Úr Höfundi Íslands:
„Það var bara þetta guðsvolaða land! Þessi þjóðartrítla. Þar sem mennirnir eru svo fáir að hver maður verður að þykjast vera tveir. Þar sem enginn nær neinu flugi vegna þess að hann er bundinn í báða skó. Í öðru starfi. Bókaútgefandi með hendur kámugar af osti! Þjóðminjavörður skikkaður til þess að verða forseti í frístundum. Listmálarar að mála hús. Dagskrárstjóri sjónvarps klassískt tónskáld. Tamningamaður óperustjóri. Og blessuð skáldin okkar öll sem var borgað fyrir að sofa inná bókasöfnunum í fjörutíu ár. Jafnvel sjálfur forsætisráðherrann að yrkja í laumi! Hver einasti dugandi hugur tvístraður í tvennt og þrennt. Skitsófrenía hefði Ísland átt að heita. Vissulega áttum við marga ágæta menn en sagan var víst alltaf söm: Í hvert sinn sem þeir voru sendir til að keppa útí heimi guldu þeir afhroð. Okkar besti maður ávallt í hundraðasta sæti. Besti múrari Íslands varð að játa sig sigraðan fyrir bestu múrurum níutíu og níu landa og hvert þeirra átti níutíu og níu aðra múrarameistara sem stóðu honum framar í fínpússningunni. Okkar besti maður nr. 9.802. Sjálfur gerði ég ögn betur. Já. Eftir hálfrar aldar puð tókst mér að slysast inn á listann yfir „Tvö hundruð bestu núlifandi rithöfunda í heimi“ sem af einhverju júbileums-gamni var gefinn út í London. Hamsun dauður þá, guði sér lof. E.J. Grimson, Iceland, í áttugasta og öðru sæti. Stórkostlegt! Auðvitað var ekkert mark á þessu takandi. Penguin-útgáfan hafði þá nýverið gefið mér afsvar, enda sex-appíllinn þá hlaupinn í bókabransann; þær forlagskvinnur gáfu aðeins út þá sem þær vildu upp á sig og engin löngun til í gamlan mann á öllum þeim ráðstefnum og reiðstefnum. En þó var þetta minn stærsti sigur; sú hvönn sem hégómi minn hékk á eins og skáld í Hornbjargi. En guð minn góður hvað það hafði kostað mig. Eitt, tvö hugsanleg hjónabönd, sautján þúsund blaðagreinar og hálfrar aldar einsemd. Ég varð að bera þetta land á mínum eins og sá Herkúles sem ég alls ekki var. Ég var enginn Herkúles; ég var Óvíd, í útlegð, norður í barbaríinu þar sem jafnvel mjólkinni var kalt.“
(s. 103-104)
Höfundur Íslands hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2001.