Beint í efni

Bráðin

Bráðin
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Björgunarsveitir eru sendar inn í Lónsöræfi í leit að hópi fólks sem er saknað. Hvaða erindi áttu þau í óbyggðir um hávetur? Af hverju yfirgáfu þau það litla skjól sem þau höfðu, illa búin og berskjölduð? Á sama tíma gerast undarlegir atburðir á ratsjárstöðinni á Stokksnesi. Og á nesinu er gat í sjávarklöpp sem sogar til sín fólk.

Hér er ekki allt sem sýnist, hvort sem það er blóðblettur í snævi þöktu landslagi fjarri mannabyggðum, truflanir á ratsjá – eða barnsskór sem kemur óvænt fram áratugum eftir að hann hvarf.

Úr bókinni

   Jóhanna horfði yfir svæðið þar sem hún stóð á pallinum. Hvítur snjór, hvítur snjór og enn meiri hvítur snjór. Og svo hreindýrshornin uppi í hlíðinni. Hún bar höndina að enninu til að sjá betur til og sannfærðist. Þetta voru horn, ekki kræklótt hrísla. Þau líktust beinaberri krumlu sem teygði fingurna til himins. Eitthvað virtist vera undir snjónum þar sem þau stungust upp svo að líklega voru þetta ekki bara horn heldur heilt dýr. Hún lét höndina falla og leit undan. Það gat ekki verið að hreindýrið tengdist þessu fólki. „Hvert hafa þau eiginlega farið?“
   Þórir hnyklaði dökkar augabrýrnar. „Kannski lögðu þau af stað í göngu og lentu í óveðri. Það hefur snjóað út í eitt síðustu daga svo sporin væru löngu horfin. Mér skilst að snjóalögin undanfarið hafi slegið öll met.“
   Þetta var rétt hjá honum og líklegasta skýringin. Hópurinn hafði haldið í göngu og orðið úti. Lónsöræfi voru stór og gönguleiðir frá skálanum ótal margar og langar. Það yrði ekki auðvelt að finna fólkið ef líkin voru á kafi í snjó. Enn einn stormurinn var í aðsigi og spáð langvarandi frosti.
   Vonandi, vonandi höfðu þau leitað skjóls í öðrum skála. Kannski hafði annar björgunarsveitarhópur þegar fundið þau.
   Jóhanna náði ekki að hugga sig við þá tilhugsun lengi. Gönguferð fólksins út í óvissuna skýrði ekki hvers vegna úlpa, skór og hlífðarföt urðu eftir.
   „Við þurfum að drífa okkur til baka áður en dimmir.“ Augu Jóhönnu hvörfluðu upp til hornanna. Vera þeirra þarna efst í brattri hlíð angraði hana. Karlarnir í hópnum voru veiðimenn. Ef dýrið hafði verið skotið, þá skipti það kannski máli varðandi framhald leitarinnar. Þau höfðu ekki tímann fyrir sér en það var ekki hægt að halda héðan án þess að kanna málið. Það yrði slæmt til afspurnar ef veiðiþjófnaður reyndist ástæða ferðarinnar og þau hefðu látið hjá líða að athuga málið. Jóhanna var ekki þekkt fyrir að kasta til höndunum. „En fyrst verðum við að skoða hreindýrið.“
   Þórir hreyfði ekki mótmælum og þau örkuðu af stað eins hratt og þau treystu sér í djúpum snjónum. Hjarnið var misjafnlega hart og sums staðar næfurþunnt. Á köflum sukku þau upp á miðja kálfa í hverju skrefi. Róðurinn varð enn erfiðari eftir að þau hófu að klífa hlíðina. Þegar þau voru nánast komin að hornunum nam Jóhanna skyndilega staðar. „Ég steig á eitthvað.“ Hún starði niður á hægri fótinn.
   „Stein kannski?“ Þórir setti hendur á mjaðmir og gretti sig.
   „Nei. Þetta var ekki steinn.“ Jóhanna færði fótinn frá og starði ofan í holuna. Hún dró andann skarpt að sér og varð að hafa sig alla við til að missa ekki jafnvægið og detta aftur fyrir sig niður brekkuna. „Djísus. Djísus kræst.“
   Þórir færði sig til hennar. Nú var komið að honum að falla næstum aftur fyrir sig. Neðst í holunni blasti við hluti af andliti. Upp úr henni starði á þau galopið og brostið auga.

(s. 22-23)

 

Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira