Æviágrip
Hallgrímur Helgason fæddist þann 18. febrúar 1959 í Reykjavík. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands veturinn 1979-80 og Listaakademíuna í München 1981-82. Frá árinu 1982 hefur hann starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur.
Fyrsta skáldsaga hans, Hella, kom út árið 1990 og síðan hefur hann sent frá sér fjölda skáldsagna auk leikrita, ljóðabóka og þýðinga. Skáldsaga hans 101 Reykjavík vakti verulega athygli þegar hún kom út árið 1996 og var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999. Hallgrímur hefur nokkrum sinnum verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlotið þau þrisvar sinnum, fyrst árið 2001 fyrir skáldsöguna Höfund Íslands, árið 2018 fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini og 2021 fyrir Sextíu kíló af kjaftshöggum. Þá var hann sæmdur franskri heiðursorðu bókmennta og lista, L'Ordre des Arts et des Lettres árið 2021.
Samnefnd kvikmynd Baltasar Kormáks byggð á 101 Reykjavík var frumsýnd árið 2000 og hefur hún vakið athygli víða um lönd. Hallgrímur hefur einnig skrifað verk fyrir leikhús, auk fjölda blaðagreina um samfélags- og menningarmál, flutt pistla í útvarpi og komið fram sem grínstæðingur. Bækur hans hafa komið út í þýðingum á Norðurlöndum og víðar. Hallgrímur hefur haldið fjölda einkasýninga sem myndlistarmaður, hér heima og erlendis, svo sem í Boston, New York, París og Malmö og verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum samsýningum í ýmsum löndum.
Frá höfundi
Frá Hallgrími Helgasyni
Á fyrri helmingi tuttugustu aldar var sími lítt útbreiddur um sveitir Íslands. Víða var aðeins sími á einum bæ í hverjum hreppi. Þurfti þá oft að sækja fólk í síma um langan veg. Á bæ einum undir Eyjafjöllum var sími. Þar var heimilisfastur niðursetningur einn er kallaður var Kunningi. Hann steig ekki í vitið og var hafður í því með öðru að ríða með svokölluð „símboð“ á nálæga bæi.
Kunningi var ólæs.
Eitt sinn, á fyrsta degi aprílmánaðar, er Kunningi sendur með símboð. Hann þarf að ríða um langan veg, meðal annars yfir tvær óbrúaðar ár, en kemur loks í hlað, gengur til bæjar og heilsar fólkinu. Honum er vel tekið, með kökum og kaffi, og hann afhendir húsfreyju miðann með símboðinu. Á miðanum stendur:
„1. apríl.“
Það getur tekið langan tíma að skrifa skáldsögu. Höfundurinn þarf að ferðast langa leið á skáldfáknum áður en hann nær til lesenda sinna. Að lokum nær hann þó heim í hlað og er oftast vel tekið í fyrstu. Hann afhendir þeim bók sína. Húsfreyja les titilinn af kápunni og spyr rithöfundinn hvað hann þýði.
Fátt verður um svör.
Rithöfundurinn er ólæs.
Hann var bara sendur yfir á næsta bæ með skilaboð, skilaboð sem hann skilur ekki sjálfur. Því ef hann gerði það hefði hann aldrei farið. Og þá hefðum við aldrei haft góða sögu til að segja. Spurningin er hinsvegar: Hver sendi hann? Í mínu tilfelli er svarið:
„1. apríl.“
Hallgrímur Helgason, 2001
Saga af Kunningja fengin úr bók Þórðar Tómassonar í Skógum, Gestir og grónar götur, Mál og mynd, 2000.
Um höfund
Made in Iceland – Skáldskapur Hallgríms Helgasonar
Ímynd Hallgríms Helgasonar verður sífellt flóknari eftir því sem hann verður sýnilegri í íslensku menningarlífi. Það er ómögulegt að greina pistlahöfundinn eða uppistandarann frá ljóðskáldinu, og myndlistarmanninn eða leikskáldið frá skáldsagnahöfundinum. Á sama hátt getur mönnum reynst erfitt að skilja ímyndina frá manninum því að Hallgrímur hefur öðrum listamönnum fremur nýtt sér möguleika íslenskrar fjölmiðlabyltingar. Hann hefur átt sinn þátt í að móta nýja og þróttmikla íslenska menningu sem verður sífellt miðlægari og er um margt afleiðing þeirra uppgangstíma sem orðið hafa í efnahagslífi landsins.
Hallgrímur er mjög gagnrýninn á þjóð og menningu og kemur óvægum skoðunum sínum á framfæri í greinum, pistlum og viðtölum. Hann finnur að stofnunum eins og ríkissjónvarpinu og öðrum opinberum menningarrekstri. Honum er illa við gagnrýnendur (sérstaklega bókmenntafræðinga), og hefur ekki mikið álit á Beckett, módernisma, mínimalisma, atómskáldskap, sjónvarpskringlunni, japönsku hækunni, austur-evrópskum menningaráhrifum og samfylkingunni. Svona mætti lengi telja. Listinn yfir allt sem Hallgrímur þolir ekki er ansi langur og sterk afstaða listamannsins gerir það að verkum að hann minnir svolítið á þá reiðu ungu menn sem gerðu garðinn frægan í breskum eftirstríðsbókmenntum.
Þó hafa fáir svarað gagnrýni Hallgríms sem er undrunarefni ef sýnileiki hans í íslensku menningarlífi er hafður í huga. Það hlýtur að teljast lofsvert hvernig Hallgrímur hefur á undanförnum árum reynt að hrista upp í íslensku menningarlífi en kannski er hann haldinn full miklum eldmóði. Kannski taka margir honum eins og ofurnæmu þjófavarnarkerfi í bíl nágrannans sem fer í gang hvert sinn sem einhver á leið hjá.
Menningin er trunta
Ýmislegt í verkum Hallgríms má tengja hinu svokallaða póstmóderníska ástandi. Upphaf þess hefur verið rakið til sjötta og sjöunda áratugs síðustu aldar þegar bresk popptónlist varð fyrst að alþjóðlegu menningarfyrirbæri. (1) Í póstmódernisma eru mörk há- og lágmenningar óskýr. Vegið er að þeirri hugmynd að menningin sé eign útvalins hóps og leitast er við að færa hana niður af þeim stalli sem talið er að módernistar hafi átt þátt í að skapa. (2) Þróun kapítalismans í vestrænum lýðræðisríkjum hefur getið af sér fjöldamenningu en fulltrúar hennar krefjast þess að vera teknir alvarlega sem listskapendur. Póstmódernísk viðhorf beinast gjarnan gegn því að háskólar eða aðrar menntastofnanir eigni sér þekkinguna. Í kjölfar fjölmiðlaflóru, netvæðingar, upplýsingabyltingar og annarra rafrænna samskipta gegnir menntamaðurinn ekki lengur því hlutverki að upplýsa borgarana. Hallgrímur kemur sjálfur inn á þetta í pistlinum „Enskan er þjóðlegri“: „Menntamennirnir sem stjórnuðu hugmyndalífi landsins fram eftir níunda áratugnum: Hvað varð um þá? Smám saman þögnuðu þeir, drógu sig útúr dagblöðum og fréttatímum […] Beinar útsendingar komu í staðinn fyrir beinskeyttar greinar.“ (3)
Í póstmódernisma eru menn helteknir af ímyndum sem gerir það að verkum að útlit og æska eru í öndvegi. Hallgrímur hefur í þessu ljósi hafið upp íslenska æsku og bent á að það séu „krakkarnir sem halda uppi lífinu í þessari borg“ og séu að „skapa Reykjavík nafn“. (4) Í póstmódernískri listsköpun er áherslan á ákveðið útlit, stílbrögð og birtingarmyndir, en frumleiki, form og efnisdýpt eru aukaatriði. (5) Póstmódernismi er menning innan gæsalappa. Í honum er lögð áhersla á að draga flatneskju og yfirborðsmennsku upp á listrænan máta, skortur á dýpt er upphafinn. Eflaust má halda því fram að markmiðið sé að varpa ljósi á ástandið eins og það er, í stað þess að skapa merkingu þar sem engin merking er til staðar. Orð Hallgríms um skáldsögu sína Þetta er allt að koma bera slíkum hugmyndum vitni:
Með þessari bók langaði mig að færa bókmenntirnar nær fólkinu — koma þeim niður á jörðina, jafnvel neðar, niður í svaðið, með því að leyfa mér allt, dellu, leiki, ósmekklegheit og nýjustu slúðursögur, í bland við þekkta viðburði og að sjálfsögðu hreinan skáldskap. Fátt er leiðinlegra en „vel unnar“ og „vandaðar“ bækur. (6)
Í póstmódernisma er hið krítíska viðhorf allsráðandi, vantrú á gildi og jafnvel tómhyggju er haldið á lofti.
Oft er talað um að ólíkt módernisma sem vísi í menninguna, „éti“ póstmódernisminn hana. Menningin hefur notagildi og er endurunnin. Mismunandi stílbrögðum og listgreinum er því oft blandað saman. Svokallaða x-kynslóðin, en Hallgrímur Helgason er af mörgum talinn vera faðir hennar hér á landi, hefur einnig oft verið nefnd endurvinnslukynslóðin. Hallgrímur hefur sjálfur sagt að tími endurvinnslunnar sé runninn upp og að ljóðið þurfi að endurnýja. Það sé orðið úrelt. (7) Ljóðasafn Hallgríms Ljóðmæli 1978–1998 ber þessari endurvinnslu vitni. Þar er ort út frá ýmsum þjóðþekktum kvæðum og stundum er um hreinar stælingar að ræða.
