Beint í efni

Ást í meinum

Ást í meinum
Höfundur
Rúnar Helgi Vignisson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Smásögur

Af kápu:

Hér birtast á bók fimmtán nýjar smásögur eftir Rúnar Helga Vignisson. Sögurnar tengjast allar efnislega – raða sér í svokallaðan sagnasveig – en þær eiga það sammerkt að fjalla um náin samskipti. Höfundur spyr áleitinna spurninga um ást og kynlíf, hjónaband og barneignir, lífsstíl og heilbrigði og ekki síst um það að eldast saman. Hér er tekist á við lífið í öllum sínum fjölbreytileika, allt frá getnaði til dauða.

Úr Ást í meinum:

Pabbi segir okkur að vera góð, hann þurfi að vinna svolítið. Hann sest við tölvuna. Hann er alltaf að vinna í tölvunni þegar hann er heima. Samt segir hann við mig þegar ég er mikið að leika í tölvunni að ég sé kominn með ferköntuð augu. „Þú ert sjálfur með ferköntuð augu,“ segi ég þá. Þá brosir hann og segir að ég sé skýr strákur.

Þegar ég er búinn að drepa alla óvinina kalla ég í pabba og spyr hvort ég megi hringja í vin minn og bjóða honum í heimsókn.

„Ekki strax, ég þarf að vinna svolítið fyrst. Og mamma þín þarf næði þegar hún kemur.“

„Ókei,“ segi ég spældur og held áfram að leika mér í stríðsleik. María er farin að leika sér að dúkkunum sínum, er að leggja litla barnið í vögguna og svona. Stelpur!

„Andskotinn sjálfur!“ heyri ég að pabbi segir. „Andskotans djöfulsins djöfull!“

„Það má ekki blóta svona,“ segir María þá.

„Víst mega karlmenn blóta,“ segi ég.

„Fari það í kolað!“

Ég hleyp yfir til pabba. „Hvað gerðist?“

„Svona, ekki trufla mig,“ segir pabbi. „Ég er að reyna að vinna.“

Ég heyri að pabbi kveikir og slekkur á tölvunni. Það er langt síðan hann hefur verið svona reiður. hann virðist vera reiður út í tölvuna, eins og hún hafi gert honum eitthvað. Hann slær í hana, stendur svo up og æðir um. Svo fer hann í símann. „Hún virðist hafa krassað, helvítis kvikindið,“ heyri ég að hann segir. „Já, ég var á netinu. Jú, jú, það var í Átlúkk,“ segir hann. „Vírus? Er einhver slíkur að ganga, ég hef ekki fengið neina viðvörun, það ég man. Já, ég tvísmellti á helvítis viðhengið. Anna Kúrnikóva, passar, rússneska tennisstjarnan. Er þetta þekktur vírus? Helvítis djöfull. Svo fékk maður ekki einu sinni að sjá neitt, hún krassaði bara.“

Greinilega að eitthvað mikið er að, betra að vera ekki fyrir, pabbi er aldrei í góðu skapi þegar hann er í vandræðum. Ég þori ekki að spyrja hvort ég megi hringja í vin minn núna. Eftir smástund segir hann okkur að klæða okkur, hann þurfi að fara með tölvuna á verkstæði, við eigum að koma með.

„Þarf að laga hana?“ spyr ég. „Þarf hún að fara í aðgerð?“

„Drífið ykkur nú, greyin mín, ég hef ekki allan daginn!“

Hann fer með tölvuna á verkstæði. Við þurfum að keyra svolítið langt. „Hvenær heldurðu að hún verði tilbúin?“ spyr hann afgreiðslumanninn. Afgreiðslumaðurinn segir „kannski á morgun.“ Ég sé að pabbi er ekki ánægður með það.

Við förum út í búð og pabbi kaupir ávexti og kex sem mömmu finnst gott. Hann gefur okkur smá nammi.

Þegar við komum heim skipar hann okkur að leika okkur úti smástund. Það er ekki gott veður og engir krakkar úti. Við rólum okkur pínustund, hringjum svo dyrabjöllunni.

Pabbi er orðinn svolítið rólegri þegar við komum inn. Hann spyr hvort við séum ekki orðin svöng, hvort við viljum ekki fá okkur svolítið að borða. „Við megum ekki gleyma að borða þó að mamma sé á spítalanum,“ segir hann.

Meðan við erum að borða hringir síminn og María segir: „Ég skal!“ eins og vanalega. Það er amma og ég heyri að María segir við hana að mamma sé ekki hemia. Svo fer pabbi í símann og hann segist ekkert hafa frétt ennþá en hún hljóti að vera búin núna. Hann reikni með að sækja hana um tvöleytið. „Það hlýtur að hafa gengið vel,“ segir hann, „þeir eru svo rútíneraðir í þessu.“

(26-8)


Fleira eftir sama höfund

Ekkert slor

Lesa meira

Ástfóstur

Lesa meira

Í allri sinni nekt

Lesa meira

Nautnastuldur

Lesa meira

Eftirbátur

Lesa meira

Ójöfnur í tímanum

Lesa meira

Strandhögg

Lesa meira

Feigðarflan

Lesa meira

Of og van

Lesa meira