Úr Annarskonar sælu:
Á leiðinni hugsaði ég um tímann
tók tímann meðan ég hugsaði um tímann
settist í leðursófa og hugsaði um holdið
úthverfu þess og innhverfu
ég hugsaði um tímann og holdið
úthverfu og innhverfu
annarskonar sælu
hvernig
ég lá á ljósabekk
hugsaði um þurrkað höfuð á stjaka
um eldinn
hvernig hann étur
um sjálfa mig
ég ét
hugsaði um ást
hún étur
hugsaði um ástarsambönd
þau brenna
annarskonar sæla
hvernig
beið eftir sporvagninum
fann lykt af laufþykkni
hugsaði um sporlausa auðn
hvort hún hlykkist eða falli
hugsaði um fall
frjálst fall
fólk bundið í spotta með laki
hægt fall
hugsaði um stökk
annarskonar sæla