Leitin að Jónasi
Skáldskaparfræði Hallgríms er róttæk og miðast við að ljóðið verði miðlægari bókmenntamiðill en það er nú á tímum atómskáldskapar. Ein þekktasta grein Hallgríms „Ljóðið er halt og gengur með hæku“ var skrifuð fyrir tímaritið Fjölni árið 1997. Þar koma hugmyndir höfundar um stöðu íslenskrar nútímaljóðagerðar glögglega í ljós. Í greininni gagnrýnir Hallgrímur áhrif japönsku hækunnar á íslenska ljóðlist og telur skáldin ekki yfirfæra skáldskapinn yfir á íslenskan veruleika, tungumál og náttúru: „Orðið „slétta“ hefur erlendan tón enda er ekki að finna hér á landi neinar sléttur […]; á íslensku heitir það engi, engjar, tún, hagi, mói, mýrar, í versta falli láglendi, flatlendi eða sléttlendi en aldrei slétta.“ (8) Hallgrímur vill endurvekja þjóðlegri kveðskaparstefnu og nota rím, stuðla og höfuðstafi því hann telur atómskáldskapinn hafa runnið sitt skeið: „Hvað er meira gamaldags en hefðbundið formlaust ljóð?“ (9)
Hallgrímur er samkvæmur yfirlýsingum sínum og Ljóðmæli 1978-1998 fylgir hugmyndum hans um stöðu ljóðsins í hvívetna.
Kvæði Ljóðmæla eru allflest í bundu máli og líkt og í ljóðabókum nítjándu aldar má þar finna ferða-, ættjarðar-, og erfiljóð, afmælisvísur, stökur og lengri söguljóð. Í bókinni er reynt að færa ljóðið nær veruleika íslensks almennings (af yngri kynslóðinni) með talmáli, enskuslettum og vísunum í dægurmenningu. Sum ljóðin gætu verið texti við dægur- eða popptónlist og þar má jafnframt finna þýðingu á rapptexta eftir Ice-T, „Með rími ég rek þig á hol“. Önnur ljóð eru sviðsett á þekktum skemmtistöðum í Reykjavík, börum eða á kaffihúsum hér á landi og erlendis. Bóhemlífi er lýst í París og Róm og ljóð um ástir, sambönd, tilhugalíf og skyndikynni má víða finna í bókinni. Enskan er notuð í bland við íslenska tungu sem er í samræmi við þá hugsun að yrkja um íslenskt samfélag eins og það er í dag og hefur Hallgrímur sagt að enskan sé orðin hluti af þjóðerni Íslendinga. (10)
Þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson (1807–1845) er Hallgrími hugleikinn og útgáfurnar af ljóðinu „Ísland“ og á „Ferðalok“ má kalla endurvinnslu á samnefndum ljóðum Jónasar:
Leiddi ég þig á Mokka
svo lítið bar á,
vöfðum vindlinga.
Brosa blómvarir,
blikna poppstjörnur,
ást í brjósti býr. (11)
Þá yrkir hann jafnframt til heiðurs Jónasi í leikna kvæðinu „Fyrir utan og inni á Bíóbarnum eða leitin að Jónasi Hallgrímssyni“. Þannig tilheyrir þjóðlegur menningararfur hinum almenna borgara og verður hluti af daglegu lífi. Einnig má greina tengsl milli greinar Hallgríms í Fjölni og harkalegrar gagnrýni Jónasar á Tistransrímum Sigurðar Breiðfjörðs í samnefndu tímariti meira en einni og hálfri öld fyrr. Á þeim tíma sem Jónas skrifar dóm sinn voru rímurnar miðlægar í íslenskum skáldskap og Sigurður eitt ástsælasta skáld þjóðarinnar. (12)
Formið hjá Hallgrími gegnir ekki sama hlutverki og það gerði í skáldskap Jónasar sem boðaði byltingu í íslenskri ljóðagerð með því að kynna erlenda bragarhætti. (13) Uppreisn Hallgríms lýtur að stílbrögðum, efniviði og tungumáli fremur en forminu sem er hugsað sem leið til að ljóðið nái betur til fjöldans. Hallgrímur hefur sagt að til þess að selja ljóðabækur þurfi þær að höfða til hins „almenna og saklausa brageyra“. (14) Formið í kvæðum Ljóðmæla vísar í þjóðlega menningu en tungumálið og sviðsetningin tengja þau við hversdagslegan veruleika íslenskra ungmenna sem tala ensku, drekka, djamma, sofa hjá, hlusta á popptónlist og rapp, og fara til útlanda.
Skálað við skáldin
Hallgrímur hefur að sama skapi ákveðnar hugmyndir um íslenskt leikhús. Í erindi sem hann flutti í Borgarleikhúsinu haustið 2000 koma kenningar hans glögglega í ljós. Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að leikhúsið sé tengt íslenskum markaði, það sé kraftmikið, áhrifamikið og skemmtilegt. Leikhúsið þarf að losa sig undan hátíðleikanum sem er að mati Hallgríms banvænn allri listsköpun: „Mig hefur lengi dreymt um nýja tegund af leikhúsi sem stendur nær barmenningu, uppistandi, bjórþambi og eðlilegu nútíma borgarlífi, án þess þó að verða vúlgart.“ (15) Hallgrímur setur fram þá írónísku kenningu að hátíðleiki leikhússins stafi af því að „meðalaldur leikhúsgesta á Íslandi er 67 ár.“ (16). Þessi sýn ber vott um æskudýrkun sem er algeng meðal þeirra sem litaðir eru af póstmódernísku viðhorfi þar sem hinn ungi, fallegi líkami er hafður í fyrirrúmi. Hallgrímur vill að leikhúsið, líkt og ljóðið, spretti úr samtíma sínum, sé þjóðernislegt og varpi ljósi á nútímann.
