Um bókina
Í þessari bók er að finna mörg af ástsælustu ljóðum Hannesar Péturssonar sem sjálfur hefur sett saman þetta úrval. Ljóðin eru ættuð úr Skagafirði, æskuslóðum hans, „ýmist rótföst eða teygja þangað sprota eða rótaranga“, segir umsjónarmaður útgáfunnar, Sölvi Sveinsson, í eftirmála en hann ritar jafnframt um einstök ljóð og kveikjur þeirra.
Úr bókinni
Skeiðfákur
Sumar. Og söngrödd í hlíðum.
Svartáin morgunleg.
Hestinum rauða ég hleypti
út hagann, um beinan veg.
Og hesturinn hafði vængi!
hljóp, nei hann lyftist á flug
og vann þar í andrá einni
á öllum jarðfjötrum bug.
Á bógum hans brotnaði ljósið
sem úr brunni himinsins skein.
Hann tók einn sveig kringum tunglið
og tíminn í faxinu hvein!
[1970]
(s.26)