Æviágrip
Rúnar Helgi Vignisson er fæddur 2. júní 1959 á Ísafirði. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1978 hóf hann nám í ensku og íslensku við Háskóla Íslands og lauk B.A. prófi þaðan 1981. Hann stundaði nám í frönsku við Université de Grenoble veturinn 1981-82 og þýskunám við Goethe Institut í Murnau og Freiburg veturinn þar á eftir. Veturinn 1985-86 dvaldi hann við ritstörf í Kaupmannahöfn. Rúnar Helgi lauk M.A.-prófi í bókmenntafræði frá University of Iowa í Bandaríkjunum árið 1987 og stundaði síðan frekara nám og kennslu við sama skóla næstu tvö árin. Hann dvaldi í Chicago í Bandaríkjunum veturna 1989-90 og 1992-93 og í Perth í Ástralíu árið 1991 við ritstörf og rannsóknir. Hann var stundakennari við Háskóla Íslands frá 1992 til 2008 en hefur síðan verið lektor í ritlist við sama skóla. Rúnar hefur skrifað fjölda greina í blöð og tímarit og unnið fyrir útvarp. Þá hefur hann gegnt trúnaðarstörfum fyrir rithöfunda, hefur m.a. setið í stjórn Rithöfundasambands Íslands og gegnt formennsku í Bandalagi þýðenda og túlka.
Fyrsta skáldsaga Rúnars Helga, Ekkert slor, kom út 1984. Hann hefur auk skáldsagna sent frá sér smásögur og þýtt fjölda erlendra bókmenntaverka, m.a. verk eftir bandaríska, ástralska og suður-afríska höfunda. Skáldsaga hans, Nautnastuldur, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1990. Rúnar Helgi hlaut Íslensku þýðingarverðlaunin 2005 fyrir þýðingu sína á Barndómi (Boyhood) eftir J.M. Coetze og Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar 2006 fyrir þýðingu á Sólvæng (Sunwing) eftir kanadíska rithöfundinn Kenneth Oppel. Tvær þýðinga hans, Silfurvængur (Silverwing) eftir Oppel og Göngin (Tunnels) eftir Roderick Gordon og Brian Williams, hafa verið á heiðurslista IBBY, sú fyrri 2008 og hin síðari 2010.
Frá höfundi
Veggfóður sálarinnar
Þegar ég var púki í Skutulsfirði vokti hlíðin yfir mér nótt sem nýtan dag, í senn viðsjárverð og umhyggjusöm. Þar lék maður sér, fékk útrás fyrir ævintýraþrá, tíndi ber, skáldaði í snjóinn, fór í fjallgöngu, slasaði sig. Hlíðin var aldrei eins frá degi til dags en alltaf dulmögnuð og full af undrum. Stöku sinnum gerðist hún róttæk og bylti sér með tilheyrandi stríðsöskrum svo að allir stóðu stjarfir og sumir áttu jafnvel fótum fjör að launa. Með svipbrigðum sínum talaði hún til manns og tjáði sig, stundum fyrir okkur bæði. Það má segja að á milli okkar hafi ríkt skáldlegt samband – og gerir enn – því hlíðin er eins og texti, hlaðin tilvísunum og tilfinningum.
Utanvert í hlíðinni reisti lífskúnstnerinn Sólon Guðmundsson sér einu sinni hús sem hann kallaði Slúnkaríki. Sólon hafði þær hugmyndir um byggingarlist að hið fallega ætti að snúa út svo að sem flestir gætu notið þess. Þessarar afstöðu gætti í Slúnkaríki en þó enn frekar í kofa sem hann reisti sér seinna innar í hlíðinni. Þar sneri bárujárnið inn en veggfóðrið út. Þegar Sólon var spurður um þetta fyrirkomulag svaraði hann: „Veggfóður er til skrauts, elska, og þess vegna er sjálfsagt að hafa það þar, sem flestir hafa gaman af því.“
Rétt fyrir fermingu braut ég á mér annan sköflunginn þegar ég var á skíðum í hlíðinni. Meðan ég var að gróa sára minna eignaðist ég mína fyrstu ritvél og lærði á hana. Textinn sem fljótlega fór að streyma út úr vélinni var birtingarmynd hugsana minna, eins konar veggfóður. Það er hlutskipti rithöfundarins að úthverfa sér til þess að aðrir fái séð það sem býr innra með honum.