Leikritið Skáldanótt er unnið upp úr áðurnefndu kvæði Ljóðmæla „Fyrir utan og inni á Bíóbarnum eða leitin að Jónasi Hallgrímssyni“. Verkið gerist á svokallaðri skáldanótt sem er sú nótt ár hvert er þjóðskáldin lifna við. Unga fólkið í verkinu talar í rími þessa nótt vegna ástar á skáldskap. Það reynir að sýna skáldunum ljóðin sín, tekur af þeim myndir, falast eftir viðtölum eða vill upplifa viðburðinn. Á meðal þjóðskáldanna eru Jónas Hallgrímsson, Einar Benediktsson, Benedikt Gröndal og Steinn Steinarr og tala þeir í óbundu máli og hafa lítinn áhuga á skáldskap unga fólksins en meiri áhuga á pólitík samtímans, slúðri og því að komast á sjéns. Undir lok verksins hefst skáldaslagur þar sem ungu skáldin keppast um það hvert þeirra sé fræknasta skáldið. Skáldanótt ber þess glöggt vitni hvernig Hallgrímur leitast við að færa leikhúsið nær skemmtistaðnum. Stærsti hluti verksins gerist fyrir utan og innan á börum og skáldaslagurinn sem er lokapunktur dagsins á sér stað á Lækjartorgi klukkan fjögur að nóttu til. Slagsmál, söngvar, drykkja og makaleit tilheyrir skáldanóttinni:
Allir þessir þá þramma um
þyrstir í líf í Miðbænum.
Á „Skáldanótt“ er skálað við
skáldin aftur í heiðinn sið
og þá kveðjum við okkar hversdagshjal,
í kvæði bindum okkar tal
því ástin blómstrar um bjarta nótt. (17)
Æsingur unga fólksins á sér þó rætur í áköfum áhuga þeirra á skáldskap fremur en skemmtanalífinu sem slíku. Glösin í Skáldanótt eru fyllt skáldamiði.
Önnur leikverk Hallgríms svo sem Rúm fyrir einn sem var frumsýnt í Hádegisleikhúsi Iðnó í maí 2001 vísa í samfélagsumræðuna um samskipti kynjanna. Í Rúmi fyrir einn er ótti karla við að geta ekki fullnægt konunni sinni settur fram á gamansaman máta en karlpersónur verksins, kviðmágarnir Ari og Svanur geta ekki vitað hvenær konan sem tengir þá saman, Jóhanna, er að feika fullnægingu. (18) Karlmennska karla er komin kreppu vegna aukins valds kvenna í samfélaginu. Í óbirtu leikverki Hallgríms Alzheimer in Love sem finna má á heimasíðu hans kemur tilvistarkrísa karlsins skýrt fram. Kvennabósinn Dóri er í senn elskaður og hataður af konum. Samskipti hans við konur valda því að hann er hreint og beint orðinn ástsjúkur. Hann er lokaður inni á ýmsum stofnunum sem er stjórnað af konum og ofsóknir þeirra grafa sífellt meira undan geðheilsu hans. Orð Dóra lýsa kannski sálarkreppu margra karla: „Ég er síðasti söludagur, karlmaður á síðasta snúningi, eftir tuttugu mínútur mun ég byrja að mygla".(19)
Ödipus í Reykjavík
Skáldverk Hallgríms Helgasonar eru mjög ólík og segja má að tekið sé stökk í stílbrögðum og efniviði á milli bóka enda hafa margir gagnrýnendur bent á að eitt einkenni höfundarins sé hvernig hann endurnýjar tungumálið og þenur út hefðbundið íslenskt ritmál. Hella, fyrsta útgefna bókmenntaverk Hallgríms, er þó um margt frábrugðin öðrum verkum hans. Lítið fer fyrir hinu óhefðbunda talmáli, frösum og slettum sem einkenna önnur verk hans og athygli lesandans er fremur beint að óvenjulegu sjónarhorni sögunnar sem lýsir á nákvæman og (að því er virðist) hlutlausan máta daglegu lífi ungrar stúlku í smábæ á suðurlandi. Í Þetta er allt að koma er frásagnarstíllinn aftur á móti orðinn írónískur enda um skopstælingu á ævisöguforminu að ræða. Tungumál bókarinnar er fengið að láni úr slúðurblöðum, glanstímaritum og fjölmiðlum og gert er látlaust grín að öllu umfjöllunarefni sögunnar.101 Reykjavík gengur án efa lengst í endurnýjun tungumálsins þar er frásögninni miðlað í gegnum sjónvarpsfíkilinn og iðjuleysingjann Hlyn Björn sem hefur lítið annað að gera en að búa til orð sem endurspegla ástríðulausa tilvist hans.
