkust, rödd ljóðsins, sem nær að yfirgnæfa hæðnishlátur Lenins og yfirlætisfliss flokksprestanna: „Rödd ljóðsins//einhvers staðar/lengst inni/lengst bakvið“, en nú er „Nýr hlátur kominn/til sögunnar://hjartanlegur hlátur Havels“. En hér er auðvitað verið að vísa til þeirra umbreytinga sem urðu í Austur-Evrópu á þessum árum.
Og rödd ljóðsins er margskonar og í þessari þrennu nokkuð af prósaljóðum, sem Sigurður hefur sérlega skemmtileg tök á. Í fyrstu ljóðabók sinni, Ljóð vega salt, voru prósar sem minntu reyndar meira á örleikrit, að því leyti sem þau lýsa sviði og atburðum á því. Í örstyttu IV er til dæmis lýst sviði þarsem bækur þekja alla veggi: „inn kemur stúlka með gasgrímu með löngum rana framúr og klædd í strigasekk.“ Stúlkan tekur hverja bókina á fætur annari og flettir upp á síðu 21 og les fyrsta orðið á síðunni upp. Hún byggir sér snjóhús og skríður svo inn í það, les úr síðustu bókinni og hrindir svo húsinu um koll, innanfrá. Í Ljóð vega gerð er þessi leikhússtemning tekin enn lengra, en þar er Reykjavík sjálf sviðið, og það tema er tekið upp í „Nokkrar verklegar æfingar í atburðaskáldskap“ í Ljóð námu völd. Dæmi um slíkar æfingar er að það á að „Fara inn í Reykjavíkur Apótek og biðja um herraklippingu“, og „inn á Aðalpósthúsið í Reykjavík og biðja um tveggja manna herbergi með baði.“ Í þriðju æfingunni á að „Ganga inn um aðaldyr Alþingis og biðja þingvörð mjög kurteislega að tala við Lilla klifurmús./Ef þingvörðurinn kannast ekki við neinn með þessu nafni á að spyrja hvort hann sé nýbyrjaður.“ Ég mæli eindregið með þessum æfingum fyrir alla ljóðunnendur! Mér finnst eins og húmor Sigurðar njóti sín best í þessum prósaljóðum, og þau virðast hafa sína eigin sýn og rödd meðal ljóða hans. Dæmi um þetta er „Krossviður“ í Ljóðlínudans (1993), fyrstu bókinni í þriðju þrennunni. Þar segir ljóðmælandi frá því að hann hafi valið sér það verkefni í handavinnu „að saga út Ísland úr krossviði.“ Og svo hefst ferðin kringum landið, í félagi við brotin sagarblöð og lykt af krossviði. Tema ljóðlínudansins er að sjálfsögðu sjálf ljóðlínan sem þarna birtist okkur í öðru ljósi, og ljóðlínurnar eru ekki bara skáldsins sjálfs því hann vísar í önnur skáld, Beckett og þá félaga Ezra Pound og William Carlos Williams. Í næsta kafla birtast línur úr popptexta. Það er í þessari syrpu sem ég fer að fá verulega sterka tilfinningu fyrir heildarbyggingu bókanna. Fyrir utan áðurnefnd ítrekuð stef um ljóðið, er borgin alltaf nálæg, og birtist hér í mögnuðum „Miðborgarblús“. Kaflinn „Gluggar og dyr“ skapar sömuleiðis tilfinningu fyrir áframhaldi, en eins og kemur fram í Ljóðtímavagn er ljóðið hús, eða húsið ljóð. Ljóðin koma úr ólíkum áttum, í einu þeirra rammar glugginn inn útsýni ljóðmælanda, sem sér ekki til hafs, í öðru er því lýst hvernig fjallganga veitir ekki skilning á fjöllum, sem þenja út hugann, og daginn sem hann fer gengur hann „um ljósar dyr/Inn í þessi fjöll“. Þannig eru ljóðin bæði gluggi út í heiminn og dyr sem lesandinn gengur inn um með skáldinu. Önnur stef styrkjast við lestur Ljóðlínuskips (1995), en þar er hafið meginþemað. Hafið hefur birst okkur í ýmsum myndum í ljóðum hingað til, oft sem einskonar ógn, og svo er enn hér. Hafvillur eru ráðandi, en samt siglir ljóðmælandi áfram um margskonar höf og öldur. Það er kannski helst hreyfingin í hafinu sem situr eftir hjá lesanda og skapar samfellu við hreyfingu ljóðanna bókum skáldsins. Í fyrsta ljóði bálksins „Að sigla“ segist ljóðmælandi hafa horft of lengi á hafið:
