Um bókina
Sagnfræðingurinn Valur Gunnarsson kryfur hér sögu hinnar margslungnu Berlínar og nágrennis frá mörgum hliðum allt frá tímum keisara, nasista, heimsstyrjalda og svo aðskilnaðar til falls múrsins. Við sögu koma meðal annarra hin þýska langamma höfundar, goðsögnin David Bowie og rokkhundurinn Iggy Pop, innflytjendur og rómantíkerar, políamoristar og pönkarar sem myndað hafa með sér sérstakt samfélag í þessari borg sem ekki er eins og nein önnur. Bók þessi byggir á tólf ára reynslu af Berlín og er að mestu skrifuð í Neukölln veturinn 2024.
Úr bókinni
Berlín, 1. febrúar 2024
Í skóla sem heitir því frumlega nafni Die Deutschschule og er að finna í Neukölln er boðið upp á ókeypis reynslutíma svo að væntanlegir nemar geti áttað sig á hvaða stig henti þeim best. Þegar ég mæti til reynslu er mér sagt að ekki megi koma í reynslutíma fyrsta daginn, aðeins þann næsta þegar námskeiðið er þegar hafið. Ég spyr hvort ekki sé einmitt best að tilvonandi nemendur komi á kynninguna til að komast að því hvort námskeiðið henti. „Svona eru reglurnar“ segir afgreiðslukonan til útskýringar. „Það er víst ástæða fyrir því að Kafka skrifaði á þýsku,“ segi ég.
Ég læt samt tilleiðast og kem aftur daginn eftir, þegar orðinn leiðinlegi kallinn á námskeiði sem rétt er hafið. Konan á skrifstofunni er hins vegar hin almennilegasta og gefur meira að segja aflátt af námsbókunum. Hún segist heita Diana og vilja vera vinir og ég samþykki það með semingi.
Kennarinn heitir Ludger, miðaldra maður með myndarlega þýska vömb. Hann virðist ágætur, hefur lært germönsk mál og hefur gaman af að ræða við mig á sænsku. Ég veit lítið um nemana þar sem mér var meinað að koma á kynninguna, en þeir virðast komnir héðan og þaðan.
Úti í reyk í pásunnni spyr kona úr bekknum hvort ég eigi tóbakspappír. Ég svara neitandi og að ég reyki aðeins tilbúnar sígarettur, enda ritlaunamaður. Konan fer inn og útvegar pappír og kemur aftur út og biður um eld. Við tökum tal saman. Hún reynist vera frá Ísrael. Ég ákveð að forðast að spyrja hana um ástandið í heimalandinu en geri það einhvern veginn samt. Hún segists hafa verið landflótta í Berlín undanfarna tvo mánuði. Heima fyrir var fólk farið að mótmæla aðgerðum Bíbí Netanjahú forsætisráðherra gegn sjálfstæðum dómsstólum en enginn vildi tala um það sem mestu skipti, sem er hernám Palestínu. Nú sé það orðið fáránlegt að vilja mótmæla einhverjum svo litlu sem sjálfstæðum dómsstólum meðan verið sé að myrða Palestínumenn í hrönnum.
„Ég er frá Tel Aviv og þar er fólk örlítið vinstrisinnaðra,“ bætir hún við.
„Er munur á viðhorfi fólks á milli sveita og borga? “ spyr ég.
„Ekki svo mikill, flestallir eru orðnir fasistar,“ segir hún. Gyðingur flýr frá heimalandi gyðinga til Þýskalands á flótta undan fasisma. Við skulum staldra við það um stund. Sagan verður að öfugmælavísu ef þú gefur henni nógu mikinn tíma.
(s. 148-149)