Í Hellu er sagt frá fjórtán ára stúlku, Helgu Dröfn, sem lifir tilbreytingarsnauðu lífi í litlum bæ. Frásögnin reynir að vera hlutlaus, fella enga dóma og hugsunum persónanna er ekki lýst. Frásagnarstíllinn minnir á myndavél sem fangar á nákvæman máta lífið í smábænum eins og það er. (20) Á einu sumri breytist Helga Dröfn úr barni í konu, fer að vinna í Söluskálanum, kynnist nýjum strákum, byrjar að drekka, fer á Hestamannamót, verður skotin í Bigga, missir langömmu sína og er afmeyjuð.
Myndavélarauga bókarinnar er þó ekki jafn hlutlaust og það virðist vera því breytingaskeiðið sem stúlkan gengur í gegnum er tengt ytra umhverfi sögunnar. Áhersla er lögð á þá sálrænu og líkamlegu breytingu sem verður á Helgu við að missa meydóminn. Í senunni áður en atvikið á sér stað horfir Helga á litlu systur sína sofandi:
Hún sér sjálfa sig sofa vært í barnshöfði á mjúkri sænginni, sér sinn eigin svip eins og hann er í raun, í upphafi sínu hreinn og óspjallaður af nokkru utanaðkomandi, hugmyndum, tilfinningum eða vonum. Hún sér sinn eigin svip og strýkur hann varlega, fer vel með hann. Að lokum lýtur hún niður og kyssir systur sína góða nótt, kyssir þennan hluta af sjálfri sér, kveður. (21)
Hér er Helga að kveðja barnið og sakleysið í sjálfri sér en kynlífsreynslan sem á eftir kemur vígir hana inn í samfélagið sem kynferðisveru. Umbrotin í lífi Helgu eiga sér hliðstæðu í jarðskjálftakippum og líkunum á eldgosi. Undir lok sögunnar gýs Hekla loks og eldglæringar fjallsins endurspegla hitann sem streymir milli Helgu og Bigga sem „sjá ekki þennan litla blossa sem lýsir í þokunni, heitur og ástríðufullur, eins og lítill koss.“ (22)
Í Þetta er allt að koma er sögð ævisaga söng- og leikkonunnar Ragnheiðar Birnu og inn á milli er vitnað í orð hennar sjálfrar, móður hennar, vina, ættingja og hjásofenda um líf hennar, störf og persónuleika. Þessar tilvitnanir gætu verið teknar úr viðtölum í glanstímaritum. Frásögnin er fjarlæg, írónísk og um leið og lífshlaupi Ragnheiðar eru gerð skil er hún dregin sundur og saman í háði. Sagan gerir grín af hæfileikasnauðum íslenskum listamönnum sem þurfa lítið til frægðar sinnar að vinna. Líkt og Kristján B. Jónasson bendir á snýst sagan um „sigur hinnar borgaralegu meðalmennsku.“ (23)
Ragnheiður er sneydd listrænni getu en hún er dugleg að koma sjálfri sér á framfæri. Hún sefur hjá réttu strákunum ef henni býðst tækifæri, reddar umfjöllun um afrek sín í Morgunblaðinu og er ófeimin við að bera sig. Einn af stærstu sigrum hennar er þegar hún ásamt öðrum barmfögrum stúlkum syngur berbrjósta fyrir Arnold Schwarzenegger í Las Vegas:
Stundin stóra var afstaðin og Ragnheiður Birna var rjóð af létti, full af þeirri sælu sem fylgir svölun metnaðar, þegar draumi er breytt í raun. Farðinn í andliti hennar varð að láta undan tilfinningunni að hafa meikað það. Á sinn hátt var hún búin að meika það, í Ameríku! (24)
Það atvik sem gerir Ragnheiði fræga á Íslandi er þegar hún slasast illilega við það að detta af hestbaki við tökur á myndinni Hefndir haugbúans þar sem hún leikur þrælinn Melkorku. Þrátt fyrir að hún verði að hverfa frá hlutverkinu gerir atvikið það að verkum að hún verður þjóðþekkt stjarna landsins: „Á borðinu lá Helgarblað DV með litmynd af Röggu framan á, brosandi í hjólastól […] „Lagði allt í sölurnar.“ (25)
101 Reykjavík fjallar um hinn 34 ára Reykvíking Hlyn Björn sem býr hjá fráskildri móður sinni, er atvinnulaus og stundar skemmtanalífið í miðbænum af miklum krafti. Mamma hans kemur út úr skápnum sem flækir líf Hlyns því hann hefur sofið hjá kærustu hennar, Lollu. Hlynur er miðja atburðarásarinnar og sögunni er miðlað gegnum hugsanir hans og skynjanir á umhverfinu. Sagan tekur á áhrifum fjöldamenningar, netvæðingar, sjónvarps- og klámmyndagláps ásamt djammi og eiturlyfjaneyslu á sjálfsvitund persónunnar. Hlynur lifir tilfinninga- og ástríðulausri tilvist, hann á sér enga drauma, hefur engum skyldum að gegna, fylgir engum siðferðilegum gildum og tekur ekki ábyrgð á lífi sínu. Hann ber hvorki virðingu fyrir lífinu né dauðanum: „Ég verð dauður eftir að ég dey og ég var dauður áður en ég fæddist. Lífið er hlé á dauðanum. Maður getur ekki verið dauður allan tímann.