Ég hef horft of lengi á hafið
Horft þangað til andardrátturinn
Finnur nýtt samræmi
Slagæðarnar skynja svelginn
Ysta sjónarrönd
Skríður stöðugt undan
Eins og kappakstursbratu
Í hægagangiÉg hef horft of lengi á hafið
Til þess að geta skilið
Hreyfingarleysið
EndanleikannLjóðnámuskipið
Á stöðugri siglingu
Í vöku og draumi
Og vökudraumiEn siglingin á sér ekki endilega
Stað
Siglingin er bæði ferð um staði
og staðleysaAð vera
Er að vera á ferð
Samkvæmt lögmálinuOg ferðin er orð og reynsla
Orð
Sem er sjálf ferðin
Líkt og hafið er ljóðið á stöðugri hreyfingu, ferð, sem samt virðist fullkomlega hreyfingarlaus. Ljóðið lifir í líkamanum, slagæðunum sem skynja það, og það siglir líkamann jafnt í vöku sem draumi. Sem fyrr birtist ljóðið í meðförum Sigurðar sem sjálfstæður kraftur, hreyfing sem er skáldinu sterkari, sem er jafnvel öllu sterkari og máttugri, eins og hafið: villukennt og óendanlega fjölbreytilegt, eins og segir í ljóðinu „Tvígengivél“. Hafið er tvígengivél „af og frá“, virðist einföld en er óendanlega fjölbreytileg: „Við sjáum öldurnar hekla/hvíta bekki á vindstrokinn flöt/Sjáum skýin reyna að spegla sig/í öldunum systrum sínum“. Ljóðlínuskip er að mínu mati ein albesta bók Sigurðar og skiptir það miklu þessi hreyfing tvígengivélarinnar sem skapar sérstæða hrynjandi innan ljóðanna og milli þeirra.
Þessa mögnuðu tilfinningu fyrir hreyfingu, sem bæði er og er ekki, er einnig að finna í prósaljóðinu „Kirkjuskipið“ í Ljóð námu völd, en þar er ljóðmælandi staddur í kirkju og finnur skyndilega hvernig skipið er í raun á hreyfingu: „Hægri óstöðvandi siglingu! Ég fann að í raun hafði þessi kirkja aldrei verið kyrr á sínum stað í Île de la Cité í París. Allan þennan óratíma hafði hún verið steinkyrr á ferð. Mikilli ferð.“ En það eru ekki bara kirkjuskip og ljóðskip sem eru ferðaglöð, í Ljóðlínuspili (1997) fara fjöllin á skrið:
Þýtt úr þögn
VIÍ nótt var ég að smala
Fjöllunum
Gömlu fjöllunum mínum
SamanLandslagið sem ég kunni utan að
Seigfljótandi á prúðri hreyfinguSmalaði þessum fjöllum
Sem ég hélt að gætu aldrei
HaggastRak þau í rétt
Sem ég kannaðist ekki við
Vissi ekki hvernig
Ég átti að draga þau í dilkaMundi ekki lengur
Hvar þau höfðu verið
Í upphafi
Ljóðið geymir í sér undarlega gleði mitt í yfirvofandi ógn, fjöllin sem eiga ekki að geta haggast, er á prúðri hreyfingu, en hvert og hvaðan? Allur þessi kafli, „Þýtt úr þögn“, er sérlega sterkur, þar sem finna má algera kyrrð samfara sérstæðri og kynngimagnaðri tilfinningu fyrir lífi, dauða og landslagi norðursins. Snjóhengjan sem hangir þögul yfir tilveru okkar er í óhaggandi biðstöðu, ísbreiðurnar eru komnar á kreik og nóttin er ýmist seglhvít eða dimmur straumur.
