Um bókina:
Tomislav Bokšic, kallaður Toxic, er leigumorðingi króatísku mafíunnar í New York. Dag einn neyðist hann til að flýja Bandaríkin og fyrir röð tilviljana endar hann í flugvél á leið til Íslands. Við komuna til Keflavíkur lendir mafíósinn í fangi íslenskra trúboðshjóna, sem halda að hann sé amerískur sjónvarpsprestur, kominn til að predika á sjónvarpsstöð þeirra, Amen. Í hönd fer bráðfyndin og æsileg
atburðarás þar sem hermaðurinn úr Balkanstríðinu rekur sig á hinn friðsæla íslenska veruleika — og þarf í kjölfarið að horfast í augu við fortíð sína.
Úr 10 ráðum til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp:
Það besta við stríðið var að sofa úti. Uppi í Dínárafjölum. Gaukurinn var vekjaraklukkan okkar. Ég sá hann reyndar aldrei en hann kom okkur alltaf á lappir áður en sólin kom upp því landið hélt með okkur. Serbarnir sváfu enn á sínu græna, bakvið hól og annan. Helvítis letidýrin. Byrjuðu aldrei að skjóta fyrir klukkan átta. Sjálfsagt getum við þakkað þeim þessa fallegu morgna sem við áttum þarna, með sól í augum og besta morgunmat í heimi: Kaffi að hætti skógarhöggsmanna og povitica-brauð. Við snæddum í þögn og fylgdumst með fyrstu geislum dagsins glíma við náttkalt smjör.
Einn morguninn fór Andro, vitleysingurinn frá Púla, allt í einu að tala um morgundöggina. Áður en við vissum af var hann farinn að hrópa:
,,Við erum að berjast um dögg! Serbarnir mega ekki eiga þessa dögg! Við viljum meiri dögg! Frábært stríð! Sem snýst um þessa dögg!
Svo rauk hann á fætur, hljóp út í grasið og fór að benda okkur á mismunandi tegundir daggar.
,,Króatísk dögg! Serbnesk dögg! Dögg sem enginn á!
Foringinn okkar, hinn hraunhúðaði Javor, dró fram skammbyssu og skaut hann í hnakkann. Andro féll í grasið eins og dauður kálfur.
,,Drekktu hana þá, fábjáninn þinn, sonur ljótustu hórunnar í Púla! hrækti hann út úr sér.
Piti rosu, að drekka dögg, varð síðan að frasa sem við notuðum um óheppna félaga. Mér var ekki alveg sama um Andro. Af öllum strákunum í herdeildinni hafði ég líklega mestu þolinmæðina fyrir skringilátum hans, sem var tilkomin vegna þess hversu mjúkum höndum hann hafði farið um ákveðinn hlut á viðkvæmu augnabliki í lífi mínu.
Andro var geysilegt Madonnu-fan, nefndi riffilinn sinn í höfuðið á amerísku poppdívunni, og átti það til að bresta í söng við ólíklegustu tækifæri, kyrjandi ,,I'm a virgin! með Morrisey-röddinni sinni. Og hann gekk alltaf með fingurstóran róðukross á sér. Oftar en ekki stóð krossinn upp úr brjóstvasanum á hermannabúningnum hans. Smá-Kristurinn var næstum hvítur að lit en krossinn hinsvegar brúnn og rann því saman við feluliti búningsins. Fyrir vikið virtist frelsarinn standa í vasanum líkt og forseti á svölum, baðandi út höndum hrópandi: ,,Hey! Strákar. Hlustiði aðeins! Kannski hlustaði Andro of mikið á hann. Hann átti það til að fara að fílósófera um gagnsleysi stríðs í miðju umsátri. Kannski ekki alveg það sem hermaður vill heyra. Og svo gat hann tekið upp á þeim furðulega fjanda að hlaupa nakinn yfir víglínuna og aftur til baka eða halda ræður um samband daggar og stríðsreksturs - sem átti kannski betur við í miðjum hippaballett en morgunverði herdeildar ungra drengja sem voru tilbúnir að fórna lífi og limum fyrir föðurlandið. Javor gerði því rétt í að drepa hann.
(73-4)