Beint í efni

10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp

10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp
Höfundur
Hallgrímur Helgason
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Tomislav Bokšic,  kallaður Toxic, er leigumorðingi króatísku mafíunnar í New York. Dag einn neyðist hann til að flýja Bandaríkin og fyrir röð tilviljana endar hann í flugvél á leið til Íslands. Við komuna til Keflavíkur lendir mafíósinn í fangi íslenskra trúboðshjóna, sem halda að hann sé amerískur sjónvarpsprestur, kominn til að predika á sjónvarpsstöð þeirra, Amen. Í hönd fer bráðfyndin og æsileg
atburðarás þar sem hermaðurinn úr Balkanstríðinu rekur sig á hinn friðsæla íslenska veruleika — og þarf í kjölfarið að horfast í augu við fortíð sína.

Úr 10 ráðum til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp:

Það besta við stríðið var að sofa úti. Uppi í Dínárafjölum. Gaukurinn var vekjaraklukkan okkar. Ég sá hann reyndar aldrei en hann kom okkur alltaf á lappir áður en sólin kom upp því landið hélt með okkur. Serbarnir sváfu enn á sínu græna, bakvið hól og annan. Helvítis letidýrin. Byrjuðu aldrei að skjóta fyrir klukkan átta. Sjálfsagt getum við þakkað þeim þessa fallegu morgna sem við áttum þarna, með sól í augum og besta morgunmat í heimi: Kaffi að hætti skógarhöggsmanna og povitica-brauð. Við snæddum í þögn og fylgdumst með fyrstu geislum dagsins glíma við náttkalt smjör.

Einn morguninn fór Andro, vitleysingurinn frá Púla, allt í einu að tala um morgundöggina. Áður en við vissum af var hann farinn að hrópa:

,,Við erum að berjast um dögg! Serbarnir mega ekki eiga þessa dögg! Við viljum meiri dögg! Frábært stríð! Sem snýst um þessa dögg!

Svo rauk hann á fætur, hljóp út í grasið og fór að benda okkur á mismunandi tegundir daggar.

,,Króatísk dögg! Serbnesk dögg! Dögg sem enginn á!

Foringinn okkar, hinn hraunhúðaði Javor, dró fram skammbyssu og skaut hann í hnakkann. Andro féll í grasið eins og dauður kálfur.

,,Drekktu hana þá, fábjáninn þinn, sonur ljótustu hórunnar í Púla! hrækti hann út úr sér.

Piti rosu, að drekka dögg, varð síðan að frasa sem við notuðum um óheppna félaga. Mér var ekki alveg sama um Andro. Af öllum strákunum í herdeildinni hafði ég líklega mestu þolinmæðina fyrir skringilátum hans, sem var tilkomin vegna þess hversu mjúkum höndum hann hafði farið um ákveðinn hlut á viðkvæmu augnabliki í lífi mínu.

Andro var geysilegt Madonnu-fan, nefndi riffilinn sinn í höfuðið á amerísku poppdívunni, og átti það til að bresta í söng við ólíklegustu tækifæri, kyrjandi ,,I'm a virgin! með Morrisey-röddinni sinni. Og hann gekk alltaf með fingurstóran róðukross á sér. Oftar en ekki stóð krossinn upp úr brjóstvasanum á hermannabúningnum hans. Smá-Kristurinn var næstum hvítur að lit en krossinn hinsvegar brúnn og rann því saman við feluliti búningsins. Fyrir vikið virtist frelsarinn standa í vasanum líkt og forseti á svölum, baðandi út höndum hrópandi: ,,Hey! Strákar. Hlustiði aðeins! Kannski hlustaði Andro of mikið á hann. Hann átti það til að fara að fílósófera um gagnsleysi stríðs í miðju umsátri. Kannski ekki alveg það sem hermaður vill heyra. Og svo gat hann tekið upp á þeim furðulega fjanda að hlaupa nakinn yfir víglínuna og aftur til baka eða halda ræður um samband daggar og stríðsreksturs - sem átti kannski betur við í miðjum hippaballett en morgunverði herdeildar ungra drengja sem voru tilbúnir að fórna lífi og limum fyrir föðurlandið. Javor gerði því rétt í að drepa hann.

(73-4)

Fleira eftir sama höfund

Höfundur Íslands

Lesa meira

Stormland

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

101 Reykjavik

Lesa meira

Stormland

Lesa meira

Islands forfatter

Lesa meira

Three movies away from New York : Reykjavík, isolated yet international

Lesa meira

Málverk en þó ekki. Viðtal við Gerwald Rockenscaub.

Lesa meira

101 Reykjavik

Lesa meira