“ (26) Líkt og Eiríkur Guðmundsson segir getur Hlynur „hvorki notið þess að lifa syndsamlegu og lostafullu líferni né bíður hans glitrandi dauði“. (27) . Það eina sem Hlynur hefur sér til dægrastyttingar eru endalausir orðaleikir, athugasemdir og frasar sem hann notar að útskýra tilvist sína, til að láta tímann líða eða fylla upp í eitthvað tóm: „Líf mitt í setningum. Life sentences.“ (28)
101 Reykjavík byggir á leikriti Shakespeares um Hamlet og er Hlynur látinn snúa út úr frægum ræðum Danaprinsins. Margar persónur sögunnar sækja fyrirmynd sína í persónur Hamlets og söguþráðurinn er sömuleiðis gróflega byggður á verkinu. Ólíkt Hamlet getur Hlynur ekki dáið. Kannski vegna þess að hann virðist ekki átta sig á því hvort hann er lifandi eða dauður: „Mér dettur helst í hug að ég sé kominn yfir. Mér dettur helst í hug að ég sé í alvörunni dauður“. (29) Vönunaróttinn sem leitar á Hlyn hristir að einhverju leyti upp í tilfinningalegum sljóleika hans en sagan vísar einnig í goðsöguna um Ödipus konung og þar af leiðandi einnig í túlkun Freuds á duldinni sem goðsagan fangar. Hlynur stundar táknrænt sifjaspell með því að sofa hjá Lollu og atvikið verður til þess að Ödipusarduldin leysist úr læðingi og fer að herja á hann. Fræg einræða Hamlets „að vera eða ekki vera“ verður að martraðarkenndum kynlífsórum Hlyns um móður sína sem hann flytur meðan á samræðinu með Lollu stendur:
Að gera eða ekki gera það. Að koma eða ekki koma, það er spurning. Á ég að halda áfram einsog ekkert hefði í skorist, njóta þess, eða leyfa efanum að fara einsog slökkviliðsmaður með bunandi slöngu um æðarnar í mér og sprauta niður logandi blóðkorn. Mamma. Tillit. Ég er sonur hennar. (30)
Vönunarótti Hlyns birtist í því hvernig hann lýsir sjálfum sér sem útdauðri tegund. Hann er óþarfur, „vingsandi löngu úreltu áhaldi uppí veður og vind.“ (31) Krísa Hlyns beinist þannig einnig að karlmennsku hans og óttanum um að konur eins og lesbían Lolla taki við stjórn heimsins, eignist börn með því að leita í sæðisbanka, hafi karllegt vald þó að þær séu konur. En 101 Reykjavík er nútímalegur, galsafullur harmleikur þar sem ekkert gerist nema í hausnum á Hlyni. Fjölskyldan splundrast ekki, Hlynur styngur ekki úr sér augun, deyr ekki, drepur hvorki sjálfan sig né aðra.
Sagan býður ekki upp á neina lausn á tilvistarkrísu Hlyns. Hann getur aðeins tjáð sig með orðum og setningum sem hafa takmarkað samhengi. Orð og atburðir flæða endalaust áfram og mynda óvænt samhengi líkt og hann sé á dóptrippi eða staðsettur einhvers staðar á milli svefns og vöku með sjónvarpið í gangi: „Stöð 74: Ástríðuglæpur í Sidney. Ég sofna óvart útfrá þessu. Mig dreymir loftstein á leið í hausinn á mér“. (32)
© Alda Björk Valdimarsdóttir, 2001.
Tilvísanir
(1 ) Margir telja póstmódernisma ekki stefnu og vilja fremur tala um hann sem tilfinningu, viðhorf eða afstöðu. Sjá t.d. Llyod Spencer: „Postmodernism, Modernity, and the Tradition of Dissent“. The Routledge Companion to Postmodernism [1998]. London/New York: Routledge, 2001, s. 161.
(2) Sjá John Storey: „Postmodernism and Popular Culture“. The Routledge Companion to Postmodernism, s. 147.
(3) Hallgrímur Helgason: „Enskan er þjóðlegri“. http://www.birtingur.is/hallgrimurhelgason/enskan.htm [Heimasíða, sótt 2001. Tengill virkar ekki lengur]
(4) Sjá Hallgrím Helgason: „Kid City“. [Heimasíða]
(5) Nigel Watson: „Postmodernism and Lifestyles (or: You are what You Buy)“, s. 56.
(6) „Þetta er allt að koma“. Svava Aradóttir ræðir við Hallgrím Helgason. Morgunblaðið, 3. des., 1994.
(7) Sjá Hallgrím Helgason: „Að starta logni“. [Heimasíða, sótt 2001. Tengill virkar ekki lengur]
(8) Hallgrímur Helgason: „Ljóðið er halt og gengur með hæku“. Fjölnir, 1. tbl., 1. árg., 4. júlí, 1997, s. 50.