Fjöllin eru auðvitað fulltrúi landsins, andstæðan við hafið, en samt á þetta hreyfinguna sammerkt. Í Ljóðlínuskipi var nokkuð um tré, eins og til að vega upp á móti öllu vatninu, og trén halda áfram að vaxa í Ljóðlínudansi. Það er falleg hreyfing í þessu, og í myndmáli blaða og laufblaða vaxa tré og skjóta rótum jafnt á himni sem á jörðu. Tréð er tákn mannsins, eða konunnar, eins og segir í þriðja ljóðinu, þarsem það tengir himin og jörð líkt og tröllatré goðsagnanna, og um leið er framkölluð mynd af flóknum vefi róta og greina við sinnhvorn enda bolsins, sem ber við himin og svörð eins og útlínur, eða ljóðlínur. Þannig spilar Sigurður fimlega á ljóðlínur sínar, sem liggja í þéttum vef yfir bækurnar þrjár í þessum ljóðlínuflokki.
V
Hér hafa verið dregnar ákveðnar línur í gegnum höfundarverk Sigurðar en það þýðir ekki að leiðir ljóða hans séu ekki aðrar og fleiri. Bækurnar bjóða allar upp á það besta sem ljóðið hefur að gefa, nýja skynjun, jafnvel hugljómun, húmor og alvarleika, í bland við drauma og martraðir. Ég hef aðeins nefnt hvernig skáldið kallast á við önnur skáld og skáldverk en til dæmis látið ógert að ræða tengsl við goðsagnaheima, en slík eru fjölmörg, bæði bein og táknfræðileg. Því get ég ekki annað en ráðlagt lesanda að drífa sig sem fyrst út á „Hafvillur“ (Ljóðlínuskip) ljóða Sigurðar, njóta þess að vera „nafnlaus og standa í brúnni/Í kyndiklefanum undir þiljum/er nafni minn að störfum/Hvorugur veit að hann er vofa hins“. Þannig er lesandinn vofa ljóðmælanda og öfugt, leiðsögumaðurinn finnur ekki leiðina heim, enda er heimahöfnin orðin dofin í minninu „Hafi hún einhvern tíma verið til“. Leiðsögumenn ljóðanna (til dæmis ég) geta ekki annað en leiðbeint inn í frekari villur:
Æ við héldum einu sinni
að vegleysur sjávarins
væru endanlegar þrátt fyrir allt
Staðfræði geimsins og heimsins
yrði lýstSíðan hefur óendanleikinn
stöðugt verið að birtast
Iðandi sýnir
stjörnukíkisins
Sundlandi sýnir
smásjánna kjarnaofnanna
undirdjúpannaÞyngdarlögmálið
virkar ekki lengur í eina átt
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2004
Greinar
Almenn umfjöllun
Arndís Þórarinsdóttir: „Til minnis“
Tímarit Máls og menningar, 78. árg., 4. tbl. 2017, s. 5-8
Eiríkur Guðmundsson: „Mörg andlit akasíutrésins. Um ljóðlist Sigurðar Pálssonar“
Skírnir, 170. árg. haust 1996, s. 476-506
Guðmundur Andri Thorsson: „Ljóðaljóðin: um ljóða-flokk Sigurðar Pálssonar“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 2. tbl. 2006, s. 29-35
Kjartan Árnason: „Ung, græn – og yrkja ljóð! Um ljóðagerð ungra skálda á síðasta áratug“ [Önnur skáld eru: Anton Helgi Jónsson, Birgir Svan Símonarson, Einar Már Guðmundsson, Steinunn Sigurðardóttir og Þórarinn Eldjárn]
Mímir, 24. og 25. árg., 1. tbl. apríl 1986, s. 6-14
Silja Aðalsteinsdóttir: „Ljóð eru alltaf í uppreisn. Viðtal við Sigurð Pálsson“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 2. tbl. 2006, s. 7-28
Sigríður Albertsdóttir: „Alltaf hálfopnar dyr“ (viðtal)
Tímarit Máls og menningar, 77. árg., 4. tbl. 2016, s. 102-123
Um einstök verk
Bernskubók
Ásta Kristín Benediktsdóttir: „Að vinna á stabba tungumálsins með heyjárni minnisins“
Spássían, 3. árg., 1. tbl. 2012. Bls. 45-6.
