Beint í efni

Valur Gunnarsson

Æviágrip

Valur Gunnarsson fæddist þann 26. ágúst 1976 í Reykjavík. Hann ólst upp í Noregi, í Bretlandi og á Íslandi en eyddi sumrum sínum á unglingsárum í Sádí-Arabíu og Kína. Hann útskrifaðist með MA-gráðu í ritlist frá Queen‘s University í Belfast árið 2003 og tók þá þátt í stofnun blaðsins Reykjavik Grapevine. Árið 2021 útskrifaðist Valur með MA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands.

Valur hefur skrifað greinar í flest blöð á Íslandi og meðal annars starfað hjá Fréttablaðinu, Fréttatímanum og DV. Þá var hann fréttaritari Associated Press og The Guardian í kringum hrunið. Hann hefur einnig gefið út þrjár hljómplötur: Reykjavík er köld: Leonard Cohen á íslensku (2000), Seljum allt (2003) með hljómsveitinni Ríkið og Vodka Songs (2008) ásamt Gímaldni.

Hann gaf út ljóðabókina A Fool for Believing árið 2004, sem vann nýliðaverðlaun á ljóðaráðstefnu í Washington DC, og tók þátt í gerð ljóðabókarinnar Iceland: Red, Green and Blue sem kom út í Finnlandi.

Fyrsta skáldsaga Vals, Konungur norðursins, kom út árið 2007, en síðan hefur hann sent frá sér fleiri skáldsögur. Undanfarin ár hefur hann lagt áherslu á sagnfræðileg rit sem jafnframt falla undir „sannsögu“ geirann og eru oft einnig einskonar ferðabækur. Bjarmalönd var fyrsta bókin af þessu tagi en þar er meðal annars fjallað um sögu Sovétríkjanna.

Valur hefur einnig sent frá sér bókina Hvað ef, sem veltir fyrir sér hvernig sagan hefði getað þróast öðruvísi. Er hún jafnframt til í enskri útgáfu með meiri áherslu á Ísland og Norðurlönd.