(9) Sama, s. 51.
(10) Hallgrímur Helgason: „Enskan er þjóðlegri“. [Heimasíða, sótt 2001. Tengill virkar ekki lengur]
(11) Hallgrímur Helgason: Ljóðmæli 1978-1998. Reykjavík: Mál og menning, 1998, s. 274-276 og s. 14.
(12) Jónas Hallgrímsson: „Um rímur af Tistrani og Indíönu, „orktar af Sigurdi Breidfjörd“, (prentaðar í Kaupmannahöfn, 1831)“ [1837]. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar. I. Bindi. Ljóð og Lausamál. Ritstj: Haukur Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson. Reykjavík: Svart á hvítu, 1989, s. 356-366.
(13) Jónas vildi taka upp erlenda braghætti sem sonnettu, elegískan hátt, tersínu og oktövuhátt.
(14) Hallgrímur Helgason: „Heimurinn heima. Um íslenska menningu og fleira“. Þjóðlíf, 3. árg., 4. tbl., ágúst, 1987, s. 50-52.
(15) Hallgrímur Helgason: „Besta leikhús í heimi: Manifesto 2000“. Birt í Skáldanótt. Reykjavík: Leikfélag Reykjavíkur, sýningarárið 2000-2001, s. 32.
(16) Sama s. 32.
(17) Sama s. 62.
(18) Hallgrímur Helgason: Rúm fyrir einn. http://www.birtingur.is/hallgrimurhelgason/rum_fyrir_einn.htm [Heimasíða, sótt 2001. Tengill virkar ekki lengur]
[Heimasíða, sótt 2001. Tengill virkar ekki lengur]
(20) Um stílbrögð Hellu sjá Kristján B. Jónasson: „Kvikmynd á bók“. Tímarit Máls og menningar, 52. árg., 2. hefti, 1991, s. 104.
(21) Hallgrímur Helgason: Hella [1990]. Reykjavík: Mál og menning, íslenski kiljuklúbburinn, 1992, s. 111-112.
(22) Sama, s. 151.
(23) Kristján B. Jónasson: „Ár stöðugleikans. Um nokkrar skáldsögur sem komu út á árinu 1994.“ Tímarit Máls og menningar, 56. árg, 1995, 4. hefti, s. 111.
(24) Hallgrímur Helgason: Þetta er allt að koma [1994]. Reykjavík: Mál og menning, íslenski kiljuklúbburinn, 1995, s. 327.
(25) Sama, s. 403
(26) Hallgrímur Helgason: 101 Reykjavík. Reykjavík: Mál og menning, 1996, s. 38.
(27) Eiríkur Guðmundsson: „Þar er mér rétt lýst“. Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 2. hefti, 1997, s. 119
(28) Hallgrímur Helgason: 101 Reykjavík. Reykjavík: Mál og menning, 1996, s. 29.
(29) Sama, s. 179.
(30) Sama, s. 131.
(31) Sama, s. 304.
(32) Sama, s. 223.
Greinar
Almenn umfjöllun
Alda Björk Valdimarsdóttir: Rithöfundur Íslands: Skáldskaparfræði Hallgríms Helgasonar. Studia islandica 60. Ritstjóri Gunnþórunn Guðmundsdóttir. Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun H.Í. 2008.
Alda Björk Valdimarsdóttir: „Leitin að Jónasi: Hallgrímur Helgason og íslensk ljóðhefð.“
Í: Ástráður Eysteinsson, Dagný Kristjánsdóttir og Sveinn Yngvi Egilsson (ritstj.): Heimur ljóðsins. Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun H.Í. 2005, s. 10-20.
Auður Aðalsteinsdóttir: „A carnival of sailing homes and shipwrecks: ocean and society in Hallgrímur Helgason's historical fiction“
Edda, 110 árg. 1.tbl., 2023, s. 36-50
Árni Óskarsson: „Upprisa amlóðans: rætt við Hallgrím Helgason“
Tímarit Máls og menningar, 70. árg., 1. tbl. 2009, s. 65-70
Dávid Veress: „Izland olyan, mint a lottó“ (viðtal)
Észak : skandinavisztikai folyóirat, 2. árg., 2. tbl. 2019, s. 36-43
Edward Weinman: „A Fly With Fangs.“
Viðtal í Iceland Review, 2004 (3), s. 11.
Hrefna Haraldsdóttir: „Skáldatími. Hallgrímur Helgason.“
Námsgagnastofnun, 1998. Hugsjón, 1998. [myndband]
Jón Yngvi Jóhannsson: „Billedkunstnerne kommer: er islandsk litteratur en happening eller en installation? / The Coming of the Visual Artists: Is Icelandic Literature a happening or an installation?“
Nordisk litteratur 2001, s. 72-75.
Kristján B. Jónasson: „Kvikmynd á bók“
Tímarit Máls og menningar, 52. árg., 2. tbl. 1991, s. 104-107.
Þorsteinn J. Vilhjálmsson: „101 Alheimur“ Viðtal við Hallgrím Helgason
Tímarit Morgunblaðsins, 23. 11. 2003, s. 10-13.