Með þessum hætti fellur náttúran hið ytra og hið innra saman í mér og höfundarverki mínu. Lækir hlíðarinnar renna um æðar mér og niður þeirra brennur á vörum mér, hvar sem ég er staddur í tilverunni. Hlíðin hefur því í vissum skilningi skrifað bækurnar mínar, hvort sem þær fjalla um Íslands þúsund ár eða eðli mannsins. Og þýðingarnar, sem ég hef haft ómælda ánægju af, eru í senn fjallgöngur mínar og þíðingar; mann langar til að sjá hvað kemur undan sköflunum, ekki síst ofarlega í hlíðinni, og eignast hlutdeild í dýrðinni.
Rúnar Helgi Vignisson, 2002
Um höfund
Rúnar Helgi Vignisson: Þýðandi, rithöfundur, bókmenntafræðingur
I – Þýðandinn
Það er ekki úr vegi að hefja umfjöllun um Rúnar Helga á nokkrum orðum um þýðingar, enda hefur hann mikið látið til sín taka á því sviði. Bæði í bókmenntafræðum og almennri umfjöllun hefur því miður verið hefð fyrir því að líta á þýðingar sem annars flokks verk og er sá hugsanaháttur samofinn rómantískum hugmyndum um Skáldið sem snilling. Skáldið með stóru essi er beintengt æðra tilverustigi og eru orð þess speglun á upphöfnum hugsunum sem verkið veitir hversdagslega þenkjandi lesendum aðgang að. Þýðandinn þvælist hins vegar fyrir allri þessari upphöfnu beintengingu og kemur í veg fyrir að lesandinn geti ímyndað sér að Skáldið sé að tala beint til sín. Orðið er jú hjá Guði, ekki ritara hans. Þáttur þýðinga í að blása nýju lífi í íslenska listsköpun verður þó seint vanmetinn, eins og Ástráður Eysteinsson bendir á í Tvímælum, fræðilegri umfjöllun um þýðingar. Með þýðingum berast nýjar hugmyndir til einangraðra málsvæða, hvort sem verið er að þýða klassíska texta eða nútímaverk og þannig stuðla þær að endurnýjun bæði tungu og umræðu.
Eins og vandaðir eftirmálar gefa til kynna leggur Rúnar áherslu á að þekkja höfundarverk þess sem hann þýðir. Einatt bera þessir eftirmálar þess vitni að Rúnar hefur að auki ítarlega þekkingu á lífi höfundar og þeirri umfjöllun sem verk hans eða hennar hafa hlotið, bæði í heimalandi og á alþjóðavettvangi. Þó Rúnar hafi haldið sig við höfunda tuttugustu aldarinnar eru verkin sem hann hefur þýtt fjarri því að vera einsleit. Þannig hefur hann þýtt smásögur, skáldsögur og barnabók eftir bandaríska, kanadíska, ástralska, suður-afríska og breska höfunda. Fyrir þýðingar sínar hefur hann hlotið mikið lof og gjarnan er þess getið að hann sé næmur á stílbrögð höfunda og takist sérlega vel að koma þeim til skila í þýðingunni. Þannig skilar munurinn á uppskrúfuðu málfari fröken Thorne og einfeldningslegum athugasemdum fröken Peabody sér í íslensku þýðingunni á Fröken Peabody hlotnast arfur í samræmi við frumtexta Elizabeth Jolley. Hér gefst ekki tími til að bera saman frumtexta og þýðingu margra verka, en nýjasta þýðing Rúnars, Silfurvængur eftir Kenneth Oppel, er til marks um vald Rúnars á íslensku og uppfinningasemi gagnvart framandlegum málheimum, ef það orð mætti nota um bergmálssjón leðurblökunnar Skugga. Lýsingarnar á því hvernig Skuggi „spinnur hljóðvefi“ til að „fanga glóandi skugga með kvikasilfursjöðrum“ og tekst á við „haglél af hávaða“ eru bæði nýstárlegar og lesvænar. Með þýðingum á minna þekktum höfundum, eins og Oppel, auk verka Nóbelsverðlaunaskáldanna J.M. Coetzee og William Faulkner hefur Rúnar sannarlega lagt sitt af mörkum til að Íslendingar hafi aðgang að því besta úr heimsbókmenntunum á sínu eigin máli.