Sigríður Albertsdóttir: „Skáldskapur er ofsafengin leit að sannleikanum“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 3. tbl. bls. 135-8.
Bernskubók og Minnisbók
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Minnið er alltaf að störfum“ : mótun endurminninga og sjálfs í Minnisbók og Bernskubók Sigurðar Pálssonar“
Ritið 2013, 13. árg., 2. tbl. bls. 135-48.
Einhver í dyrunum
Soffía Auður Birgisdóttir: „Persónur og leikendur. Um tvö leikrit frá liðnu ári“
Skírnir, 175. árg. vor 2001, s. 559-588
Ljóð námu land
Árni Sigurjónsson: „Ljóð námu land“
Skírnir, 160. árg.1986, s. 366-370
Eiríkur Guðmundsson: „Mörg andlit akasíutrésins. Um ljóðlist Sigurðar Pálssonar“
Skírnir, 170. árg., haust 1996, s. 476-506
Guðbjörn Sigurmundsson: „Ekkert eins og venjulega“
Tímarit Máls og menningar, 47. árg., 2. h. 1986, s. 261-264
Ljóð námu menn
Eiríkur Guðmundsson: „Mörg andlit akasíutrésins. Um ljóðlist Sigurðar Pálssonar“
Skírnir, 170. árg. haust 1996, s. 476-506
Ljóð námu völd
Eiríkur Guðmundsson: „Mörg andlit akasíutrésins. Um ljóðlist Sigurðar Pálssonar“
Skírnir, 170. árg. haust 1996, s. 476-506
Friðrik Rafnsson: „En ny balance. Sigurður Pálsson : humoristisk og dybsindig lyriker = A new balance. Sigurður Pálsson : A humorous and profound poet“ „
Nordisk litteratur 1994, s. 12-13
Kristján Þórður Hrafnsson: „Völd og auðævi“
Tímarit Máls og menningar, 52. árg., 1. h. 1991, s. 106-109
Ljóð vega gerð
Eiríkur Guðmundsson: „Mörg andlit akasíutrésins. Um ljóðlist Sigurðar Pálssonar“
Skírnir, 170. árg. haust 1996, s. 476-506
Páll Valsson: „Ljóðvegagerð“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg., 4. h. 1983, s. 439-443
Ljóð vega menn
Eiríkur Guðmundsson: „Mörg andlit akasíutrésins. Um ljóðlist Sigurðar Pálssonar“
Skírnir, 170. árg. haust 1996, s. 476-506
Páll Valsson: „Nokkrar athuganir á ljóðagerð Sigurðar Pálssonar“
Mímir, 21. árg., 1. tbl. mars 1983, s. 54-61
Ljóð vega salt
Eiríkur Guðmundsson: „Mörg andlit akasíutrésins. Um ljóðlist Sigurðar Pálssonar“
Skírnir, 170. árg. haust 1996, s. 476-506
Erlingur E. Halldórsson: „Lyklakippur og líf“
Tímarit Máls og menningar, 36. árg., 3.-4. h. 1975, s. 380-381
Páll Valsson: „Nokkrar athuganir á ljóðagerð Sigurðar Pálssonar“
Mímir, 21. árg., 1. tbl. mars 1983, s. 54-61
Ljóðlínudans
Eiríkur Guðmundsson: „Mörg andlit akasíutrésins. Um ljóðlist Sigurðar Pálssonar“
Skírnir, 170. árg. haust 1996, s. 476-506
Friðrik Rafnsson: „En ny balance. Sigurður Pálsson : humoristisk og dybsindig lyriker = A new balance. Sigurður Pálsson : A humorous and profound poet“ „
Nordisk litteratur 1994, s. 12-13
Ljóðlínuskip
Eiríkur Guðmundsson: „Mörg andlit akasíutrésins. Um ljóðlist Sigurðar Pálssonar“
Skírnir, 170. árg. haust 1996, s. 476-506
Guðbjörn Sigurmundsson: „Siglt um staði og staðleysur“
Tímarit Máls og menningar, 57. árg., 2. h. 1996, s. 133-135
Ljóðlínuspil
Guðbjörn Sigurmundsson: „Með rætur á himni“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 3. h. 1988, s. 156-159
Ljóðorkulind
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir: „Tekist á við tímann“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 36.
Vera Knútsdóttir: „Ljóðorkulind“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ljóðorkusvið
Guðmundur Andri Thorsson: „Orkuveitan og hin heilbrigða óskynsemi“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2007, 68. árg., 4. tbl. bls. 102-6.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Lifinda impressjónismi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ljóðorkusvið, Ljóðorkuþörf og Ljóðorkulind
Kristján Þórður Hrafnsson: „Uppreisn gegn afhelgunarskyldunni“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 4. tbl. bls. 134-40.
Ljóðtímaskyn
Guðbjörn Sigurmundsson: „Meira en sandur“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 2. h. 2000, s. 103-106
Minnisbók
Guðmundur Magnússon: „Augnablik sem minnið endurskapar“ (ritdómur)
Þjóðmál 2007, 3. árg., 4. tbl. bls. 89-91.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Bókalíf: Um nýleg íslensk æviskrif“ (ritdómur)
Skírnir 2008, 182. árg., haust, 501-7.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Ævir ljóðskálda“
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 4. tbl. bls. 81-7.
Parísarhjól
Soffía Auður Birgisdóttir: „Systurtorrek“
Tímarit Máls og menningar, 60. árg., 4. h. 1999, s. 106-108
Verðlaun
2017 – Maístjarnan, verðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns: Ljóð muna rödd
2016 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og menningar
2016 – Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu
2016 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Ljóð muna rödd. Sem besta ljóðabókin
2009 – Gríman: Utan gátta (sýning ársins)
2009 – Gríman: Utan gátta (Sigurður leikskáld ársins)
2008 – Chevalier de l’Ordre du Mérite (heiðursorða franska ríkisins): Fyrir framlag til kynningar á franskri menningu á Íslandi
2007 – Íslensku bókmenntaverðlaunin (í flokki fagurbókmennta): Minnisbók
1999 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1990 – Chavelier de l’Ordre des Arts et des Lettres (Riddari af Orðu lista og bókmennta) hjá franska ríkinu
1987-1990 – Borgarlistamaður Reykjavíkurborgar
Tilnefningar
2018 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Ljóð muna rödd
2017 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud (ásamt Sölva Birni Sigurðssyni)
2016 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Ljóð muna rödd
2001 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Ljóðtímaleit
1995 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Ljóðlínuskip
1994 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Ljóð námu völd
Digtet husker rösten
Lesa meiraLjóð muna ferð
Lesa meiraDikt husker stemmen
Lesa meiraMit hus (udvalgte digte)
Lesa meiraLjóð muna rödd
Lesa meiraSegulsvið
Lesa meiraTáningabók
Lesa meiraInside Voices, Outside Light
Lesa meiraBlinda konan og þjónninn
Lesa meira
Ummyndanir skáldsins og fleiri ljóð
Lesa meiraUppljómanir & Árstíð í helvíti
Lesa meiraSvo þú villist ekki í hverfinu hérna
Lesa meiraHHhH
Lesa meiraLíf annarra en mín
Lesa meiraAllt til að vera hamingjusöm - og aðrar sögur
Lesa meiraLíf mitt með Mozart
Lesa meiraErró í tímaröð: líf hans og list
Lesa meiraVísanir : samtímahönnun í París
Lesa meira