Um einstök verk
10 ráð til að hætta drepa fólk og byrja að vaska upp
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Árni Óskarsson: „Make love, not war“
Tímarit Máls og menningar, 70. árg., 2. tbl. 2009, s. 123-126
101 Reykjavík
Eiríkur Guðmundsson: „Þar er mér rétt lýst“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 2. tbl. 1997, s. 113-119.
Olga Alexandersdóttir Markelova: „Skáldsagan 101 Reykjavík á rússnesku: að þýða orðaleik.“
Milli mála, 10. árg. 2018, s.119-127
Victoria Ann Cribb: „Hallgrímur Helgason in the Spotlight“
Viðtal í Iceland Review, 2000 (vol. 38), s. 76-77.
Herra Alheimur
Þorsteinn J. Vilhjálmsson: „101 Alheimur“ Viðtal við Hallgrím Helgason
Tímarit Morgunblaðsins, 23. 11. 2003, s. 10-13
Höfundur Íslands
Árni Óskarsson: „Snilldin og sektin. Rýnt í verk Hallgríms Helgasonar.“
Tímarit Máls og menningar, 63. árg., 1. tbl. 2002, s. 18-23.
Friedhelm Rathjen: „Mißglückte Laxness-Demontage: Hallgrímur Helgason.“ Tintenkurs Nordwest, 2006, s. 163-166.
Konan við 1000°
Alda Björk Valdimarsdóttir: „Hann lagði okkur í ræsið í hverri viku“
Skírnir, 186. árg. (vor) 2012, s. 147-165
Ingvi Þór Kormáksson: „Heitt í kolunum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Soffía Auður Birgisdóttir: „[...] mörg eru sjálf þín, kona“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 73. árg. 2. tbl. 2012, s. 137-143
Rokland
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Ísland er sjoppa.“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Jón Yngvi Jóhannsson: „Heima hjá mömmu: vangaveltur um frásagnarfræði og gagnrýni í Roklandi og 101 Reykjavík.“ Tímarit Máls og Menningar, 67. árg., 4. tbl. 2006, s. 68-75.
Sextíu Kíló af sólskini
Marianna Clara Lúthersdóttir: „Trúin á skáldskapinn“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar. 80.árg., 2.tbl., 2019, s. 120-124
Marianna Clara Lúthersdóttir: „Ævintýraför um fortíð Íslands - og tungumálið“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sjóveikur í München
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Ungur ég var“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Við skjótum títuprjónum
Árni Davíð Magnússon: Við skjótum títuprjónum (ritdómur).
Són, 18. árg., 2020, s. 131-133
Þetta er allt að koma (skáldsagan)
Kristján B. Jónasson: „Ár stöðugleikans. Um nokkrar skáldsögur sem komu út ár árinu 1994.“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 4. tbl. 1995, s. 107-121.
Þetta er allt að koma (leikritið)
Halla Sverrisdóttir: „Strákar um stráka til stráka“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 118-122.
Verðlaun
2021 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sextíu kíló af kjaftshöggum
2021 - L'Ordre des Arts et des Lettres - frönsk heiðursorða lista og bókmennta
2018 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sextíu kíló af sólskini
2017 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2017 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Óþelló eftir William Shakespeare
2004 – Borgarlistamaður Reykjavíkur
2001 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Höfundur Íslands
2000 – Menningarverðlaun DV í leiklist
1999 – 2. verðlaun í leikritasamkeppni Hádegisleikhússins: 1000 eyja sósa
Tilnefningar
2022 - Íslensku þýðingaverðlaunin: Hjartað mitt eftir Jo Witek og Christine Roussey
2021 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sextíu kíló af kjaftsöggum
2018 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sextíu kíló af sólskini
2015 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sjóveikur í München
2013 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Konan við 1000°
2011 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Konan við 1000°
2007 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Rokland
2005 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Rokland
2005 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Rokland
1999 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráð: 101 Reykjavík
Sextíu kíló af sunnudögum
Lesa meiraSíðasta bindið í Sextíu kílóa sögu Hallgríms Helgasonar um síldarævintýrið á Segulfirði og fylgifiska þess.Sextíu kíló af kjaftshöggum
Lesa meiraVið skjótum títuprjónum
Lesa meiraVið skjótum títuprjónum er ljóðabálkur sem ortur var á árunum 2016-2020 og talar beint inn í samtímann. Púlsinn er tekinn á líðan þjóðar sem hrósar sínu lífshappi en útvistar erfiðum málum með læktakkanum.Woman at 1.000 Degrees
Lesa meiraSextíu kíló af sólskini
Lesa meiraFiskur af himni
Lesa meiraLukka: 07.10.13 - 07.10.14
Lesa meiraSjóveikur í München
Lesa meira
Hjartað mitt
Lesa meiraÓþelló
Lesa meiraBless fress
Lesa meiraErling
Lesa meiraHinn alveg frábæri og hræðilegi harmleikur um Rómeó og Júlíu
Lesa meiraEldað með Elvis
Lesa meiraHellisbúinn
Lesa meiraStandandi pína
Lesa meiraLeiksoppar
Lesa meira