II – Rithöfundurinn
Rúnar hefur einnig sent frá sér þó nokkur frumsamin verk, skáldsögur sem og smásögur. Fyrsta bók Rúnars, Ekkert slor (1984), fjallar um íslenskan veruleika í smámynd. Í Plássi, sem er „voðalega íslenskt“ (3) sjávarpláss, fer lífið fram í frystihúsinu og tekur mið af aflanum. Nafnið Pláss gefur til kynna að ekki sé sögusviðið einstakt á Íslandi né líf fólksins þar óvenjulegt. Gunnar, Gaujar, Siggur og Möggur mæta í vinnuna, draga sig saman og kvarta yfir kjörum fiskvinnslufólks í landi. Fiskhúsið hf er rammi bæði fólksins og sögunnar og stuttir kaflar spegla veruleika persónanna sem sjaldan fá frið til að hugsa eða frí til að sofa. Stuttir sögukaflar einkennast af endurtekningum sem endurspegla daglegt líf fiskvinnslufólksins, eins og stöðugar umræður um íslenskt veður og dagleg hringing vekjaraklukkunnar. Tónn söguhöfundar er góðlátlegur hæðnistónn þess sem veit að hann er að segja frá ofur hversdagslegum atburðum en finnst slíkt líf einmitt í öllum sínum hversdagsleika vera skáldlegt. Þetta er venjulegt fólk og tilbreytingalítið líf en athyglisvert er að heyra hvernig höfundur ímyndar sér að menn haldi geðheilsu yfir færibandinu, dag eftir dag, þúsundasta þorsk eftir þúsundasta þorsk. Þrátt fyrir gráglettin tón í lýsingum á lítt hetjulegum persónum er frásögnin íhugul vangavelta um líf og hugsanir fólks sem söguhöfundur ber augljóslega mikla virðingu fyrir. Örlög þess eru ekki nýstárleg né líf þess frumlegt, en þetta fólk byggir Ísland og saga þess er hluti af sögunni allri.
Nautnastuldur (1990) segir frá Agli Grímssyni, en hann er einn margra sem hafa flutt burt frá Plássi og suður á mölina. Þó Egill hafi ekki stigið fram á sögusviðið sjálfur í Ekkert slor fær lesandinn að fara í stutta páskaheimsókn þangað með Agli og heilsa upp á góðkunningja eins og Hehehehemma gamla. Í Plássi hefur lítið breyst og Fiskhúsið er enn miðpunktur bæjarins, rósrautt eins og dagdraumar fólksins sem þar vinnur. En draumar Egils eru ekki rósrauðir og ekki líklegt að þeir muni neitt frekar rætast í Reykjavík en vestur í Plássi. Egill er þunglyndur, sjúklega hræddur við að verða alki eins og pabbi hans en hefur í staðinn ánetjast kynlífi, eina vímugjafanum sem hann þekkir. Draugar fortíðar elta hann í líki silfurskottanna Móra og Skottu sem hann sér allsstaðar þegar syrtir í álinn í einkalífinu eða skólanum. Frelsari Egils birtist þó tímanlega á aðfangadag rétt fyrir miðja bók, sjálfur J.C. flytur inn á efri hæðina. Þetta er Jens Christiansen, samkynhneigður Dani, sem dregur Egil upp úr kjallaranum og aftur inn í mannlífið. Ekki er laust við að þessi ólíklegi guð hoppi aðeins of fullklæddur út úr skápnum til bjargar söguhöfundi og ég spyr mig hvort ekki sé líklegra að hér sé verið að gera létt grín að bókmenntahefðum frekar en að um fúlustu alvöru sé að ræða. Söguhöfundur, sem aldrei var langt undan í Ekkert slor, færist nú enn nær miðju enda kemur í ljós í eftirmála að aðalpersónan og sögumaðurinn Egill er höfundur sögunnar. Eða hvað? Gæti hann ekki eins hafa heitið Helgi Rúnarsson, eins og spurt er í „eftirmála íslensku útgáfunnar“, eða jafnvel Rúnar Helgi Vignisson? Nautnastuldur er öðrum þræði hugleiðing um stöðu höfundar gagnvart og í skáldskap sínum, um söguna og söguna og þá athygliverðu staðreynd að í íslensku er ekki gerður skýr munur á sögu=skáldskap og sögu=mannkynssögu. Nautnastuld, með öllum sínum fjöldamörgu vísunum í Íslendingasögurnar (skáldið Egill Grímsson, einhver?), má því lesa sem Íslendingasögu, hvort sem það merkir sögu af Íslendingi eða sögu eftir Íslending.
Umræðunni um mismunandi nálgunarleiðir þess að vera Íslendingur er haldið áfram í Strandhöggi (1993). Einn sögumanna, rithöfundurinn, aldrei langt undan í verkum Rúnars, segist aðspurður skrifa um „það að vera Íslendingur“ og finnst það alls ekki einfaldlega „vera í blóðinu“ eins og spyrjandi vill meina (192). Uppbygging Strandhöggs er talsvert flóknari en í fyrri bókunum og að forminu til er bókin mun nær því að vera smásagnasafn en hefðbundin skáldsaga. Stuttir kaflar kallast á og tengjast innbyrðis, líkt og sögupersónurnar, án þess að eiga augljósan samnefnara eins og Fiskhúsið í Ekkert Slor. Samnefnarinn er samt til staðar þó óáþreifanlegur sé, enda allar persónurnar að bægslast við að finna sér stað í tilverunni. Leitun reynist að rétta staðnum þó misjafnt sé hvort menn leiti hans landfræðilega, hugmyndafræðilega eða í faðmi ástkvenna. Loftur ‘Lofty’ Harolds flytur til Ástralíu en þrátt fyrir veraldlega velgengni þar hefur hann aldrei komið aftur heim, finnst einn daginn grátandi yfir ljósmynd af móður sinni og þann næsta fallinn fyrir eigin hendi. Haraldur faðir hans vinnur alltaf í íþróttamiðstöð Ísafjarðar en hugsar mikið bæði um brottflutta syni sem og eigin flutning af Hornströndum og í bæinn. Haraldur upplifir sig sem flugu á vegg, ósýnilegan en eilífan hluta af íþróttahúsi bæjarins þar sem allir spila en enginn býr. Séra Jörundur Haraldsson, yngri bróðir Lofty og prestur í Reykjavík, fæst aðallega við að búa brottfluttum Ísfirðingum endanlegan íverustað og er líkunum þá loks sama hvort sá staður er Ástralía, Reykjavík eða Pláss. Pláss hefur reyndar umbreyst í Ísafjörð – eða kannski var Ísafjörður alltaf Plássið, eða allavega eitt mögulegra plássa. Sögusviðið hefur færst nær lesendanum og er sú þróun ákveðin vísbending um að leitin að stað Íslendingsins fari fram í raunveruleikanum jafnt og í skáldskap. Til marks um það er sagan „Hlaupandi Heimdrangar“ þar sem sögumaður týnist í þoku þegar hann reynir að feta í fótspor feðra sinna en er líka týndur í menningararfinum eins og þessi orð, sem fæst eru hans eigin, sýna: „Datt ekki einu sinni í hug að grípa til Brjáns, brá svo. Þaut þar eitthvað í holti, smó um dældir, eitthvað sem vildi blóði væta þurran góm? Eða var það feigðin sem kallaði?“ (98).
Ástfóstur (1997) er um flest ólík fyrri verkum Rúnars og kannski sú bók þar sem ímyndunaraflið fær mest að ráða ferðinni. Sögumaður, sem í fyrri bókununum stendur mjög nálægt söguhöfundi, er í þetta sinn fóstur sem aldrei fæddist nema í textanum. Fóstrið segir sögu foreldra sinna, tveggja mögulegra feðra og Teklu móður sinnar. Tekla hefur nýlega sagt skilið við æskuástina, Kristófer Kára, og innritast í skóla í Skálholti þar sem henni og séra Kolbeini skólastjóra verður mjög vel til vina. Séra Kolbeinn, fyrir utan nú það að vera prestur og kennari Teklu, er giftur þriggja barna faðir og ætti því ekki að koma á óvart að ástarsamband hans og Teklu er ekki vel séð. Bæði hrökklast þau burt frá Skálholti og Tekla leitar í örvæntingu til trausta gamla vinarins Kristófers Kára. Hann tekur henni svo vel að þegar Tekla áttar sig á því að hún er ólétt er ekki ljóst hvor þeirra, Kristófer eða Kolbeinn, eigi barnið. Við tekur átakamikill kafli í lífi hinnar nítján ára Teklu og fóstrið lýsir hugsanaferli hennar og tilfinningaflækjum sem leiða til þess að hún ákveður að fara í fóstureyðingu. Þetta er ekki léttvæg ákvörðun og ekki fær Tekla neina samúð eða skilning hjá hlutaðeigandi fulltrúum og opinberum starfsmönnum. Hún tekur ákvörðunina um að eyða fóstrinu að vel ígrunduðu máli, ein í erfiðri aðstöðu, og spyr sig sífellt þungra siðferðilegra spurninga um sjálfstætt líf fósturs og persónulega ábyrgð. Þetta er síst auðveldur kafli fyrir lesandann sem samhliða vangaveltum Teklu les innskot fóstursins sem var „(d)eytt“, eins og það segir sjálft. Hér eru engar auðveldar lausnir þó fóstrið lifi eyðinguna í raun af, bæði í textanum sem sögumaður og í huga og hjarta Teklu. Þetta má samt ekki skilja sem svo að í sögunni séu kveðnir upp áfellisdómar yfir konum sem velja þá leið að fara í fóstureyðingu eða að líf fósturs sé lýst sem rétthærra mannréttindum tilvonandi móður. Sagan er bara sögð líf fyrir líf, einfaldlega og yfirlætislaust, og lesendanum eftirlátið að vega og meta ákvarðanir einstaklinga í samhengi við aðstæður. Ástfóstur er ljóðrænni en fyrri verk Rúnars og tilraunakenndari, bæði í efnisvali og efnistökum. Hér ræðst höfundur alls ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur tekst á við reynsluheim ráðvilltrar ungrar konu frá nýstárlegu sjónarhorni á næman hátt.
Hefðbundin gagnrýni býður mér að segja að smásagnasafnið Í allri sinni nekt (2000) fjalli ‘um samskipti kynjanna’. Það orðasamband missir hins vegar lit ef því er stillt upp við hliðina á orðum eins og losti, ást, girnd og erótík. Réttara finnst mér því að segja að sögurnar neisti af lostanum og ástinni sem einkenna ákveðna tegund af samskiptum kynjanna við fjöldamargar aðstæður. „Önnur saga“ er skemmtileg hugsanatilraun sem lýsir því hvernig sami hvati hefur mismunandi áhrif á samskipti ólíkra para. Þrír félagar ganga fram á karl og konu í miðjum samförum og fara með þá minningu heim til eiginkvenna sinna. Sumir eru uppveðraðir, aðrir hneykslaðir og það sama gildir um konurnar, þær þeirra sem fá að heyra söguna á annað borð. Það er samt ekki atvikið sem myndar söguefnið heldur eru viðbrögð mismunandi skapgerða og persónuleika aðalatriðið. Sögurnar í safninu er um margt ólíkar innbyrðis. Sú fyrsta, „Nekt“, slær á létta og ljósbláa strengi og vekur grun um að hér muni kynlífi verða hampað vandræða- og umhugsunarlaust sem aðalatriði í samlífi elskenda, en svo er ekki. Sögusafnið í heild er alvarleg umræða um ást og kynlíf og samband ástar og kynlífs. „Dropinn á glerinu“ fjallar um það hvernig fer fyrir sálarlífinu þegar ástin gleymist í lostanum og hversu mikilvægt sé að raunveruleg væntumþykja og girnd fari saman, annars muni alltaf eitthvað vanta. Smásagnaformið er vel nýtt og gerir Rúnari kleift að tefla saman mörgum röddum sem saman gefa heildstæðari mynd af mikilvægi kynferðislegs aðdráttarafls í ‘samskiptum kynjanna’.
Skáldsagan Feigðarflan (2005) kallast á við ýmislegt úr höfundarverki Rúnars, meðal annars „Glæður“ sem er ein óræðasta sagan í Í allri sinni nekt („Glæður“ birtist reyndar einnig í Tímariti Máls og Menningar 1997; 58 (2)). Ástæður sjávarháskans og útburðarvælsins sem einungis birtust sem myndbrot í „Glæðum“ útskýrast til fulls á síðustu blaðsíðum Feigðarflans. Slíkt samspil sagna frá hálfraunverulegum og hálfskálduðum Ísafirði eða Plássi minnir um margt á höfundarverk William Faulkner sem skapaði skáldsagnaheim landfræðilega og menningarlega mjög skyldan heimaslóðum sínum. Í þeim heimi ganga íbúarnir eða sögupersónurnar inn og út úr sögunum bæði sem aðal- og aukapersónur og atburðir tengjast innbyrðis eins og í verkum Rúnars. Sögumaður er einnig gamall góðkunningi, nefnilega Egill Grímsson, sögumaður og hugsanlegur höfundur að Nautnastuldi. Egill er búinn að fá nóg, bæði af sjálfum sér og samfélaginu. Síðustu árin hefur hann fengist við að vera rithöfundur en ekki hlotið þá viðurkenningu sem honum finnst hann eiga skilið. Hann er mjög bitur út í nútímasamfélagið og gróðahyggjuna sem ekki virðist kunna að meta skáldskap nema sem söluvarning. Egill ákveður því að frelsa konu, börn, heiminn allan og sjálfan sig undan eigin nærveru og keyrir burt úr borginni með sjálfsmorð í huga. Eins og gjarnt er í íslenskum vegabókmenntum fer Egill fljótlega að keyra fram á litríkar persónur sem koma í veg fyrir að hann geti uppfyllt ætlunarverk sitt tafarlaust. Á skrykkjóttri leið sinni vestur heldur Egill þó alltaf áfram að hugsa um dauðann, og skáldskapinn sem hefur leitt hann út á þessa braut. Bensínlaus neyðist hann til að leita ásjár á bóndabæ furðulegra hjóna sem hafa fjárfest í stórum upplögum af verkum Egils og þar með, samkvæmt skyggnri frúnni, í framtíðinni. Það er jú ákveðin hefð fyrir því að skáld seljist betur eftir dauðann og ekki laust við að þessi fundur styrki ásetning Egils, ekki síst eftir að hjónin reyna að nauðga honum. Tengsl vinsælda og skáldskapar eru Agli umhugsunarefni, enda hefur hann aldrei getað gert það sem flestir leggja til – að skrifa bara bækur eins og Arnaldur. Sömuleiðis finnst honum auðvelt fyrir Guðberg að segja að skáldi nægi einn lesandi þegar Guðbergur á svo mikið fleiri. Leitin að dauðanum endar í núllpunkti, æskustöðvum Egils, og ekki laust við að ferðareynslan og batnandi forhúðarbólga gefi von um endurfæðingu skáldsins.
Þegar litið er á frumsamin verk Rúnars í heild skýrast ýmsar línur. Snerting og nánd manna á milli myndar gjarnan söguefni og er yfirleitt skoðað með umfjöllun um kynlíf og sjálfsfróun. Þó kynlífslýsingarnar virðist ekki alltaf þjóna söguþræðinum beint eru þær mikilvægar sögupersónunum sem oft eru í þeirri stöðu að reyna en geta ekki snert aðra andlega og verða því uppteknar af að snerta sjálfar sig og aðra líkamlega. Kynlíf og sjálfsfróun eru því oft til marks um brotalöm í mannlegum samskiptum frekar en þá líkamlegu nánd sem það virðist gefa til kynna. Um Egil Grímsson mætti segja það sem Rúnar ritar um söguhetju Roths, Portnoy, í Portnoy’s Complaint í eftirmála að þýðingu á öðru verki Roth Vertu sæll, Kólumbus – „typpið er það eina sem hann getur „átt sjálfur“, það er „frelsishrúturinn“ hans“ (131). Sjálfsfróun og ötult kynlíf leysir hvorki Portnoy né Egil úr viðjum sjálfsleitarinnar, en kynlífið í lífi sögupersónanna og sem efni í verkum Rúnars og Roths, þjónar sem sé öðrum tilgangi en líkamlegri fullnægju persónanna. Verk Rúnars og Roth eru líka skyld að því leyti að erfitt er að átta sig á hvar mörkin liggja milli heims skáldsögu og veruleika, milli sögumanns og rithöfundar. Raunveruleikinn er yfirleitt viðfangsefni Rúnars, en í skáldskap hans breytist tilveran í raunveruleik þar sem leitin að einhverjum mörkum skipast í annað sæti gagnvart skáldskapnum í lífinu og lífinu í skáldskapnum.
III – Bókmenntafræðingurinn
Í grein sinni „Andfætis og umhendis“ (1993) kynnir Rúnar Íslendingum bókmenntasögu Ástrala og tengir hana mótun sjálfsmyndar þjóðar sem er í þeirri tvíræðu stöðu að hafa erft enskuna frá herraþjóðinni Bretum. Greinin ber þess merki að Rúnar er sérfróður um ástralskar bókmenntir og vísar hann í hvert skáldið og kenningasmiðinn á fætur öðrum þar til Áströlum sjálfum gæti reynst erfitt að halda til streitu gamla brandaranum um ástralska menningu og jógúrt.(1) Enskan veitir vissulega beinan aðgang að alþjóðasamskiptum og bókmenntamarkaði en með hana eina að vopni getur að sama skapi reynst erfitt að skapa sér sérstöðu sem þjóð. Notkun á enskunni, tungu herraþjóðarinnar, er því viðvarandi áminning um uppruna og ójöfn valdahlutföll. Rúnar bendir á að Íslendingar mættu nýta sér vangaveltur Ástrala og annarra eftirlenda um tungumálið til að skoða eigin sögu, áhersluna á tunguna í sjálfstæðisbarráttunni og bókmenntasögunni. „Hvenær,“ spyr Rúnar, „varð norska landnámsmannanna til dæmis að íslensku?“ (69). Að sama skapi má læra af togstreitunni sem fjölmenningarsamfélag Ástralíu hefur glímt við og heimfæra að einhverju leiti á aukinn straum innflytjenda til Íslands til að átta sig á þeim möguleikum, en jafnframt vandamálum, sem sú breyting skapar tilvist þjóða.
Greinin „Sýnt í tvo heimana“ (1995) hefst á umfjöllun um tvenndakerfið, einn helsta grundvöll vestrænnar hugmyndafræði, í ljósi merkingarfrestunar (eða skilafrests) Jacques Derrida. Vegna þess að merking orða og hugtaka skapast í samhengi og andstöðu við aðrar táknmyndir er merking „aldrei að fullu nærverandi, hún byggir á mismun og er þannig háð þeirri táknmynd sem er fjarverandi“ (88). Þar sem merking er ávalt rétt utan seilingar leggur Rúnar til að skáld í svipaðri aðstöðu, þ.e. skáld sem hefur innsýn í mismunandi menningarheima án þess að tilheyra neinum fullkomlega, sé vel til þess fallið að fjalla um tilveruna í ljósi þess að slíkur einstaklingur hafi „tveggja heima sýn“ (89). Innflytjendur eru einn slíkur hópur. Reynslan sem innflytjandi öðlast í nýjum menningarheimi veldur því að ekki er hægt að snúa aftur heill heim því ný vitneskja er alltaf í farteskinu og sýnir gamlan raunveruleika í nýju ljósi. Að sama skapi virðast nýbúar seint verða gildir á við innfædda, ef marka má íslenska umræðu, auk þess sem lengi býr að fyrstu gerð. Andstæðurnar sem höfundar í slíku millibilsástandi leiða saman í verkum sínum skapa oft ferskt innlegg í hefðbundna (lesist staðnaða) orðræðu eins og Rúnar sýnir fram á að Salman Rushdie hafi gert með Söngvum Satans og Amy Tan í Leikur hlæjandi láns. Telur Rúnar höfunda í slíku millibilsástandi þjóna sem mikilvægir „menningarþýðendur“ sem að hluta afbyggi oft á tíðum ósveigjanlegar andstæður hins hefðbundna táknkerfis. Tekur Rúnar í þessu mið af kenningum Homi K. Bhabha, póststrúktúralísks eftirlendufræðings undir áhrifum frá Derrida, um þriðja framsetningarsvæðið („the third space of enunciation“). Þó Íslendingar eigi ekki hreinræktaða millibilshöfunda enn bendir Rúnar á að þeir sem hafi dvalið langdvölum erlendis við nám eða starf, svo sem Stephen G. og Guðbergur Bergsson, geti þjónað svipuðu hlutverki í ljósi reynslu sinnar af öðrum menningarheimum. Tilgangur greinarinnar er öðrum þræði að benda á þá endurnýjun sem slíkir menningarþýðendur stuðla að – líkt og þýðendur skáldverka gera.
I, II, III – Þrenning ein og sönn
Þó ég hafi skipt þessari grein í þrjá hluta og fjallað um verk Rúnars eins og þýðingar, frumsamin verk og fræðigreinar séu fullkomlega aðskilin er það meira í samræmi við kröfur og hefðir greinaskrifa en raunveruleg lýsing á höfundarverki Rúnars. Fræðin nýtast honum þegar frumtexti er brotinn til mergjar meðan á þýðingarferlinu stendur, eins og glöggt má sjá á ítarlegum eftirmálunum sem fylgja mörgum þýðingum Rúnars. Í frumsömdum verkum Rúnars gætir auk þess nokkurra áhrifa frá þeim höfundum sem hann hefur þýtt verk eftir, sér í lagi má þar nefna leik Philip Roth að sambandi sjálfsævisögu og skáldskapar. Um verk Rúnars mætti að lokum hafa orð Gunnars Gunnarssonar um Fjallkirkjuna, sem Gunnar lýsti sem hvorki alfarið ævisögu né skáldverki, heldur frekar ‘leik hugans að staðreyndum’.
© Agnes Vogler, 2005
Greinar
Um einstök verk
Ástfóstur
Berglind Steinsdóttir: „Órofa hringrás“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg., 2. tbl. 1998, s. 145-148
Ást í meinum
Ásta Kristín Benediktsdóttir: „Þegar ástin verður vesen“ (ritdómur)
Spássían 2012, 2. árg., sumar, bls. 16.
Eftirbátur
Þorgeir Tryggvason: „Föðurleitir“
Bókmenntavefurinn, sjá umfjöllun um bækur, hér
Feigðarflan
Soffía Auður Birgisdóttir: „Egill spegill: sögur af Agli Grímssyni“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 2. tbl. 2007, s. 127-130
Úlfhildur Dagsdóttir: „Ég vil vera heillegt lík.“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Göngin (þýðing)
Helga Margrét Ferdinandsdóttir: „Lífið í neðra: Göngin eftir Roderick Gordon og Brian Williams, Rúnar Helgi Vignisson þýddi“
Börn og menning 2009, 24. árg., 2. tbl. bls. 23-4.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Bækur, glæpir, göng og galdrar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Nautnastuldur
Helga Birgisdóttir: „Uppgefna og áttavillta andhetjan: um karla og karlmennskur í skáldsögunni Nautnastuldur eftir Rúnar Helga Vignisson“
Mímir, 45. árg. (51), 2007, s. 23-32
Matthías Viðar Sæmundsson: Pistlar fluttir í RÚV haustið 1990
Sjá á vefsíðu Græna hússins
Silfurvængur (þýðing)
Úlfhildur Dagsdóttir: „Halda úlfar að leðurblökur séu englar?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Strandhögg
Gunnlaugur Ástgeirsson: „Í rótlausri villu“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 4. tbl. 1994, s. 131-134
Verðlaun
2020 - Bókmenntverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir bestu skáldsöguna í íslenskri þýðingu: Beðið eftir barbörunum eftir J. M. Coetzee
2012 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Ást í meinum
2010 – Heiðurslisti IBBY: Fyrir þýðingu á bókinni Göngin eftir Roderick Gordon og Brian Williams
2008 – Heiðurslisti IBBY: Fyrir þýðingu á bókinni Silfurvængur eftir Kenneth Oppel
2006 – Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar: Fyrir þýðingu á bókinni Sólvængur eftir Kenneth Oppel
2006 – Bæjarlistamaður Garðabæjar
2006 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Barndómur e. J.M. Coetze
Tilnefningar
2014 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner
2003 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Friðþæging e. Ian McEwan (fyrir þýðingu)
1990 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Nautnastuldur
Kvæði og sögur
Lesa meiraMyndarlegt úrval af kvæðum og sögum þessa brautryðjanda vestrænna nútímabókmennta, sannkölluð stórbók með þýðingum frá fyrri tíð, en líka glænýjum þýðingum eftir marga kunna þýðendur. Meðal eldri þýðinga eru Svarti kötturinn og Hjartslátturinn í þýðingu Þórbergs Þórðarsonar, Hrafninn í rómuðum þýðingum Einars Benediktssonar og Þorsteins frá Hamri, Í röstinni í þýðingu Málfríðar Einarsdóttur og Draumaland í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Nýir þýðendur kvæða og sagna eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Ástráður Eysteinsson, Elísa Björg Þorsteinsdóttir, Jón Karl Helgason, Rúnar Helgi Vignisson og Sjón.Eftirbátur
Lesa meiraÁst í meinum
Lesa meiraFeigðarflan
Lesa meiraOf og van
Lesa meiraÍ allri sinni nekt
Lesa meiraFurðufuglar og fylgifiskar: Áströlsk kvikmyndagerð í ljósi innlendra og erlendra menningarstrauma
Lesa meiraHermandad femenina
Lesa meiraÁstfóstur
Lesa meira
Bartleby skrifari, saga af Wall Street / Bartleby, the scrivener, a story of wall street
Lesa meiraSem ég lá fyrir dauðanum
Lesa meiraVegurinn
Lesa meiraGöngin
Lesa meiraHvað er þetta hvað : Sjálfsævisaga Valentinos Achaks Deng
Lesa meiraSólvængur
Lesa meiraBarndómur
Lesa meiraSilfurvængur
Lesa meiraFriðþæging
Lesa meira