Beint í efni

Læknishúsið

Læknishúsið
Höfundur
Bjarni Bjarnason
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur

Um Læknishúsið

Gamla Læknishúsið á Eyrarbakka á sér dularfulla sögu: eldar hafa kviknað, fólk hefur glímt við óútskýrð veikindi og óvænt dauðsföll átt sér stað.

Rithöfundurinn Steinar varð hluti af sögu hússins þegar hann bjó þar í æsku hjá öldruðum frændum sínum, öðrum blindum, hinum mállásum. Mörgum árum síðar flytur hann aftur í húsið ásamt eiginkonu sinni sem er ólétt að tvíburum, en hún er ráðherra í fyrstu ríkisstjórn Íslands eftir bankahrunið.

Eftir komu hjónanna í húsið fer af stað spennandi og dulúðug atburðarás þar sem leyndir atburðir úr sögu hússins blandast saman við átök í samtímanum.

 

Úr Læknishúsinu

Steinar sat brosandi í miðju aftursætinu með flöskuna á milli fótanna og horfði á hryssingslegt landslagið sem varð æ kuldalegra eftir því sem þau fjarlægðust borgina. Hugsaði með sér að einu gilti hve huggulegt væri inni í lúxusbílnum, landslagið fyrir utan staðhæfði engu að síður stöðugt: Þetta getur aldrei endað vel. Einmitt þess vegna kunni maður að meta það, vegna hreinskilninnar. Í samanburði við kaldhæðnislegt hvísl landslagsins utan bílsins skipti engu máli hvað þau segðu inni í honum, það hljómaði allt sem ljúft ástarhjal.

„En hvernig gekk annars, í alvöru?“

Magdalena hafði lesið fréttir í símanum:

„Það er sagt frá þessu á Vísi, talað um þetta rausnarlega framlag til bókmenningarinnar. Og það er vitnað í ræðuna þína um að tungumálið lifi og deyji með bókmenntunum. Þetta lítur allt saman mjög ábyrgt út. Ertu ekki ánægður með útkomuna?“

„Þegar listamaðurinn lifir í heimi fullkominnar forskriftar er kaldhæðnin hans eina frelsi.“

„Hvað meinarðu?“

Steinar sagði henni að jú, ræðan hefði heppnast vil, og undirtektir verið góðar. En síðan, yfir kokteilunum, þegar ræðutóninn ómaði áfram í fólkinu, og efldist jafnvel, hefði honum orðið ómótt yfir því að mannskapurinn virtist faktískt trúa þessari hátíðarræðuþulu. Hann hefði bitið í sig að hann þyrfti að athuga hve langt væri hægt að þenja tóninn áður en fólk heyrði að hann var falskur. Hann sagðist í títt skálandi úrvalshópi ánægður með þá húsreglu hér að veita engum texta viðurkenningu nema hann fjalllaði um Ísland og Íslendinga. Það væri eina leiðin til að efla sjálfsmynd þjóðarinnar. Undir það hefði verið tekið sem alveg sjálfsagðan hlut. Auðvitað yrðu íslenskar skáldsögur að tala við arfinn, til dæmis í gegnum þjóðsögur, og tengja okkur við einstaka náttúruna.  Þetta hefði þótt sjálfsagðara en að á það þyrfti að minnast. Hann hafði haldið áfram í þessum dúr og meira að segja stungið upp á að sálfræðingar og hjónabandsráðgjafar yrðu þjálfaðir í að leiða fólk út úr vanda með því að ljúka upp fyrir því menningararfinum og styrja þannig þjóðlega sjálfsmynd þess.

Hann hefði sem sagt stanslaust, í heilan klukkutíma, farið með kaldhæðnisleg gamanmál, án þess að nokkur maður hefði svo mikið sem flissað. Þvert á móti hefði hann aldrei verið elskaður jafn innilega af jafn góðu fólki, til dæmis menntamálaráðherra sem ólm vildi fá hann í einhverja menningarstarfsnefnd og, já, hún bað að heilsa. Hann hefði reynt að sporna við þeirri óvæntu gagnsókn gráglettninnar að lenda í einhverju afturgönguráði, en ekkert hafði fengið afstýrt því eins og sakir stóðu. Fyrir vikið hefði hann þambað hvern kokteilinn af öðrum.

(s. 72-74)

Fleira eftir sama höfund

Mannætukonan og maður hennar

Lesa meira

The Return of the Divine Mary

Lesa meira

Örninn

Lesa meira

Sólarlag við sjávarrönd

Lesa meira

Nakti vonbiðillinn

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

The Reputation

Lesa meira