Beint í efni

Borgin bak við orðin

Borgin bak við orðin
Höfundur
Bjarni Bjarnason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1998
Flokkur
Skáldsögur

Úr Borgin bak við orðin:

 Höllin okkar er byggð inn í klett og lætur því lítið yfir sér utan frá, en er rismikil að innan. Á þakinu er voldugur gluggi sem þó sést ekki þegar menn ganga ofan á bjarginu því hann er falinn undir stórri álftatjörn. Í hátíðarsalnum hangir stórt, áferðarfagurt, kringlótt veggteppi og er saga ríkisins saumuð í það á myndmáli, allt frá því faðir minn skóp það. Þar sést móðir mín, Andrómedea, með kastaníubrúnt hárið stíga vanfær ofan í álatjörn í miðjum hallarskóginum. Allir nema faðir minn eru samankomnir umhverfis tjörnina til að fylgjast með fæðingunni. Fyrst kemur í heiminn Jóel, hinn konungborni tvíburabróðir minn, og svo ég. Mamma leggur mig á brjóst en Melkísedek, prestur um aldur, tekur við krónprinsinum til að færa föður mínum hann. Allt sést þetta á veggteppinu sem ég skoðaði svo oft. Og þar er einnig mynd af vöggu sem er höggvin í stein.
 Faðir minn segir að þegar okkur takist að búa til hið upprunalega efni munum við geta breytt steinum í gull. Helsti ráðgjafi hans, hinn blindi sjáandi, sem enginn má hitta nema hann, hefur upplýst að prima materia, hið upprunalega efni, sé þögn. Þögnin sem ríkti áður en heimurinn varð til. Á veggteppinu sést mynd af litlu herbergi, djúpt undir höllinni. Inn í það getur ekkert hljóð borist þótt það geti borist út úr því. Steinvaggan er í þessu herbergi. Faðir minn segir að tungumálið sé landslag sálarinnar og fyrsta landið hafi týnst þegar fyrsta tungumálið glataðist. En sé barn, af eðla blóði borið, látið við fæðingu inn í hina upprunalegu þögn muni það er fram líður mæla á fyrstu tungu heimsins, tungu guðs. Hann segir að ekki þurfi menn að heyra nema eitt einasta orð af þessari himnesku tungu, mælt af vörum sálar sem í anda dvelur í árheimi og þá muni málið sjálfkrafa lifna í huga þess er heyrir, hann samstundis gleyma öllum öðrum tungum og landið rísa úr sæ gleymskunnar. Aðeins eitt orð og heimurinn tekur á sig rétta mynd. Þetta hefur hinn blindi sjáandi birt honum.
 Eins og sést á veggteppinu skundaði faðir minn rakleitt til sjáandans þegar hann fékk krónprinsinn í hendur til að fregna hvort hann væri sá sem leggja ætti í steinvögguna undir höllinni. En sjáandinn sagði að enn væri þögnin í herberginu ekki fyllt heilögum anda og því væri tíminn ekki kominn. Bróður minn skyldi ala upp til að erfa ríkið.
 Sjö árum síðar sté móðir mín aftur ofan í álatjörnina og nú var ég sjálfur hjá henni, en faðir minn og bróðir biðu í höllinni. Drottningin fæddi litla stúlku er synti ofurhraustlega til mín. Móðir mín bað mig að taka barnkornið því hana sárverkjaði og vatnið litaðist rautt. Álarnir höfðu sært hana. Litla, svarthærða stúlkan með gylltu augun greip undurfast um fingur mína. Mér var því óljúft að láta hana frá mér til æðstaprestsins sem fór með hana til föður míns er aftur bar hana til hins alvísa sjáanda. Hann sagði stundina upp runna, móðir mín væri orðin ófrjó og þetta því barnið sem leggja skyldi í vögguna þar sem þögnin, rödd guðs, ríkti ein.
 Stundum þegar dimmir sé ég fyrir mér stúlku sem liggur hjálparvana í kaldri vöggu og horfir hrædd í kringum sig. Þegar hún kemur auga á mig brosir hún, teygir agnarsmáa höndina í átt til mín og bærir varirnar en ég heyri ekki í henni.

(s. 20-23)

Fleira eftir sama höfund

Mannætukonan og maður hennar

Lesa meira

The Return of the Divine Mary

Lesa meira

Örninn

Lesa meira

Sólarlag við sjávarrönd

Lesa meira

Nakti vonbiðillinn

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Bernharður Núll

Lesa meira

Andlit (brot)

Lesa meira