Um Örninn og fálkann
Örninn og Fálkinn er skáldsaga um veruleika sem hefði getað orðið ef herlið Hitlers hefði komið á undan Bretum til Íslands.
Stríðið í Evrópu ratar til Íslands þegar nasistar ganga á land í Reykjavík vorið 1940. Sigurður Jónasson, ungur starfsmaður hjá Landsímanum, fylgist með hvernig fólk aðlagast hinu nýja Hitlers-Íslandi, margir græða og þjóðernissinnar sækja í sig veðrið. En þegar slettist upp á vinskap Hitlers og Stalíns í austri fer vísir að íslenskri andspyrnuhreyfingu að verða til.
Hvað er það sem nasistar eru í raun að vilja á Íslandi? Og hvað eru þeirra helstu vísindamenn að gera á hálendinu? Sigurður og félagar hans halda í hættuför þar sem markmiðið er að koma í veg fyrir það sem virðist vera óhjákvæmilegur sigur Þjóðverja í stríðinu.
Úr Erninum og fálkanum
Kjöllurum flestra rammgerðustu húsanna í miðbænum hafði verið breytt í skýli, með sandpokum fyrir gluggunum og stórum rauðum pílum sem bentu á inngönguleiðir, og voru þau kirfilega merkt á báðum tungumálum sem Loftvarnabyrgi og Luftschutzbunker. Hernaðarlegt gildi Landsímahússins var hins vegar of mikið til að hættandi væri á að hleypa ótíndum almúganum þar inn, en neðsta hæðin þar fylltist brátt af hermönnum.
Hin opinberu loftvarnabyrgi voru fljót að fyllast. Hér var skýr virðingarröð og herraþjóðin gekk fyrir. Hermenn stóðu á hornum og blésu í flautur og vísuðu öðrum sömu gerðar leiðina. Fólk skimaði í allar áttir í leit að öðrum möguleikum. Svo vildi til að götur bæjarins höfðu verið grafnar upp til að koma fyrir hitaveiturörum sem síðan urðu innlyksa í Danmörku þegar Kaupmannahöfn var hernumin. Skurðir þessir höfðu stundum valdið vandræðum eftir að Þjóðverjar kröfðust þess að bærinn yrði myrkvaður á næturnar þennan klukkutíma eða svo sem það var hægt á þessum tíma árs. Áttu menn það til að hrasa í skurðina á leiðinni heim úr Hafnarstrætinu og þau voru stundum kölluð barónasíki, því það kom fyrir að barónarnir sáu ekki ástæðu til að hafa sig upp úr heldur eyddu nóttinni í þeim.
Fátt jafnar kjör fólks eins og fallandi sprengjur og nú kepptust þeir góðborgarar sem voru svo óheppnir að vera á ferli um að kasta sér ofan í gryfjurnar við hlið barónanna.
Ég reyndi hvorki að troða mér inn í Herkastalann né klöngrast ofan í barónasíki, heldur hraðaði mér upp Bankastrætið og braut mér leið í gegnum manngrúann. Allir stefndu niður í miðbæ þar sem flest skýlin var að finna en ég gekk í öfuga átt. Ég var ekki kominn langt þegar ég sá hana. Hún var eins og svefngengill mitt í darraðardansinum, lét sér fátt um finnast, jafnvel þó heimsendir væri í nánd. Ég nálgaðist hana eins hratt og ég gat og tók um hönd hennar.
„Komdu,“ sagði ég.
„Til hvers?“ sagði hún.
„Þú veist að það er búist við loftárás.“
„Ég veit.“
„Og eigum við þá ekki að koma okkur í skjól?“
„Til hvers?“
„Til þess að ... þú veist, verða ekki fyrir sprengjum og svona.“
Hún leit á mig og þrýsti hönd mína. Þetta var innilegasta stund sem við höfðum átt í næstum því ár. Og ef til vill yrði þetta sú hinsta.
Áslaug leiddi mig þangað til komið var upp á Arnarhól og sleppti svo takinu. Fyrir neðan okkur hljóp fólk fram og aftur og vissi ekki hvað það átti af sér að gera. Sumir köstuðu sér í skurðina, aðrir skriðu undir bíla en líklega skipti ekkert af þessu nokkru máli ef sprengja lenti of nálægt. Ingólfur starði tignarlega yfir borgina af stalli sínum, hafði verið fyrsti maðurinn til að líta þetta landsvæði augum og var nú ef til vill að virða það fyrir sér í hinsta sinn. Áslaug sýndi ekki miklu meiri tilfinningar og einhver undarleg ró færðist yfir mig líka. Sprengjurnar féllu þar sem þær vildu og það var til lítils að hlaupa undan ef þær höfðu þegar markað sér lendingarstað. Örlaganornir eða RAF, þetta kom allt út á eitt.
Svo undarlega vildi til að fleiri tók að drífa að, fleiri virtust hafa ákveðið eins og Áslaug, Ingólfur og ég að ekki væri verra að eiga sína hinstu stund á þessum hól en liggjandi í hitaveituskurði.
Fólk stóð í einum hnapp og mændi til himins. Eftirvæntingin magnaðist. Þetta yrði fyrsta loftárásin í sögu þjóðarinnar og enginn vildi missa af neinu. Aðeins hönd mín leitaði skjóls og fann sér stað í lófa Áslaugar og við bjuggum okkur undir að horfa á Reykjavík brenna.
„Akk-akk-akk,“ sagði 88mm loftvarnabyssan við Gróttu. „Akk-akk-akk,“ sagði sú 75mm á Valhúsahæð sem rétt mátti greina.
Og síðan gerðist... ekki neitt.
Leiftrin úr fallbyssunum hurfu út í loftið en gerðu ekki meira en að reka myrkrið á brott og nýr dagur hóf að rísa yfir Arnarhól. Og við sem þarna stóðum höfðum haldið að hann myndi aldrei koma. Loks kom þýskur herlögregluþjónn með Feldgendarmerie-skjöld hangandi í keðju um hálsinn og tilkynnti að hættan væri liðin hjá. Líklega hafði þetta aðeins verið njósnavél á ferð.
Fólk tók að tínast niður af Arnarhóli. Flestum var létt en hjá sumum örlaði á vonbrigðum, eins og þeir hefðu klætt sig upp í sitt fínasta púss en verið sviknir um bæði flugelda og brennu. Hönd Áslaugar sleit sig lausa og hún hvarf inn í þvöguna. Kvöldstund okkar saman var lokið.
(87-9)